Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi

2013 nr. 52 8. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. apríl 2013.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Heimild.
Ráðherra er veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við PCC SE (eigandinn) og PCC BakkiSilicon hf. (félagið) en félagið mun reisa og reka kísilver á Íslandi (verkefnið).
Þrátt fyrir að ákvæði í lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, heimili frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld í 13 ár frá undirritun samnings en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu er heimilt að láta samning við félagið gilda í 14 ár í stað 13 ára, en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
Fjárfestingarsamningur sá sem ráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda. 1)
Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    1) Augl. 450/2014.
2. gr. Verkefnið.
Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið byggir kísilver í landi Bakka í Norðurþingi til framleiðslu á kísilmálmi og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi eins og nánar verður kveðið á um í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma laga þessara á milli ráðherra, félagsins og eigandans. Kísilverið er hannað til framleiðslu á allt að 33 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári og með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin upp í 66 þúsund tonn af kísilmálmi á ári þegar aðstæður leyfa.
3. gr. Skattlagning og gjaldtaka.
Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er fyrir mælt í lögum þessum.
Félagið skal eiga rétt á ívilnunum í samræmi við lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, þ.m.t. þjálfunarstyrk skv. 12. gr. laganna að fenginni heimild í fjárlögum, enda uppfylli fjárfestingarverkefnið skilyrði þeirra fyrir veitingu ívilnana. Félagið skal einnig eiga rétt á ívilnunum samkvæmt eftirfarandi sérákvæðum:
    1. Þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skal félagið greiða 15% tekjuskatt. Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lægra en 15% skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið á gildistíma fjárfestingarsamningsins. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en þó aldrei vera hærra en 15%.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal félagið undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu fjárfestingarverkefnisins.
    3. Þrátt fyrir ákvæði 6. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal skatthlutfall fasteignaskatts félagsins vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
    4. Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal félagið vera undanþegið almennu tryggingagjaldi sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að:
    a. ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 og SO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
    b. ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slík gjöld og skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
    c. ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
Á gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það fremur en sérákvæði fjárfestingarsamningsins. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní á almanaksári áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
4. gr. Lóðarframkvæmdir.
Með samningi sem er gerður samkvæmt lögum þessum, og að fenginni heimild á fjárlögum, má ákveða að ríkissjóður taki þátt í kostnaði vegna undirbúnings á iðnaðarlóð félagsins í landi Bakka að fjárhæð 3,3 milljónir evra. Útborgun greiðslna samkvæmt þessari heimild skal innt af hendi í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi evru (kaupgengi) eins og það er skráð við hverja útborgun, samkvæmt sérstökum samningi sem gerður verður þar um við framkvæmdaraðila.
5. gr. Framsal.
Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigandans á fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem skulu koma fram í fjárfestingarsamningnum.
6. gr. Lögsaga og lausn deilumála.
Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem eru gerðir innan ramma þessara laga, skal lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó í fjárfestingarsamningi að semja um að ágreiningi skuli vísa til gerðardóms.
7. gr.
Samningur sem er gerður samkvæmt lögum þessum skal ekki taka gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir honum.
8. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.