Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Barna- og fjölskyldustofu

2021 nr. 87 22. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2022. Breytt með: L. 138/2021 (tóku gildi 31. des. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og barnamálaráðherra eða mennta- og barnamálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Stofnun og valdmörk.
Barna- og fjölskyldustofa er ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra.
Barna- og fjölskyldustofa starfar á grundvelli laga þessara og sinnir verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna á grundvelli barnaverndarlaga, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
2. gr. Skipun forstjóra.
Ráðherra skipar forstjóra Barna- og fjölskyldustofu til fimm ára í senn. Engan má skipa oftar en tvisvar sinnum í embættið.
Við skipun í embætti forstjóra skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Ráðherra setur nefndinni reglur um mat á umsóknum. Nefndin skal láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um hæfni umsækjenda.
3. gr. Meginhlutverk.
Markmið Barna- og fjölskyldustofu er að vinna að velferð barna. Meginhlutverk stofnunarinnar er að veita og styðja við þjónustu í þágu barna og stuðla að gæðaþróun í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.
Verkefni Barna- og fjölskyldustofu eru m.a.:
    1. Almenn og sérhæfð fræðsla til stjórnvalda og annarra.
    2. Útgáfa leiðbeininga, gátlista og annars stuðningsefnis.
    3. Leiðbeiningar og ráðgjöf um vinnslu einstakra mála.
    4. Þróun og innleiðing gagnreyndra aðferða og úrræða í þágu barna.
    5. Uppbygging og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða fyrir börn.
    6. Fræðilegar rannsóknir sem þjóna markmiðum laga þessara og stuðningur við þróunar- og rannsóknarstarf.
    7. Vinnsla upplýsinga, þ.m.t. söfnun og skráahald.
    8. Önnur verkefni sem er kveðið á um í lögum eða eru falin stofnuninni samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Barna- og fjölskyldustofa skal hafa samvinnu við Ráðgjafar- og greiningarstöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu um verkefni sem varða þjónustu í þágu markhópa stofnananna.
Barna- og fjölskyldustofa þjónar landinu öllu.
Við framkvæmd laga þessara skal gæta að mannréttindum þeirra hópa sem fá þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

II. kafli. Vinnsla upplýsinga, skrár, skýrslur o.fl.
4. gr. Vinnsla persónuupplýsinga, upplýsingaskylda og þagnarskylda.
Barna- og fjölskyldustofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem nauðsynleg er vegna verkefna stofnunarinnar. Heimild þessi tekur til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og annarra upplýsinga viðkvæms eðlis, þ.m.t. heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um félagslegar aðstæður einstaklinga, svo og upplýsinga um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi. Þá er miðlun persónuupplýsinga milli stofnunarinnar og þeirra sem veita þjónustu á grundvelli laga sem falla innan valdmarka hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr., heimil ef slík miðlun er nauðsynleg til þess að þeir aðilar geti sinnt verkefnum sínum. Jafnframt er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála heimil miðlun upplýsinga sín á milli í þágu verkefna stofnananna.
Stofnunin getur krafið þá aðila sem vísað er til í 1. mgr. um upplýsingar og skýringar sem nauðsynlegar eru til að sinna verkefnum sem henni eru falin að lögum.
Um alla vinnslu persónuupplýsinga fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Starfsfólk Barna- og fjölskyldustofu er bundið þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
5. gr. Gagnagrunnar.
Barna- og fjölskyldustofu er heimilt að starfrækja gagnagrunna og stafrænar lausnir vegna verkefna sem eru unnin á grundvelli laga sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. Gagnagrunna og stafrænar lausnir má jafnframt starfrækja í þágu verkefna Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
6. gr. Ársskýrsla.
Barna- og fjölskyldustofa skal gera árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

III. kafli. Gildistaka o.fl.
7. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.
8. gr. Breyting á öðrum lögum.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Starfsmenn Barnaverndarstofu sem eru í starfi við gildistöku laga þessara verða starfsmenn hjá Barna- og fjölskyldustofu með sömu ráðningarkjörum. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Barna- og fjölskyldustofu fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.] 1)
    1)L. 138/2021, 1. gr.