Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Íslenskar orkurannsóknir

2003 nr. 86 26. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. apríl 2003 en komu til framkvæmda 1. júlí sama ár. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Íslenskar orkurannsóknir eru sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn [ráðherra]. 1)
    1)L. 126/2011, 374. gr.
2. gr.
Hlutverk Íslenskra orkurannsókna er að vinna að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála eftir því sem stjórn stofnunarinnar ákveður.
3. gr.
Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Íslenskra orkurannsókna til fjögurra ára og ákveður stjórnarlaun.
Stjórnin hefur á hendi stjórn stofnunarinnar og samþykkir fjárhagsáætlun hennar og starfsáætlun fyrir eitt ár í senn. Fjárhagsáætlun skal send ráðherra til staðfestingar.
4. gr.
Forstjóri Íslenskra orkurannsókna er ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Forstjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar og ákveður starfssvið þess. Hann hefur á hendi daglega stjórn Íslenskra orkurannsókna og umsjón með rekstri.
5. gr.
Íslenskar orkurannsóknir starfa á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði og afla sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum eða öðrum verkefnum á starfssviði Íslenskra orkurannsókna.
6. gr.
Íslenskum orkurannsóknum er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð.
7. gr.
Ráðherra getur með reglugerð 1) mælt nánar fyrir um starfsemi Íslenskra orkurannsókna og framkvæmd laga þessara.
    1)Rg. 545/2014.
8. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. júlí 2003.
Ákvæði til bráðabirgða.
Starfsmönnum rannsóknasviðs Orkustofnunar, sem lagt er niður með lögum um Orkustofnun, skal boðið sambærilegt starf hjá Íslenskum orkurannsóknum. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.