Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi

2015 nr. 6 4. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 7. febrúar 2015.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.
Ráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem verður að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi, sbr. skilgreiningu á hugtökunum kolvetni og vinnsla í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.
Hlutafé félagsins við stofnun er 20 millj. kr. sem greiðast úr ríkissjóði. Við stofnun félagsins er allt hlutafé þess í eigu íslenska ríkisins og er sala þess og ráðstöfun óheimil. Öll hlutabréf í félaginu skulu ávallt vera eign ríkissjóðs.
Sá ráðherra sem fer með orkumál annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins.
Sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.
Hlutafélaginu er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
2. gr. Tilgangur hlutafélagsins.
Tilgangur hlutafélagsins er að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi eins og um þá starfsemi er fjallað í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001. Hlutafélagið skal sjá um alla umsýslu og framkvæmd varðandi þátttöku ríkisins í útgefnum kolvetnisleyfum, innan íslenskrar lögsögu eða utan, eða tengdri starfsemi.
Tilgangi og verkefnum hlutafélagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
3. gr. Rekstur hlutafélagsins.
Hlutafélagið skal vera leyfishafi fyrir hönd íslenska ríkisins í leyfum sem ríkið er þátttakandi í og móttekur greiðslur á grundvelli þeirra. Í einstökum leyfum skal félagið hafa réttindi og skyldur sem leyfishafi í samræmi við samstarfssamninga leyfishafa í hverju tilviki fyrir sig.
Hlutafélaginu er heimilt að starfa á landgrunni Íslands og á þeim svæðum utan landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunns Íslands þar sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild í leyfum samkvæmt alþjóðasamningum eða öðrum heimildum.
Kostnaður við umsjón, rekstur og fjárfestingar, sem og annar kostnaður sem fellur til við umsjón leyfa samkvæmt lögum þessum, skal greiddur af hlutafélaginu.
Ráðherra er heimilt að gera þjónustusamning við hlutafélagið þar sem skilgreind verða verkefni félagsins við umsýslu einstakra leyfa þegar ákvörðun um einstök leyfi liggur fyrir og við þá starfsemi og þjónustu sem félagið mun sinna sem leyfishafi og hvernig farið verði með kostnað sem félagið ber áður en leyfi skila félaginu rekstrartekjum.
Hlutafélagið getur ekki undirgengist lánaskuldbindingar eða aðrar fjárhagslegar ábyrgðir án samþykkis ráðherra.
Hlutafélagið greiðir arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, samkvæmt ákvörðun aðalfundar ár hvert.
4. gr. Stjórn og stjórnendur hlutafélagsins.
Stjórn hlutafélagsins skal skipuð þremur mönnum og einum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
Stjórn hlutafélagsins skal tryggja að farið sé með leyfishlut ríkisins á ábyrgan hátt í samræmi við viðurkennda viðskiptahætti og umhverfiskröfur og gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku félagsins í kolvetnisstarfsemi. Stjórnin skal fjalla um samsetningu á þeim leyfum sem eru í eignasafni félagsins og ef ástæða þykir til leggja fram tillögur um breytingar þar um fyrir aðalfund.
Stjórnin ræður framkvæmdastjóra hlutafélagsins sem ræður aðra starfsmenn félagsins.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á orkumálum og rekstri fyrirtækja.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. eða lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri og aðrir sem starfa á vegum hlutafélagsins skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þeir skulu jafnframt upplýsa stjórn um hagsmunatengsl eða önnur atriði sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa.
5. gr. Skyldur stjórnar.
Stjórn hlutafélagsins sem er sjálfstæð í störfum sínum ber ábyrgð á rekstri og starfsemi félagsins gagnvart eiganda sínum í samræmi við lög þessi, lög um hlutafélög og eigendastefnu ríkisins í hlutafélögum.
Stjórnin skal hafa sjálfstæða aðgæslu- og eftirlitsskyldu vegna reksturs og starfsemi hlutafélagsins, hafa yfirsýn yfir starfsemina og veita stjórnendum eðlilegt aðhald.
Stjórnin skal setja sér skriflegar starfsreglur sem fjalla nánar um hlutverk og störf stjórnar, verkaskiptingu hennar og samskipti við stjórnendur hlutafélagsins.
Varðandi skyldur stjórnar og stjórnenda að öðru leyti vísast til laga og reglna um hlutafélög, eigendastefnu ríkisins og samþykkta hlutafélagsins.
6. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélags samkvæmt lögum þessum liggur fyrir.