Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins

2006 nr. 76 14. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. júní 2006. EES-samningurinn: II. viðauki reglugerð 2679/98.

1. gr.
Ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2679/98 frá 7. desember 1998, um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga milli aðildarríkjanna, skulu hafa lagagildi hér á landi 1) í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.
    1)Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2004 frá 8. júní 2004.
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fylgiskjal.
Reglugerð ráðsins (EB) nr. 2679/98 frá 7. desember 1998 um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga milli aðildarríkjanna
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 235. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
    1) Eins og kveðið er á um í 7. gr. a í sáttmálanum myndar innri markaðurinn svæði án innri landamæra þar sem einkum eru tryggðir frjálsir vöruflutningar í samræmi við 30.–36. gr. sáttmálans.
    2) Brot á þessari meginreglu, eins og eiga sér stað þegar einstaklingar hindra með aðgerðum sínum frjálsa vöruflutninga í tilteknu aðildarríki, geta valdið alvarlegri röskun á eðlilegri starfsemi innri markaðarins og valdið einstaklingunum, sem slíkt bitnar á, alvarlegu tjóni.
    3) Aðildarríkin skulu, til að standa við þær skuldbindingar sem felast í sáttmálanum og einkum til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins, annars vegar láta ógert að samþykkja ráðstafanir eða aðhafast eitthvað sem gæti orsakað viðskiptahindrun og hins vegar skulu þau gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í réttu hlutfalli við aðstæður, til að greiða fyrir frjálsum vöruflutningum á yfirráðasvæði sínu.
    4) Slíkar ráðstafanir mega ekki hafa áhrif á grundvallarréttindi, þ.m.t. réttur eða frelsi til verkfalls.
    5) Þessi reglugerð kemur ekki í veg fyrir neinar aðgerðir, sem kunna að vera nauðsynlegar í tilteknum tilvikum á vettvangi Bandalagsins, til að bregðast við vandamálum í starfsemi innri markaðarins, að teknu tilliti til beitingar þessarar reglugerðar, þar sem það á við.
    6) Aðildarríki hefur eitt til þess vald að viðhalda allsherjarreglu og standa vörð um innra öryggi, sem og til að ákvarða hvort, hvenær og hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar og í réttu hlutfalli við aðstæður til að greiða fyrir frjálsum vöruflutningum á eigin yfirráðasvæði við tilteknar aðstæður.
    7) Upplýsingaskipti milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar um hindranir á frjálsum vöruflutningum skulu vera fullnægjandi og hröð.
    8) Ef hindranir eru fyrir hendi á frjálsum vöruflutningum á yfirráðasvæði aðildarríkis, skal það gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í réttu hlutfalli við aðstæður, til að koma aftur á frjálsum vöruflutningum eins fljótt og auðið er á yfirráðasvæði sínu til þess að forða því að röskun sú eða tjón, sem um er að ræða, verði viðvarandi, breiðist út eða magnist sem og að hrun geti orðið í viðskiptum og samningsbundnum tengslum sem að baki þeim liggja. Þetta aðildarríki skal tilkynna framkvæmdastjórninni og, ef eftir því er leitað, öðrum aðildarríkjum um ráðstafanir sem það hefur gert eða hyggst gera til að ná þessu markmiði.
    9) Framkvæmdastjórnin skal, til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt sáttmálanum, tilkynna viðkomandi aðildarríki um að það telji að brot hafi verið framið og skal aðildarríkið svara tilkynningunni.
    10) Í sáttmálanum er ekki kveðið á um aðrar heimildir fyrir samþykki þessarar reglugerðar en þær sem er að finna í 235. gr.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. „hindrun“: hindrun frjálsra vöruflutninga milli aðildarríkja, sem rekja má til aðildarríkis, hvort sem hún felst í aðgerð eða aðgerðarleysi af þess hálfu, er kann að fela í sér brot á 30.–36. gr. sáttmálans og sem:
    a) hefur í för með sér alvarlega röskun á frjálsum vöruflutningum með því að koma í veg fyrir, áþreifanlega eða með öðrum hætti, tefja eða beina annað innflutningi til, útflutningi frá eða flutningi í gegnum aðildarríki,
    b) veldur einstaklingunum, sem hún bitnar á, alvarlegu tjóni, og
    c) krefst tafarlausra aðgerða til að komið verði í veg fyrir að röskunin eða tjónið, sem um ræðir, verði viðvarandi, breiðist út eða magnist,
    2. „aðgerðarleysi“: þegar lögbær yfirvöld aðildarríkis láta hjá líða að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í réttu hlutfalli við aðstæður, sem í þeirra valdi standa, til að fjarlægja hindrun, sem einstaklingar hafa skapað með aðgerðum sínum, og tryggja frjálsa vöruflutninga á yfirráðasvæði sínu.
2. gr.
Ekki má túlka þessa reglugerð þannig að hún hafi nokkur áhrif á grundvallarréttindi, eins og þau eru viðurkennd í aðildarríkjunum, þ.m.t. réttur eða frelsi til verkfalls. Til þessara réttinda getur einnig talist réttur eða frelsi til annarra aðgerða sem fellur undir sérstök samskiptakerfi aðila vinnumarkaðarins í aðildarríkjunum.
3. gr.
1. Ef hindrun er fyrir hendi eða hætta er á hindrun
    a) skal hvert það aðildarríki sem býr yfir upplýsingum, sem skipta máli (hvort sem um er að ræða aðildarríki, sem hlut á að máli, eða ekki), þegar í stað senda þær til framkvæmdastjórnarinnar, og
    b) skal framkvæmdastjórnin þegar í stað senda aðildarríkjunum þessar upplýsingar ásamt hverjum þeim upplýsingum, fengnum eftir öðrum heimildum, sem hún telur að skipti máli.
2. Viðkomandi aðildarríki skal svara eins fljótt og unnt er beiðnum framkvæmdastjórnarinnar og annarra aðildarríkja um upplýsingar um eðli hindrunarinnar eða hættunnar og um það til hvaða aðgerða það hefur gripið eða hyggst grípa. Upplýsingar, sem fara á milli aðildarríkjanna, skal einnig senda til framkvæmdastjórnarinnar.
4. gr.
1. Þegar hindrun er fyrir hendi skal viðkomandi aðildarríki, með fyrirvara um 2. gr.,
    a) gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í réttu hlutfalli við aðstæður, til að tryggja frjálsa vöruflutninga á yfirráðasvæði aðildarríkisins í samræmi við sáttmálann, og
    b) tilkynna framkvæmdastjórninni um þær aðgerðir sem yfirvöld þess hafa gripið til eða hyggjast grípa til.
2. Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað senda upplýsingarnar sem hún fær, skv. b-lið 1. mgr., til hinna aðildarríkjanna.
5. gr.
1. Telji framkvæmdastjórnin að hindrun sé fyrir hendi í aðildarríki skal hún tilkynna viðkomandi aðildarríki um ástæðurnar fyrir þessari niðurstöðu sinni og óska eftir því við aðildarríkið að það geri allar nauðsynlegar ráðstafanir, í réttu hlutfalli við aðstæður, til að afnema fyrrnefnda hindrun innan frests sem hún ákvarðar með hliðsjón af því hversu brýnt málið er.
2. Framkvæmdastjórnin skal hafa hliðsjón af 2. gr. þegar hún kemst að niðurstöðu.
3. Framkvæmdastjórninni er heimilt að birta texta tilkynningarinnar, sem hún sendi viðkomandi aðildarríki, í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og skal þegar í stað senda textann til allra aðila sem óska eftir því.
4. Aðildarríkið skal, innan fimm virkra daga frá viðtöku textans, annaðhvort:
    tilkynna framkvæmdastjórninni um þær aðgerðir sem það hefur gripið til eða hyggst grípa til til framkvæmdar 1. mgr., eða
    leggja fram rökstudda greinargerð fyrir því að ekki sé um að ræða hindrun sem brýtur í bága við 30.–36. gr. sáttmálans.
5. Í undantekningartilvikum getur framkvæmdastjórnin heimilað lengingu á frestinum, sem greint er frá í 4. mgr., ef aðildarríkið leggur fram tilhlýðilega rökstudda beiðni, og rökin, sem það leggur til grundvallar, teljast fullnægjandi.
   Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.