149. löggjafarþing — 8. fundur
 20. september 2018.
breytingar á LÍN.

[10:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það verður með sanni sagt að ákveðinn kraftur hafi fylgt hæstv. menntamálaráðherra inn í starfið. Ég tala örugglega fyrir munn margra þegar ég segi að hægt sé að taka undir stefnu hennar og sýn á uppbyggingu menntamála á mörgum sviðum. Það verður því að segjast eins og er að það kom mér pínulítið á óvart, ekki síst í ljósi þess að fyrr á árinu svaraði hæstv. ráðherra mér því að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af aðgerðaleysi, og ég hélt að sú yrði raunin, að í þingmálaskrá hæstv. ráðherra er hvergi talað um breytingar á LÍN.

Það eru langþráðar breytingar sem stúdentar kalla eftir, mér skilst að níu formenn stúdentaráðs hafi starfað á þeim tíma sem endurskoðunin hefur staðið yfir. Hæstv. forsætisráðherra kom á sínum tíma fram með frumvarp sitt og síðan kom eftirmaður hennar, Illugi Gunnarsson, líka með sitt frumvarp þannig að að mínu mati er í raun búið að rýna allt í drasl, öll gögnin liggja fyrir. Það þarf að fara að taka ákvörðun um það hvenær og með hvaða hætti eigi að leggja fram frumvarp um lánasjóðinn. Stúdentar þurfa fyrirsjáanleika eins og við öll. Stúdentar þurfa ekki síst að sjá fyrir hvernig kerfið verður uppbyggt. Hvernig verður greiðslum af afborgunum háttað? Hvernig verður húsnæðismarkaði fyrir stúdenta háttað? Kallað er eftir svörum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherra ekki leggja fram frumvarp, eins og kemur reyndar fram í fjárlagafrumvarpinu, um LÍN fyrr en næsta vetur? Er hæstv. ráðherra að segja að við þurfum að bíða, og ekki síst stúdentar, eftir frumvarpi og lagasetningu og lögum um LÍN alveg þar til veturinn 2020–2021? Það er hægt að taka heila háskólagráðu fram að þeim tíma.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er frumvarps ekki að vænta fyrr en á næsta ári? Er ekki hægt að hraða þeirri mikilvægu vinnu?



[10:47]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er að gera mjög mikið fyrir háskólastigið. Við erum að stórauka fjármuni til háskólastigsins, eins og ég nefndi hér fyrr; aukningin er 5% á milli ára, og nú stefnir allt í að við náum OECD-meðaltalinu í framlagi á hvern nemanda. Það hefur ekki gerst áður og er mikið fagnaðarefni.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að vanda til verks og knýja á um að klára frumvarp er varðar endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námsmenn eru með tvo fulltrúa í nefndinni og við eigum í mjög góðu samstarfi og mjög hreinskiptnum umræðum um það hvernig við eigum að þróa lánasjóðinn. Hins vegar hefur ekki átt sér stað heildarendurskoðun á lánasjóðnum, ef ég man það rétt, síðan 1992.

Hv. þingmaður sem beindi fyrirspurninni til mín var einmitt ráðherra í fjögur ár og ekki var mikið að gerast á þeim tíma hvað það varðar að bæta hag námsmanna. Tveir ráðherrar hafa gert atlögu að því að breyta lánasjóðnum og ástæða þess að mitt frumvarp kemur ekki fyrr fram en 2019 er sú að ég er að reyna að læra af því sem miður fór og hvernig við getum gert þetta. Það er alveg ljóst að blikur eru á lofti hvað þetta varðar, til að mynda sú staðreynd að fleiri íslenskir námsmenn taka lán hjá norrænum lánasjóðum en hér.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta er mjög brýnt mál en það vill þannig til að við erum að reyna að vanda okkur og leita eftir víðtæku samráði og samvinnu við stúdenta og alla þá sem hafa komið að þessu máli.



[10:49]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Þetta var, með fullri virðingu, langt svar að því að komast að svarleysi. Hæstv. ráðherra fullvissaði mig í þessum ræðustól fyrir sex eða sjö mánuðum um að það yrði ekkert aðgerðaleysi af hennar hálfu varðandi stúdenta. Síðan er hægt að koma hingað og tala og tala og þykjast gera meira en nokkurn tíma hefur verið gert. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði líka sína hluti þegar hann var í stóli menntamálaráðherra og ýtti þessum málum áfram, núverandi forsætisráðherra og Illugi Gunnarsson. Það eru nægileg gögn til staðar til að koma til móts við stúdenta og það þýðir ekki að koma hingað upp og skauta yfir hlutina.

Þetta er einföld spurning: Þurfa stúdentar að bíða eftir því að fá lausn sinna mála þar til veturinn 2020–2021 rennur í garð? Við vitum að frumvarp sem er lagt fram á næsta hausti fer ekki í gegn fyrr en einhvern tíma síðar um veturinn. (Forseti hringir.) Ráðherra er hér að segja: Stúdentar þurfa að bíða af því að kannski er það þannig að ráðherra hefur ekki fullan stuðning ríkisstjórnarflokkanna til að keyra þessi mál í gegn. Ég hvet ráðherra til dáða í þessu máli og stúdentar þurfa svör, ekki einhverja skreytni.



[10:51]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef skýrt er mjög skýr áætlun um það hvernig við séum að fara í þetta. Ég hef einmitt verið mjög gagnsæ í öllum mínum svörum og hef ætíð sagt síðan ég tók við að þetta frumvarp kæmi árið 2019 vegna þess að þetta mál hefur verið mjög erfitt. Það hefur verið mjög erfitt að landa þessu máli eins og hv. þingmaður veit.

Talandi um aðgerðir, við erum að gera mjög mikið á sviði menntamála. Við erum að móta menntastefnu til ársins 2030. Við erum að gera sérstakt átak er varðar verk-, iðn- og starfsnám, auka fjármuni hvað það varðar. Þessi verkefnisstjórn varðandi LÍN er mjög öflug og kemur með góðar tillögur til þess að við getum klárað þetta mál. Við erum búin að afnema 25 ára regluna og það er heilmikið búið að gerast. Varðandi nýliðun kennara sjáum við mikla fjölgun þeirra sem eru að fara í kennaranámið og það er mikið fagnaðarefni. Okkur hefur tekist, sem hefur ekki tekist í langan tíma, (Forseti hringir.) að ná OECD-meðaltalinu árið 2020.