Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lausn ítaka af jörðum

1952 nr. 113 29. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. desember 1952.

1. gr.
Ítak merkir í lögum þessum hvers konar afnot fasteignar, sem eigi eru samfara vörslum hennar eða þess hluta hennar, sem afnotin taka til, enda sé réttur til afnotanna byggður á heimild einkaréttareðlis.
2. gr.
Lög þessi taka eigi til ítaka í aðrar fasteignir en jarðir.
3. gr.
Lög þessi taka eigi til skógarítaka né til lax- og silungsveiðiítaka í ám og vötnum.
4. gr.
Á næstu 6 mánuðum, eftir að lög þessi taka gildi, skulu héraðsdómarar birta þrisvar í Lögbirtingablaðinu áskorun til þeirra, er telja sig eiga ítök í jarðir innan lögsagnarumdæmisins, um að lýsa ítaksrétti sínum innan 12 mánaða frá síðustu birtingu áskorunarinnar. Í lýsingunni til héraðsdómara skal greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu, og eftir því sem unnt er, hversu það í fyrstu er tilkomið.
5. gr.
Nú hefur ítaki verið lýst skv. 4. gr., og skal héraðsdómari þá senda eiganda og ábúanda jarðar þeirrar, er ítaki er lýst í, eftirrit af lýsingunni. Vefengi þeir lýsinguna, skal úr þeim ágreiningi skorið samkvæmt l. nr. 41 28. nóvember 1919. Komi engin vefenging fram innan 12 mánaða frá því jarðeiganda og ábúanda var send tilkynning þessi, skal það metið svo sem þeir viðurkenni, að lýsingin sé rétt, og skal þá þinglýsa ítakslýsingunni á varnarþingi jarðarinnar, hafi ítakinu eigi verið þinglýst þar áður.
Nú er ítaki eigi lýst samkvæmt framansögðu, og fellur það þá úr gildi. Hafi því áður verið þinglýst, skal afmá það úr veðmálabókunum.
6. gr.
Eigandi jarðar, sem ítak er í, eldra en 25 ára, á þess kost að leysa það af jörð sinni samkvæmt þeim reglum, sem hér fara á eftir.
Sama rétt á sá, sem erfðaábúð hefur á jörð, svo og óðalsmaður, að því er tekur til ítaka í óðalsjörð hans.
Nú er jörð sú, sem ítakið er í, í sameign fleiri manna, og verða þeir þá allir að vera sammála um lausn ítaksins af jörðinni.
7. gr.
Nú vill eigandi leysa ítak af jörð sinni, og skal hann þá snúa sér til ítakshafans um það. Náist eigi samkomulag um lausn ítaksins, getur lausnarbeiðandinn fengið dómkvadda tvo óvilhalla menn og lagt málið undir álit og mat þeirra. Matsmenn þessir skulu meta annars vegar hagsmuni ítakshafa af notkun ítaksins og hins vegar hagsmuni lausnarbeiðandans af því að fá það leyst af jörð sinni. Er ítakshafa þá því aðeins skylt að hlíta lausn ítaksins, að hagsmunir hans af ítakinu séu metnir mun minni en hagsmunir lausnarbeiðandans af því að fá það leyst af jörðinni. Meta þá matsmennirnir ítakið til peningaverðs, ef óskað er.
8. gr.
Nú eiga tvær jarðir ítök hvor í annarrar land og leysir eigandi annarrar jarðarinnar ítakið af henni, og er það þá á valdi eiganda hinnar jarðarinnar, hvort hann leysir einnig ítakið af jörð sinni.
9. gr.
Nú hefur ítak verið leyst af jörð, sem í leiguábúð er, og getur landsdrottinn þá látið fara fram endurmat á landsskuld ábúandans. Sama rétt á leiguliði, er ítak, sem ábýlisjörð hans fylgdi, hefur verið skilið frá jörðinni og leyst af jörð þeirri, er það var í. Endurmat þetta framkvæma úttektarmenn.
10. gr.
Aðili, sem eigi vill una álits- og matsgerð dómkvaddra manna, er ræðir um í 7. gr., getur skotið henni til yfirmats þriggja dómkvaddra óvilhallra manna. Kostnaður við undirmat greiðist af þeim aðila, sem æskir þess, svo og við yfirmat, ef engin breyting verður á matinu honum í vil; ella greiðist kostnaður við yfirmat að hálfu af hvorum aðila.