Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

1968 nr. 27 25. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1968. Breytt með: L. 134/1996 (tóku gildi 30. des. 1996). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Lög þessi taka til þess húsnæðis, sem notað er til íbúðar fyrir starfsmenn ríkisins og ríkið á að einhverju eða öllu leyti.
2. gr.
Það skal vera meginregla, að ríkið leggi ekki starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði, nema því aðeins, að þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera slíkt nauðsynlegt. Þó skal heimilt að leggja til húsnæði þeim starfsmönnum, sem vegna sérstakra gæslustarfa þurfa að búa á vinnustað.
3. gr.
Hlutaðeigandi ráðherra ákveður í samráði við [ráðherra], 1) hvar ríkið skuli leggja starfsmönnum til íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum þessum, eftir þeim meginreglum um svæðaskiptingu, er settar verða í reglugerð, sbr. 11. gr.
[Þar sem ákveðið er að leggja starfsmanni til húsnæði skal gera skriflegan húsaleigusamning á þar til gerðu eyðublaði, útgefnu af [ráðuneytinu]. 1) Slíkur leigumáli fellur niður án sérstakrar uppsagnar ef um leigjanda eiga við einhver þau atvik sem upp eru talin í 25. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt fellur leigumáli niður án sérstakrar uppsagnar ef leigjandi segir starfinu upp eða er sagt upp á grundvelli gagnkvæms uppsagnarfrests í ráðningarsamningi eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma er lokið. Ákvæði gildandi húsaleigulaga um uppsögn ótímabundins leigumála eiga við að öðru leyti.] 2)
    1)L. 126/2011, 47. gr. 2)L. 134/1996, 1. gr.
4. gr.
Óheimilt er að byggja eða kaupa nýtt íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum þessum, nema fé sé sérstaklega til þess veitt á fjárlögum og fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi ráðherra um, að í byggingu eða kaup skuli ráðist.
5. gr.
[Þeim starfsmönnum ríkisins, er hafa afnot íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum þessum, ber að greiða ríkissjóði leigu fyrir húsnæðið. Húsaleigugjaldið skal ákveðið með reglugerð og miðast við markaðsleigu. Þar sem eðlilegur húsaleigumarkaður er ekki fyrir hendi skal þó miða húsaleigu við brunabótamat, staðsetningu og notagildi. Heimilt er að setja í reglugerð viðmiðunarreglur um lágmark og hámark leigu sem taki breytingum eftir vísitölu.] 1)
    1)L. 134/1996, 2. gr.
6. gr.
Sé hluti af íbúðarhúsnæði starfsmanns notaður sem skrifstofu- eða starfshúsnæði í þágu ríkisins, greiðir hann enga húsaleigu af því húsnæði.
7. gr.
Ríkissjóður greiðir alla skatta og skyldur, svo og viðhaldskostnað íbúðarhúsnæðis, sem að öllu leyti er eign ríkisins. Slíkan kostnað af íbúðarhúsnæði, sem er sameign ríkis og annarra aðila, greiðir ríkissjóður einungis í réttu hlutfalli við eignarhluta sinn.
Heimilt er að gera leigjanda íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum þessum að greiða viðhaldskostnað húsnæðis, sem er óeðlilega hár vegna illrar umgengni.
8. gr.
Bygging og viðhald íbúðarhúsnæðis þeirra starfsmanna ríkisins, er lög þessi taka til, svo og endurbætur á því, skal innan ramma fjárlaga vera undir yfirstjórn þess ráðherra, er hlutaðeigandi starf heyrir undir.
9. gr.
[Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða þar sem eðlilegur markaður hefur skapast fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, sbr. reglugerð er sett verður skv. 11. gr., skal selja þegar í stað er núverandi leigutakar þess hverfa úr því eða láta af störfum. Heimilt er þó að fresta sölu ef slík frestun er bersýnilega hagkvæm fyrir ríkissjóð.
Sala fasteigna skv. 1. mgr. þessarar greinar skal fara eftir ákvæðum laga nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum, og reglum settum samkvæmt þeim.] 1)
    1)L. 134/1996, 3. gr.
10. gr.
Lög þessi taka hvorki til embættisseturs forseta Íslands á Bessastöðum, biskupsbústaðar í Reykjavík né bústaða sendiherra Íslands erlendis.
11. gr.
[Ráðherra] 1) setur með reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um stærð, gerð og búnað íbúðarhúsnæðis, sem ríkið eignast eða kostar að einhverju leyti, svo og um eftirlit með slíku íbúðarhúsnæði og viðhald þess.
Í reglugerð skulu enn fremur sett ákvæði um úttekt á leiguhúsnæðinu við upphaf og lok leigutíma.
    1)L. 126/2011, 47. gr. 2)Rg. 480/1992.
[Ákvæði til bráðabirgða.
[Ráðherra] 1) er heimilt án auglýsingar að selja ríkisstarfsmönnum með sérstökum kjörum það húsnæði sem þeir hafa nú á leigu og búa í, enda sé húseignin staðsett í byggðarkjarna með fleiri en 1.000 íbúum. Í þeim sérstöku kjörum felst að ríkissjóður láni allt að 30% kaupverðs. Lánin séu verðtryggð, með sömu vöxtum og húsbréf Húsnæðisstofnunar ríkisins, og til allt að 15 ára. Innlausnarskylda hvíli á eignunum í allt að fimm ár. Í reglugerð, sem sett verður skv. 11. gr., skal nánar kveðið á um framkvæmd þessa. Með sama hætti er ráðherra heimilt að selja slíkt húsnæði í byggðarkjörnum með færri en 1.000 íbúum ef þeir sem í húsnæðinu búa óska eftir kaupum.] 2)
    1)L. 126/2011, 47. gr. 2)L. 134/1996, 4. gr.