Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stöðugleikaskatt

2015 nr. 60 9. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 17. júlí 2015. Breytt með: L. 107/2015 (tóku gildi 6. nóv. 2015; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 6. gr.). L. 150/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Markmið og ráðstöfun.
Markmið laga þessara er að stuðla að losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Í því skyni er mælt fyrir um skattlagningu sem ætlað er að mæta neikvæðum áhrifum í tengslum við uppgjör eða efndir skattskyldra aðila í kjölfar slitameðferðar þeirra.
Þeir fjármunir sem falla til við skattlagningu samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð og skal ráðstöfun fjárins samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áætlaðri meðferð og ráðstöfun fjármunanna. Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.
2. gr. Skattskyldir aðilar.
Skylda til að greiða skatt, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum, hvílir á lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, eða hafa lokið slitameðferð, sbr. 103. gr. a sömu laga, vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta. Hið sama á við um lögaðila sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og hafa lokið slitameðferð, sbr. 103. gr. a sömu laga, með nauðasamningi en hafa ekki getað efnt greiðslur samkvæmt nauðasamningi eða skuldagerningum sem gefnir voru út í tengslum við nauðasamning vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
3. gr. Skattstofn.
Til skattstofns teljast heildareignir skattskylds aðila 31. desember 2015.
Eignir skulu metnar á gangvirði eða kostnaðarverði í samræmi við lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og settar reikningsskilareglur.
Hlutabréf í óskráðum hlutdeildar- og dótturfélögum skulu metin til eignar á verði sem svarar til hlutdeildar skattskylds aðila í eigin fé viðkomandi félags eins og það er birt í ársreikningi 2015, þó aldrei á lægra verði en nafnverði nema hlutafé sé talið tapað og bókfært eigið fé neikvætt. Hlutabréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða á sambærilegum markaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu metin á markaðsverði. Hlutabréf í öðrum félögum skulu metin á kostnaðarverði, þó aldrei á lægra verði en nafnverði.
Önnur verðbréf skv. a-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða á sambærilegum markaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu metin á markaðsverði.
Útlán, kröfur, peningamarkaðslán og hvers konar kröfutengd réttindi, önnur en þau sem falla undir 3. mgr., skulu metin á gangvirði.
Innstæður í bönkum skal telja til eignar að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum.
Aðrar eignir skulu metnar á gangvirði eða kostnaðarverði í samræmi við fyrri reikningsskil skattaðila.
Séu eignir skráðar í annarri mynt en íslenskum krónum skal umreikna virði þeirra miðað við miðgengi viðkomandi myntar eins og það er skráð af Seðlabanka Íslands 31. desember 2015.
4. gr. Skatthlutfall.
Stöðugleikaskattur er 39% af heildareignum skattskylds aðila skv. 3. gr.
5. gr. Frádráttarliðir.
Frá stöðugleikaskatti skv. 4. gr. er heimilt að draga fjárfestingar skv. 2. mgr. sem skattskyldur aðili skv. 2. gr. gerir í eigin nafni gegn greiðslu í eigin reiðufé í erlendum gjaldeyri eftir 30. júní 2015 til og með 31. desember 2015.
Fjárfestingar sem veita rétt til frádráttar eru:
    1. Frumfjárfesting í skuldabréfi sem gefið er út af innlendum viðskiptabanka eða sparisjóði og skal útgáfan vera samkvæmt útgáfuramma GMTN ( e. Global Medium Term Note) eða EMTN ( e. Euro Medium Term Note), í erlendum gjaldeyri og gjalddagi höfuðstóls skal ekki vera fyrr en að sjö árum liðnum frá útgáfudegi skuldabréfs.
    2. Frumfjárfesting í víkjandi láni í erlendum gjaldeyri sem veitt er til innlends viðskiptabanka eða sparisjóðs þar sem lánstími er eigi skemmri en tíu ár og víkjandi lánið telst til eiginfjárþáttar B í starfsemi viðskiptabankans eða sparisjóðsins, sbr. 1. tölul. 6. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Heildarfjárhæð fjárfestinga sem heimilt er að draga frá stöðugleikaskatti getur numið allt að 20% af heildareignum skv. 3. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. getur heildarfjárhæð fjárfestinga til frádráttar stöðugleikaskatti þó ekki numið hærri fjárhæð en 50 milljörðum kr. og aldrei hærri fjárhæð en sem nemur reiknuðum skatti skv. 4. gr.
Fjárhæð frádráttar vegna fjárfestinga skv. 2. mgr. skal umreikna í íslenskar krónur miðað við miðgengi viðkomandi myntar eins og það er skráð af Seðlabanka Íslands á útgáfudegi.
6. gr. Álagning, gjalddagar, eftirlit, kærur, innheimta og viðurlög.
Stöðugleikaskattur skal lagður á 15. apríl 2016 og skal gögnum til útreiknings og álagningar hans skilað til ríkisskattstjóra fyrir lok mars á því ári og á því formi sem hann ákveður. Gögnin skulu samanstanda af ársreikningi vegna ársins 2015 og sérstakri skýrslu um eignir og mat á einstökum eignaflokkum, skattstofni skv. 3. gr. og frádráttarliðum skv. 5. gr. Skattskyldir aðilar skulu greiða álagðan skatt með fjórum jöfnum greiðslum á eftirtöldum gjalddögum: 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst 2016. Eindagi er síðasti virki dagur hvers þessara mánaða.
Álagning skv. 1. mgr. sætir kæru til ríkisskattstjóra skv. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Úrskurður ríkisskattstjóra um kæru skv. 2. mgr. er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.
Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer eins og við getur átt um álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skattsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. IX.–XIV. kafla þeirra laga [og ákvæðum laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda]. 1) Um viðurlög og málsmeðferð gilda ákvæði XII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    1)L. 150/2019, 22. gr.
7. gr. Álagður skattur.
Skattur samkvæmt lögum þessum telst ekki rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
8. gr. Rétthæð krafna.
Við slit á búi fjármálafyrirtækis skal skattkrafa á grundvelli laga þessara njóta rétthæðar skv. 2. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Sama á við ef slitameðferð lýkur með nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum.
9. gr. Málsmeðferð fyrir dómstólum.
Dómsmál sem rísa kunna vegna laga þessara skulu sæta flýtimeðferð samkvæmt reglum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
10. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð.
11. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
12. gr. Breytingar á öðrum lögum.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu þeir aðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. sömu laga, ekki teljast til skattskyldra aðila samkvæmt lögum þessum hafi þeir lokið slitameðferð með staðfestum nauðasamningi fyrir 15. mars 2016.
Sama tímamark skal gilda við afmörkun á skattskyldu þeirra aðila sem falla undir 2. málsl. 2. gr. laga þessara.
Lengri frestur til að ljúka slitameðferð skv. 1. mgr. er bundinn því skilyrði að þeir aðilar sem undir ákvæðið falla hafi fengið frumvarp að nauðasamningi samþykkt á fundi sem boðaður hefur verið á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lagt fram skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamnings fyrir héraðsdómara skv. IX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., fyrir 31. desember 2015.
Við afmörkun á skattstofni samkvæmt ákvæði þessu skal miða við heildareignir skattskylds aðila 31. desember 2015. Um frádráttarliði frá stöðugleikaskatti fer eftir 5. gr.] 1)
    1)L. 107/2015, 5. gr.