Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um opinberar eftirlitsreglur

1999 nr. 27 18. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. mars 1999. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Lög þessi ná til reglna um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja, þar með taldra reglna sem er ætlað að stuðla að öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, neytendavernd, samkeppni, eðlilegum viðskiptaháttum og getu fyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar.
Lögin ná ekki til stjórnsýslueftirlits og innra eftirlits hins opinbera, þar með talins fjárhagslegs eftirlits, löggæslu, tollgæslu og eftirlits í tengslum við skatta og gjöld, sifjamál, vernd barna og ungmenna, reynslulausn og ákærufrestun.
2. gr.
Markmið laga þessara er að opinbert eftirlit stuðli að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd. Eftirlit á vegum hins opinbera má ekki leiða til mismununar né takmarka athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist.
3. gr.
Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.
Þegar stjórnarfrumvarp sem felur í sér ákvæði um eftirlit er lagt fyrir ríkisstjórn skal leggja fram greinargerð um mat skv. 1. mgr. Enn fremur skulu slíkar greinargerðir liggja fyrir þegar þess háttar reglur um eftirlit eru staðfestar í öðrum tilvikum.
[Ráðherra] 1) skal setja nánari reglur 2) um mat á eftirlitsreglum og þær aðferðir við eftirlit sem leitast skal við að fylgja við undirbúning að setningu laga og reglna.
    1)L. 126/2011, 284. gr. 2)Rg. 812/1999, sbr. umburðarbréf 33/2001.
4. gr.
Eftirlitsreglur skulu hafa takmarkaðan gildistíma eða endurskoðunarákvæði. Hámarksgildistími eftirlitsreglna eða hámarkstímabil endurskoðunarákvæða þeirra skal vera fimm ár. Við samningu eftirlitsreglna, framlengingu þeirra og endurskoðun skal fylgja ákvæðum 1. og 3. mgr. 3. gr.
Stjórnvald skal halda tæmandi skrá yfir þær eftirlitsreglur sem það setur. Skráin og tilkynningar um breytingar á henni skulu sendar [ráðuneytinu]. 1) Skráin skal vera aðgengileg almenningi.
    1)L. 126/2011, 284. gr.
5. gr.
[Ráðuneytið] 1) skal:
    1. hafa yfirsýn yfir eftirlitsreglur og annast heildarmat á áhrifum þeirra og eftirlits á vegum hins opinbera,
    2. leitast við að tryggja nauðsynlega samhæfingu og hagkvæmni í eftirliti á vegum hins opinbera,
    3. móta aðferðir við mat á opinberu eftirliti.
    1)L. 126/2011, 284. gr.
6. gr.
[Ráðherra] 1) skipar nefnd til ráðgjafar um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga þessara. Nefndin skal skipuð fimm mönnum og skulu þeir hafa þekkingu á opinberu eftirliti eða viðfangsefnum þess. Meiri hluti nefndarmanna skal ekki vinna við eða bera ábyrgð á framkvæmd opinberra eftirlitsreglna. Skipunartími nefndarinnar skal vera þrjú ár.
Þeir aðilar sem eftirlit beinist að og aðrir þeir sem hagsmuni hafa af opinberu eftirliti geta óskað eftir athugun nefndarinnar á tilteknum þáttum þess. Ráðherrar geta sent nefndinni til umsagnar mál er varða opinbert eftirlit. Jafnframt getur nefndin átt frumkvæði að athugunum á vissum þáttum eftirlitsins.
Starf nefndarinnar skal miða að því að opinberar eftirlitsreglur séu í samræmi við ákvæði 3. gr. og að eftirlit á vegum hins opinbera sé jafnan eins hagkvæmt og kostur er fyrir þau fyrirtæki og einstaklinga sem eftirlitið beinist að og fyrir hið opinbera. Nefndin getur beint tilmælum til [ráðherra] 1) um að eftirlitsreglur verði endurskoðaðar.
[Ráðherra] 1) getur í reglugerð 2) sett nánari ákvæði um skipan og starf nefndarinnar.
    1)L. 126/2011, 284. gr. 2)Rg. 812/1999, sbr. umburðarbréf 33/2001.
7. gr.
[Ráðherra] 1) er heimilt að setja með reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 284. gr. 2)Rg. 812/1999, sbr. umburðarbréf 33/2001.
8. gr.
[Ráðherra] 1) skal að jafnaði á þriggja ára fresti gefa Alþingi skýrslu um áhrif laga þessara, störf ráðgjafarnefndarinnar og önnur tengd atriði.
    1)L. 126/2011, 284. gr.
9. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðuneyti skulu gera áætlun um að endurskoða gildandi lagaákvæði og reglur um opinbert eftirlit. Við endurskoðunina skal fara fram mat á reglunum í samræmi við ákvæði 3. gr.