Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC)

2019 nr. 66 24. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 4. júlí 2019; EES-samningurinn: bókun 31 reglugerð 723/2009, 1261/2013.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði.
2. gr. Lögfesting.
Ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 109–116, og reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 92–93, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 frá 20. mars 2015, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 29 frá 19. maí 2016, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
3. gr. Skráning samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.
Ríkisskattstjóri skráir samtök um evrópska rannsóknarinnviði, sem hafa lögboðið aðsetur á Íslandi, innan þriggja mánaða frá því að umsókn var samþykkt skv. 6. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.
Í tilkynningu um stofnun samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal, eftir því sem við á, tilgreina eftirfarandi atriði:
    a. heiti samtakanna,
    b. lögheimili,
    c. tilgang,
    d. stofnendur,
    e. stjórn,
    f. framkvæmdastjórn,
    g. prókúru og
    h. endurskoðendur.
Með tilkynningu skulu fylgja stofnsamþykktir samtakanna.
Breytingar á samþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið skal tilkynna innan mánaðar sé ekki kveðið á um annað í lögum þessum eða reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009. Krefjast má sannana fyrir lögmæti breytinga. Tilkynningar um breytingar skulu undirritaðar af meiri hluta stjórnar eða prókúruhafa.
Samtökum um evrópska rannsóknarinnviði er skylt að hafa skammstöfunina ERIC í heiti sínu.
Um stofnun og skráningu samtaka um evrópska rannsóknarinnviði gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 og eftir því sem við á ákvæði laga um fyrirtækjaskrá.
4. gr. Slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði með lögboðið aðsetur á Íslandi, í samræmi við 2. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009, skulu samtökin birta í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa samtakanna um að tilkynna kröfur sínar til stjórnar samtakanna innan sex vikna frá birtingu áskorunarinnar. Þekktum kröfuhöfum skal jafnframt send tilkynning um slitin sé þess kostur.
Tilkynning um lok slitameðferðar samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal send ríkisskattstjóra innan tíu daga frá birtingu hennar og skal tilkynningin skráð í fyrirtækjaskrá. Um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði gilda ákvæði 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.
5. gr. Reglugerð.
Ráðherra getur með reglugerð 1) kveðið nánar á um ferli sem varðar umsóknir um þátttöku Íslands í ERIC-samtökum.
    1)Rg. 1400/2021.
6. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.