Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi

2013 nr. 41 5. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. apríl 2013. Breytt með: L. 131/2014 (tóku gildi 31. des. 2014). L. 64/2015 (tóku gildi 18. júlí 2015).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Vegna fyrirhugaðrar stofnunar og reksturs atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæði í landi Bakka í Norðurþingi, þar sem gert er ráð fyrir verulegri fjárfestingu sem hafi jákvæð þjóðhagsleg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif á Húsavík og nágrenni þess, og í þeim tilgangi að byggja upp nauðsynlega innviði vegna iðnaðarsvæðisins, er:
    a. ráðherra, f.h. ríkissjóðs, heimilt, að fengnum heimildum í fjárlögum, að semja við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka …, 1)
    b. ráðherra sem fer með lánsfjármál ríkissjóðs heimilt, f.h. ríkissjóðs, að fengnum heimildum í fjárlögum, að semja við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um víkjandi lán til hafnarframkvæmda fyrir allt að 819 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012.] 2)
Gera skal grein fyrir fjárveitingum og lánsfjárhæð hvers árs í frumvarpi til fjárlaga fyrir það ár.
Ekki er heimilt að hefja vinnu við framkvæmdir vegna uppbyggingarinnar nema tryggt sé með samningi við félag að hafin verði atvinnustarfsemi orkufreks iðnaðar í landi Bakka.
    1)L. 64/2015, 1. gr. 2)L. 131/2014, 1. gr.
2. gr.
Heimild til gerðar samninga skv. a-lið 1. mgr. 1. gr. og til lánveitingar vegna hafnarframkvæmda skv. b-lið 1. mgr. 1. gr. skal ekki taka gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir þeim.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Lög þessi falla úr gildi 1. janúar [2016] 1) hafi uppbygging skv. a- og b-lið 1. mgr. 1. gr. ekki hafist fyrir þann tíma.
    1)L. 131/2014, 2. gr.