146. löggjafarþing — 47. fundur
 23. mars 2017.
fjarfundir á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar, fyrri umræða.
þáltill. SilG o.fl., 273. mál. — Þskj. 380.

[15:27]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nú tillögu til þingsályktunar um fjarfundi á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir.

Tillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að beita sér fyrir innleiðingu sameiginlegra verklagsreglna fyrir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins um fjarfundi og notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneytin. Ráðherra skipi í þessu skyni starfshóp sem geri tillögur að verklagsreglum og vinni áætlun um innleiðingu nýs verklags. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í september 2017.

Ástæða framlagningar þessa þingmáls er áralöng skoðun mín á verkferlum og verklagi innan stjórnsýslunnar. Eins og við öll vitum er þar víða pottur brotinn eins og gengur og gerist og margt sem má bæta. Þetta þingmál er ákveðin leið til að vekja athygli á hlutum sem er ekki svo flókið að laga en gætu skipt mjög marga miklu máli. Upplifun fólks í landinu yrði meira á þann veg að ráðuneytin og slíkar stofnanir væru þjónustustofnanir fremur en ríki í ríkinu eins og upplifun margra er í dag. Það getur verið óaðgengilegt að fá upplýsingar frá ráðuneytum. Það að ekki sé sjálfsagt mál að óska eftir fjarfundi, það er kannski hægt að finna út úr því en að fólk upplifi að það sé stórkostlegt vesen og vandræði og fólk í ráðuneytunum kunni jafnvel illa á slíkan búnað, er mjög fráhrindandi.

Ég er ekki sú eina sem hef þessa skoðun og þessar vangaveltur. Upphafið að því að ég tók þá ákvörðun að leggja fram slíkt mál er fyrirspurn fyrrverandi hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur en hún lagði fram á 145. löggjafarþingi átta fyrirspurnir til þáverandi ráðherra sem vörðuðu fundahöld ráðuneytanna með starfsmönnum sínum og undirstofnana sem eru á landsbyggðinni, notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum, tæknilega þjálfun starfsmanna á slíkan búnað og fleiri tengd atriði. Af svörum við fyrirspurnum þingmannsins má ráða að sinn er siður í hverju ráðuneyti þegar kemur að fjarfundum og notkun búnaðar til slíkra funda. Í fæstum tilvikum hefur starfsfólk hlotið þjálfun í notkun fjarfundabúnaðar og aðeins í einu tilviki hefur ráðuneyti mótað og kynnt stefnu í þessum málum. Almennt virðist mega ætla að mjög sé á reiki í ráðuneytunum hvort fjarfundir standi til boða þeim aðilum utan höfuðborgarsvæðisins sem þurfa að funda með ráðuneytum, hvort viðeigandi og ásættanlegur búnaður sé til staðar í ráðuneytum og hvort starfsfólk ráðuneyta hafi nauðsynlega tækniþekkingu til notkunar slíks búnaðar. Þetta kemur mjög skýrt fram í þeim svörum sem ráðuneytin sjálf gáfu á sínum tíma.

Fyrirspurnirnar sem vísað er til hér að framan vörðuðu eingöngu fundi ráðuneyta með þeirra eigin starfsfólki og starfsfólki undirstofnana þeirra sem aðsetur hafa á landsbyggðinni. Því má hins vegar ekki gleyma að fjöldinn allur af öðrum aðilum, jafnt einstaklingum og fyrirtækjum sem opinberum aðilum, hefur aðsetur á landsbyggðinni og getur þurft að leita funda hjá ráðuneytum, engu síður en aðilar innan höfuðborgarsvæðisins. Nægir í þessu samhengi að nefna sveitarstjórnir vítt og breitt um landið og mennta- og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, auk þess sem fjöldi fyrirtækja, mikilvægra fyrir atvinnulífið á landsvísu, hefur aðsetur utan borgarmarka.

Framkvæmdarvaldinu, með Stjórnarráð Íslands í broddi fylkingar, ber að vera til staðar fyrir alla landsmenn og þjónusta einstaklinga og lögaðila jafnt, óháð búsetu. Ekki er forsvaranlegt að aðilar með aðsetur á suðvesturhorni landsins hafi greiðara aðgengi að stjórnsýslunni en aðilar af landsbyggðinni þar sem þeir síðartöldu eiga, t.d. vegna ófærðar og kostnaðarsamra ferðalaga, erfiðara um vik að sækja fundi í húsakynni ráðuneyta sem öll hafa aðsetur í Reykjavík. Sterk jafnræðissjónarmið mæla með því að aðilum sem þurfa að sækja fundi hjá ráðuneytum bjóðist að gera það í formi fjarfunda og að tilskilinn búnaður og þekking á notkun hans sé hjá ráðuneytum.

Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er mikilvægt að skýrar og samræmdar reglur gildi um fjarfundi ráðuneyta og atriði tengd slíkum fundum, svo sem um nauðsynlegan búnað og þjálfun starfsfólks, svo að tryggja megi gagnsæi og fyrirsjáanleika varðandi fundahöld. Flutningsmenn telja að með tiltölulega litlum tilkostnaði, sem einkum felst í kaupum á búnaði og þjálfun starfsfólks, megi ná fram bættum stjórnsýsluháttum og miklum sparnaði á ferðakostnaði vegna fundahalda. Í því skyni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að hafa forgöngu um að mótaðar verði verklagsreglur varðandi fjarfundi sem innleiddar verði með samræmdum hætti í öllum ráðuneytum. Samhliða verklagsreglunum verði unnin skýr áætlun um innleiðingu reglnanna. Í reglunum er eðlilegt að m.a. verði fjallað um í hvaða tilfellum ráðuneyti skuli bjóða aðilum sem það fundar með að fundur fari fram með fjarfundabúnaði og hvert verklag í kringum slíka fundi skuli vera. Í innleiðingaráætlun verði m.a. tilgreindur tímarammi og skref í upptöku nýs verklags, fjallað um þjálfun starfsfólks og hvernig aflað skuli nauðsynlegs tæknibúnaðar og tryggt að hann og notkun hans verði samræmd milli ráðuneyta.

Ég vil bæta því við áður en ég lýk máli mínu að það sem einnig mælir með því að þetta mál nái fram að ganga er að tæknin er til staðar, hún er þekkt og flestallir þekkja tæknina. Sveitarstjórnarmenn um allt land sem maður hittir reglulega hafa tamið sér notkun fjarfundabúnaðar í nokkur ár eins og t.d. í samstarfi landshlutasamtaka og fleira, og að sjálfsögðu starfsmenn fyrirtækja. Nú í dag stunda fjölmargir Íslendingar fjarnám hingað og þangað. Fjarfundabúnaður og fjarfundir, þetta er aðgengileg tækni, hún er þekkt, við erum orðin vön að nota hana. Því er í raun stórmerkilegt að ráðuneytin séu ekki komin lengra á þessu sviði en raun ber vitni.

Ég nefndi hér áðan innleiðingaráætlun, mikilvægi hennar. Það er eitt að leggja fram áætlun og svo að fylgja henni eftir. Ég legg áherslu á að auk þess að leggja fram innleiðingaráætlun og tímaramma þurfi að fylgja slíkri áætlun þétt eftir með reglulegum úttektum, a.m.k. fyrst um sinn meðan verið er að koma þessu í fastan farveg.

Ég hef velt fyrir mér í nokkur ár hvort tilefni sé til að leggja fram þetta mál en ástæðan fyrir að ég geri það núna er að hlutirnir hreyfast allt of hægt. Ég tel að með því að leggja fram málið og að það fái umsagnir og umræðu í nefnd í framhaldinu, hvort sem það fæst svo samþykkt að lokum á Alþingi eða ekki, ýti það mögulega við þeim sem ráða á þessu sviði í ráðuneytunum að framkvæma hlutina. Ég trúi ekki öðru en að viljinn sé til staðar. Tæknin er til staðar, þekkingin, kostnaðurinn er tiltölulega lítill — það er ekkert því til fyrirstöðu að hrinda þessu í framkvæmd og ætti að vera algerlega þverpólitísk samstaða þar um. Ég sé að báðir meðflutningsmenn mínir hafa óskað eftir að fá orðið og ég hlakka til að heyra hvað þær hafa að segja og vonast til að málið fái jákvæða afgreiðslu á Alþingi sem fyrst.



[15:36]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir málið og segi við hana einmitt eins og hún sagði að það væri löngu tímabært. Ég hef velt fyrir mér í gegnum þau ár sem ég hef setið á þingi, frá því 2013, hafandi komið inn í fjárlaganefnd áður, og þar áður meira að segja sem sveitarstjórnarfulltrúi utan af landi að vetri til þegar verið var að vinna að fjárlagagerð, að í boði voru 15 mínútur, 15 mínútur með fjárlaganefnd til að reyna að koma málum sínum á framfæri.

Við vorum fyrsta sveitarfélagið, Fjallabyggð, sem óskaði eftir því að fá fjarfund með fjárlaganefnd. Það varð smárekistefna. Svo var orðið við því. Í framhaldinu fóru nokkur sveitarfélög að nýta sér þetta, sérstaklega þau sem eiga um lengri veg að sækja og það er ósköp skiljanlegt því að það er ekki bara kostnaðarsamt, heldur fer í þetta gríðarlegur tími. Fyrir íbúa heiman frá mér þarf kannski ekki nema dagurinn að fara í það, en ef maður er staddur vestur á fjörðum fara jafnvel í þetta tveir heilir dagar, gisting og ýmis annar kostnaður sem til fellur, sem skiptir auðvitað máli. Margt annað væri hægt að gera á stuttum tíma, þótt vissulega sé það svo með þær stofnanir og sveitarfélög sem koma hingað og hitta t.d. fjárlaganefnd, að þau reyna kannski að finna tíma með ráðuneytum í framhaldinu og allt það. En það er nú eiginlega bara til þess, af því að slíkir fundir eru nauðsynlegir að mati sveitarfélaganna, að eiga beint samband við þá sem fjárveitingavaldið hafa.

Þar sem ég nefndi sveitarfélag mitt vil ég segja að þegar við sameinuðumst, árið 2006, Siglufjörður og Ólafsfjörður, voru göngin ekki til. Það var yfir lágheiðina að fara, sem ekki öllum þykir spennandi. Þetta er svona vegur sem helst útlendingar vilja fara í dag því að áhugavert er að keyra hann. En það var þannig að um leið og fyrstu snjóar komu var bara lokað. Eitt af því fyrsta sem sameinað sveitarfélag gerði var að kaupa sér fjarfundabúnað. Allir fundir nefnda og ráða voru fjarfundir, en hins vegar hittust sveitarstjórnarmenn á fundum ævinlega fýsískt. Þá keyrðum við nokkur hundruð kílómetra um lengri veg því að þeir voru haldnir til skiptis í bæjarkjörnunum. En það var svo sem á sig leggjandi og skynsamlegt. Oft og tíðum verður fólk að hittast á rauntíma — ekki á rauntíma heldur fýsískt. En hægt er að gera svo miklu meira af því að nota fjarfundabúnað. Þetta er praktískt og þetta er jafnræðissjónarmið, veitir öllum miklu betra aðgengi að stjórnsýslunni. Það á ekki að vera svona flókið.

Það er svolítið sérstakt að þingið er frekar vanbúið þegar kemur að fjarfundum. Það hefur maður séð, þegar við vorum t.d. að byrja að funda á síðasta kjörtímabili, hvernig staðan var þá. Það hefur vissulega lagast frá því sem var, en betur má ef duga skal. Sérstaklega þá í ráðuneytunum sjálfum. Það er þar sem þarf að taka á fyrst og fremst þannig að allir, heilbrigðisstarfsfólk og aðrir slíkir sem þurfa að eiga samtal beint við ráðherra eða við þessar stofnanir geti gert það án þess að mikill tími fari í að eiga einhvern stuttan fund.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Mér finnst þetta bara hið besta mál og get eiginlega ekki séð hvers vegna ekki ætti að vera hægt að afgreiða það því að það er ekki slíkur kostnaður sem þessu fylgir, held ég. Ég mundi vilja sjá að innleiðing á þessu nýja verklagi yrði raungerð strax í haust helst, en ef ekki þá næstu áramót, eitthvað slíkt, því að auðvitað þurfa allir aðlögun og allt það. En ég held að þetta ætti að vera hægt að innleiða á tiltölulega skömmum tíma.



[15:41]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að leggja fram þetta mál og fylgja eftir þingmálum fyrrverandi hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur sem vakti athygli á þessu, eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði grein fyrir, með fyrirspurnum um þetta efni sem lagðar voru fram á síðasta kjörtímabili. Hér gengur hv. þingmaður skrefinu lengra og leggur til framkvæmd til að laga þann misbrest sem er til staðar samkvæmt svörum sem komu við þeim fyrirspurnum.

Ég ætla ekki að tala lengi um þetta mál en vil fagna því að hér sé lögð til innleiðing á sameiginlegum verklagsreglum fyrir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins vegna fjarfunda og notkunar fjarfundabúnaðar á slíkum fundum í því skyni að auðvelda stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum um allt land samskipti við ráðuneyti.

Það sem kom fram í ræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttir er einstaklega mikilvægt en það er að jafnframt verði lögð áhersla á eftirfylgni verkefnisins, hvernig innleiðingarferlið hafi gengið og hvernig gangi að nýta þessa tækni sem við höfum svo sannarlega og er til staðar á fundum og færa þannig ráðuneyti í ákveðinni mynd út til landsbyggðarinnar og auðvelda sveitarstjórnarmönnum og fólki sem vinnur hjá hinum ýmsu fyrirtækjum, sinnir ýmissi stjórnsýslu og öðrum verkefnum að hafa aðgang að ráðuneytum.

Það er nefnilega svo, allavega í umræðunni, að ýmis þjónusta hefur færst í auknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Fólk þarf oftar nú en áður að sækja þessa þjónustu til höfuðborgarinnar. Það er ábyrgðarhluti að við horfum á hvernig hægt er að auðvelda fólki þessi samskipti. Það kemur mér í raun töluvert á óvart það sem kemur fram í greinargerðinni að í svörum við þeim fyrirspurnum sem voru lagðar fram á síðasta kjörtímabili kemur fram að í fæstum tilvikum hefur starfsfólkið hlotið þjálfun í notkun fjarfundabúnaðar og aðeins í einu tilviki hefur ráðuneyti mótað sér og kynnt stefnu í þessum málum. Það kemur fram að það sé mjög misjöfn aðstaða í þessu á milli ráðuneyta. Það er mjög mikilvægt að það sé samræmi á milli þessara þátta.

Eins og fram kom er tæknin til staðar. Þekkingin er til staðar í flestum tilvikum. Við verðum að horfa á hvernig við getum gert fólki það auðveldara. Það er mikill munur t.d. fyrir fólk á Vestfjörðum, ef ég horfi bara á Norðvesturkjördæmi, að geta sest fyrir framan tölvu eða annan fjarfundabúnað og átt fund. Tíminn er dýrmætur. Þannig nýtist tíminn betur fyrir fólk. Það skiptir öllu máli, fyrir utan þægindin.

Þetta er löngu tímabært verkefni, ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Mig langar einnig að segja að þetta hlýtur að spara í öllu ferlinu, öllu kerfinu, gríðarlega fjármuni því öll ferðalög eru dýr, tíminn kostar peninga. Ég vona svo sannarlega að þessi þingsályktunartillaga hreyfi við fólki, fái umræðu innan hv. Alþingis og fari fljótt og vel hér í gegnum hv. Alþingi. Við sjáum vonandi strax í haust betrumbætur í þeim málum sem varða fjarfundabúnað og aðgengi fólks á landsbyggðinni að ráðuneytum og stjórnsýslu ráðuneytisins.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln.