Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Kvikmyndalög

2001 nr. 137 21. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2003, sjá þó 14. gr. Breytt með: L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 38/2010 (tóku gildi 7. maí 2010). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 97/2018 (tóku gildi 30. júní 2018).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Markmið laga þessara er að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi.
Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni án tillits til þess með hvers konar tækni eða aðferðum það er framleitt.
1)
    1)L. 97/2018, 1. gr.
2. gr.
[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn kvikmyndamála samkvæmt lögum þessum.
[Kvikmyndaráð er stjórnvöldum og Kvikmyndamiðstöð Íslands til ráðgjafar um kvikmyndamálefni og gerir tillögur til ráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.
Ráðherra skipar átta fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann án tilnefningar, en hina sjö samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins – SÍK, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda, Bandalags íslenskra listamanna, Félags íslenskra leikara og Félags leikskálda og handritshöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í kvikmyndaráð oftar en tvisvar samfleytt.] 2)
    1)L. 126/2011, 335. gr. 2)L. 97/2018, 2. gr.

II. kafli. Kvikmyndamiðstöð Íslands.
3. gr.
Verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands eru að:
    1. [Hafa umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs.] 1)
    2. Stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskum kvikmyndum hér á landi og erlendis og afla upplýsinga um íslenskar kvikmyndir og gefa þær út.
    3. Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.
    4. Stuðla að auknum samskiptum við erlenda aðila á sviði kvikmyndamála.
    1)L. 97/2018, 3. gr.
4. gr.
[Ráðherra] 1) skipar forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn, að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningu.
[Heimilt er að endurskipa forstöðumann einu sinni til fimm ára.
Forstöðumaður fer með yfirstjórn Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hann stýrir daglegum rekstri miðstöðvarinnar, sér um fjárreiður, reikningsskil og gerð fjárhagsáætlana og ber ábyrgð á að miðstöðin starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Forstöðumaður ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma miðstöðvarinnar sé í samræmi við fjárveitingar til hennar og að fjármunir hennar séu nýttir á árangursríkan hátt. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.] 2)
    1)L. 126/2011, 335. gr. 2)L. 97/2018, 4. gr.
5. gr.1)
    1)L. 97/2018, 5. gr.
6. gr.
[Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð og gerð kvikmynda sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun, nema sérstök menningarleg rök leiði til annars, með fjárstuðningi.
Íslensk kvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila.
Heimilt er að veita sérstaka sýningarstyrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd. Með kvikmynd á íslensku er átt við að frumútgáfa kvikmyndar sé með íslensku tali.
Skilyrði í lögum þessum um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi gildir ekki um lögaðila og einstaklinga sem falla undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. þó 5. mgr. um móttöku styrks.
Skilyrða má móttöku styrks því að styrkþegi hafi skráð útibú eða umboðsmann hér á landi.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að falla frá kröfu um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi í því skyni að koma til framkvæmda ákvæðum þjóðréttarsamninga sem gerðir hafa verið við önnur ríki.] 1)
    1)L. 97/2018, 6. gr.
7. gr.
[Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði að fengnum umsögnum og tillögum frá þar til bærum aðilum samkvæmt reglugerð þegar slíkt á við.
Kvikmyndaráðgjafar meta styrkumsóknir vegna kvikmyndagerðar sem berast Kvikmyndasjóði og gera tillögur um styrkveitingar á grundvelli þeirra til forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Kvikmyndaráðgjafar skulu hafa þekkingu eða reynslu á sviði kvikmynda og um þá gilda hæfisreglur stjórnsýslulaga. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar við mat kvikmyndaráðgjafa á umsóknum skulu koma fram í reglugerð.
Við ákvörðun styrks úr Kvikmyndasjóði skal taka tillit til styrkja sem þegar hafa verið veittir til gerðar viðkomandi kvikmyndar og sem vilyrði hafa verið gefin fyrir til að gæta þess að heildarfjárhæð styrks verði ekki umfram þær viðmiðanir sem kveðið er á um í reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og í reglugerð. Komi í ljós að skilyrði í þessum lögum og reglugerð hafi ekki verið uppfyllt, eða kostnaður við verkefnið reynist lægri en gert var ráð fyrir í umsókn, getur komið til endurgreiðslu styrkveitingar.] 1)
    1)L. 97/2018, 7. gr.

III. kafli. Kvikmyndasafn Íslands.
8. gr.
Hlutverk Kvikmyndasafns Íslands er að:
    1. Safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi, þ.m.t. að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
    2. Hafa eftirlit með skylduskilum kvikmyndaefnis samkvæmt lögum um skylduskil til safna.
    3. Standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist.
    4. Sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum safnsins.
    5. Skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir.
    6. [Efla og kynna kvikmyndamenningu á Íslandi á sviði sögulegrar kvikmyndalistar.] 1)
    1)L. 97/2018, 8. gr.
9. gr.
[Ráðherra] 1) skipar forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands til fimm ára í senn. Forstöðumaðurinn skal hafa staðgóða þekkingu á kvikmyndamálum og íslenskri menningarsögu.
[Forstöðumaðurinn fer með yfirstjórn Kvikmyndasafnsins. Hann stýrir daglegum rekstri safnsins, sér um fjárreiður, reikningsskil og gerð fjárhagsáætlana og ber ábyrgð á að Kvikmyndasafn Íslands starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma safnsins sé í samræmi við fjárveitingar til stofnunarinnar og að fjármunir hennar séu nýttir á árangursríkan hátt. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk Kvikmyndasafns Íslands.] 2)
    1)L. 126/2011, 335. gr. 2)L. 97/2018, 9. gr.
10. gr.
[Framleiðendum kvikmynda sem hlotið hafa styrk úr Kvikmyndasjóði er skylt að afhenda Kvikmyndasafni Íslands á stafrænu formi frumskrá kvikmyndar sinnar, sýningarskrár, stiklur og streymisskrár auk útgefinna gagna sem varða kvikmyndina. Nánar skal kveðið á um framkvæmd skila í reglugerð.] 1)
    1)L. 97/2018, 10. gr.
11. gr.
1)
Kvikmyndasafni Íslands er heimilt að taka gjald fyrir eftirtalda þætti þjónustunnar: Útlán á kvikmyndum, kvikmyndasýningar, sérvinnslu skráa og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og hvers konar afritun og fjölföldun, til þess að standa straum af launum og efniskostnaði vegna þessara þátta. Gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skal háð samþykki [ráðherra]. 2)
1)
    1)L. 97/2018, 11. gr. 2)L. 126/2011, 335. gr.

IV. kafli. Önnur ákvæði.
12. gr.1)
    1)L. 97/2018, 12. gr.
13. gr.
[Ráðherra setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og um starfsemi Kvikmyndasjóðs, þar á meðal um undirbúning úthlutunar og greiðslur úr sjóðnum, um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar og um forsendur og tilhögun mats, þar sem m.a. skal líta til jafnrar stöðu kvenna og karla. Þá verði í reglugerð kveðið á um skyldu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um að verða við óskum umsækjenda um endurmat á umsóknum, um málsmeðferð kærumála, um störf kvikmyndaráðgjafa og birtingu upplýsinga fyrir umsækjendur.] 2)
    1)Rg. 229/2003, sbr. 1066/2004, 1118/2007, 133/2009, 1147/2016 og 556/2020. Rg. 446/2015. Rg. 1349/2018. 2)L. 97/2018, 13. gr.
14. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og skulu vera komin að fullu til framkvæmda 1. mars 2003.
Ákvæði til bráðabirgða.1)
    1)L. 97/2018, 14. gr.