Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.
Lög um vitamál
1981 nr. 56 29. maí
I. kafli.Yfirstjórn.
1. gr. Samgönguráðherra fer með yfirstjórn vitamála.
2. gr. Vitastofnun Íslands hefur með höndum framkvæmd vitamála, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
[Vitamálastjóri veitir Vitastofnun Íslands forstöðu. Hann er skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn en gegnir jafnframt starfi hafnamálastjóra. Heimilt er að endurskipa vitamálastjóra svo oft sem verða vill.]1)
Ráðherra ræður annað starfslið Vitastofnunar.
Við Vitastofnun skal starfa skipstjórnarmenntaður maður, ráðinn að fenginni umsögn Vitanefndar. Hann skal m.a. annast eftirlit vitakerfisins.
1)L. 18/1987, 1. gr.
II. kafli.Verkefni Vitastofnunar Íslands.
3. gr. Verkefni Vitastofnunar Íslands er að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum til öryggis siglinga við Íslandsstrendur og á fiskimiðunum í kringum landið, með þeim undantekningum, er síðar getur.
Til slíkra leiðbeininga teljast m.a. vitar og önnur föst merki á landi, fljótandi leiðarmerki og radíómerki til staðarákvörðunar.
Vitastofnun Íslands skal einnig hlutast til um útgáfu upplýsinga um þau leiðbeiningarkerfi, sem fyrir hendi eru á áðurgreindu svæði, og stuðla að útgáfu korta, er innihalda nauðsynlegar upplýsingar til að sjófarendur geti notað áðurnefnd hjálpartæki. Vitastofnun Íslands skal hafa eftirlit af hálfu ríkisins með uppsetningu og rekstri leiðarmerkja, sem einstök sveitarfélög eða einstaklingar setja upp. Vitastofnunin skal annast, að beiðni Veðurstofu Íslands, veðurathuganir á vitastöðum. Þá fer Vitastofnunin með leiðsögumál, svo sem nánar er tilgreint í lögum.
III. kafli.Vitanefnd.
4. gr. Vitanefnd, skipuð fulltrúum farmanna, útgerðarmanna og fiskimanna, skal hafa lagt fram álit sitt í öllum stefnumarkandi málum varðandi starfsemi Vitastofnunar Íslands áður en endanleg ákvörðun ráðuneytisins er tekin.
5. gr. Vitanefnd skipa sex menn og jafnmargir varamenn til fjögurra ára í senn. Fimm skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu eftirtalinna samtaka, sem tilnefna einn fulltrúa hvert: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og samtök ísl. farmflytjenda. Ráðherra skipar sjötta manninn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann Vitanefndar.
Vitamálastjóri situr fundi Vitanefndar.
Heimilt skal ráðherra, ef ástæða þykir til, að fjölga fulltrúum í Vitanefnd, enda miði fjölgunin að því, að sjónarmið notenda og þeirra, sem bera kostnað af starfi Vitastofnunar Íslands samkvæmt V. kafla þessara laga, komi sem best fram. Þá skal Landhelgisgæslunni, Flugmálastjórn, Siglingamálastofnun ríkisins, Rannsóknarnefnd sjóslysa og Slysavarnafélagi Íslands gefinn kostur á að eiga fulltrúa í Vitanefnd þegar rætt er um mál er snerta starfsemi viðkomandi aðila.
6. gr. Formaður Vitanefndar kveður nefndina saman til funda svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Formaður undirbýr fundina ásamt vitamálastjóra. Vitanefnd skal fjalla um breytingar á álögðu vitagjaldi, nýbyggingar vita, meiri háttar endurbætur og breytingar, rekstur vitakerfisins, svo og verulegar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi.
Þá skal nefndin segja álit sitt á uppsetningu nýrra leiðarmerkja á vegum annarra aðila en ríkisins. Einnig skal nefndin fjalla um niðurfellingu þeirra eða annarra hjálpargagna fyrir sjófarendur.
IV. kafli.Landsvitar og hafnarvitar.
7. gr. Vitakerfi Íslands greinist í tvo meginþætti, landsvita og hafnarvita.
Til landsvitakerfisins heyra í meginatriðum allir þeir vitar og önnur leiðarmerki, er telja má að þjóni almennum siglingum við ströndina ásamt fiskveiðum.
Hafnarvitar teljast þeir vitar og önnur leiðarmerki, er eingöngu eru reist til að leiðbeina skipum inn á hafnarsvæði eða um ákveðnar hafnir. Með hafnarsvæði er hér átt við það svæði, er lögsaga hafnarinnar nær yfir.
Við ákvörðun um, hvaða leiðarmerki skulu tilheyra landsvitakerfinu, skal leita álits Vitanefndar.
Ef hafnarstjórn eða einstaklingur vill setja upp leiðarmerki fyrir sjófarendur, skal gerð þess og staðsetning ákveðin í samráði við Vitastofnun Íslands, sem leitar umsagnar Vitanefndar um málið. Leiðarmerki má ekki taka í notkun fyrr en úttekt hefur farið fram af hálfu Vitastofnunar Íslands, sem þá sér um að merkið verði auglýst, svo sem nánar er greint í lögum þessum.
Vitastofnun Íslands skal sjá um að landsvitakerfið starfi svo sem til er ætlast og því er lýst í vitaskrá. Vitastofnunin skal jafnframt hafa eftirlit með hafnarvitum.
Hafnarstjórn eða einstaklingur, sem fengið hefur leyfi til og sett upp leiðarmerki, er skuldbundinn til að viðhalda merkinu og tilkynna Vitastofnun Íslands tafarlaust um allar breytingar, er á því verða. Ef merki er ekki nægilega viðhaldið að dómi Vitastofnunar, er henni heimilt að annast nauðsynlegar lagfæringar á kostnað eiganda. Óski hafnarstjórn eða einstaklingur að leggja niður eða breyta leiðarmerki, skal um það sótt til Vitastofnunar Íslands.
Vitastofnun Íslands getur, að fenginni umsögn Vitanefndar, krafist þess, að hafnarstjórn láti gera á eigin kostnað þá vita og önnur leiðarmerki, sem Vitastofnun Íslands telur nauðsynlegt til öryggis siglinga um viðkomandi hafnarsvæði.
8. gr. Óheimilt er að byggja hús eða mannvirki, er skyggi á leiðarmerki frá sjónum yfir þann boga sjóndeildarhringsins, sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Vitastofnun Íslands látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess, ef brotið er á móti þessu.
Óheimilt er að setja upp ljós eða önnur merki, sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum.
9. gr. Hver landeigandi er skyldur til að láta af hendi mannvirki og land, er þarf til vitabygginga samkvæmt lögum þessum, svo og til íveruhúsa og búskapar handa vitagæslumönnum. Enn fremur til þess að gera brautir og vegi í því sambandi og til að leyfa, að tekin verði í landi hans grjót, möl og önnur jarðefni, og þola þær eignakvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti, sem vitabyggingin hefur í för með sér, allt þó gegn því, að fullar bætur komi fyrir.
Um ákvörðun bóta skal farið eftir lögum nr. 11 6. apríl 1973 um framkvæmd eignarnáms.
V. kafli.Vitagjald.
10. gr. Til að standa straum af kostnaði við rekstur Vitastofnunar Íslands skal greitt vitagjald af skipum þeim, er sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu. Gjald þetta skal aðeins heimilt að nota í áðurnefndum tilgangi. Heimilt er að færa fjármagn á milli fjárlagaára.
11. gr. [Vitagjald skal greitt af brúttótonnatölu skips.
Af öllum íslenskum skipum, stærri en 10 brúttótonn, skal greitt vitagjald einu sinni á ári. Af öllum erlendum skipum, sem setja farþega eða vörur á land, skal greitt vitagjald við hverja komu til landsins sem svarar til 1/4 hluta af almenna vitagjaldinu, mest fjórum sinnum á ári.]1)
1)L. 63/1995, 1. gr.
12. gr. Vitagjald skal ákveðið í reglugerð1) að fengnum tillögum Vitanefndar, svo og annað það, er snertir innheimtu gjaldsins.
1)Rg. 589/1991
.
VI. kafli.Upplýsingaskylda.
13. gr. Vitastofnun Íslands skal sjá um, að allar breytingar á leiðbeiningum til öryggis siglinga verði tilkynntar sjófarendum. Auglýsingar skulu birtar minnst mánaðarlega í Tilkynningum til sjófarenda, er Sjómælingar Íslands gefa út.
Upplýsingar, er varða öryggi sjófarenda og ekki verða auglýstar með nægum fyrirvara í Tilkynningum til sjófarenda, skulu tilkynntar um strandstöðvar Landssímans og í útvarpi þegar þörf krefur.
Sérhverjum, sem annast rekstur leiðarmerkis, er skylt að koma tilkynningum um breytingar og bilanir til Vitastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má, en stofnunin sér síðan um birtingu þeirra. Á sama hátt ber öllum, sem verða varir við bilanir í vitakerfi landsins, að senda tilkynningar þar um til Vitastofnunar Íslands svo fljótt sem verða má. Enn fremur skal Vitastofnun Íslands tilkynnt um alla farartálma, er verða á almennri siglingaleið og ekki er getið í sjókortum eða tilkynningum til sjófarenda.
VII. kafli.Farartálmar.
14. gr. Ef skip eða annað fljótandi far ferst eða strandar á siglingaleið, ber eiganda þess að tilkynna um atburðinn tafarlaust til Vitastofnunar Íslands, sem síðan merkir staðinn, ef ástæða er talin til.
Eiganda farsins skal skylt að fyrirmælum Vitastofnunar Íslands að gera þær ráðstafanir, sem taldar eru nauðsynlegar til öryggis fyrir almennar siglingar og fiskveiðar.
Að liðnum gefnum fresti getur Vitastofnun Íslands á kostnað eiganda fjarlægt hverja þá farartálma eða flök, sem hér um ræðir.
Kostnaður við merkingu farartálma skal greiddur af eiganda hans.
VIII. kafli.Vitavarsla.
15. gr. Sérhver viti eða annað leiðarmerki skal vera í vörslu ábyrgs umsjónarmanns. Leiðarmerki, sem eru í eign hafnarsjóða, skulu talin í ábyrgð hafnarstjóra eða hafnarvarðar, og er hafnarstjórn skylt að senda Vitastofnun Íslands tilkynningu um, hver sé ábyrgðarmaður merkisins.
IX. kafli.Ýmis ákvæði.
16. gr. Ráðuneytið skal setja reglugerð1) til nánari skýringar á lögum þessum. Í reglugerðinni skulu jafnframt vera ákvæði um skipulag og starfshætti Vitastofnunar Íslands, þar sem stefnt skal að sem mestri hagræðingu og samvinnu hennar og Hafnamálastofnunar ríkisins.
1)Rg. 118/1912
.
17. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
18. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. ...
Ákvæði til bráðabirgða. ...