Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

1932 nr. 27 23. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 28. september 1932. Breytt með: L. 71/1940 (tóku gildi 30. maí 1940). L. 18/1943 (tóku gildi 1. mars 1943). L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Til þess að bæta samgöngur um vatnasvæði Þverár og Markarfljóts í Rangárvallasýslu og varna skemmdum af ágangi vatns, skal gera þessi mannvirki:
    1. Nauðsynlegar fyrirhleðslur til þess að veita Markarfljóti, Álum, Affalli og Þverá að Markarfljótsbrú.
    2. Nauðsynlegar endurbætur og lenging varnargarðsins hjá Seljalandi til varnar landspjöllum undir Eyjafjöllum.
    3. Varnargarða innan Háamúla í Fljótshlíð og sunnan Markarfljótsbrúar undir Eyjafjöllum, eftir því sem þurfa þykir til að verjast eyðingu gróðurlendis á þessum slóðum.
    4. Nauðsynlegar fyrirhleðslur og önnur mannvirki til varnar gegn yfirvofandi stórfelldum skemmdum á vatnasvæðinu að dómi [ráðherra]. 1)
    5. Flóðgáttir til áveitu, þar sem öruggt er og nauðsyn þykir.] 2)
    1)L. 126/2011, 10. gr. 2)L. 18/1943, 1. gr. Tilvitnanir annars staðar í lögunum til liða í 1. gr. eiga við greinina eins og hún var upphaflega orðuð í l. 27/1932.
2. gr.
Vegurinn frá vegamótum Fljótshlíðarvegar fyrir vestan Garðsauka um brýr þær, sem taldar eru í 1. gr., skal vera þjóðvegur, og kostar ríkissjóður að öllu mannvirki þau, sem talin eru í 1. gr. 1.–5. lið.
Brýr á Þverá og Affall skal gera sem fulltraustar bráðabirgðabrýr.
Nauðsynlegar fyrirhleðslur og önnur mannvirki, sem talin eru í 1. gr. 6. og 7. lið, skal kosta þannig:
   [Ríkissjóður kostar að öllu leyti mannvirki þau, sem talin eru í 1. gr., 1. og 2. lið.
   Ríkissjóður kostar að 7/ 8 hlutum mannvirki þau, sem talin eru í 3. lið, en sýslufélag Rangárvallasýslu að 1/ 8 hluta.
   Ríkissjóður kostar að 3/ 4 hlutum fyrirhleðslur og önnur mannvirki, sem talin eru í 4. og 5. lið, og sýslufélag Rangárvallasýslu að 1/ 4 hluta.] 1)
    1)L. 18/1943, 2. gr.
3. gr.
Sýslunefnd Rangárvallasýslu veitist heimild til að jafna niður, að einhverju eða öllu leyti, þeim hluta fyrirhleðslukostnaðarins, sem sýslufélaginu ber að inna af hendi samkvæmt 2. gr., á þær jarðir í sýslunni, sem hagnað hafa af fyrirhleðslunni.
Við niðurjöfnun þessa skal aðallega miðað við þær auknar nytjar, sem jarðirnar hafa fengið vegna fyrirhleðslanna. Skal sýslunefnd afla ábyggilegra skýrslna um þetta áður en jafnað er niður gjaldinu, og skulu skýrslurnar gefnar af tveim óvilhöllum mönnum, er til þess skulu sérstaklega dómkvaddir. Verði þeir eigi sammála um einhver atriði, dómkveður héraðsdómari, ef hann á hér eigi hagsmuna að gæta, ella næsti héraðsdómari, þriðja manninn sem oddamann.
Niðurjöfnun sýslunefndar geta jarðeigendur, sem gjaldið er jafnað niður á, skotið til [ráðherra], 1) er lætur rannsaka málavöxtu og leggur á þá fullnaðarúrskurð.
    1)L. 126/2011, 10. gr.
4. gr.
Sé gjald það, sem þannig er jafnað niður á jarðir þær, sem hér eiga hlut að máli samkvæmt 3. gr., eigi greitt með þeim hætti, er sýslunefnd áskilur, getur hún látið taka eignarnámi jörð þá, sem vanskilin stafa frá, og verður sýslufélagið eigandi jarðarinnar. Greiðir það jarðeiganda það, sem umfram er af matsverði jarðarinnar gjaldi því og kostnaði, sem honum ber að greiða.
Til þess að meta jörð til eignarnáms samkvæmt því, sem hér segir, dómkveður héraðsdómari 3 óvilhalla menn, sem ekki eru við fyrirtækið riðnir. Um mat þetta, og yfirmat, þurfi á því að halda, fer að öðru leyti eftir ákvæðum vatnalaganna frá 20. júní 1923.
5. gr.
Ríkisstjórnin sér um framkvæmd allra þeirra mannvirkja, er um ræðir í þessum lögum, en umsjón og viðhald mannvirkja þeirra, er um ræðir í 1. gr., 6. og 7. lið, að þeim loknum, annast sýslunefnd, þó með þeirri undantekningu, er um getur í 7. gr. Kostnaði, sem af viðhaldi leiðir, getur sýslunefnd jafnað niður á hlutaðeigandi jarðir, eftir sömu reglum og í 3. gr. segir um niðurjöfnun á stofnkostnaðarhlutdeild sýslufélagsins.
Leiguliði á jörð skal skyldur, ef jarðeigandi krefst, að viðlögðum ábúðarmissi, að greiða hinn árlega niðurjafnaða viðhaldskostnað, en af stofnkostnaði eigi meira en vexti af því, sem jarðeigandi hefir lagt fram.
6. gr.
Bætur fyrir skemmdir á landi, er sannað þykir, að fyrirhleðslur þær, sem gerðar eru til þess að veita vötnum í farveg Markarfljóts, hafi beinlínis valdið, skal telja með kostnaði við verkið. Má ákveða slíkar skaðabætur eftir samkomulagi milli landeiganda og umboðsmanna stjórnarvalda þeirra, sem bætur eiga að greiða. Nú næst ekki samkomulag, eða ef um verulegt tjón er að ræða, og skal þá ákveða bætur eftir mati tveggja dómkvaddra manna, að tilkvöddum báðum málsaðiljum. Skal að öðru leyti fara um framkvæmd matsins og greiðslu skaðabóta, svo sem fyrir er mælt í vatnalögunum frá 20. júní 1923.
7. gr.
Viðhald mannvirkja þeirra, sem gerð verða samkvæmt lögum þessum, skal kosta af sýslufélagi Rangárvallasýslu og ríkissjóði í sömu hlutföllum og stofnkostnað. Framkvæmd viðhaldsins annast ríkisstjórnin.
8. gr.
Ákvæði laga þessara um viðhald flóðgátta og mannvirkja til varnar ágangi vatns skulu einnig gilda að því er snertir mannvirki, sem gerð hafa verið samkvæmt lögum nr. 69 14. nóvember 1917, um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót.
9. gr.
Ríkisstjórnin skal hafa eftirlit með því, að mannvirkjum þeim, er gerð verða, sé vel við haldið, og skal sýslunefnd Rangárvallasýslu skylt að hlíta fyrirskipunum hennar hér að lútandi.
Um viðhaldið og allt það, er þar til heyrir, skal sýslunefnd gera samþykkt, og skulu þar greindar þær jarðir allar, sem verkið nær til samkvæmt ákvæðum þessara laga. Samþykktin öðlast gildi, er hún hefir hlotið staðfesting [ráðuneytisins]. 1)
Sektir má ákveða í samþykktinni fyrir brot gegn henni, og renna þær í sérstakan sjóð, til viðhalds fyrirhleðslunum. … 2)
    1)L. 126/2011, 10. gr. 2)L. 19/1991, 194. gr.
10. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að taka lán til framkvæmda þeirra, sem taldar eru í 1.–4. lið 1. gr. laga þessara.