Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Tilskipun fyrir Ísland um síldar- og upsaveiði með nót

1872 12. febrúar


Breytt með: L. 54/1935 (tóku gildi 30. jan. 1935). L. 4/1936 (tóku gildi 1. febr. 1936). L. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990). L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991).


1. gr.
Sérhverjum þeim, sem heimilt er að fiska í landhelgi, skal leyft að króa af síld eða upsa með nót upp að landi annars manns, og draga veiðina þar á land; svo má hann og setja þar báta, nætur og önnur veiðarfæri á land upp til aðgerðar og þerris, og salta þar niður aflann; en gjalda skal hann fyrir allt þetta landshlut, 4 af hundraði af veiðinni.
[Heimilt er að veiða með herpinót í netlögum annars manns, og skal þá gjalda landshlut, 3 af hundraði af veiðinni, enda sé nótinni ekki fest við land né lagt við festar í netlögum. Nótinni telst ekki lagt við festar, þótt skip, sem er að háfa veiði úr herpinót liggi fyrir akkeri. Nú er slíkri nót fest við land eða lagt við festar innan netlaga, og skal þá gjalda landshlut 4 af hundraði.] 1)
    1)L. 4/1936, 1. gr.
2. gr.
Geri nótarmenn með þessu skaða á túni, engjum eða haga, eða á friðlýstu æðarvarpi eða selalögnum, eða það verði almennum afnotum landeignarinnar til fyrirstöðu, skulu fyrir það koma sanngjarnar skaðabætur, sem óvilhallir menn er rétturinn nefnir þar til, skulu meta, ef mönnum kemur ekki saman.
3. gr.
Landshlutur fellur undir ábúanda þeirrar jarðar, þar sem gjalda skal landshlut, þótt eigi sé hann eigandi jarðarinnar, nema öðruvísi sé um samið milli hans og landsdrottins.
4. gr.
Hafi fleiri en einn tilkall til landshlutar af landi, þar sem landshlut skal greiða, er nótarformanninum heimilt að borga landshlut allan og skaðabætur fyrir skemmdir, sem kunna að hafa orðið á landeigninni, til einhvers þeirra, nema umboðsmaður gefi sig fram af hendi allra hinna, sem hlut eiga að máli.
5. gr.
Þegar nót er upp dregin, er formaður skyldur til, áður en nótarmenn fara burt, að segja til veiðarinnar þeim, sem eftir næstu grein á undan á hlut að máli, og svo framarlega sem mönnum ekki hefir komið saman um annað, skal þá þegar gjalda landshlut með þeim parti af veiðinni, sem lögákveðinn er, og í því, sem veiðst hefir. Sé ekki farið eftir ákvörðun þessari, eða ef rangt er sagt til veiðarinnar, skal landshlutur goldinn tvöfalt. Sé rangt sagt til veiðarinnar í sviksamlegum tilgangi, kemur það þar að auk undir hin almennu hegningarlög.
6. gr.
Bátar, veiðarfæri og afli nóteigenda skulu standa í veði fyrir landshlut og skaðabótum eftir 2. gr.
7. gr.1)
    1)L. 116/1990, 3. gr.
8. gr.
Þar sem nót er lögð, má, eftir að búið er að gefa út streng og byrjað á lagningunni, og þessu er haldið áfram án þess óvanaleg töf eigi sér stað, engin veiðarfæri leggja niður á því sviði, sem ætlast má á að nótin lyki fyrir.
Sé net áður útlögð, sem eru því til fyrirstöðu, að nótin verði dregin og fest, hefir formaður nótarinnar rétt til að taka þau upp, ellegar að draga nótina í land, og, ef til vill, hin útlögðu net með, ef hann bætir eiganda skaða og veiðispjöll.
Nú er nót fest, og liggur yfir veiðarfærum, þá má þau eigi upp taka án samþykkis nótarformanns. Þar á móti skal nóteigandi, þegar svo á stendur, annaðhvort skila veiðarfærunum jafngóðum, áður en 12 stundir líði, eða bæta þau með öðrum nýjum og óaðfinnanlegum, eða borga þau í peningum tvennu verði. Auk þessa skal eiganda bætt veiðispjöll eftir því, sem almennt aflast dægur hvert, uns goldið er.
Net, sem liggja á sviði því, sem nótin lykur fyrir, má formaður nótarinnar taka upp að ósekju, en borgi veiðispjöll.
9. gr.
Sitji fleiri en einir nótarmenn fyrir síld eða upsa, hafa þeir rétt til nótlagnar, sem fyrst hafa gefið út nótstrenginn og byrjað að leggja nótina, og sé þessu haldið áfram tafarlaust svo sem verður, mega engir hinna tálma þessu. Nú hafa tvennir nótarmenn byrjað að leggja út nót samstundis og aðrir innar, þá skulu þeir, ef síld eða upsi er í báðum nótum og ytri nótin ekki getur bjargað afla sínum, áður en sú innri er upp tekin, hafa drátt í sameiningu, og skal hlutur hvorra fyrir sig ákveðinn eftir áætlun, ef þeir hafa ekki komið sér öðruvísi saman.
Nú leggja tvennir nótarmenn samstundis, og hvorir í mót öðrum, og draga hvorugir nótina í land til sinnar hliðar, þá skulu þeir hafa drátt í sameiningu, og skipta til helminga.
10. gr.
Nót, sem engin veiði er í, skal strax upp tekin, ef eigandi nótar, sem utar liggur, og veiði er í, krefst þess.
Nóteigandi, sem hefir nót lagða þannig, að öðrum er meinað að leggja nætur sínar, eða draga þær á land, skal skyldur til, þegar þess er krafist, að draga fram nót sína eða flytja festar og vörp svo mikið sem verður, án þess að skaða afla sinn.
11. gr.
Hver sá, er á nokkurn hátt reynir að tálma nótveiði, og eins hver sá, er með ásettu ráði skemmir nót, sem er lögð út og fest, eða spillir veiðinni að öllu eða nokkru leyti, skal sæta hegningu eftir tilskipun þessari, að því leyti sem þyngri hegning ekki liggur við verki hans eftir hinum almennu hegningarlögum.
12. gr.
Fyrir brot gegn ákvörðununum í 8.–11. gr. skulu koma sektir … 1)
    1)L. 116/1990, 3. gr.
13. gr.1)
    1)L. 19/1991, 194. gr.
14. gr.1)
    1)L. 116/1990, 3. gr.