Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið

1994 nr. 21 21. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 11. apríl 1994. EES-samningurinn. Breytt með: L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016).


1. gr.
Nú er mál rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þarf að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið og getur þá dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta.
Hvort sem aðili máls krefst að álits verði leitað skv. 1. mgr. eða dómari telur þess þörf án kröfu skal dómari gefa aðilum kost á að tjá sig áður en úrskurður verður kveðinn upp.
Kæra má úrskurð héraðsdómara skv. 1. mgr. til [Landsréttar] 1) eftir almennum reglum laga um meðferð einkamála eða meðferð [sakamála] 2) eftir því sem á við. Kæra frestar frekari aðgerðum samkvæmt úrskurðinum. [Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.] 1)
    1)L. 117/2016, 45. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
2. gr.
Með sama hætti og segir í 1. og 2. mgr. 1. gr. getur Félagsdómur leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar. Úrskurður þess efnis verður ekki kærður til [æðri dóms]. 1)
    1)L. 117/2016, 46. gr.
3. gr.
[Landsréttur og Hæstiréttur geta jafnan kveðið upp úrskurði, eins og lýst er í 1. og 2. mgr. 1. gr., í máli sem fyrir þeim er rekið.] 1)
    1)L. 117/2016, 47. gr.
4. gr.
Hafi dómstóll ákveðið að leita álits EFTA-dómstólsins er rétt að veita málsaðila, sem hefur ekki krafist að álitsins verði aflað, gjafsókn vegna þess þáttar málsins. Um skilyrði fyrir gjafsókn í slíku tilviki gilda almennar reglur, enda hafi EFTA-dómstóllinn ekki veitt málsaðilanum gjafsókn eftir starfsreglum sínum.
Sé gjafsókn veitt skv. 1. mgr. á gjafsóknarhafi rétt á að fá útlagðan kostnað af rekstri málsins fyrir EFTA-dómstólnum endurgreiddan þótt því sé ekki lokið fyrir dómstólum hér á landi. Þetta gildir þó ekki um þóknun umboðsmanns hans fyrir flutning máls fyrir EFTA-dómstólnum, en fjárhæð hennar verður ákveðin í dómi í aðalmálinu eftir almennum reglum.
Ef gagnaðili verður dæmdur til að greiða gjafsóknarhafa málskostnað í aðalmálinu er dómara heimilt við ákvörðun málskostnaðar að horfa fram hjá kostnaði gjafsóknarhafans af öflun álits EFTA-dómstólsins, þannig að hann falli á ríkissjóð. Þetta skal þó að öðru jöfnu ekki gert er gagnaðilinn hefur sjálfur átt frumkvæði að því að álitsins yrði aflað.
5. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.