Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur1)

1914 nr. 35 2. nóvember


    1)Lögin falla úr gildi 1. jan. 2024 skv. l. 74/2022, 14. gr.
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 3. mars 1915. Breytt með: L. 35/1923 (tóku gildi 25. júní 1923). L. 65/1943 (tóku gildi 1. jan. 1944). L. 28/1981 (tóku gildi 1. jan. 1982). L. 160/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Bæjarstjórn Reykjavíkur lætur mæla allar lóðir og lönd innan takmarka kaupstaðarlóðar Reykjavíkur og gera nákvæman uppdrátt af þeim.
Það, sem ákveðið er í eftirfarandi greinum um lóðir, gildir einnig um önnur lönd í kaupstaðarlóðinni.
2. gr.
Mælikvarði uppdráttarins skal ekki vera minni en 1:500. Skal uppdrátturinn sýna greinilega takmörk hverrar lóðar og afstöðu til nágrannalóða, og grunnflöt húsa þeirra og mannvirkja, sem á lóðinni eru.
3. gr.
Bæjarstjórnin ræður mann til að mæla lóðirnar og gera uppdrátt af þeim. Mælingamanni og aðstoðarmönnum hans er frjáls umferð um lóðir manna meðan á mælingunni stendur, og skulu eigendur lóða eða umboðsmenn þeirra skyldir að láta þeim í té þær upplýsingar, er þeir æskja og þurfa, til þess að geta framkvæmt starf sitt.
Áður en mælingamaður ákveður merki lóðar, skal hann gera eiganda hennar eða umboðsmanni hans, svo og eigendum nágrannalóða eða umboðsmönnum, ef kunnugt er um þá, enda séu þeir heimilisfastir í Reykjavík eða þar staddir, viðvart, með 3 sólarhringa fyrirvara um það, hve nær merki verði ákveðin. Er þeim rétt að sækja merkjastefnu, er halda skal á lóðinni og segja mælingamanni til um lóðamörk. Ef menn verða ásáttir um lóðamörk, getur mælingamaður þess í dagbók sinni, enda er hún þá og lóðamerkjabók, ef þeim ber saman, lögsönnun fyrir stærð og legu lóða.
Nú sækja eigendur lóða eða umboðsmenn þeirra eigi merkjastefnu, hvort sem því veldur, að eigi er kunnugt um þá, þeir eru fjarverandi eða neyta eigi réttar síns til að vera þar við, og ákveður mælingamaður þá merki eftir skýrslum þeirra lóðaeigenda, sem stefnuna hafa sótt, eða umboðsmanna þeirra, og öðrum gögnum.
Eigendur eða umboðsmenn lóða, er eigi hafa sótt merkjastefnu, geta, ef þeir vilja eigi hlíta merkjasetningu, gert mælingamanni, innan 4 vikna eftir merkjastefnu, viðvart, og fer um dómsvald á ágreiningi lóðamerkja, þegar svo stendur á, eftir lögum þessum.
4. gr.
Bæjarstjórnin löggildir bók, sem nefnist lóðamerkjabók. Skal mælingamaður rita í hana lýsingu á merkjum hverrar lóðar og setja hjá eftirrit af aðaluppdrættinum yfir lóðina og mörk hennar, ef honum þykir þurfa til skýringar, eða ef ágreiningur er um merki. Í hana skal rita stærð lóða, byggðra og óbyggðra. Mælingamaður, lóðareigandi eða umboðsmaður hans og eigendur nágrannalóða eða umboðsmenn þeirra, skulu undirskrifa lýsinguna, en rétt er lóðaeigendum að gera fyrirvara um ágreining, ef samkomulag fæst eigi um merkin, og skal þá sýna á eftirritinu af uppdrættinum svo greinilega sem unnt er, hvað milli ber um merkin. Mælingamaður getur þess þó jafnframt, hvora merkjalínuna hann telur réttari, eða geti hann á hvoruga fallist, hvar hann telur merki réttast eftir öllum atvikum.
5.–8. gr.1)
    1)L. 28/1981, 44. gr. og l. 65/1943, 12. gr.
9. gr.
[Þegar lokið er merkjasetningu og mælingu allra lóða og landa á kaupstaðarlóðinni, skal bæjarstjórnin láta skrásetja allar lóðir og lönd með framhaldandi númerum í bók, sem þar til er löggilt af ráðherra.] 1)
    1)L. 35/1923, 3. gr.
10. gr.
[Í lóðaskrána og á aðaluppdráttum skal jafnóðum rita breytingar þær, er verða á lóðum og húsum, og skipar bæjarstjórnin lóðaskrárritara til þess starfs.
Ráðherra setur reglugerð, eftir tillögum bæjarstjórnar, um skyldur og störf lóðaskrárritara.] 1)
    1)L. 35/1923, 4. gr.
11. gr.
[Þá er merkjastefnu er lokið, má eigi þinglýsa skjali eða skjölum um eigendaskipti á lóð eða parti úr lóð, nema mælingamaður eða lóðaskrárritari hafi ritað vottorð sitt á skjalið eða skjölin um það, að eigendaskiptanna sé getið í lóðamerkjabók eða lóðaskrá.] 1)
Ef skrásettri lóð er skipt í hluta, tvo eða fleiri, má eigi þinglýsa skjali eða skjölum um skiptinguna, nema því eða þeim fylgi vottorð byggingarnefndar, [sé hún til staðar], 2) um samþykki hennar á skiptingunni [eða að öðrum kosti vottorð byggingarfulltrúa um samþykki sveitarstjórnar]. 2)
    1)L. 35/1923, 5. gr. 2)L. 160/2010, 65. gr.
12. gr.
[Lóðaskrárritari lætur þeim, er þess óska, í té staðfest eftirrit úr skránni og einnig af uppdrætti lóðarinnar. Fyrir slík eftirrit og fyrir vottorð samkvæmt 11. gr., svo og fyrir önnur störf, er lóðaskrárritari vinnur fyrir einstaka menn, skal greiða gjald í bæjarsjóð Reykjavíkur samkvæmt gjaldskrá, er ráðherra setur eftir tillögum bæjarstjórnar.] 1)
    1)L. 35/1923, 6. gr.
13. gr.
Bæjarstjórnin getur á sama hátt látið skrásetja og mæla lóðir og lönd utan kaupstaðarlóðarinnar, en innan lögsagnarumdæmisins, er þá færist á aukaskrá. Um aukaskrána gilda hin sömu ákvæði, sem hér að framan eru sett um aðalskrána, en mælikvarði uppdráttar, sbr. 2. gr., má þó vera minni.
14. gr.
Allur kostnaður við mælingu og skrásetningu lóða greiðist úr bæjarsjóði, sbr. þó 7. gr.