Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017

2019 nr. 128 6. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. desember 2019.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Ráðherra er heimilt að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 í máli nr. 521/2017.
Bætur skulu greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. Fjárhæð bóta skal meðal annars miðast við lengd frelsissviptingar.
2. gr.
Um greiðslur samkvæmt lögum þessum fer skv. 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum. Greiðslurnar mynda hvorki stofn til frádráttar vegna annarra greiðslna sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða úr lífeyrissjóðum, né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.
Kjósi aðili skv. 2. mgr. 1. gr. að leita réttar síns fyrir dómi skal við ákvörðun bóta draga frá verðmæti bóta sem kunna að hafa verið greiddar samkvæmt lögum þessum.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi en heimild ráðherra skv. 1. gr. fellur úr gildi 30. júní 2020.