Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Byggðastofnun

1999 nr. 106 27. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2000. Breytt með: L. 87/2009 (tóku gildi 20. ágúst 2009). L. 123/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 13/2013 (tóku gildi 9. mars 2013). L. 69/2015 (tóku gildi 21. júlí 2015). L. 130/2016 (tóku gildi 1. júlí 2017). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 76/2021 (tóku gildi 1. júlí 2021; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 13. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Hlutverk og skipulag.
1. gr. Yfirstjórn og staðsetning.
Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir yfirstjórn [ráðherra]. 1)
[Ráðherra] 1) ákveður staðsetningu Byggðastofnunar að fenginni tillögu stjórnar.
    1)L. 126/2011, 291. gr.
2. gr. Hlutverk.
[Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.
Í samræmi við hlutverk sitt undirbýr, skipuleggur og fjármagnar stofnunin verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.
Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra haghafa.
Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.
Beinar aðgerðir skv. 2. og 3. mgr. einskorðast við samþykkt stuðningssvæði á gildandi byggðakorti af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil.
[Byggðastofnun annast framkvæmd laga um póstþjónustu og hefur eftirlit með póstþjónustu eins og nánar er kveðið á um í lögum um það efni.] 1)] 2)
    1)L. 76/2021, 9. gr. 2)L. 69/2015, 6. gr.
3. gr. Ársfundur og stjórn.
Halda skal ársfund Byggðastofnunar fyrir 1. júlí ár hvert. Nánar skal kveðið á um ársfund í reglugerð.
[Ráðherra] 1) skipar á ársfundi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar til eins árs í senn og sjö menn til vara. [Ráðherra] 1) skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar.
Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða.
    1)L. 126/2011, 291. gr.
4. gr. Verkefni stjórnar.
Verkefni stjórnar Byggðastofnunar eru:
    1. Að ákveða starfsskipulag að því leyti sem það hefur ekki verið gert í reglugerð.
    2. Að móta stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti og sjá til þess að henni sé framfylgt.
    3. Að ákveða rekstrar- og starfsáætlun til eins árs í senn.
    4. Að vinna að samstarfi við aðrar stofnanir og sjóði sem starfa að eflingu atvinnulífs í því skyni að samhæfa og gera atvinnuráðgjöf og stuðningsaðgerðir markvissar.
    5. Að fjalla um áætlanir sem stofnunin vinnur að, svo og skýrslur um starfsemi hennar.
    6. Að fjalla um og samþykkja ársreikning.
    7. Að taka ákvarðanir um heildarlántöku, sbr. 15. gr.
    8. Að taka ákvarðanir um hlutafjárkaup og þátttöku í eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélögum.
    9. Að setja reglur um lánakjör og fjármögnun verkefna.
    10. Að taka ákvarðanir og setja reglur um lán- og ábyrgðarveitingar. Þá skal stjórn setja reglur um upplýsingagjöf til stjórnar um þau efni. [Reglur stjórnar Byggðastofnunar um lán- og ábyrgðarveitingar skulu hafa hlotið staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi.] 1)
    11. Önnur verkefni sem [ráðherra] 2) felur stjórn að vinna á sviði byggða- og atvinnumála.
    1)L. 13/2013, 1. gr. 2)L. 126/2011, 291. gr.
5. gr. Forstjóri.
[Ráðherra] 1) skipar forstjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. [Um laun og önnur launakjör forstjóra fer skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.] 2)
    1)L. 126/2011, 291. gr. 2)L. 130/2016, 8. gr.
6. gr. Verkefni forstjóra.
Verkefni forstjóra Byggðastofnunar eru:
    1. Að stjórna daglegum rekstri stofnunarinnar.
    2. Að gera tillögur til stjórnar um:
    a. starfsskipulag stofnunarinnar,
    b. rekstrar- og starfsáætlun,
    c. áherslur í starfseminni,
    d. lántökur og heildarútlán,
    e. reglur um lánakjör.
    3. Að ráða stofnuninni starfsfólk.
    4. Önnur verkefni sem honum eru falin af stjórn.

II. kafli. Starfsemi.
7. gr.1)
    1)L. 69/2015, 6. gr.
8. gr. Rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun.
Byggðastofnun vinnur að gagnasöfnun og rannsóknum og fylgist með atvinnu- og byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar og árangri opinberra stuðningsaðgerða á sviði atvinnumála og byggðaþróunar, jafnt á Íslandi sem í löndum þar sem svipaðar aðstæður eru. Stofnunin getur tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og gert samninga við háskóla, rannsóknastofnanir og aðra um rannsóknir á þessu sviði.
9. gr. Atvinnuráðgjöf.
Byggðastofnun skipuleggur og vinnur að ráðgjöf við atvinnulífið á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra [haghafa]. 1)
Stofnunin skal í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuráðgjöf vinna að bættu skipulagi atvinnuráðgjafar og aukinni þekkingu ráðgjafa, m.a. í því skyni að gera ráðgjöfina markvissa og stuðla að betri nýtingu fjármuna.
Stofnunin getur gert samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði.
    1)L. 69/2015, 6. gr.
10. gr. Fjármögnun verkefna.
Byggðastofnun veitir framlög til verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Stjórn stofnunarinnar ákveður verkefnin og leitar eftir samstarfsaðilum um þau. Við umfjöllun um einstök verkefni getur stjórnin, ásamt samstarfsaðilum, sett á fót verkefnanefndir til ráðgjafar. Einnig er heimilt að fela atvinnuþróunarfélögum úthlutun fjár til einstakra verkefna.
11. gr. Veiting lána og ábyrgða.
Byggðastofnun veitir lán eða ábyrgðir í samræmi við hlutverk sitt, sbr. 2. gr.
Stjórn stofnunarinnar getur falið forstjóra að ákveða einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur, sbr. 10. tölul. 4. gr.
Reikningslegur aðskilnaður skal vera á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi. Fjárhagslegt markmið lánastarfsemi stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi.
Stjórn Byggðastofnunar getur tekið ákvörðun um að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar.
[Ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, sbr. 1. mgr., eru endanlegar á stjórnsýslustigi.] 1)
    1)L. 13/2013, 2. gr.
12. gr. Fjármögnun þróunarverkefna.
Byggðastofnun er heimilt að fjármagna áhættusöm verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar samkvæmt nánari reglum sem [ráðherra] 1) setur að fengnum tillögum stjórnar.
Þessi starfsemi skal einkum fjármögnuð með sérstökum framlögum úr ríkissjóði.
    1)L. 126/2011, 291. gr.

III. kafli. Önnur ákvæði.
13. gr. Upplýsingar um starfsemi.
[Ráðherra] 1) skal gefa Alþingi árlega skýrslu um … 2) framvindu byggðaáætlunar.
Ársreikningum [Byggðastofnunar] 2) skal fylgja skrá yfir verkefni stofnunarinnar og fjármögnun þeirra.
    1)L. 126/2011, 291. gr. 2)L. 76/2021, 10. gr.
14. gr. Tekjur.
Tekjur Byggðastofnunar eru:
    1. Framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
    2. Fjármagnstekjur.
    [3. Þjónustugjöld skv. 2. og 3. mgr.] 1)
[Byggðastofnun er heimilt að taka gjald fyrir:
    1. Umsýslu og skjalagerð sem tengist lánastarfsemi stofnunarinnar.
    2. Umsýslu vegna aflamarks Byggðastofnunar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
    3. Vinnu við verkefni á sviði byggðaáætlunar og alþjóðlegra verkefna sem stofnuninni er falið að sinna.
Stjórn Byggðastofnunar setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Upphæð gjalda tekur mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og má ekki vera hærri en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.] 1)
    1)L. 76/2021, 11. gr.
15. gr. Lántaka.
Byggðastofnun er heimilt innan ramma fjárlaga að taka lán til starfsemi sinnar innan lands eða erlendis, annaðhvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra aðila.
16. gr.1)
    1)L. 76/2021, 12. gr.
17. gr. Undanþága frá gjöldum og sköttum.
Byggðastofnun er undanþegin öllum opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs.
18. gr. Þagnarskylda.
[Stjórnarmenn og allir starfsmenn Byggðastofnunar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.] 1)
    1)L. 71/2019, 5. gr.
19. gr. Reglugerð.
Nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Byggðastofnunar og framkvæmd laga þessara má setja með reglugerð. 1)
    1)Rg. 347/2000.
20. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.
Ákvæði til bráðabirgða.
Við gildistöku laga þessara skipar iðnaðarráðherra stjórn Byggðastofnunar skv. 3. gr. fram að fyrsta ársfundi sem halda skal fyrir 1. júlí 2000.