Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi

1981 nr. 68 29. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 18. júní 1981. Breytt með: L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning frá 18. nóvember 1980 um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með lögum þessum.
2. gr.
[Ráðherra] 1) er heimilt að setja reglur 2) um framkvæmd samningsins.
    1)L. 126/2011, 93. gr. 2)Rg. 263/1970 (um alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og fiskveiðilögsögu). Augl. 222/1971 (um bann við síldveiði með herpinót á svæði í hafinu suður af Írlandi og vestur af Englandi). Rg. 181/1976 (um takmörkun á síldveiðum íslenskra skipa í Norðursjó, Skagerak og á svæði VI (a) vestan Skotlands).
3. gr.
Brot á reglum sem settar verða samkvæmt 2. gr. laga þessara skulu varða sektum 2000–40.000 gullkrónum, sbr. lög nr. 4 11. apríl 1924.
Ennfremur er heimilt að gera afla og veiðarfæri upptæk.
Auk þess má láta brot varða skipstjóra fangelsi allt að 6 mánuðum þegar sakir eru miklar eða þegar um ítrekað brot er að ræða.
[Kyrrsetja skal] 1) skip, sem staðið er að meintum ólöglegum veiðum, þegar er það kemur til hafnar, og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt og sekt og kostnaður greiddur að fullu. Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging, eða önnur trygging jafngild að mati dómara, fyrir greiðslu sektarinnar og málskostnaðar.
Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt þessari grein og kostnaðar skal vera lögveð í skipinu.
2)
    1)L. 19/1991, 195. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.
4. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fylgiskjal.
Samningur um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi.1)
    1)Sjá Lagasafn 1995, bls. 950–953.