Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um forgangsrétt kandídata frá háskóla Íslands til embætta

1911 nr. 36 11. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. október 1911. Breytt með: L. 84/1936 (tóku gildi 15. sept. 1936). L. 19/1952 (tóku gildi 16. febr. 1952). L. 45/1986 (tóku gildi 21. maí 1986). L. 118/1990 (tóku gildi 31. des. 1990).


1. gr.
Eftir að háskóli Íslands er tekinn til starfa hafa þeir einir rétt til embætta hér á landi, er tekið hafa embættispróf við háskólann. Þó á þetta aðeins við þær fræðigreinar, sem þar eru kenndar og próf er haldið í. [Þeir, sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi í íslenskum fræðum við heimspekideild háskólans, skulu að öðru jöfnu hafa forgangsrétt til kennslu í íslenskri tungu, íslenskum bókmenntum og Íslandssögu við alla framhaldsskóla, sem kostaðir eru eða styrktir af ríkisfé eða sveitarfé, nema kennsla á unglingastiginu sé í framkvæmdinni í höndum barnaskóla, og þó því aðeins, að kennsla í þessum greinum nemi a.m.k. hálfu kennarastarfi eða sérstakur kennari sé ráðinn til starfsins, enda skulu þeir að öðru leyti fullnægja þeim kröfum um menntun kennara við gagnfræða- og menntaskóla, sem gerðar eru í lögum.
Þeir, sem lokið hafa B.A.-prófi við heimspekideild háskólans, skulu með hliðstæðum hætti njóta forgangsréttar til kennslu við skóla gagnfræðastigsins og við sérskóla í þeim greinum, er próf hvers þeirra um sig tekur til, enda fullnægi þeir að öðru leyti þeim kröfum um menntun kennara við gagnfræðaskóla eða menntaskóla, sem gerðar eru í lögum. Þeir standa þó að baki þeim mönnum, er fyrri málsgrein getur, um kennslu í íslenskum fræðum, og eigi framar þeim, er lokið hafa við háskóla fullnaðarprófi með kennsluréttindum í þeim greinum, er B.A.-prófið lýtur að. Þá standa B.A.-prófsmenn eigi framar þeim kennurum, er lokið hafa fullnaðarprófi frá erlendum kennaraháskólum.] 1)
    1)L. 19/1952, 1. gr., sbr. 4. gr.
2. gr.
[Sé um að ræða kennarastöðu í tveimur eða fleiri kennslugreinum, skal sá hljóta starfið, sem hefur forgangsréttindi skv. 1. gr. að meiri hluta kennslustunda í umræddum greinum.] 1)
    1)L. 19/1952, 2. gr., sbr. 4. gr.
3. gr.
Undanþágu frá fyrirmælum 1. gr. má landsstjórnin eftir tillögum háskólaráðsins veita, sé um kennaraembætti við háskólann að ræða.
[Svo er og ríkisstjórninni heimilt að veita kandídötum í guðfræði frá háskólum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð prestsembætti hér á landi, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum til þess að fá slík embætti og guðfræðideild mæli með því.] 1)
    1)L. 45/1986, 1. gr.
4. gr.
Læknisfræðingum, er sanna, að þeir hafi aflað sér nægrar þekkingar í læknisfræði á erlendum háskólum eða öðrum slíkum menntastofnunum, má og landsstjórnin veita leyfi til þess að stunda hér á landi lækningar, en leitað skal tillagna læknadeildar háskólans í hvert skipti áður en slíkt leyfi sé veitt.
5. gr.1)
    1)L. 118/1990, 3. gr.