Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o.fl.

1947 nr. 43 9. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 17. maí 1947, að undanskilinni 21. gr. sem tók gildi 1. janúar 1947. Breytt með: L. 5/1964 (tóku gildi 15. apríl 1964). L. 29/1977 (tóku gildi 1. júlí 1977). L. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983). L. 45/1993 (tóku gildi 27. maí 1993). L. 116/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: IX. viðauki). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli.
1.–14. gr.1)
    1)L. 45/1993, 8. gr.

II. kafli. [Um stríðsslysatryggingar.]1)
    1)L. 29/1977, 4. gr.
15. gr.
[Ráðherra getur ákveðið að skylt sé að tryggja hjá vátryggingafélagi fyrir stríðsslysum skipshafnir á öllum íslenskum skipum og bátum. Vátryggingarskylda hvílir á útgerðarmanni skipsins og má ekki færa þeim sem vátryggðir eru iðgjöldin til útgjalda. Gildir það jafnt þótt skipverji taki aflahlut í stað kaups.] 1)
    1)L. 116/1993, 26. gr.
16. gr.
Með stríðsslysum er átt við öll slys, sem verða beinlínis af völdum styrjaldar eða borgaraóeirða, þar sem vopnum er beitt. Ef styrjaldaraðgerðir eru aðeins meðvaldandi að slysinu, má lækka skaðabætur um þriðjung eða tvo þriðju hluta eða fella þær alveg niður, eftir því hve mikinn þátt aðrar orsakir teljast eiga í slysinu.
Trygging samkvæmt lögum þessum tekur til þess, er skipshöfn ferst með skipi, sem týnist án þess til þess spyrjist, hversu týnst hefur.
17. gr.
Lögboðin trygging skipshafna samkvæmt lögum þessum fær gildi, þótt farist hafi fyrir að tryggja.
Nú eru samningar gerðir milli stéttarfélaga útgerðarmanna og stéttarfélaga sjómanna um víðtækari tryggingar í sambandi við stríðsslysaáhættu en ákveðið er í lögum þessum, og skulu aðilar þá tilkynna það félaginu í ábyrgðarbréfi eða með símskeyti. Gengur tryggingin þá þegar í gildi, sbr. 23. gr. Séu slíkir samningar gerðir milli annarra en fyrrgreindra stéttarfélaga, fær hin víðtækari trygging ekki gildi fyrr en félagið gefur út iðgjaldakvittun eða tryggingarskírteini.
18. gr.
Ákveða skal með reglugerð hámark þeirra dánartrygginga, sem félagið má taka að sér í eigin áhættu á hverju skipi í einni og sömu ferð.
Ef sú upphæð nægir ekki til lögboðinnar eða umsaminnar tryggingar á skipshöfninni, skal félagið þó taka það, sem á vantar, enda sé endurtrygging fáanleg hjá öruggu vátryggingarfélagi, að dómi félagsstjórnar.
Sé slík endurtrygging ekki fáanleg, eða ef hún ferst fyrir vegna vanrækslu þess, sem tryggingarskyldan hvílir á skv. 15. gr., ábyrgist ríkissjóður, gegn iðgjaldi, er ráðherra ákveður eftir tillögum félagsstjórnar, þann hluta hinnar lögboðnu tryggingar, sem umfram er eigin áhættu félagsins.
19. gr.
Útgerðarmanni ber hverju sinni að tilkynna félaginu eða umboðsmanni þess, fyrir hvaða upphæð hann þarf að tryggja skipshöfn sína, og veita aðrar þær upplýsingar, er þýðingu hafa fyrir áhættuna.
Nú rennur trygging út, og skal hún þá endurnýjuð óbreytt á kostnað útgerðarmanns, ef hann hefur ekki tilkynnt félaginu í tæka tíð, að henni skuli breytt eða hún falla niður. Útgerðarmaður ber ábyrgð á því, að vátryggingarupphæðir séu nægilega háar.
Ef vanrækt hefur verið að tryggja þá, sem tryggja ber, á félagið engu að síður kröfu á iðgjaldi fyrir áhættuhluta sinn, samkvæmt almennum reglum sínum.
Útgerðarmönnum ber að bæta félaginu, eða eftir atvikum ríkissjóði, allt tjón, er hlýst af röngum eða villandi upplýsingum þeirra eða annarri vanrækslu á tryggingum, er þeim ber að sjá um.
20. gr.
Iðgjöld ákveður stjórn félagsins fyrir ákveðna ferð eða ákveðinn tíma, í samræmi við áhættuna, þegar trygging hefst eða er endurnýjuð, og með hliðsjón af því, hvað sams konar tryggingar kosta erlendis. Iðgjöldin hafa lögtaksrétt og hvíla sem lögveð á skipinu eða vátryggingarbótum þess.
21. gr.1)
    1)L. 29/1977, 6. gr.
22. gr.
Skráningarstjórar skipshafna skulu senda félaginu afrit af skráningu skipshafna á tryggingarskyld skip.
Þeir skulu og annast innheimtu iðgjalda og umboðsmennsku, eftir því sem félagsstjórn ákveður, gegn þóknun, er um semst við hana.
Verði ágreiningur, sker ráðherra úr.

III. kafli. Um stríðsslysabætur.
23. gr.
[Bætur fyrir stríðsslys skal greiða eftir reglum sem ráðherra setur nema um annað semjist í kjarasamningum útgerðarmanna og sjómanna.] 1)
    1)L. 29/1977, 7. gr.
24. gr.1)
    1)L. 29/1977, 8. gr.
25. gr.
Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt.
26. gr.
Eigi hinn tryggði eða bú hans skaðabótarétt gegn þriðja aðila út af atviki því, er olli greiðsluskyldu félagsins, öðlast félagið þann bótarétt, er það greiðir bæturnar, að því leyti er með þarf, til þess að það verði skaðlaust.

IV. kafli. Almenn ákvæði.
27. gr.
[Brot á lögum þessum varða sektum … 1)] 2)
    1)L. 88/2008, 233. gr. 2)L. 10/1983, 24. gr.
28. gr.1)
    1)L. 45/1993, 8. gr.