149. löggjafarþing — 28. fundur
 7. nóvember 2018.
þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, 1. umræða.
frv. BirgÞ o.fl., 31. mál (notkun fána á byggingum). — Þskj. 31.

[18:27]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru, auk þess sem hér stendur, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:

Tjúgufáninn skal dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu Hæstaréttar Íslands kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Fáni forseta Íslands skal dreginn á stöng við embættisbústað hans og við skrifstofu hans í Reykjavík á sama tíma og vera jafnlengi við hún. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir:

„Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2018.“

Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi (459. mál) en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt.

Með frumvarpinu er lagt til að flaggað verði alla daga ársins frá kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins auk bygginga embættis forseta Íslands, þ.e. við forsetasetrið á Bessastöðum og skrifstofu forseta á Sóleyjargötu. Auk þess er lagt til að fáninn verði lýstur upp í skammdeginu.

Flutningsmenn leggja til að þessi breyting taki gildi á fullveldisafmælinu 1. desember 2018 þegar 100 ár verða liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki en fáninn varð þjóðfáni þann dag. Til marks um það var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 er sambandslögin gengu í gildi.

Herra forseti. Áhugi landsmanna á sögu íslenska fánans hefur aukist nokkuð á þessu ári, ef marka má fjölda fyrirspurna sem hafa borist Vísindavef Háskóla Íslands. Ætla má að hinn aukni áhugi tengist fullveldisafmælinu og er það vel. Með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918 viðurkenndu Danir fullveldi Íslands. Þann dag á hádegi var klofinn fáni dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðshússins eins og áður segir. Slíkur fáni nefnist einnig tjúgufáni en tjúga er annað orð yfir gaffal eða heykvísl.

Fáninn sem dreginn var að húni 1. desember 1918 var sá sami og við notum í dag, þ.e. heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í þeim hvíta. Blái liturinn var reyndar ljósari en við erum vön og varð ekki dekkri fyrr en árið 1944.

Um liti fánans var fjallað í konungsúrskurði sem gefinn var út 30. nóvember 1918. Sömu litir höfðu einnig verið tilgreindir í konungsúrskurði frá 19. júlí 1915. Litatillagan var önnur af tveimur sem svokölluð fánanefnd lagði fram 1913. Þessa fánahugmynd hafði Matthías Þórðarson, þá þjóðminjavörður, fyrst sýnt níu árum fyrr á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906.

Í grein í tímaritinu Valurinn 12. október 1906 er sagt frá fundinum. Þar er fána Matthíasar lýst og útskýrt hvað litirnir eiga að tákna. Með leyfi forseta:

„Á fundinum sýndi Matthías Þórðarson prýðisfallegan fána sem hann hafði dregið upp. Var það hvítur kross í blám feldi með rauðum krossi í miðjunni og átti að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Gast mönnum hið besta að fána þessum og þykja oss miklar líkur til að menn komi sér saman um að velja hann.“ — Þennan fróðleik er hægt að finna á vef Stjórnarráðsins og Vísindavef Háskóla Íslands.

Ef við berum okkur saman við margar aðrar þjóðir höfum við verið með fremur stífar reglur um fánatíma og notkun fánans almennt. Að mati Bandalags íslenskra skáta hefur virðing fyrir fánanum farið vaxandi og landsmenn farnir að nota hann talsvert meira en var. Engu að síður nota Íslendingar fánann lítið, nær eingöngu á fánadögum, sem eru ekki nema 12 á ári, og á knattspyrnuleikjum. Skátarnir hafa hvatt til notkunar á íslenska fánanum. Segja má að skátarnir séu sérstakir varðmenn fánans og fyrir það ber að þakka. Það er mat skátanna að staða fánans hafi verið að styrkjast og er það jákvætt. Fáninn okkar er fallegur og hefur engar neikvæðar tengingar.

Rétt er að skoða aðeins í samhengi þessa máls hvaða reglur og hefðir gilda í nágrannalöndum okkar þegar kemur að fánanotkun á opinberum byggingum. Hvaða fánatíma snertir er það almennt þannig meðal Norðurlandaþjóðanna að fánatíminn er frá kl. átta á morgnana til kl. 21 og horft er til þessara tímamarka í frumvarpinu. Á konungshöllinni í Svíþjóð er flaggað alla daga og við þinghúsið. Fánarnir eru teknir niður við sólsetur, þó ekki seinna en kl. 21. Í Noregi er flaggað alla daga við Stórþingshúsið og fáninn dregin niður við sólsetur, þó ekki síðar en kl. 21.

Herra forseti. Sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga fylgdi einnig barátta fyrir íslenskum fána. Hann er því táknmynd sjálfstæðisbaráttu okkar og fullveldis. Það er vel við hæfi, nú þegar styttist í 100 ára fullveldisafmælið, að við gerum fánann okkar sýnilegri á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins, auk bygginga forseta Íslands. Með því að flagga alla daga ársins á Alþingishúsinu, á Stjórnarráðsbyggingunni, byggingu Hæstaréttar Íslands auk bygginga forseta Íslands erum við að sýna fánanum meiri virðingu og auka veg hans — sömu virðingu og við sýnum landinu okkar, náttúrunni og menningu.

Að þessu sögðu, herra forseti, vísa ég málinu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[18:37]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisframsögu, að mörgu leyti fróðlega og áhugaverða. Sjálfur hef ég verið mikill áhugamaður um fána og önnur þjóðernistákn lengi, frá því ég var í námi við sagnfræði við Háskóla Íslands og fjallaði sérstaklega um þjóðernisvitund og fleiri slík mál. Ég hefði nú kannski stutt hv. þingmann ef hann hefði lagt fram frumvarp um að taka upp hvítbláan, ég er nú hrifnari af þeim fána. En ég hygg að við deilum þeirri skoðun að úr þessu verður ekki aftur snúið með val á þjóðfána, hver sem skoðun okkar á hvítbláanum er.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann örlítið út í skilgreiningu á í það minnsta einu orði í þessu frumvarpi. Hér segir, með leyfi forseta: „Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.“

Ég gerði mikla flýtileit á internetinu svokallaða að því hvort til væri skilgreining á orðinu skammdegi og fann hana ekki. Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri nógu skýrt, hvenær hv. þingmaður og flutningsmenn telji að nauðsynlegt sé að lýsa upp þessa fána, hvort það verði mat hvers og eins umsjónarmanns hvenær skammdegið er hafið eða hvenær er nógu bjart til að slökkva á lýsingum eða hvort það séu einhver ákveðin tímasetning á því sem mér hefur láðst að finna í minni, aftur ítreka ég, fljótaleit.

Svo er hér lagt til að flagga fánanum við embættisbústað forseta Íslands og við skrifstofu hans. Ég velti þeirri spurningu upp við hv. þingmann hvort ekki sé hægt að fara að fordæmi Breta sem eru mikil fánaþjóð og flagga þegar forsetinn er heima.



[18:39]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ágæta ábendingu varðandi það hvernig skilgreina beri skammdegið. Hvað er skammdegi og hvenær hefst skammdegið? Það er sjálfsagt að þetta verði rætt innan nefndarinnar, hvort nauðsynlegt sé að skilgreina það frekar, en ég geri fastlega ráð fyrir því að það sé miðað við sólsetur. Í skammdeginu þegar sólin sest um klukkan fjögur t.d., þá verði fáninn upplýstur frá og með því og til kl. 21 þegar hann verði tekinn niður. Í fljótu bragði sé ég þetta fyrir mér gert með þessum hætti en það er sjálfsagt að þetta verði rætt innan nefndarinnar og hún skoði hvort þörf sé á að skilgreina þetta eitthvað frekar.



[18:40]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð viðbrögð við ábendingu minni. Eins og ég kom inn á er skilgreiningin kannski frekar óljós. Við tölum um skammdegisþunglyndi sem getur varað yfir lengri tíma, marga mánuði, þegar talað er um skammdegið. „Í skammdeginu vildi henda' að villtust bestu menn,“ orti nú Megas, með leyfi forseta. Ef við erum að setja eitthvað í lagatexta er oft gott að vera bara nokkuð skýr með hvað átt er við og ég þakka hv. þingmanni fyrir góð viðbrögð við því.

Ég heyrði ekki að hv. þingmaður svaraði þeirri hugmynd minni að við gerðum að sið annarra þjóða, svo sem Breta, að flagga á bústað æðstu embættismanna þjóðarinnar þegar þeir væru heima eins og Bretar gera t.d. með Englandsdrottningu. Það er flaggað þegar hún er á staðnum. Hér á að vera fáni uppi allan ársins hring, óháð því hvort starfsemi er eða viðkomandi er í húsinu.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom líka inn á í framsögu sinni að við notuðum fánann minna en ýmsar aðrar þjóðir. Ég hygg, án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega, að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér í því. Ég velti því fyrir mér hvort hluti af því geti verið ströng fánalög. Við erum með ekki bara mjög strangar reglur um hvenær megi flagga heldur einnig hvernig megi nota fánann, t.d. í auglýsingaskyni á framleiðsluvörum o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi spáð í það að kannski sé það einn hluti ástæðunnar. Ef við viljum meiri notkun fánans — sem eru vissulega skiptar skoðanir um og persónulega er ég ekki sérstaklega mikill þjóðernistáknamaður en ég hef áhuga á að ræða þessi (Forseti hringir.) mál — þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að við þurfum kannski að slaka á hvað varðar almenna notkun fánans í ýmsum öðrum tilgangi (Forseti hringir.) en að draga hann eingöngu að húni.



[18:42]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil taka undir það með honum að við notum fánann of lítið. (KÓP: Ég sagði …) Það lá í orðunum alla vega að það væri nauðsynlegt að auka notkun hans, ég vona að hv. þingmaður sé á þeirri línu eða verði á þeirri línu síðar.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort lögin séu of ströng og það valdi því kannski að fáninn sé notaður fremur lítið miðað við aðrar þjóðir. Það gæti verið rétt að ákveðnu leyti hjá hv. þingmanni. Þó er líka annað sem held ég að spili þar inn í, það eru ákveðnar mýtur, ef maður má orða það þannig, varðandi notkun fánans sem eru ekki réttar. Ég held t.d. að það sé svolítið um það að fólk haldi að ef fáninn snerti jörðu þá verði að brenna hann. Þetta er ein af þessum mýtum sem eru í gangi og er rangt. En það á hins vegar ekki að flagga fána sem er skítugur eða rifinn eða o.s.frv., eins og kemur fram í lögunum. Þetta gæti jú verið hluti af því að fáninn er ekki notaður í meira mæli, að það sé ákveðinn misskilningur varðandi hvað má og hvað má ekki og sjálfsagt að fara yfir það.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að slaka neitt á þessum lögum sem slíkum en frumvarpið gengur út á það og við flutningsmenn erum á því að nota fánann meira og bera meiri virðingu fyrir honum með því flagga honum daglega á þessum byggingum sem ég nefndi hér.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þingmanni að fáninn (Forseti hringir.)er notaður eins og í Bretlandi þegar þjóðhöfðinginn er viðstaddur, en þetta frumvarp gengur framar í þeim efnum.



[18:45]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Það snýr að því, eins og segir hér, að tjúgufáni skuli dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu Hæstaréttar Íslands kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Fáni forseta Íslands skal dreginn á stöng við embættisbústað hans og við skrifstofu hans í Reykjavík á sama tíma og vera jafn lengi við hún. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.

Þetta er ágætismál. Það er verið að auka notkunina á fánanum. Það er líka gott að þetta er örugglega atvinnuskapandi. Þegar fánar eru uppi alla daga í veðráttunni á Íslandi þarf oft að skipta því að ekki viljum við nota slitna, ónýta og óhreina fána. Það er alveg prýðilegt.

Það er hins vegar alltaf matsatriði hvenær á að lýsa upp og hvenær er skammdegi, en flest vitum við nokkurn veginn hvenær virðist vera orðið myrkur. Það er líka hægt að hafa nema, það hefur virkað ágætlega. En ég kem hingað upp af því að þetta er svo gott mál. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir viðlíka máli í mörg ár og haft talsmenn í því þannig að ég get ekki annað en tekið aðeins þátt í þessari umræðu. Hún snerist líka um það hvenær hann ætti að vera flóðlýstur og hvenær ekki og hvernig það á allt saman að vera. Þetta eru allt óskaplega svipuð mál og mig rekur ekki minni til þess í ljósi umræðunnar sem var hér í dag hvort haft hafi verið samband við flutningsmenn Framsóknarflokksins sem voru með þetta mál. Ég þori ekkert að fullyrða um það.

Hér er gott framsóknarmál á ferðinni og ég fagna því og treysti að við getum rætt málið á breiðum grundvelli. Öll erum við áfram um að ganga vel um fánann okkar og virða hann.



[18:48]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hingað upp til að lýsa yfir stolti mínu yfir því að vera á þessu máli og fagna því að það veki meiri athygli en ég átti von á en oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Mér finnst þetta gott mál, ekki bara vegna þess að við eigum að hafa þjóðfána okkar sýnilegan heldur er þetta líka partur af því í mínum huga að við eflum þjóðarstoltið og sjálfsvirðingu okkar gagnvart íslenska fánanum og því að við erum fullvalda þjóð. Það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn síðustu árin að við getum státað af því, öll saman sem þjóð, að vera Íslendingar og séum stolt af því í þeirri stöðu sem við erum í og höfum verið frá því að við urðum fullvalda þjóð. Við höfum gengið í gegnum mjög erfiða tíma sem áttu tíu ára afmæli um daginn, sá erfiði tími sem ég er að hugsa um þegar ég segi þetta. Á þeim tíma höfum við oft talað okkur svolítið niður, mörg hver, og höfum talað um að við værum bara nokkrar hræður á einhverju skeri norður á hjara veraldar. Mér finnst það ekki vel orðað.

Ég er mjög stoltur af því að vera Íslendingur og tilheyra þessari fullvalda þjóð. Sjálfstæðisbaráttan sem við stóðum í, eða þeir sem á undan gengu á sínum tíma, var ekki sjálfsagt mál. Þetta var mikil barátta og þurfti mikið fyrir því að hafa. Mér finnst mjög gott mál að hafa íslenska fánann sem sýnilegastan á þeim stöðum sem koma fram í frumvarpinu og upplýstan í skammdeginu. Eins og kom fram í ræðu flutningsmanns hafa þjóðirnar í kringum okkur, sem við berum okkur saman við og erum stolt af að þekkja og vinna með, sín lög þannig að þau hafi sína fána sýnilega. Finnst mér að við eigum ekki að standa þeim neitt á sporði í þeim málum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, ég bara trúi því að þetta mál fái góða afgreiðslu og að við getum flaggað 1. desember nk.



[18:51]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni framúrskarandi ræðu sem fól í sér mjög gagnlega yfirferð um þetta mál sem ég tel afar þýðingarmikið og afar vel við hæfi á afmælisári fullveldisins. Það væri sannarlega óskandi að Alþingi hefði snarar hendur og næði að lögfesta þetta góða mál áður en kemur til afmælisins 1. desember nk.

Það er sannarlega ánægjulegt að fjalla hér um svo fagurt og mikilvægt þjóðartákn sem íslenski fáninn er. Hann snertir streng í brjóstum okkar allra. Maður kynnist því þegar maður ferðast erlendis eða jafnvel hefur haft tækifæri til að búa erlendis, t.d. í Bandaríkjunum eins og ég hef gert, hversu mikið er lagt upp úr þjóðfánanum. Bandaríkjamenn leggja til að mynda mjög mikið upp úr sínum fána, hann er gífurlega öflugt sameiningartákn bandarísku þjóðarinnar og það er mjög algengt að fólk hafi bandaríska fánann fyrir utan heimili sitt án þess að það sé neitt sérstakt tilefni.

Hér hefur verið rifjað upp, ekki síst af hálfu 1. flutningsmanns, hvaða siðir tíðkast gjarnan í nágrannalöndum okkar. Hann hefur dregið mjög skýrt fram að við notum fánann kannski jafnvel í verulega minna mæli en gerist og gengur meðal nágranna okkar. Ég álít að það sé afar vel til fundið að mæla fyrir um það í lögum að á þessum helstu byggingum hins þríarma þjóðfélagsvalds, framkvæmdarvaldsins, Alþingis auðvitað og dómsvaldsins, fyrir utan aðsetur og skrifstofu forseta Íslands, sé hinn íslenski fáni við hún alla daga.

Ég er þakklátur og ánægður með að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Ég álít að heilbrigður metnaður fyrir hönd þjóðarinnar sé eðlilegur, jákvæður og uppbyggilegur í eðli sínu. Látum fánann okkar íslenska blakta sem oftast við hún en um leið skulum við ákveða að á Alþingi, Stjórnarráðinu, Hæstarétti og bústað forseta og skrifstofu skuli flaggað alla daga.



[18:55]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu þær góðu ræður sem hér hafa verið fluttar og þann góða hug sem þingmenn hafa komið á framfæri í garð þessa frumvarps sem ég vona sannarlega að fái skjóta og góða afgreiðslu á Alþingi þannig að lögin taki gildi 1. desember eins og stefnt er að, á fullveldisafmælinu.

Ég ætla að leiðrétta smávegis sem ég sagði í flutningsræðu minni áðan. Þegar ég óskaði eftir því að vísa málinu til allsherjar- og menntamálanefndar fékk ég ábendingu um það frá þingfundaskrifstofu að málið ætti að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Að svo búnu vísa ég málinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.