Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um eftirlaun alþingismanna

1965 nr. 46 14. maí


1. gr.
     Alþingismenn skulu greiða í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins 4% — fjóra af hundraði — af þingfararkaupi sínu, eins og það er á hverjum tíma. Skal upphæðin dragast frá kaupinu mánaðarlega og greiðast sjóðnum ásamt mótframlagi, er greiðist af alþingiskostnaði, að upphæð 6% — sex af hundraði — af mánaðarlega greiddu þingfararkaupi. Alþingismenn skulu vera í sérstakri deild innan lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með sérstöku reikningshaldi. Þátttaka í alþingismannadeild sjóðsins hefur ekki áhrif á rétt né skyldur alþingismanna til að vera í öðrum deildum sjóðsins. Alþingismenn njóta að öðru leyti sömu réttinda og bera sömu skyldur og aðrir sjóðfélagar, meðan þeir eiga sæti á Alþingi, nema annars sé getið í lögum þessum.

2. gr.
     [Fyrrverandi alþingismaður á rétt á eftirlaunum úr sjóðnum þegar svo stendur á að:
1.
Hann verður 65 ára.
2.
Hann lætur af þingmennsku, enda verði hann 65 ára innan 4 ára frá því þingmennsku hans lýkur.
3.
Samanlagður aldur hans og tvöfaldur sá tími, sem hann hefur setið samtals á þingi, nær 95 árum, enda hafi hann náð 60 ára aldri.
4.
Hann verður öryrki. Þegar talað er um öryrkja í lögum þessum er átt við 75% örorku eða meira. Heimilt er þó stjórn sjóðsins að ákveða, ef sérstaklega stendur á, að greiða skuli fyrrverandi alþingismanni, sem aflað hefur sér eftirlaunaréttar samkvæmt lögum þessum, hluta af eftirlaunum hans, en aldrei meira en 50% eftirlaunanna, þótt örorka hans nái ekki 75%. Í slíkum tilvikum skal farið eftir meginreglum 13. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.]1)

1)L. 73/1982, 1. gr.


3. gr.
     [Fyrrverandi alþingismaður, sem uppfyllir ákvæði 2. gr. laga þessara, á eftirlaunarétt sem hér segir:
1.
Fyrir þingsetu í samtals 5 ár eða skemur: 2% fyrir hvert heilt ár og samsvarandi fyrir hluta úr ári.
2.
Fyrir þingsetu í samtals allt að 9 ár: 30%.
3.
Fyrir þingsetu í samtals allt að 12 ár: 40%.
4.
Fyrir þingsetu í samtals allt að 15 ár: 50%.
5.
Fyrir þingsetu í samtals allt að 18 ár: 55%.
6.
Fyrir þingsetu í samtals allt að 21 ár: 60%.
7.
Fyrir þingsetu í samtals 21 ár eða lengur: 62% að viðbættum 2% fyrir hvert heilt ár, og samsvarandi fyrir hluta úr ári, sem þingseta er samtals lengri en 21 ár. Eftirlaunarétturinn verður þó aldrei meiri en 70%.

     Fyrir þingsetu umfram 5 ár samkvæmt töluliðum 2 til 6 skal lífeyrisréttur breytast hlutfallslega fyrir hvert ár innan hinna tilgreindu tímabila.
     Eftirlaunin skulu fylgja þingfararkaupi alþingismanns eins og það er á hverjum tíma og vera sá hundraðshluti þess, sem eftirlaunarétturinn samkvæmt 1. mgr. segir til um.
     Eftirlaun greiðast ekki meðan hinn fyrrverandi alþingismaður fær greidd biðlaun samkvæmt 8. gr. laga nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna.1)]2)

1)l. 88/1995, 13. gr.2)L. 73/1982, 2. gr.


[4. gr.]1)
     [Eftirlifandi maki alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns á rétt á eftirlaunum að honum látnum. Eftirlaunaréttur maka skal vera 20% að viðbættum helmingnum af þeim hundraðshluta sem hinn látni alþingismaður hafði áunnið sér sem eftirlaunarétt skv. 3. gr.
     Eftirlaun maka skulu fylgja þingfararkaupi alþingismanns eins og það er á hverjum tíma og vera sá hundraðshluti þess sem eftirlaunarétturinn samkvæmt 1. mgr. segir til um.]2)

1)L. 73/1982, 3. gr.2)L. 73/1982, 4. gr.


[5. gr.
     Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 18 ára, skulu fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þar til þau eru fullra 18 ára að aldri, enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að nokkru eða öllu leyti. Sama gildir um börn eða kjörbörn, er sá maður lætur eftir sig, er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, er hann andaðist. Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga. Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga, er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo, að barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri eins og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri. Fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóti sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.]1)

1)L. 73/1982, 5. gr.


6. gr.
     Nú andast alþingismaður eða fyrrverandi alþingismaður, sem öðlast hefur rétt til eftirlauna samkvæmt 3. gr. laga þessara, áður en hann nær 65 ára aldri, og á þá maki hans, ef á lífi er, rétt til þess hundraðshluta af eftirlaunum hins látna, sem 5. gr. laga þessara segir til um.

7. gr.
     [Lífeyrir samkvæmt lögum þessum greiðist án tillits til lífeyris, er sjóðfélagi á rétt á úr öðrum deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og öðrum lögboðnum lífeyrissjóðum og hefur ekki áhrif á slík réttindi að öðru leyti en um getur í 2. mgr.
     Nú hefur fyrrverandi alþingismaður áunnið sér eftirlaunarétt í hinni almennu deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins samtímis því að hann ávann sér rétt í alþingismannadeild sjóðsins, án þess þó að launaskerðing samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna,1) eða ákvæði eldri þingfararkaupslaga hafi skert eftirlaunaréttinn í almennu deildinni og skulu þá eftirlaunin úr alþingismannadeildinni lækka um sömu upphæð og því nemur sem eftirlaunin úr almennu deildinni hefðu lækkað ef eftirlaunarétturinn þar hefði skerst í samræmi við launaskerðingu þingfararkaupslaga eins og þau voru á hverjum tíma.]2)

1)l. 88/1995, 4. gr.2)L. 73/1982, 6. gr.


8. gr.
     Halli, sem verða kann á lífeyrissjóði alþingismanna, ef iðgjöld í sjóðinn endast ekki til greiðslu eftirlauna til fyrrverandi alþingismanna, eða lífeyris til maka þeirra, greiðist af alþingiskostnaði.

[Ákvæði til bráðabirgða.
     Nú hefur maður þegar eða við lok yfirstandandi kjörtímabils öðlast betri rétt samkvæmt þeim reglum, sem settar voru með lögum nr. 46 14. maí 1965, og heldur hann þá rétti til eftirlauna samkvæmt þeim reglum.]1)

1)L. 73/1982, brbákv.