Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um eftirlaun til aldraðra

1994 nr. 113 28. júní


Upphaflega l. 97/1979. Tóku gildi 1. janúar 1980. Breytt með: L. 52/1981 (tóku gildi 9. júní 1981). L. 92/1982 (tóku gildi 1. jan. 1983).
Endurútgefin, sbr. 10. gr. l. 117/1984, sem l. 2/1985. Giltu frá 1. janúar 1980. Breytt með: L. 130/1989 (tóku gildi 1. jan. 1990). L. 1/1992 (tóku gildi 27. jan. 1992 nema 13.–17. og 24. gr. sem tóku gildi 1. febr. 1992).
Endurútgefin, sbr. 10. gr. l. 80/1991, sem l. 113/1994. Tóku gildi 1. október 1994. Breytt með: L. 144/1995 (tóku gildi 1. jan. 1996; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 59. gr.). L. 140/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997 nema 1. gr. sem tók gildi 30. des. 1996). L. 160/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 122/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010). L. 136/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum.
1. gr.
Greiða skal eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum sem eru í Alþýðusambandi Íslands eftir því sem ákveðið er í þessum kafla. Sama gildir um aldraða félaga í öðrum stéttarfélögum, enda teljist þau til verkalýðsfélaga samkvæmt 4. gr. laga nr. 96/1990, 1) um atvinnuleysistryggingar, og hafi komið á hjá sér skylduaðild að lífeyrissjóði.
    1)l. 54/2006.
2. gr.
Rétt til eftirlauna samkvæmt þessum kafla eiga þeir sem fullnægja öllum eftirtöldum skilyrðum:
    a. Eru fullgildir félagar í stéttarfélagi sem 1. gr. tekur til.
    b. Eru fæddir árið 1914 eða fyrr.
    c. Hafa náð 70 ára aldri og látið af störfum. Maður, sem náð hefur 75 ára aldri, á þó rétt á eftirlaunum án tillits til hvort hann hefur látið af störfum eða ekki.
    d. Eiga að baki a.m.k. 10 ára réttindatíma og hafa hvert þessara ára áunnið sér a.m.k. 1/ 25 úr stigi, sbr. 6. gr.
3. gr.
Nú verður félagi, er uppfyllir skilyrði a- og b-liðar 2. gr., eftir árslok 1971 fyrir orkutapi sem metið er 40% eða meira og veitir honum rétt á örorkulífeyri úr lífeyrissjóði og á hann þá rétt á örorkulífeyri samkvæmt ákvæðum 12. gr.
Nú andast maður sem öðlast hefur rétt til eftirlauna samkvæmt 2. gr. eða hefði getað öðlast slíkan rétt með áframhaldandi réttindavinnslu og skal þá eftirlifandi maki hans eiga rétt til eftirlauna samkvæmt 12. gr., enda hafi hinn látni fallið frá eftir 31. desember 1969, átt að baki a.m.k. 5 ára réttindatíma og áunnið sér stig í samræmi við d-lið 2. gr.
[Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða] 1) sambúðarfólki makalífeyri eins og um hjúskap hafi verið að ræða, enda hafi sambúð staðið um árabil. Skilyrði fyrir greiðslu slíks makalífeyris er að hlutaðeigandi sjóðstjórn fallist á [ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins] 1) fyrir sitt leyti.
    1)L. 122/2009, 1. gr.
4. gr.
Maður telst hafa látið af störfum, sbr. c-lið 2. gr., ef hann fellir niður vinnu og árlegar launatekjur hans lækka stórlega frá því, sem þær hafa verið undanfarandi ár, enda njóti hann hvorki atvinnuleysisbóta né slysadagpeninga.
Nú tekur maður, sem látið hefur af störfum, upp störf að nýju, og fellur þá niður réttur hans til eftirlauna meðan hann heldur áfram störfum þó eigi lengur en til 75 ára aldurs, sbr. c-lið 2. gr. Slík niðurfelling skal reiknuð í heilum mánuðum fyrir hvert almanaksár um sig en broti úr mánuði sleppt.
5. gr.
Til réttindatíma félaga skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955 sem hann hefur verið að störfum sem verið hefðu tryggingarskyld samkvæmt ákvæðum samkomulags atvinnurekenda og Alþýðusambands Íslands frá 19. maí 1969 eða öðrum ákvæðum um skylduaðild að lífeyrissjóðum samkvæmt 1. gr. ef hlutaðeigandi ákvæði hefðu öðlast gildi 1. janúar 1955.
Réttindatími manns, sem ekki hafði náð 55 ára aldri í árslok 1954, reiknast frá 1. næsta mánaðar eftir að þeim aldri er náð.
Réttindatími, sem áunninn er eftir árslok 1969 og miðast við iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðs, reiknast í mánuðum.
6. gr.
Eftirlaunaréttur miðast við áunnin stig. Til grundvallar stigaútreikningi skal fyrir hvert almanaksár til ársloka 1984 reikna árslaun miðað við fast dagvinnukaup 52 vikur á ári samkvæmt 2. taxta Dagsbrúnar með fullri starfsaldurshækkun. Frá 1. janúar 1985 skulu grundvallarlaun vera kr. 14.100 á mánuði miðað við þáverandi kauplag. [Tryggingastofnun ríkisins] 1) ákveður, að fenginni umsögn kjararannsóknarnefndar, breytingar á grundvallarlaunum þessum í samræmi við breytingar á launum verkamanna samkvæmt kjarasamningum. Frá 1. janúar 1992 skal í stað grundvallarlauna miða við grundvallarfjárhæð sem tengist lánskjaravísitölu þeirri sem Seðlabanki Íslands auglýsir með heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, með síðari breytingum. 2) Grundvallarfjárhæð í janúar 1992 er 45.602 kr. miðað við þá lánskjaravísitölu sem gildir í þeim mánuði og tekur fjárhæðin sömu hlutfallsbreytingu í mánuði hverjum og lánskjaravísitalan. Verði gerð breyting á grundvelli eða útreikningi lánskjaravísitölu skal ráðherra, að fengnum tillögum [Tryggingastofnunar ríkisins], 1) ákveða hvernig stigagrundvelli og breytingum hans skuli háttað þaðan í frá.
Laun þau, sem félagi hefur eftir árslok 1969 greitt iðgjöld af samkvæmt samkomulaginu frá 19. maí 1969 eða hliðstæðum ákvæðum, sbr. 1. mgr. 5. gr., skulu umreiknuð í stig á þann hátt að deilt skal í árslaunin með grundvallarlaunum hlutaðeigandi árs, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Fáist ekki með þessu móti upplýsingar um iðgjaldsskyldar launatekjur a.m.k. 5 almanaksára auk þess árs, er sótt er um eftirlaun, skal fyrir þau ár, sem á vantar, stuðst við upplýsingar [ríkisskattstjóra] 3) um framtaldar launatekjur næstu starfsár á undan. Skulu launatekjur samkvæmt skattframtölum umreiknaðar í stig með framangreindum hætti en aldrei skal þó reikna meira en 1,1 stig fyrir einstakt almanaksár ef stuðst er við skattframtal.
Við útreikning stiga lengra aftur í tímann en upplýsingar lífeyrissjóðs og [ríkisskattstjóra] 3) ná skal miða við meðaltal stiga þrjú bestu árin sem upplýsingar eru um, þó aldrei meira en 1,1 stig sbr. 2. mgr.
Hefjist réttindatími samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ekki um áramót, skal reikna stig fysta almanaksársins í hlutfalli við réttindatíma á árinu.
Ekki skal reikna stig fyrir lengri tíma en 20 ár og ekki fyrir tíma eftir að taka eftirlauna er hafin. Við [ákvörðun] 4) makalífeyris skal þó taka tillit til áunninna stiga fram til 75 ára aldurs hins látna og á sama hátt skal fjárhæð ellilífeyris endurskoðuð við 75 ára aldur félaga með hliðsjón af áunnum stigum eftir að taka ellilífeyris hófst.
Stig skulu reiknuð með þremur aukastöfum.
    1)L. 122/2009, 2. gr. 2)l. 38/2001, VI. kafli. 3)L. 136/2009, 76. gr. 4)L. 122/2009, 3. gr.

II. kafli. Almenn eftirlaun til aldraðra.
7. gr.
Aldraðir menn, sem ekki eiga rétt samkvæmt I. kafla þessara laga né II. kafla laga nr. 50/1984, 1) um Lífeyrissjóð bænda, eiga rétt til eftirlauna, enda uppfylli þeir öll eftirtalin skilyrði:
    a. Eru fæddir árið 1914 eða fyrr.
    b. Hafa náð 70 ára aldri og látið af störfum. Maður, sem náð hefur 75 ára aldri, á þó rétt á eftirlaunum án tillits til hvort hann hefur látið af störfum eða ekki.
    c. Eiga að baki a.m.k. 10 ára réttindatíma og hafa hvert þessara ára áunnið sér a.m.k. 1/ 25 úr stigi, sbr. 11. gr.
    1)l. 12/1999.
8. gr.
Nú verður maður, sem fæddur er árið 1914 eða fyrr, eftir árslok 1971 fyrir orkutapi, sem metið er 40% eða meira og veitir honum rétt til örorkulífeyris úr lífeyrissjóði án þess þó að örorkulífeyrisréttur skapist samkvæmt 3. gr. laga þessara eða 17. gr. laga nr. 50/1984 1) og á hann þá rétt á örorkulífeyri samkvæmt ákvæðum 12. gr.
Nú andast maður, sem öðlast hefur rétt til eftirlauna samkvæmt 7. gr. eða hefði getað öðlast slíkan rétt með áframhaldandi réttindavinnslu, og skal þá eftirlifandi maki hans eiga rétt til eftirlauna samkvæmt 12. gr., enda hafi hinn látni fallið frá eftir 31. desember 1969, átt að baki a.m.k. 5 ára réttindatíma og áunnið sér stig í samræmi við c-lið 7. gr.
[Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða] 2) sambúðarfólki makalífeyri eins og um hjúskap hafi verið að ræða, enda hafi sambúð staðið um árabil. Hafi hinn látni verið félagi í lífeyrissjóði er það skilyrði fyrir greiðslu slíks makalífeyris að hlutaðeigandi sjóðstjórn fallist á [ákvörðun stofnunarinnar] 2) fyrir sitt leyti.
    1)l. 12/1999. 2)L. 122/2009, 4. gr.
9. gr.
Maður telst hafa látið af störfum, sbr. b-lið 7. gr., ef hann fellir niður vinnu og árlegar atvinnutekjur hans lækka stórlega frá því sem þær hafa verið undanfarin ár, enda njóti hann hvorki atvinnuleysisbóta né slysadagpeninga.
Nú tekur maður, sem látið hefur af öflun atvinnutekna, á ný að afla slíkra tekna og fellur þá niður réttur hans til eftirlauna meðan hann heldur nefndum tekjum, þó eigi lengur en til 75 ára aldurs, sbr. b-lið 7. gr. Slík niðurfelling skal reiknuð í heilum mánuðum fyrir hvert almanaksár um sig en broti úr mánuði sleppt.
10. gr.
Til réttindatíma, sbr. c-lið 7. gr., skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955 sem hlutaðeigandi hefur haft atvinnutekjur. Atvinnutekjur teljast hvers konar laun, arður eða gróði sem sjóðfélaga hlotnast af atvinnu sinni hvort sem unnið er í þjónustu annarra eða að eigin atvinnurekstri. Hlunnindi skulu reiknuð á því verði sem þau eru metin til skatts. Til atvinnu í þessu sambandi telst ekki aðstoð við atvinnurekstur hjóna sem einvörðungu er færð sem frádráttarliður á skattframtali. Nánari ákvæði um, hvað teljast skuli til atvinnutekna, skulu sett með reglugerð.
Réttindatími manns, sem ekki hafði náð 55 ára aldri í árslok 1954, reiknast frá 1. næsta mánaðar eftir að þeim aldri er náð.
Réttindatími, sem áunninn er eftir árslok 1969 og miðast við iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðs, reiknast í mánuðum.
11. gr.
Eftirlaunaréttur miðast við áunnin stig. Um grundvöll stigaútreiknings gilda ákvæði 1. mgr. 6. gr.
Atvinnutekjur, sem hlutaðeigandi hefur eftir árslok 1969 greitt iðgjöld af til lífeyrissjóðs, skulu umreiknaðar í stig á þann hátt að deilt skal í atvinnutekjur hvers árs með grundvallarlaunum ársins, sbr. 1. mgr. Þó skal í þessu sambandi aldrei reikna atvinnutekjur ársins hærri en 10-föld iðgjöld, nema um sé að ræða iðgjaldagreiðslur samkvæmt bráðabirgðaákvæðum samkomulagsins frá 19. maí 1969 eða hliðstæðum ákvæðum. Fáist ekki með þessu móti upplýsingar um atvinnutekjur a.m.k. 5 almanaksára auk þess árs, er sótt er um eftirlaun, skal fyrir þau ár, sem á vantar, hvort sem um er að ræða tíma fyrir eða eftir árslok 1969, stuðst við upplýsingar [ríkisskattstjóra] 1) um framtaldar atvinnutekjur næstu starfsára á undan. Skulu atvinnutekjur samkvæmt skattframtölum umreiknaðar í stig með framangreindum hætti en aldrei skal þó reikna meira en eitt stig fyrir einstakt almanaksár ef stuðst er við skattframtal. Hafi iðgjöld, sem greidd hafa verið til lífeyrissjóðs eftir árslok 1969, ekki verið reiknuð með hliðsjón af atvinnutekjum og kauplagsbreytingum er [Tryggingastofnun ríkisins] 2) heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar, að leggja atvinnutekjur til grundvallar við útreikning stiga.
Við útreikning stiga lengra aftur í tímann en upplýsingar lífeyrissjóðs og [ríkisskattstjóra] 1) ná skal miða við meðaltal stiga þrjú bestu árin, sem upplýsingar eru um, þó aldrei meira en eitt stig, sbr. 2. mgr.
Ákvæði 4.–6. mgr. 6. gr. skulu gilda um útreikning stiga samkvæmt þessari grein.
Nú telur [Tryggingastofnun ríkisins], 2) að störf, sem umsækjandi um ellilífeyri eða látinn maki umsækjanda um makalífeyri hefur stundað á tímabilinu 1970–1980, hafi verið tryggingarskyld samkvæmt 5. gr. laganna, en iðgjöld hafa þó ekki verið greidd af þeim til lífeyrissjóðs, og skal þá reikna hlutaðeigandi rétt samkvæmt þessum kafla er svarar til 60% þeirra tekna sem um ræðir, þó aldrei meira en 0,6 stig hvert einstakt ár.
Ákvæði 5. mgr. skulu gilda á hliðstæðan hátt ef réttindi samkvæmt I. kafla hafa glatast vegna endurgreiðslu iðgjalda sem átt hefur sér stað á tímabilinu frá 19. maí 1969 til 22. júní 1977. Telji hlutaðeigandi lífeyrissjóður að endurgreiðslan hafi komið í stað bótagreiðslu og sé hann reiðubúinn að taka á sig skuldbindingar í samræmi við iðgjaldagreiðslurnar er [Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða] 2) lífeyri samkvæmt I. kafla í samræmi við þær.
Frá og með 1. janúar 1981 verði réttindi samkvæmt þessum kafla einungis áunnin með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóða.
    1)L. 136/2009, 77. gr. 2)L. 120/2009, 5. gr.

III. kafli. Sameiginleg ákvæði.
12. gr.
Eftirlaun skv. I. og II. kafla skiptast í ellilífeyri, örorkulífeyri og makalífeyri.
Fjárhæð ellilífeyris í hverjum mánuði er hundraðshluti af grundvallarlaunum — frá 1. janúar 1992 grundvallarfjárhæð — eins og þau eru í byrjun hvers mánaðar og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem hlutaðeigandi hefur áunnið sér skv. 11. gr., margfölduðum með 1,8. Aldrei skal þó reiknað með færri stigum en 5. Til frádráttar ofangreindum stigafjölda skulu koma þau stig sem maðurinn hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóðs, reiknuðum á sama hátt og segir í 2. mgr. 11. gr.
Fjárhæð örorkulífeyris, miðað við 100% örorku, reiknast á sama hátt og ellilífeyrir með þeirri breytingu að auk áunninna stiga skal reikna þau stig sem ætla má að öryrkinn hefði áunnið sér fram til 70 ára aldurs, miðað við meðaltal stiga þrjú síðustu almanaksárin áður en hann varð öryrki. Sé orkutap minna en 100% greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við orkutapið. Örorkulífeyrir fellur niður við 70 ára aldur. Reiknast þá ellilífeyrir í samræmi við þann stigafjölda sem örorkulífeyrir miðast við.
Fjárhæð makalífeyris í hverjum mánuði er hundraðshluti af grundvallarlaunum — frá 1. janúar 1992 grundvallarfjárhæð — eins og þau eru í byrjun hvers mánaðar og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem hinum látna var reiknaður að viðbættum 5 stigum. Falli maður frá áður en hann nær 70 ára aldri skal auk áunnina stiga reikna þau stig sem ætla má að hann hefði áunnið sér fram til 70 ára aldurs, miðað við meðaltal stiga þrjú síðustu almanaksárin áður en hann féll frá. Til frádráttar ofangreindum stigafjölda skulu koma þau stig sem maðurinn hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóðs, reiknuðum á sama hátt og segir í 2. mgr. 11. gr.
Verði það þriggja ára meðaltal stiga, sem um ræðir í 3. og 4. mgr., talið óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári sem lakast er.
Maður getur notið samtímis makalífeyris og elli- eða örorkulífeyris samkvæmt lögum þessum, enda sé heildarfjárhæð eftirlauna eigi hærri en sem svarar fjárhæð ellilífeyris fyrir 20 áunnin stig.
Þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. mgr. er [Tryggingastofnun ríkisins] 1) heimilt að ákveða að í sérstökum tilvikum skuli stig, sem eftirlaunaþegi hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalds til lífeyrissjóðs, ekki dregin frá heildarstigafjölda hans eða frádráttur þeirra takmarkaður. Með sérstökum tilvikum er átt við að lífeyrissjóður sá, sem veitti iðgjaldi viðtöku, sé gjaldþrota eða gjaldþol hans svo rýrt að hann hafi gripið til skerðingar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga.
    1)L. 122/2009, 2. gr.
13. gr.
Nú á maður réttindatíma bæði samkvæmt I. og II. kafla laga þessara og skal þá taka tillit til samanlagðs réttindatíma og ákveða lífeyrisgreiðslur í hlutfalli við réttindatíma og miðað við fjárhæð sem greidd hefði verið samkvæmt hvorum kafla fyrir sig ef réttindatíminn hefði verið óskiptur. Aldrei skal reikna sama tímabil sem réttindatíma samkvæmt báðum köflum.
Ákvæði 1. mgr. skulu gilda þegar um er að ræða réttindatíma samkvæmt lögum þessum ásamt réttindatíma samkvæmt II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda, sbr. 18. gr. laga nr. 50/1984. 1)
Hafi maður auk launatekna, sem falla undir ákvæði 6. gr. og tekna af búvöruframleiðslu sem veita rétt samkvæmt lögum nr. 50/1984, 1) haft á einu og sama almanaksári aðrar atvinnutekjur, sbr. 10. gr., skal bæta slíkum atvinnutekjum við þegar áunnin stig eru reiknuð en þó skal slík viðbót aldrei hafa í för með sér að heildarstig á árinu fari fram úr þeim mörkum, sem tilgreind eru í 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 11. gr. Réttindi skulu talin falla undir I. eða II. kafla eftir því undir hvorn kaflann meirihluti stiga ársins fellur.
Nú hafa hjón stundað búskap og það hjóna, sem ekki hefur talist bóndi samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð bænda, hefur áunnið sér a.m.k. 2 stig samkvæmt lögum þessum án þess þó að uppfylla skilyrði laganna um lágmark réttindatíma og skal þá búskapartíminn talinn til réttindatíma eftir því sem við getur átt. Stig skulu ekki reiknuð vegna slíks búskapartíma. Fjárhæð lífeyris skal ákveðin í samræmi við 1. mgr.
    1)l. 12/1999.
14. gr.
Greiðslur eftirlauna úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum skv. 12. gr. Hafi maður eftir 19. maí 1969 gengið úr lífeyrissjóði og afsalað sér réttindum sínum þar, skal sá lífeyrir, sem hann hefði ella átt rétt á úr sjóðnum, dragast frá á sama hátt. Ef hlutaðeigandi hefur ekki getað öðlast rétt samkvæmt I. kafla skal þó miðað við úrgöngu eftir 22. júní 1977 í stað 19. maí 1969. Sé um að ræða lífeyrissjóð, sem stofnaður er eftir gildistöku laga nr. 18/1970, skal frádráttur ekki vera lægri en hann mundi vera samkvæmt þeim reglum er tíðkast hjá lífeyrissjóðum stéttarfélaga, sem starfræktir voru fyrir gildistöku laganna.
15. gr.
Eftirlaun samkvæmt I. kafla greiðast eftir á fyrir hvert greiðslutímabil er hlutaðeigandi sjóðstjórn ákveður. Þó skal eigi greitt oftar en mánaðarlega og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Sama gildir um eftirlaun samkvæmt II. kafla, þó þannig að [Tryggingastofnun ríkisins] 1) kemur í stað stjórnar lífeyrissjóðs, ef lífeyrisaðild er ekki til að dreifa.
Eftirlaun skulu greidd frá 1. næsta mánaðar eftir að hlutaðeigandi öðlast rétt til þeirra og þau falla niður í lok þess mánaðar er lífeyrisþegi fellur frá. Fjárhæð eftirlauna skal reiknuð í heilum krónum á mánuði án tillits til lengdar greiðslutímabils, sbr. 1. mgr.
    1)L. 122/2009, 2. gr.
16. gr.
[Tryggingastofnun ríkisins ákveður] 1) eftirlaun samkvæmt lögum þessum. Hlutaðeigandi lífeyrissjóðir annast greiðslu eftirlauna skv. I. kafla, en [Tryggingastofnun ríkisins] 1) skv. II. kafla.
Eftirlaun skulu ekki greidd lengra aftur en tvö ár, reiknuð frá lokum næsta mánaðar áður en umsókn barst [Tryggingastofnun ríkisins]. 1)
    1)L. 122/2009, 6. gr.
17. gr.
1)
[Tryggingastofnun ríkisins] 1) hefur yfirumsjón með úthlutun eftirlauna og úthlutar stjórnum lífeyrissjóða, sbr. 16. gr., fé því, sem þarf til greiðslu eftirlaunanna. Skylt er umsækjendum, stjórnum lífeyrissjóða og [ríkisskattstjóra] 2) að veita [Tryggingastofnun ríkisins] 1) þær upplýsingar, er þessir aðilar hafa tök á að veita og [stofnunin] 1) telur mega að gagni verða við ákvörðun eftirlaunaréttinda. … 1)
Lífeyrissjóði bænda er skylt að endurgreiða eftir kröfu [Tryggingastofnunar ríkisins] 1) að sínum hluta eftirlaun er að nokkru leyti miðast við réttindatíma hlutaðeigandi sem bónda. Á sama hátt skal [stofnunin] 1) greiða Lífeyrissjóði bænda viðbót við eftirlaun sem greidd eru úr þeim sjóði bændum sem áunnið hafa sér réttindatíma samkvæmt lögum þessum og fá að sama skapi skert réttindi hjá Lífeyrissjóði bænda.
[Heimilt er að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar almannatrygginga.] 1)
    1)L. 122/2009, 7. gr. 2)L. 136/2009, 78. gr.
18. gr.
Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að fengnum tillögum [Tryggingastofnunar ríkisins]. 1)
Í reglugerð skal m.a. kveðið á um hvenær maður telst hafa látið af störfum, svo og um niðurfellingu eftirlauna, sbr. 4. og 9. gr., og heimilt er að ákveða að starf, sem ekki nær þremur mánuðum á almanaksári, skuli ekki valda niðurfellingu. Þá skal ákveða, hvernig meta skuli til frádráttar skv. 12. gr. innstæður hlutaðeigandi í lífeyrissjóðum með séreignaskipulagi.
Í reglugerð er heimilt að ákveða að lífeyrir úr lífeyrissjóði komi ekki að fullu til frádráttar eftirlaunum samkvæmt lögum þessum ef um er að ræða sjóði sem krefjast iðgjalda af launum umfram þau sem greiða hefði átt iðgjöld af samkvæmt samkomulaginu frá 19. maí 1969. Ennfremur er þar heimilt að ákveða að sleppt skuli skiptingu útgjalda milli kafla, svo og kröfum á hendur Lífeyrissjóði bænda í einstökum málum þegar um lítinn hluta heildargreiðslunnar er að ræða.
    1)L. 120/2009, 2. gr.
19. gr.
[Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi greiðslur til lífeyrissjóða og annarra aðila samkvæmt úthlutun og ákvörðunum stofnunarinnar, færir þær á viðskiptareikning hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og krefur ríkissjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um útgjaldahluta þeirra.] 1)
    1)L. 122/2009, 8. gr.
20. gr.1)
    1)L. 140/1996, 21. gr.

IV. kafli. Fjárhagsákvæði.
21. gr.
[Kostnaður af eftirlaunum skv. I. kafla greiðist úr ríkissjóði.] 1)
    1)L. 144/1995, 36. gr.
22. gr.
[Kostnaður af eftirlaunum skv. II. kafla greiðist að 3/ 4 hlutum úr ríkissjóði og að 1/ 4 hluta af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.] 1)
    1)L. 144/1995, 37. gr.
23. gr.
Þeim eftirlaunaþegum, sem njóta réttar skv. I. kafla laga þessara, skal greidd viðbót sem nemur þremur stigum umfram þann stigafjölda sem önnur ákvæði þessara laga kveða á um. [Viðbót þessi skal greidd úr ríkissjóði.] 1)
Viðbót samkvæmt þessari grein skerðir ekki þann rétt sem kveðið er á um í 6. mgr. 12. gr.
Þegar um er að ræða rétt skv. 13. gr. laga þessara skal veita viðbót samkvæmt þessari grein í hlutfalli við þann rétt sem reiknaður er skv. I. kafla laganna.
    1)L. 144/1995, 38. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.