149. löggjafarþing — 26. fundur
 5. nóvember 2018.
innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[15:12]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hafa mál sem varða svokallaðan þriðja orkupakka Evrópusambandsins skýrst töluvert. Það er t.d. ágætisumfjöllun um málið í nýjasta Bændablaðinu þar sem þetta er tekið saman og vitnað í sérfræðinga eins og norska lagaprófessorinn Peter T. Örebeck sem segir hreint út að verið sé að stefna íslenskum hagsmunum í orkumálum og fullveldi þjóðarinnar í stórhættu með áformum um innleiðingu þriðja orkupakkans. Hann rökstyður þetta á skýran hátt og nefnir einnig hluti eins og að Orkustofnun Evrópusambandsins muni fá yfirþjóðlegt vald á Íslandi, að framtíð Landsvirkjunar verði auk þess stefnt í hættu og þar með þjóðarsjóðsins sem fjármálaráðherra og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa boðað. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur tekur í sama streng og Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands íslenskra garðyrkjubænda, segir að verði þetta innleitt muni garðyrkja nánast leggjast af á Íslandi, þ.e. ræktun á innlendan matvælamarkað. Raunar verði landbúnaði sem grein og matvælaframleiðslu stefnt í stórhættu.

Er ekki tímabært að hæstv. utanríkisráðherra taki af skarið með það að við munum ekki innleiða þennan þriðja orkupakka og að Ísland fari þess í stað fram á undanþágu frá því? Ég er ekki að leita eftir svörum eins og við höfum heyrt frá hæstv. ráðherra fram að þessu, að þetta verði rætt einhvern tímann síðar og skoðað. Það er tímabært að taka af skarið núna því að því fyrr sem ríkisstjórnin gerir það þeim mun sterkari er staða okkar. Við höfum oft klikkað á því, Íslendingar, að vera of seinir til að verja hagsmuni okkar gagnvart innleiðingu regluverks frá ESB. Það er sannarlega tímabært að eyða þeirri miklu óvissu sem uppi er vegna þessa máls og að hefja vinnu við að koma Íslandi hjá þessari innleiðingu.



[15:14]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki af hverju ég ætti að koma og svara þessu því að hv. þingmaður er með sérstakar pantanir á því hvernig svörin eiga að vera. Það hefði kannski verið nær að hv. þingmaður sendi mér það sem ég á að segja hér. Hv. þingmaður vísaði til þess að við séum oft sein til. Þegar ég settist í stól utanríkisráðherra hóf ég vinnu að því að gæta hagsmuna okkar gagnvart EES vegna þess að full þörf var á. Síðan hef ég verið að vinna að því.

Eins og hv. þingmaður veit voru þau verkfæri sem við vorum með að stórum hluta tekin burtu þegar gengið var í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Af hverju hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti það kerfi ekki aftur af stað þegar hann tók við sem forsætisráðherra er mér hulin ráðgáta, vegna þess að þetta mál og önnur sambærileg sem snúa að tveggja stoða málum og öðru slíku sem rætt er voru ekki að koma upp núna. Það er í þessari ríkisstjórn sem þetta fyrirkomulag hefur verið að stórum hluta sett upp aftur og verður sett upp að fullu þegar fram líða stundir.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við skoðum ekki bara það sem snýr að þessari innleiðingu heldur önnur þau mál þar sem við eigum að gæta hagsmuna okkar vel og vandlega. Af því að hv. þingmaður nefndi að stundum værum við sein til er það mín skoðun að við hefðum átt að hefja þá vinnu fyrir löngu eða um leið og við tókum þá ákvörðun að stöðva þá feigðarför að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég áskil mér allan rétt til að vinna að þessum málum með hæfustu sérfræðingum og öðrum þeim sem snúa að hagsmunum okkar í EES-samstarfinu því að ég þarf ekki að útskýra fyrir virðulegum forseta eða hv. þingmanni að það er afskaplega mikilvægt og hefði betur verið farið af stað fyrr.



[15:16]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég held að ég verði að fá að þiggja boð hæstv. ráðherra um að fá að senda honum svörin hans fyrir fram næst, miðað við þau svör eða svaraleysi sem hann býður upp á þegar hann er spurður mjög einfaldrar spurningar. Hann fer að rifja upp að umsókn um aðild að Evrópusambandinu hafi verið mikil feigðarför, sem ég er svo sannarlega sammála ráðherranum um, en að byggja hafi átt eitthvert kerfi eftir að við komumst loksins út úr þeirri umsókn, sem hafi ekki verið byggt og ráðherrann sé að reyna að byggja núna. Hann getur samt ekki svarað því skýrt hvort hann ætli að innleiða þennan þriðja orkupakka.

Hann þarf kannski að byggja þetta kerfi sitt fyrst. Þetta er eins og stefna ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálakerfið. Við erum alltaf að bíða eftir einhverri hvítbók um fjármálakerfið til að hún geti farið að taka á málunum. Svo kemur aldrei neitt og við förum stöðugt lengra í öfuga átt.

Við megum ekki og getum ekki beðið lengur með að eyða óvissunni sem ríkir um þennan þriðja orkupakka. Því spyr ég ráðherrann mjög skýrt: Er hann hlynntur innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins eða ekki?



[15:17]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Af þessum tveim sem hér eru að spjalla saman var annar sem beið. Það er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann beið og beið og beið. Það sem við erum að gera er að vinna að því að styrkja hagsmunagæslu okkar í EES-samstarfinu.

Hv. þingmaður þarf ekki að bíða eftir neinni hvítbók. Það er búið að gefa hana út. Hún heitir Gengið til góðs. Ef hv. þingmaður talar við Google frænda og setur þau orð inn getur hann fundið þá skýrslu sem ég hvet hv. þingmann til að lesa.

Hvað varðar þriðja orkupakkann og önnur mál veit hv. þingmaður það mætavel að það var sett á vorþingið vegna þess að menn vildu vinna þau mál eins vel og mögulegt er. Ýmis álitaefni hafa komið upp, ekki bara það sem kom núna í Bændablaðinu heldur hefur ýmislegt komið upp. Menn eru ekki að bíða eftir hvítbók eða nokkrum sköpuðum hlut. Menn eru einfaldlega að vinna þessi mál með hæfustu sérfræðingum til þess að við getum tekið þær ákvarðanir sem skynsamlegar eru.

En af okkur tveim var það ekki sá sem hér stendur sem beið, (Forseti hringir.) það var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stóli forsætisráðherra.