Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn

2001 nr. 25 7. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 16. maí 2001. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við utanríkisráðherra eða utanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Bann við tilraunum með kjarnavopn.
Enginn má framkvæma tilraunir með kjarnavopn eða aðrar kjarnasprengingar þannig að það stríði gegn samningnum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn frá 10. september 1996.
2. gr. Innlent eftirlit.
Geislavarnir ríkisins fara með eftirlit með framkvæmd laga þessara og samningsins.
Geislavarnir ríkisins geta krafist allra upplýsinga og annarra gagna sem nauðsynleg þykja við athugun einstakra mála.
Geislavarnir ríkisins geta að undangengnum dómsúrskurði gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum. Við framkvæmd athugunar skal lögregla veita Geislavörnum ríkisins nauðsynlega aðstoð.
Á varnarsvæðum fer [ráðherra] 1) með lögsögu, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.
    1)L. 126/2011, 318. gr.
3. gr. Alþjóðlegt eftirlit.
Eftirlitsmönnum sem starfa á grundvelli samningsins er heimilt að framkvæma hér á landi eftirlit sem kveðið er á um í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort Ísland framfylgir samningsskuldbindingum sínum. Fulltrúar [ráðuneytisins] 1) og Geislavarna ríkisins skulu vera viðstaddir slíkar skoðanir.
Eftirlitsmenn sem starfa á grundvelli samningsins skulu njóta friðhelgi og forréttinda hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.
    1)L. 126/2011, 318. gr.
4. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra sem í hlut á getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
5. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn lögum þessum eða reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að sex árum.
Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.
6. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.