Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lagaskil á sviði samningaréttar

2000 nr. 43 16. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 26. maí 2000.

I. kafli. Gildissvið laganna.
1. gr. Gildissvið.
Ákvæði laga þessara eiga við um allar einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi þegar taka þarf afstöðu til þess lögum hvaða lands skuli beitt.
Lögin gilda ekki um:
    a. álitaefni sem varða persónulega réttarstöðu manna og gerhæfi nema annað leiði af ákvæðum 11. gr.,
    b. skuldbindingar sem varða erfðir, þ.m.t. erfðaskrár, og samninga milli hjóna um fjármál þeirra, þ.m.t. skilnaðarsamninga, svo og samninga um réttindi og skyldur sifjaréttarlegs eðlis, t.d. varðandi faðerni, mægðir, skyldleika og hjúskap, þ.m.t. samninga um framfærslu barna,
    c. skuldbindingar sem byggjast á víxlum, tékkum og skuldabréfum og öðrum viðskiptabréfum, að svo miklu leyti sem skuldbindingar sem af þeim leiðir er að rekja til eðlis þeirra sem viðskiptabréfa,
    d. samninga um gerðardóma og val á dómstóli,
    e. álitaefni sem lúta löggjöf um fyrirtæki, félög eða aðrar lögpersónur, svo sem um stofnun þeirra, með skráningu eða á annan hátt, löghæfi, innra skipulag eða slit og um persónulega ábyrgð stjórnenda og meðlima á skuldbindingum fyrirtækis, félags eða lögpersónu,
    f. álitaefni sem varða umboð eða heimild einstaklinga eða stjórnenda til að skuldbinda fyrirtæki, félög eða aðrar lögpersónur í samningum við þriðja aðila,
    g. samninga um stofnun fjárvörslusjóðs eða mál sem varða lögskipti stofnanda, vörslumanns og rétthafa,
    h. sönnun og málsmeðferð nema að því leyti sem slíkt leiðir af 14. gr.
Ákvæði laganna gilda ekki um vátryggingarsamninga sem varða vátryggingaratburði sem verða á yfirráðasvæði ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu. Við ákvörðun um það hvort atburður gerist innan þess svæðis skal dómstóll beita íslenskum lögum.
Ákvæði 3. mgr. gilda ekki um samninga sem varða endurtryggingar.
2. gr. Beiting laga ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Lög þessi eiga við þótt þau leiði til þess að beita beri löggjöf ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

II. kafli. Meginreglur um lagaskil.
3. gr. Samningur um lagaval.
Um samninga skal beita þeim lögum sem samningsaðilar hafa valið berum orðum eða þeim lögum sem með vissu verða talin leiða af samningnum sjálfum eða öðrum atvikum. Samningsaðilar geta samið svo um að þau lög sem vísað er til skuli gilda um samninginn í heild eða aðeins um tiltekinn hluta hans.
Samningsaðilar geta hvenær sem er samið svo um að um samninginn skuli gilda önnur lög en áður giltu um hann, hvort sem þau er upphaflega að rekja til samkomulags aðila þar um eða leiðir af öðrum reglum laga þessara. Breytingar af þessu tagi, sem koma til eftir að samningur var upphaflega gerður, skulu hvorki hafa áhrif á formlegt gildi samningsins skv. 9. gr. né hafa áhrif á réttarstöðu þriðja manns án samþykkis hans.
Hafi aðilar samið um að beita erlendum lögum, hvort sem ágreining á að bera undir erlendan dómstól eða ekki, en öll atvik og kringumstæður við gerð samnings tengjast aðeins einu landi, er þrátt fyrir samninginn heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum þess lands sem samningurinn tengist.
Úrlausn um það hvort samþykki um lagaval er til staðar og um gildi þess fer skv. 8., 9. og 11. gr.
4. gr. Lög sem gilda þegar ekki hefur verið samið um lagaval.
Hafi samningur ekki að geyma ákvæði um það hvers lands lögum skuli beita, sbr. 3. gr., skal beita lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengsl við. Ef afmarkaður hluti samnings hefur nánari tengsl við annað land en það sem leiða mundi af 1. málsl. þessarar málsgreinar er heimilt að beita lögum þess lands að því er varðar þann hluta samningsins.
Með fyrirvara um ákvæði 5. mgr. skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá aðili sem efna á aðalskyldu samningsins býr við samningsgerðina. Þegar um er að ræða fyrirtæki, félag eða aðra lögpersónu skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hefur aðalstöðvar sínar. Ef samningurinn er gerður í tengslum við atvinnu eða atvinnurekstur viðkomandi aðila skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna ber hefur aðalstarfsstöð sína. Ef efna á samning samkvæmt ákvæðum hans á annarri starfsstöð en þar sem aðili hefur aðalstarfsstöð sína skal beita lögum þess lands þar sem sú starfsstöð er.
Að því marki sem samningur varðar réttindi yfir fasteign, þ.m.t. afnotarétt, skal, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem fasteignin er.
Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við þegar um er að ræða samninga um vöruflutninga. Þegar um slíkan samning er að ræða og flytjandi hefur, þegar samningur er gerður, aðalstöðvar í sama landi og farmurinn er lestaður eða hann affermdur eða í sama landi og aðalbækistöðvar sendanda eru skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land. Við beitingu þessa ákvæðis skal litið á farmsamning um einstaka ferð og aðra samninga sem hafa vöruflutninga sem meginmarkmið sem samninga um vöruflutninga.
Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við ef ekki er unnt að afmarka aðalskyldu samnings. Á sama hátt eiga ákvæði 2., 3. og 4. mgr. ekki við ef af öllum aðstæðum verður ráðið að samningurinn í heild hafi ríkari tengsl við annað land en það sem leiða mundi af þeim ákvæðum.
5. gr. Neytendasamningar.
Grein þessi á við um samninga sem maður (neytandi) gerir um afhendingu vöru eða þjónustu í tilgangi sem telja verður að varði ekki atvinnu hans eða samning um lán til að fjármagna kaupin.
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. getur ákvæði um lagaval í samningi aldrei takmarkað þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum í lögum þess ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hann býr:
    a. ef undanfari samningsins var sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og allar nauðsynlegar ráðstafanir til samningsgerðarinnar af hans hálfu fóru fram í því landi eða
    b. ef gagnaðilinn, eða umboðsmaður hans, tók við pöntun neytandans í því landi eða
    c. ef samningur er um sölu vöru og neytandinn ferðaðist frá því landi til annars lands og gerði pöntun sína þar, að því tilskildu að ferðin hafi verið skipulögð af seljandanum í þeim tilgangi að hvetja neytandann til kaupanna.
Ef um er að ræða samninga sem falla undir ákvæði þessarar greinar og aðilar hafa ekki samið um lagaval skv. 3. gr. gilda, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., ákvæði þessarar greinar, enda séu samningarnir gerðir við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr.
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um:
    a. flutningasamninga,
    b. samninga um kaup á þjónustu þegar þjónustuna á að láta í té að öllu leyti í öðru landi en því þar sem neytandinn býr.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. eiga ákvæði þessarar greinar við um samning um kaup á ferð þegar gisting er innifalin í kaupverði.
6. gr. Vinnusamningar.
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu vinnusamningar sem hafa að geyma ákvæði um lagaval ekki leiða til lakari verndar launþega en þeir mundu njóta samkvæmt þeim ófrávíkjanlegum reglum sem leiða mundi af 2. mgr.
Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skulu eftirfarandi lög gilda um vinnusamninga sem ekki hafa ákvæði að geyma um lagaval:
    a. lög þess lands þar sem launþegi starfar að jafnaði, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í öðru landi, eða
    b. ef launþegi starfar að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi gilda lög þess lands þar sem sú starfsstöð er sem réð hann til starfa.
Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við ef annað leiðir af aðstæðum í heild eða samningurinn hefur meiri tengsl við annað land en það sem a- og b-liðir vísa til. Í því tilviki gilda lög þess lands.
7. gr. Ófrávíkjanlegar reglur.
Þegar beitt er lögum tiltekins lands samkvæmt lögum þessum er einnig heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum í lögum annars lands sem atvik málsins hafa náin tengsl við, ef og að því marki sem skylt er að beita þeim samkvæmt lögum þess lands, óháð því hvaða lög eiga annars við um samninginn. Þegar metið er hvaða ófrávíkjanlegu reglur eiga við skal litið til eðlis þeirra og tilgangs og afleiðinga þess að beita þeim eða beita þeim ekki.
Ekkert í lögum þessum takmarkar beitingu ófrávíkjanlegra reglna íslensks réttar, ef mál er rekið hér á landi, óháð því hvers lands lögum á annars að beita um samninginn.
8. gr. Efnislegt gildi samnings.
Tilvist og gildi samnings, eða einstakra ákvæða samnings, skal ákvarða samkvæmt þeim lögum sem eiga mundu við um samninginn samkvæmt lögum þessum ef samningurinn eða einstök ákvæði hans væru gild.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur aðili byggt á lögum þess lands þar sem hann býr til að sýna fram á að hann hafi ekki veitt samþykki sitt ef atvik eru með þeim hætti að ósanngjarnt þykir að dæma um réttaráhrif athafna hans eftir þeim reglum sem leiða mundi af 1. mgr.
9. gr. Formlegt gildi samnings.
Samningur sem gerður er milli einstaklinga sem eru í sama landinu er formlega gildur ef hann fullnægir formkröfum laga þess lands sem um hann gilda samkvæmt lögum þessum eða lögum þess lands þar sem hann var gerður.
Samningur sem gerður er milli tveggja einstaklinga sem ekki eru í sama landinu er formlega gildur ef hann fullnægir formkröfum laga þess lands sem gilda um hann samkvæmt lögum þessum eða lögum annars hvors landsins þar sem aðilar eru.
Þegar samningur er gerður fyrir tilstilli umboðsmanns koma lög þess lands þar sem umboðsmaður gerir ráðstafanir sínar í stað laga þess lands þar sem aðili samnings er skv. 1. og 2. mgr.
Ráðstöfun sem ætlað er að hafa réttaráhrif í tengslum við gerðan samning eða fyrirhugaðan samning er gild ef hún fullnægir formkröfum þeirra laga sem gilda samkvæmt lögum þessum eða ættu við um samninginn ef hann væri gildur eða laga þess lands þar sem ráðstöfun var gerð.
Ákvæði 1.–4. mgr. eiga ekki við um neytendasamninga sem gerðir eru við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 5. gr. Um formlegt gildi slíkra samninga fer eftir lögum þess lands þar sem neytandinn býr.
Þegar um er að ræða samninga um réttindi yfir fasteign, þ.m.t. afnotaréttindi, skulu, þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr., gilda um slíka samninga ófrávíkjanlegar formreglur laga þess lands þar sem fasteignin er ef þær reglur samkvæmt þeim lögum gilda óháð því í hvaða landi samningurinn er gerður og óháð þeim lögum sem annars gilda um samninginn.
10. gr. Gildissvið laga þeirra sem við eiga.
Þau lög sem gilda um samning skv. 3.–6. gr. og 12. gr. skulu einkum gilda um:
    a. túlkun,
    b. efndir,
    c. afleiðingar vanefnda, þ.m.t. ákvörðun bóta að svo miklu leyti sem þær eru ákvarðaðar samkvæmt lagareglum, með þeim takmörkunum sem leiðir af réttarfarslögum um heimildir dómstóla,
    d. mismunandi lyktir samningsskuldbindinga, tómlæti og fyrningu,
    e. afleiðingar þess að samningur telst ógildur.
Þegar ákvarðað er hvort samningur hafi verið réttilega efndur eða ráðstafanir þær sem gripið er til vegna vanefnda samnings séu lögmætar skal taka tillit til laga þess lands þar sem efndir samnings fara fram.
11. gr. Gerhæfisskortur.
Þegar um er að ræða samning milli tveggja einstaklinga sem eru í sama landinu getur einstaklingur sem hefur gerhæfi samkvæmt lögum þess lands því aðeins borið fyrir sig gerhæfisskort sem leiða mundi af lögum annars lands að hinn samningsaðilinn hafi, þegar samningurinn var gerður, vitað eða hafi mátt vita um gerhæfisskortinn samkvæmt þeim lögum.
12. gr. Framsal réttinda.
Um gagnkvæmar skyldur framseljanda og framsalshafa í samningi sem felur í sér framsal réttinda gagnvart þriðja manni (skuldara) gilda lög þess lands sem samkvæmt lögum þessum eiga við um samning milli framseljanda og framsalshafa.
Um heimild til framsals, samband framsalshafa og skuldara, skilyrði þess að á framsali verði byggt gagnvart skuldara og um öll álitaefni um það hvort skyldur skuldara séu enn til staðar gilda lög þess lands sem eiga við um réttindi þau sem framseld eru.
13. gr. Innlausn réttinda.
Nú á kröfuhafi samningskröfu á hendur skuldara og þriðja aðila er skylt að efna kröfuna gagnvart kröfuhafa, eða hann hefur í reynd efnt kröfuna vegna þeirrar skyldu og þannig leyst hana til sín. Þá skulu lög þau sem gilda um skyldu þriðja manns til efnda gagnvart kröfuhafa einnig vera ákvarðandi um hvort og að hve miklu leyti þriðji maður getur endurkrafið skuldara á grundvelli þeirra laga sem gilda um samningssamband kröfuhafa og skuldara.
Sama regla og fram kemur í 1. mgr. á einnig við þegar sama samningsskyldan hvílir á mörgum aðilum og einn þeirra hefur efnt skylduna gagnvart kröfuhafa.

III. kafli. Um sönnunarbyrði, gildistöku o.fl.
14. gr. Sönnunarbyrði o.fl.
Hafi lög þess lands sem gilda um samninga samkvæmt lögum þessum að geyma löglíkindareglur eða reglur um sönnunarbyrði skal beita þeim.
Samninga eða ráðstafanir sem ætlað er að hafa réttaráhrif má sanna á hvern þann hátt sem heimill er samkvæmt íslenskum lögum þegar mál er rekið fyrir íslenskum dómstóli eða samkvæmt lögum þeim sem vísað er til í 9. gr., enda sé samningur eða ráðstöfun gild samkvæmt þeirri grein, að því tilskildu að hægt sé að koma slíkri sönnunarfærslu við hér á landi.
15. gr. Bann við heimvísun og framvísun.
Með lögum lands sem lög þessi vísa til er átt við önnur lög en lagaskilareglur.
16. gr. Allsherjarregla.
Því aðeins er heimilt að láta hjá líða að beita lögum tiltekins lands sem lög þessi vísa til að þau teljist augljóslega andstæð góðum siðum og allsherjarreglu hér á landi.
17. gr. Bann við afturvirkni.
Ákvæðum laga þessara verður aðeins beitt um samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra.
18. gr. Staða laga þessara gagnvart öðrum reglum.
Sérreglur um lagaskil í öðrum lögum eða reglum, sem lögfestar eru hér á landi vegna skuldbindinga sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða öðrum alþjóðasamningum, skulu ganga framar ákvæðum laga þessara að svo miklu leyti sem þær fá ekki samrýmst þeim.
19. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.