Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um ráðstafanir til öryggis við siglingar

1932 nr. 56 23. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. júlí 1932. Breytt með: L. 75/1982 (tóku gildi 10. júní 1982). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Þegar Lundúnasamþykktin frá 31. maí 1929 um öryggi mannslífa á sjónum hefur verið staðfest af Íslands hálfu gerir [ráðuneytið] 1) nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að Ísland taki hæfilegan þátt í birtingu veðurfregna til öryggis fyrir sjófarendur.
    1)L. 126/2011, 11. gr.
2. gr.
[Ráðuneytið] 1) skal krefjast þess af útgerðarfélögum, er kynnu að hafa íslensk skip í förum yfir Atlantshafið, að þau tilkynni, hvaða leiðir skipum þeirra er ætlað að fara, og eins þær breytingar, sem á þeim kunna að verða.
    1)L. 162/2010, 202. gr.
3. gr.
Sérhver skipstjóri á íslensku skipi, sem lendir í eða verður var við alvarlega hættu fyrir sjófarendur, svo sem stórviðri, hafís, skipsflök o.þ.h., sem hætta getur stafað af, skal strax með öllum þeim senditækjum og merkjum, sem hann hefur til umráða, tilkynna það nálægum skipum, svo og hlutaðeigandi embættis- eða sýslumanni á næsta stað í landi, sem til næst.
Skylda má skipstjóra á íslenskum skipum til að gera veðurathuganir og senda út veðurfregnir, sem telja má nauðsynlegar fyrir sjófarendur.
[Ráðuneytið] 1) setur nánari reglur 2) um ákvæði þessarar greinar.
Fregnir þær, sem hér ræðir um, skulu sendar íslenskum yfirvöldum án kostnaðar fyrir hlutaðeigandi skip, sem veðurathuganirnar gerði.
    1)L. 126/2011, 11. gr. 2)Rg. 639/1983 (um ýmsar ráðstafanir til öryggis við siglingar).
4. gr.
Skipstjóri á íslensku skipi er skyldur til þess að hjálpa skipi, sem hann hittir og er í neyð statt, eða skipi, sem beðið hefur um hjálp, ef hann getur gert það án þess að stofna skipi sínu, skipshöfn og farþegum í verulega hættu.
Ef skipstjóra er ekki unnt að veita hjálp, ef svo stendur á að ætla má, að hjálp sé ekki tímabær eða nauðsynleg, skal hann þegar í stað tilkynna skipverjum eða skipstjóra hins hjálparþurfandi skips það, ef hægt er. Enn fremur skal skipstjóri rita í skipsdagbókina nákvæma greinargerð fyrir þessari ákvörðun sinni.
5. gr.
Ákveða skal með konunglegri tilskipun, hverjar varúðarreglur skuli viðhafa á íslensku skipi til þess að forðast árekstur milli skipa. 1)
Þau tákn eða merki, sem ákveðin eru í þessu augnamiði, má ekki nota í neinum öðrum tilgangi.
    1)Tilsk. 91/1965.
6. gr.
[Brot á lögum þessum eða tilskipunum og reglum, sem settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Ef um stórfellt brot er að ræða af hendi skipstjóra má ennfremur svipta hann réttindum til skipstjórnar með dómi.
2)] 3)
    1)L. 82/1998, 147. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr. 3)L. 75/1982, 38. gr. A.
7. gr.1)
    1)L. 75/1982, 38. gr. B.