Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Jarðasjóð

1992 nr. 34 27. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. júní 1992. Breytt með: L. 28/1995 (tóku gildi 9. mars 1995; EES-samningurinn: VII. viðauki tilskipun 63/261/EBE, 63/262/EBE og 88/361/EBE). L. 73/1996 (tóku gildi 19. júní 1996). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 157/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Í ráðuneytinu] 1) skal starfrækja sjóð er nefnist Jarðasjóður ríkisins. Hlutverk sjóðsins er að kaupa jarðir bænda sem afsalað hafa framleiðslurétti og jarðir sem ekki seljast á frjálsum markaði og aðstoða sveitarfélög með lánveitingum við eigendaskipti að jörðum.
Erindi, sem Jarðasjóði berast varðandi kaup og sölu jarða, skulu send til umsagnar [stjórn Bændasamtaka Íslands] 2) áður en þau eru afgreidd.
    1)L. 157/2012, 5. gr. 2)L. 73/1996, 26. gr.
2. gr.
Jarðasjóði ríkisins er heimilt að kaupa jarðir sem svo er ástatt um er hér greinir, enda hafi sveitarstjórn hafnað forkaupsrétti:
    1. jarðir sem ekki seljast með eðlilegum hætti en eigandi þeirra verður að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu,
    2. jarðir sem hafa óhagstæð búskaparskilyrði og eru án framleiðsluréttar,
    3. jarðir sem eru afskekktar og liggja illa við samgöngum,
    4. jarðir sem eigendur hafa ekki tök á að sitja lengur vegna áhvílandi skulda, enda sitji seljendur jarðarinnar áfram,
    5. jarðir sem hreppsnefndir hafa hafnað forkaupsrétti á en jarðanefnd sýslunnar mælir með að Jarðasjóður kaupi,
    6. jarðir sem hlunnindi eða önnur sérstök verðmæti fylgja eða eru þýðingarmiklar fyrir sveitarfélög til að koma betra skipulagi á byggð,
    7. jarðir sem heppilegar teljast til almennra útilífsnota.
[Jarðasjóði er jafnframt heimilt að kaupa eignir þegar sveitarstjórn hefur framselt sjóðnum forkaupsrétt sinn skv. 3. mgr. 30. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. gilda ekki um kaup sjóðsins á slíkum eignum.] 1)
    1)L. 28/1995, 15. gr.
3. gr.
Við ákvörðun kaupverðs skv. 2. gr. skal höfð hliðsjón af gangverði hliðstæðra jarða sé þess kostur. Náist ekki samkomulag um kaupverð skal mat dómkvaddra manna ráða.
4. gr.
[Tekjur Jarðasjóðs eru fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ár hvert.] 1)
    1)L. 47/2018, 21. gr.
5. gr.
Heimilt er að selja jarðir sjóðsins sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum sem þær tilheyra, svo og einstaklingum eða félagasamtökum.
Þá er heimilt, að fengnum meðmælum jarðanefndar, að selja jarðir þessar öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til þess að bæta búrekstraraðstöðu þeirra. Ábúendur jarða, sem selt hafa jarðir sínar skv. 4. tölul. 2. gr., eiga rétt á að kaupa þær aftur ef þeir óska þess. Náist ekki samkomulag milli Jarðasjóðs og kaupanda skal mat dómkvaddra manna ráða.
6. gr.
Jarðasjóður ríkisins er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum af ónytjuðum jörðum sjóðsins, öðrum en fasteignaskatti og fjallskilum. Öll skjöl, sem gefin eru út af sjóðnum og í hans nafni, skulu undanþegin stimpil- og þinglýsingargjöldum.
Nú er fasteign seld á nauðungaruppboði eða við gjaldþrotaskipti og ber þá uppboðshaldara að rannsaka hvort eignin sé veðsett Jarðasjóði og geta þess í uppboðsgerðinni. Ef svo reynist skal [ráðuneytinu] 1) gert aðvart svo tímanlega að unnt sé að mæta eða láta mæta við uppboðið.
    1)L. 126/2011, 164. gr.
7. gr.
Heimilt er [ráðherra] 1) að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
    1)L. 126/2011, 164. gr.