149. löggjafarþing — 41. fundur
 4. desember 2018.
áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, fyrri umræða.
stjtill., 409. mál. — Þskj. 550.

[19:42]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og forseti sagði er hér mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram, þrátt fyrir á þingskjali standi að það séu einungis félags- og jafnréttismálaráðherra, er lögð fram af ráðherrum félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála, auk mennta- og menningarmála. Hún á sér langa sögu eða allt frá árinu 2014 þegar þau Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, og Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Með yfirlýsingunni staðfestu ráðherrarnir vilja sinn til að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess sem og vilja til að auka fræðslu og forvarnastarf, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Í kjölfarið var skipaður stýrihópur undir forystu velferðarráðuneytisins en hann er skipaður tveimur fulltrúum frá hverju ráðuneytanna þriggja. Hlutverk hans var að hafa umsjón með samstarfinu og vinna áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Á starfstíma stýrihópsins hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar. Einkum er um að ræða stjórnarfarslega breytingarinnar. Á starfstímanum hafa tvisvar sinnum orðið ríkisstjórnarskipti, ráðherrarnir í þeim ráðuneytum sem koma að þessari þingsályktunartillögu og tekið hafa við keflinu í kjölfar myndunar nýrrar ríkisstjórnar hafa hins vegar allir verið sammála um að þessu mikilvæga verkefni skyldi haldið áfram.

Í öðru lagi hafa átt sér stað verulega samfélagslegar breytingar sem sýna okkur betur en nokkru sinni að ofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein, ekki síst kynbundið ofbeldi sem dregið hefur verið fram í dagsljósið með frásögnum einstaklinga sem stigið hafa fram undir merkinu #metoo. Samstarfsyfirlýsingin kvað einnig á um að efnt skyldi til samráðs bæði á landsvísu og innan svæða, milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Athyglinni skyldi einkum beint að ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Markmiðið var ekki síst að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála.

Boðað var til funda á landsbyggðinni en landinu var skipt í níu svæði, Suðurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra, Austurland, Vestfirði, Vesturland, Suðurnes, Vestmannaeyjar og höfuðborgarsvæðið. Markmiðið var að ná saman lykilaðilum á hverju landsvæði, þar með talið félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu, sveitarfélögum, barnaverndaryfirvöldum, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skólastjórnendum og fleirum með það fyrir augum að leggja grunn að svæðisbundnu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Samtalið við landsbyggðina hefur skilað sér inn í þingsályktunartillöguna en umræðuefnin voru ólík á milli svæða. Alls staðar kom fram mikill áhugi og vilji meðal heimamanna til að efla samstarf á þessu sviði. Má m.a. sjá merki um svæðisbundið samstarf á þessu sviði í nýjum verkefnum á Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Í kjölfar funda hópsins hafa fulltrúar verkefnisins Byggjum brýr, brjótum múra farið á sömu svæði og efnt til samráðs um varnir og viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum. Við gerð þingsályktunartillögunnar hefur verið lögð rík áhersla á víðtækt samráð, m.a. á fjölmennum vinnufundi sem fram fór í Iðnó í upphafi árs 2016. Þangað voru kallaðir til fjölmargir aðilar, svo sem fulltrúar stofnana, sveitarfélaga, háskólasamfélagsins, frjálsra félagasamtaka og aðrir sem starfa og til þekkja á þessu sviði. Vinnufundurinn skilaði góðum árangri en auk þess hefur stýrihópurinn átt marga fundi með sérfræðingum á sínu sviði sem lagt hafa þessari vinnu lið.

Þingsályktunartillagan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem m.a. kemur fram að stuðla skuli að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum. Þá tekur aðgerðaáætlunin mið af samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Meginmarkmiðið með aðgerðunum er að stuðla að vakningu um málefnin með forvörnum og fræðslu, bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur. Sérstök áhersla er lögð á eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið. Í öðru lagi að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Í þriðja lagi að stuðlað verði að heildstæðri umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi. Í fjórða lagi að þolendur eigi greiðan aðgang að upplýsingum og þjónustuúrræðum án tafar í kjölfar ofbeldis. Í fimmta lagi að samstarf og samhæfing verði efld til muna í þjónustu við þolendur ofbeldis, m.a. á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka.

Aðgerðunum er skipt niður í þrjá hluta. Í fyrsta lagi vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu með áhrif á heilbrigð samskipti, ráðgjöf og snemmtæk viðbrögð. Í öðru lagi viðbrögð við ofbeldi með áherslu á bætt verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins. Í þriðja lagi valdeflingu með áherslu á samhæfingu og þverfaglegt samstarf í þjónustu við þolendur ofbeldis. Margar aðgerðirnar lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu og falla undir A-hlutann en einnig eru nokkrar aðgerðir í B-hluta til þess fallnar að vernda börn og bæta málsmeðferð í málum er varða þau, hluti C um valdeflingu, samstarf og samhæfingu fjallar á hinn bóginn fyrst og fremst um úrræði, stuðning og samráð í málum fullorðinna þolenda ofbeldis en ekki er um að ræða tillögur að aðgerðum í málum barna sem hafa verið beitt ofbeldi. Stuðningur, ráðgjöf og önnur úrræði fyrir börn í kjölfar ofbeldis fer eftir ákvæðum barnaverndarlaga.

Alls eru aðgerðirnar 28 og hér ætla ég að nefna dæmi um nokkrar þeirra. Fyrst vil ég nefna að útbúið verði fræðsluefni um ofbeldi sem hentar leikskólabörnum, samhliða fái starfsfólk leikskóla leiðbeiningar um notkun þess og viðbrögð, í kjölfar fræðslu, þar á meðal um tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, en almennt berast færri tilkynningar til barnaverndar frá leikskólum en grunnskólum. Aðgerðin er liður í að stuðla að því að starfsfólk leikskólanna geti greint svo fljótt sem auðið er ef barn er beitt ofbeldi og að slíkt sé tilkynnt til barnaverndarnefndar.

Önnur aðgerð snýr að því að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja að einstaklingar með brotaferil verði ekki ráðnir til starfa með börnum.

Dæmi um enn aðra aðgerð er stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Um er að ræða sambærilegt úrræði og Bjarkarhlíð er hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar verði veitt sama þjónusta og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Þá er lagt til að komið verði á fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum með það að markmiði að koma í veg fyrir endurtekin ofbeldisbrot. Starfshópur sem ég hef skipað starfar nú að því að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir fullorðna gerendur þegar kemur að ofbeldi.

Stýrihópurinn sem vann að þessari þingsályktunartillögu hefur einnig fjallað um nokkur málefni sem ekki koma fram í formi aðgerða í þessari áætlun en talið er rétt að halda til haga. Má þar nefna aðstoð við þolendur eineltis á vinnustað þar sem brýn þörf er á að bæta aðgang að ráðgjöf sérfræðinga og uppbyggilegri meðferð. Þá er þörf á heildarvitundarvakningu í samfélaginu um að ofbeldi verði ekki þolað, hvorki á vinnustöðum, í félagsstarfi né á heimilum, en um þetta mætti gera víðtækan samfélagssáttmála.

Einnig hefur verið rætt um að þörf sé á fleiri rannsóknum á sviði ofbeldis sem snúa m.a. að birtingarmyndum ofbeldis, umfangi þess, forvörnum, aðkomu réttarvörslukerfisins og stöðu þolenda. Slíkar rannsóknir eru forsenda stefnumótunar stjórnvalda á þessu sviði. Í þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á að slíkar úttektir séu unnar af óháðum fagaðilum á sviði innan félags- og heilbrigðisvísinda en rétt er að geta þess að þrjár umfangsmiklar rannsóknir standa nú yfir. Ein lýtur að kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna ofbeldisbrota, önnur að öflun ítarlegra upplýsinga um umfang og eðli ofbeldis á Íslandi og sú þriðja um áhrif áfalla á heilsufar kvenna.

Ég vil í lokin nefna sérstaklega skjal dómsmálaráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og tillögur að aðgerðum 2018–2022 sem stjórnvöld hafa þegar samþykkt. Þar er m.a. að finna aðgerð sem stýrihópurinn sem vann þessa þingsályktun ræddi sérstaklega og lýtur að réttarvörslukerfinu og viðkvæmum hópum, svo sem um aðkomu réttargæslumanna fatlaðs fólks við rannsókn mála þar sem grunur leikur á ofbeldi í garð seinfærs fólks. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og mér er kunnugt um að samstarf réttarvörslukerfisins og réttargæslumanna er að festast í sessi.

Forsenda þess að þingsályktunartillagan komist farsællega til framkvæmda byggir á því að ráðuneytin, sem verða fjögur um næstu áramót en voru þrjú við vinnslu þessarar tillögu, þrátt fyrir að það væru fjórir ráðherrar, vinni saman að framkvæmd hennar. Þá byggir hver og ein aðgerð á því að tilnefndir samstarfsaðilar leggi hönd á plóginn. Saman getum við náð árangri og er ráð fyrir því gert að þau ráðuneyti sem koma að þingsályktunartillögunni sameinist formlega um eftirfylgni við þessar aðgerðir.

Einnig er gert ráð fyrir að ráðuneytin undirbúi og boði árlega til landssamráðsfunda þar sem fulltrúum ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, rannsóknastofnana og annarra sem láta sig þessi mál varða gefist tækifæri til að bera saman bækur sínar, kynna nýjungar, niðurstöður rannsókna og koma á framfæri tillögum til úrbóta með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir ofbeldi. Staðan á framkvæmd aðgerða í þessari þingsályktunartillögu yrði m.a. kynnt á þeim árlegu fundum.

Með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu myndi skapast verðmætt tækifæri og sameiginlegur vettvangur til þess að ýta úr vör verkefnum sem stuðla að bættu og öruggara samfélagi. Því er það ósk okkar allra að við upplifum okkur ávallt örugg hvar sem við erum stödd og að við getum treyst því að réttlát málsmeðferð og viðeigandi bjargir séu ávallt til staðar þegar takast þarf á við ofbeldi og afleiðingar þess.

Eins og ég sagði í upphafi er þetta þingsályktunartillaga sem unnin er með aðkomu fjögurra ráðuneyta og gríðarlega mikilvægt að fá hana inn til þingsins. Vonandi fær hún góða og faglega umfjöllun og ég hef óskað eftir því að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. velferðarnefndar.



[19:55]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Engum blandast hugur um að hér eru alvarleg viðfangsefni og brýn til umfjöllunar. Ég ætla ekki að fara mikið efnislega í málið á þessu stigi en mig langar aðeins til að biðja hæstv. ráðherra að útskýra ákveðið atriði fyrir mér. Eins og hann nefndi standa fjögur ráðuneyti að þessari þingsályktunartillögu. Þar er talað um framtíðarsýn og viðfangsefni. Þar er talað um forvarnir og fræðslu, bætt viðbrögð og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu. Það er ítrekað að með ofbeldi sé átt við kynferðislegt og ekki síst kynbundið ofbeldi, myndbirtingar í stafrænum miðlum og að horft verði til frásagna og umræðna sem birtast í samfélaginu undir #ég líka og #metoo. Ég tók þetta svona sundurslitið upp úr framtíðarsýninni og viðfangsefnunum.

Ég er síðan með fyrir framan mig fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu um verkáætlun og stöðu stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi sem var kynnt í ríkisstjórninni. Ef ég les líka upp úr því á að fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Það á að endurskoða réttarstöðu brotaþola og, í tengslum við stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, móta nýja stefnu í forvarna- og fræðslumálum að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Meðal verkefna hópsins er að gera tillögur um viðbrögð við #metoo-byltingunni, bæði innan Stjórnarráðsins en ekki síður í samfélaginu almennt.

Ég verð að segja, hæstv. ráðherra, að mér finnast þessi markmið og viðfangsefni svo keimlík að ég átta mig ekki alveg á því hver þessi skipting er og af hverju þarf þá sérstakt viðfang í forsætisráðuneytinu ef það fellur ekki undir þetta. Ég vildi gjarnan biðja hæstv. ráðherra að skýra þetta aðeins fyrir mér.



[19:57]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Jú, það kann að vera rétt að það sem fram kemur í þessari þingsályktunartillögu, sem telur mjög margar aðgerðir og fjölþættar og aðgerðaáætlun upp á einar 20–30 blaðsíður, sé að einhverju leyti líkt þeim áherslum sem lagðar hafa verið í forsætisráðuneytinu, og kannski ekki hvað síst eftir þá miklu umræðu sem varð hér síðasta vetur eftir #metoo-byltinguna. Það kann að vera að það sé einhver skörun þarna á milli.

Ég held hins vegar að það eigi ekki að skaða framgöngu þessa máls. Vegna þess að í því máli sem við vinnum með hér erum við með mjög afmarkaðar aðgerðir sem ætlunin er að ráðast í og eru þess eðlis að þær eru á ábyrgðarsviði einstakra ráðuneyta eða stofnana. Ég held að það muni aldrei skaða þó að forsætisráðuneytið sé einnig að vinna að málum sem tengjast #metoo-byltingunni, eins og ég kom inn á áðan, enda er mjög gott samstarf á milli ráðuneyta þegar kemur að þessum málum og er m.a. fólgið í því að sérstök ráðherranefnd um jafnréttismál fundar reglulega og er stýrt af forsætisráðuneytinu eins og gert er með ráðherranefndir. Þar eiga allir þeir ráðherrar sem leggja þessa aðgerðaráætlun fram sæti. Jú, það er vissulega ákveðin skörun þarna. Ég held engu að síður að sú yfirgripsmikla áætlun sem við erum með hér, sem unnin hefur verið í talsvert langan tíma á milli einstakra ráðuneyta og stofnana, sé bara jákvætt mál. Það er jákvætt að hún sé komin hingað inn og mikilvægt að hún fái brautargengi í þinginu, þrátt fyrir að unnið sé að keimlíkum málum víðar í stjórnkerfinu, sem er bara jákvætt.



[20:00]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er vissulega rétt að það er mjög gott ef sem allra flestir eru að hugsa um þessi mál og reyna að vinna þeim brautargengi. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að menn séu þarna að einhverju marki að drepa á dreif kröftum, menn séu að búa sér til flókið skipulag, jafnvel að verkefni muni skarast, jafnvel að menn muni hafa ólíka sýn á viðfangsefnin. Þarna muni hugsanlega verða togstreita á milli þeirra sem stýra verkefnum samkvæmt þessari þingsályktunartillögu og hins vegar stýrihóps í forsætisráðuneytinu.

Ég leyfi mér að hafa áhyggjur af þessu og hefði haldið að skynsamlegt væri af hæstv. ríkisstjórn og ráðherrum hennar — þeir eru meira og minna allir, sýnist mér, komnir í þessi mál, fjögur ráðuneyti standa að baki þingsályktunartillögunni og forsætisráðherra er kominn með sinn stýrihóp — að fella þetta betur saman. Það er rétt að málin skarast og ég held að það geti orðið til trafala og jafnvel hindrað framgang nauðsynlegra mála. Við vitum hvernig það er þegar menn eru með verkefni sem eru keimlík þá vill hver ota sínum tota og reyna að ná sínu fram. Ég óttast það vegna þess að öll þessi málefni eru svo brýn að ég hefði haldið að hæstv. ráðherra og allir þeir ráðherrar sem þarna koma að ættu að setjast niður og spyrja sjálfa sig: Væri ekki rétt að smella þessu saman í eitt verðugt verkefni?



[20:02]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta eru sjónarmið sem hv. þingmaður reifar. Ég vil þó halda því til haga að ég held að það skaði ekki þessa þingsályktunartillögu og þá aðgerðaáætlun sem verið hefur í vinnslu í mjög langan tíma að hún komi hér fram. Ég held að það sé gríðarlega jákvætt. Ef Alþingi vinnur þetta mál áfram í velferðarnefnd, sem ég á nú von á eftir þessa umræðu, vænti ég þess að menn sjái hversu mikilvægt það er að fá líka aðkomu Alþingis. Með því er verið að tryggja, í málaflokki sem er gríðarlega mikilvægur, aðkomu fjögurra ráðuneyta og svo löggjafarþingsins um hvaða skref skuli stigin í þessum málum. Ef við ætlum að ná árangri þá er gríðarlega mikilvægt að menn vinni saman þvert á ráðuneyti og þetta mál hefur verið talsvert lengi í undirbúningi. Þess vegna er mikilvægt að fá líka aðkomu þingsins að því vegna þess að það hefur tekið lengri tíma að ná þessu saman eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni.

Við sjáum líka merki um úrræði sem hafa orðið til með samstarfi á milli einstakra ráðuneyta, eins og t.d. verkefnið Bjarkarhlíð, sem gert er ráð fyrir í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. að sambærilegu úrræði sé komið upp á Akureyri þar sem allir aðilar koma að. Þar sem dómsmálin koma að, félagsmálin, heilbrigðismálin og við erum með fleiri úrræði sem eru þess eðlis að við erum að tengja saman ólíka málaflokka. Þegar við erum að feta þá braut innan framkvæmdarvaldsins, að vinna meira saman þvert á ráðuneyti, sem hefur verið í undirbúningi lengi í þessari áætlun, held ég að það sé einfaldlega mjög jákvætt að koma með það hingað inn til þingsins, fá umfjöllun um það. Þá erum við líka komin með sýn ólíkra flokka á það. Það er nú þannig að framkvæmdarvaldið situr á endanum í umboði löggjafarvaldsins og ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að þessi þingsályktunartillaga sé skynsamleg í því formi sem hún er þá að sjálfsögðu vinnum við áfram eftir því. Ég held því að það sé bara jákvætt mál og ég vonast til að það fái góða afgreiðslu og vinnslu í þinginu.



[20:04]
Una María Óskarsdóttir (M):

Þingforseti. Hæstv. ráðherra. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Í kafla I er framtíðarsýn og viðfangsefni og segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.“

Þá segir enn fremur í kafla II, um markmið og áherslur í lið 2, með leyfi forseta:

„Að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi.“

Ég ætla ekki að eyða tíma í til að telja upp aðgerðir áætlunarinnar sem eflaust gagnast margar hverjar, en ég vil sérstaklega nefna aðgerð A.6 þar sem efla á kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum. Sú aðgerð er mjög mikilvæg. Það hefur komið fram að hér á landi eru fæðingar ungra mæðra fleiri en annars staðar á Norðurlöndunum og vissulega tilefni til að hafa áhyggjur af því. Þegar ég kom í þingið í fyrsta skipti árið 2005 lagði ég fram þingsályktunartillögu þar sem ég hvatti þáverandi heilbrigðisráðherra til að stofna starfshóp til að vinna gegn óeðlilegu og ótímabæru kynlífi ungmenna og enn þurfum við að sjálfsögðu að vinna í því.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hér á undan virðist vera ákveðin brotalöm í þessari þingsályktunartillögu. Fram kom að hún er unnin af fjórum ráðuneytum. Einnig kom fram, sem satt er, að forsætisráðuneytið er með sínar áherslur og maður spyr sig hvers vegna svo sé. Það sem ég geri athugasemdir við og furða mig á í tillögunni er að það vantar grundvallaraðgerð, sem er grunnur allra þeirra aðgerða sem þarna koma fram. Það er meira að segja aðgerð sem er þegar samþykkt því að hún er í lýðheilsustefnu sem velferðarráðuneytið setti fram og á sér uppruna í ráðherranefnd um lýðheilsu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti á fót. Lýðheilsustefna var samin af fólki og sérfræðingum í nefndinni. Þetta eru aðgerðir til að aðstoða foreldra við uppeldi barnanna sinna og það er grunnur sem við heyrum mjög mikið frá foreldrum að foreldrar kalla á að fá aukna fræðslu um uppeldishlutverkið og við vitum hvað það skiptir miklu máli í þeim hraða og asa og öllu því sem er að gerast í þjóðfélaginu að foreldrar fái aukna fræðslu um hvernig best megi bregðast við hegðun og framkomu barnanna sinna. Það er að sjálfsögðu á ábyrgð foreldra að kenna börnunum sínum ýmislegt í samskiptum við annað fólk, bæði er varðar ofbeldi og aðra hluti. Það er erfiðasta hlutverk okkar í lífinu að ala upp börn. Þess vegna harma ég að ekki sé litið til lýðheilsustefnunnar, sem var með mjög góðar aðgerðir. Það er kannski oft svo að ekki er litið til þeirra góðu verkefna sem einhverjir aðrir en samflokksmenn eða þeir sem eru við stjórnvölinn hverju sinni setja fram.

Miðflokkurinn mun leggja fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu í nefndinni og ég hvet ráðherra til að kynna sér hina góðu lýðheilsustefnu, sem gefur miklar og góðar upplýsingar um námskeið sem ég vil segja ykkur frá. Það er þannig að Þroska- og hegðunarstöð hefur um langt skeið haldið úti námskeiðum sem heita Uppeldi sem virkar. Þau hafa verið kennd við mjög margar ung- og smábarnaverndir hringinn í kringum landið og þau eru akkúrat stíluð inn á foreldra sem eru að stíga sín fyrstu skref í uppeldinu. Námskeiðin skipta mjög miklu máli og fólk er mjög ánægt með þau. Það skiptir máli að stjórnvöld stígi þau skref að aðstoða foreldra í þessu mikilvæga hlutverki og ég hvet ráðherrann áfram í því. Eins og ég sagði mun Miðflokkurinn leggja fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu.



[20:10]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu sem snýr að því að Ísland verði í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn ofbeldi í samfélaginu og hvernig tekist er á við afleiðingar þess. Til þess að geta orðið í fararbroddi þá þurfum við að huga að forvörnum og fræðslu. Við þurfum að huga að málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og vinna að valdeflingu þolenda, eins og segir hér í upphafi.

Ofbeldi getur bæði verið líkamlegt og andlegt, og er ekki síður átt við kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Það kemur fram í tillögunni að aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.

Það er mikilvægt að Alþingi álykti að ofbeldi sé alvarlegt þjóðfélagslegt mein. Það þarf vakningu, það þarf að bæta verklag og vinna að því að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið. Þetta eru stór markmið og getur tekið tíma að innleiða slíkt og margir steinar eru á leiðinni að því göfuga markmiði að hægt verði að segja að Ísland verði í fararbroddi í þessum efnum.

Aðgerðaáætlun getur falið í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra. Núverandi stjórnvöld hafa þegar hafið átak til að styrkja slíka málsmeðferð með því að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun. Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í þessum málum og nú er að finna í tillögum í fjárlagafrumvarpi stöðugildi sem fer á Norðurland vestra og þá er hringnum lokað.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta þar sé fagleg og hægt sé að treysta því að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessi málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli fyrir það hvernig brotaþolinn kemur út á endanum.

Við getum fundið hérna ýmsar aðgerðaáætlanir sem mér finnst skipta miklu máli og vil ég nefna t.d. stuðning við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi, eins og stendur hér, með leyfi forseta:

„Stuðningur við svæðisbundnu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi. Árlega verði tilteknu fjármagni af safnliðum fjárlaga, vegna verkefna á sviði félagsmála, varið til styrktar svæðisbundnu samstarfi eða til ákveðinna verkefna sem styðja við aðgerðir gegn ofbeldi.“

Markmiðið er að efla svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hefur þegar byrjað víða um land og t.d. hefur lögreglan verið í samstarfi við sveitarfélög vegna heimilisofbeldis, til að uppræta það og koma með leiðir til að reyna að sporna gegn því. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búa við heimilisofbeldi.

Þetta eru allt mikilvæg mál og það sem er kannski rauður þráður í gegnum þessa þingsályktunartillögu er fræðsla. Það eru margar leiðir að fræðslu og ég tel það sem hv. þm. Una María Óskarsdóttir nefndi hér áðan um lýðheilsu skipta máli og eiga heima í þessari tillögu. Þótt hún sé ekki endilega nefnd hér þá er það starf sem hefur verið unnið að í lýðheilsumálum verkfæri sem væri hægt að nýta hér og ég held að það sé alls ekki verið að ganga fram hjá því í þessari tillögu, síður en svo. Við höfum í gegnum tíðina verið með mjög góð og öflug verkfæri sem við höfum nýtt sem ég held að komi hér að góðum notum og ég held að lýðheilsuverkefnið sé einmitt verkefni sem væri mjög gott að leiða hér inn.

Hér er talað um kvennaathvarf á landsbyggðinni. Kvennaathvarfið í Reykjavík er úrræði fyrir konur og börn til að dvelja á þegar óbærilegt er vegna ofbeldis að búa heima. Við höfum ekki haft neitt úrræði á landsbyggðinni og ég held að það sé mikilvægt, eins og hér kemur fram, að stofnaður verði samstarfshópur eða starfshópur sem falið verði að kortleggja og meta þessa þörf, sem er svo sannarlega fyrir hendi. Það er ansi langur vegur fyrir konur sem lenda í heimilisofbeldi og börn að leita hingað suður, það er stundum nógu erfitt að komast út um dyrnar heima hjá sér, hvað þá að fara á milli landshluta til að leita í öruggt skjól. Þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægur áfangi til þess að tryggja þolendum ofbeldis aðgang að sérhæfðum stuðningsúrræðum óháð búsetu.

Hér er nefndur árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Ég held að þetta sé mjög góður vettvangur margra aðila, lögreglunnar, skólakerfisins, yfirvalda, sveitarfélaga. Þetta eru allt aðilar og miklu fleiri sem koma að þessum málum og skiptir máli að þetta samtal fari fram.

Það er margt fleira í þessari tillögu sem er mikilvægt, svo sem vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali. Mér finnst það skipta miklu máli í þeim hremmingum sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðustu dögum að þetta sé tekið upp og nefnt og fái rými, því að haturstal er að finna víða, ekki bara síðustu daga heldur er það að finna líka á samfélagsmiðlum og manna í millum. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að tekið sé utan um þolendur í slíku ofbeldi, því þetta er ofbeldi, og það sé viðurkennt og þeir fái svigrúm og vernd. Manni finnst stundum þetta ofbeldi fá svo lítið vægi, eins og það skipti ekki máli. Orð hafa afleiðingar og orð geta sært og skilið efti bæði særindi og varanlega áfallastreituröskun hjá fólki sem hefur orðið fyrir því. Það er ekki nægjanlegt að setja plástur á skotsárið. Það þarf að taka kúluna í burtu.

Það er bent á skýrslu um hatursorðræðu og hér er yfirlit um gildandi lög og reglur og gefnar fjölmargar ábendingar um aðgerðir til að stemma stigu við haturstali hér á landi. Það er oft talað um að hatursorðræðan sé fyrsta skrefið að líkamlegu ofbeldi. Við þekkjum þetta á samfélagsmiðlum þar sem kannski er ungt fólk og verður fyrir þessu og það er enginn áhorfandi nema sá sem verður fyrir því og sá sem beitir því.

Mig langaði líka til að nefna, þar sem hér kom fram að það þætti ekki nóg að þessi fjögur ráðuneyti væru með þetta málefni, að ég held að þetta sé bara málefni allra ráðuneyta og okkar allra að koma þessu áfram, vera meðvituð um þetta. Þannig getum við haft Ísland í fararbroddi gegn ofbeldi. Ég vil bara segja að lokum að ég mun fylgja þessu áfram inn í velferðarnefnd.



[20:21]
Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Þingforseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sem steig hér í púlt á undan mér fyrir að minnast á lýðheilsustefnuna og taka fram og taka undir að slík fræðsla geti verið gott verkfæri inn í þessa þingsályktunartillögu. Ég er að sjálfsögðu hjartanlega sammála því. Ég vil leggja áherslu á, af því að ég veit að það er mjög mikilvægt, að foreldrar fái aukna aðstoð til að valda sínu veigamikla hlutverki, því að það er svo margt sem hefur áhrif á börnin okkar. Það eru vinirnir, þeir geta verið margs konar, það er auðvitað samfélagsmiðlar og af því hv. þingmaður nefndi hatursorðræðu þá hefur maður miklar áhyggjur af því hvað er orðið mikið hatur á samfélagsmiðlum. Eins og fram kom bæði hjá hv. þingmanni og fólki með einhverju viti, vildi maður kannski orða það, þá fylgja orðum ábyrgð. Það er sannarlega satt og manni líður illa yfir því hvernig fólk leyfir sér oft að nota alls konar orð um annað fólk.

Varðandi einelti þá líður þeim sem leggur aðra í einelti líka illa, enda reyna meðferðaraðilar bæði að hafa áhrif á og hjálpa þeim sem verða fyrir eineltinu og þeim sem leggja í einelti. Það er bara þannig. Við þurfum að huga að báðum hópum og þetta er mikið áhyggjuefni. Þess vegna vonar maður að margar aðgerðanna sem koma fram í þingsályktunartillögunni hafi góð áhrif og komist til framkvæmda. Það skiptir mjög miklu máli að góð mál komist til framkvæmda.



[20:23]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var kannski ekki með neina beina spurningu en ég tel að hún hafi verið að taka undir það sem kom fram. Ég held að við höfum mörg verkfæri sem við getum nýtt. Það er bara „common sense“, t.d. þær uppeldisaðferðir sem við bæði þekkjum og höfum beitt og þá held ég að fræðsla sé númer eitt, tvö og þrjú. Ef við tökum til að mynda hinsegin fólk, transfólk, þá skiptir gríðarlega miklu máli að slík fræðsla komist inn til barnanna.

Það gerist fyrst og fremst í gegnum uppeldið og heimilið, síðan í skólunum, þar sem ég veit að er góð fræðsla. En það er mikilvægt að það verði vakning og að virðingin sé borin áfram, hvort sem er í gegnum uppeldið eða skólagöngu eða í samskiptum hvert við annað. Þá held ég að auðmýkt skipti máli og að við berum virðingu hvert fyrir öðru, hvaða verkfæri sem við notum sem dugar í það, hvaða nafni sem það nefnist. Ég held að það sé alls ekki verið að gera lítið úr neinu hér þótt það hafi kannski ekki verið orðað.

(Forseti (ÞorS): Forseti bendir í góðsemd á að þingmálið er íslenska.)



[20:24]
Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Þingforseti. Ég vil að leggja áherslu á að það vantar inn í þingsályktunartillöguna aðgerðir sem snúa að fræðslu til foreldra, til að efla foreldra í uppeldishlutverkinu. Sú aðgerð er m.a. orðuð í lýðheilsustefnu sem ég nefndi áðan og á sér rætur í ráðherranefnd um lýðheilsu, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti á fót þegar hann var forsætisráðherra.

Það er það sem ég vil undirstrika, að þá mikilvægu aðgerð vantar. Mér finnst hún vera grunnur allra aðgerða, að aðstoða foreldra í uppeldishlutverkinu, vegna þess að þar náum við árangri. Menn hafa lengi talað um að ábyrgð sé ýtt yfir á skólakerfið í of ríkum mæli og ég get alveg tekið undir það. Kennarar eru ekki bara að kenna námsgreinarnar heldur eru þeir að ala börnin okkar upp líka. Vissulega þurfa þeir á ákveðinn hátt að gera það en foreldrar eiga að sjálfsögðu að sjá um að ala upp börnin sín. Það er erfitt hlutverk og þess vegna finnst mér að stjórnvöld þurfi að koma því svo fyrir að foreldrum verði gert auðveldara að komast á skrið í mikilvægasta hlutverkinu sem við sinnum á lífsleiðinni, vil ég segja.



[20:26]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni. Ég held að komið sé inn á mjög mörg atriði tillögunni og að í flestu snúi það að börnum og þá að foreldrum líka. Við getum alveg tekið það til umræðu þegar að því kemur. Hv. þm. Una María Óskarsdóttir nefnir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Ég verð að segja að ég vona að hann eigi eftir að lesa þetta vel yfir og taka það til sín því að ég held að ekki veiti af. Okkur er öllum hollt að lesa þetta oft yfir og tileinka okkur margt sem hér stendur og fara mörg þau verkfæri sem til eru til að koma í veg fyrir ofbeldi.



[20:27]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, frá félags- og jafnréttismálaráðherra. Ég þakka ráðherra fyrir yfirferð hans yfir málið. Erindi mitt hér er að fagna þingsályktunartillögunni og í rauninni tala um það sem komið var inn á áðan að þetta snerti marga ráðherra, og ég held að ekki veiti af, þar sem málið er það víðtækt og þetta snertir okkur eiginlega hvar sem við erum. Eins og kemur fram í aðgerðunum er það frá leikskólaaldri og upp til aldraðra, sem ég fagna mjög að sjá þarna líka því að umræða er t.d. um það að aldraðir geta verið beittir ofbeldi á heimilum sínum og jafnvel inni á stofnunum sem eru á ábyrgð okkar, ríkis og sveitarfélaga, og annað slíkt. Ég held að það sé eitt af því sem við erum ekki mjög oft með inn í umræðunni.

Þetta er, eins og komið hefur fram, mál sem snertir alltaf a.m.k. tvo einstaklinga, þann sem beitir ofbeldinu og þann sem er þolandi í einföldustu mynd sinni. Auðvitað eru í kringum þessa tvo, og jafnvel fleiri einstaklinga, alltaf fjölskylda, vinnufélagar og stórt samfélag. Þarna eru hlutir sem við þurfum að taka á út frá mjög breiðum grunni.

Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á það fyrirkomulag sem er í dag, sem ég held að sé mjög gott fyrirkomulag, sem komið var á á árinu 2015 þar sem sveitarfélögin tóku höndum saman með lögreglunni og varð að samþættu verkefni. Þar var valdið til ákæru fært yfir til lögreglunnar þannig að það var ekki einstaklingurinn sjálfur sem þurfti alltaf að kæra til að málið héldi áfram. Það var mjög stórt skref og ég held að við höfum verið að gera mjög margt undanfarin ár og við séum því á mjög góðri leið með að bæta þessu inn í.

Þingsályktunartillagan á eftir að fara til umræðu í velferðarnefnd og tekur kannski einhverjum breytingum. Án efa eiga margir punktar eftir að koma þar inn í sem þétta tillöguna og hv. þingmenn sem töluðu hér á undan bentu á ýmis atriði. Auðvitað er útfærslan á aðgerðunum ekki alveg niður í það hvaða verkefni á að nota, eins og t.d. fræðslu heilsugæslunnar og skólanna til foreldra og annað slíkt, hvaða prógramm er akkúrat notað. En ég held að fræðslan og grunnurinn sé góður og við gerum börnum og fólki grein fyrir því, allt frá leikskólaaldri og upp úr, að ofbeldi er ekki eðlilegt ástand þó að í sumum tilfellum hafi fólk því miður alist upp við slíkt og myndi þannig með sér kannski meðvirkni og annað slíkt þar sem það lætur yfir sig ganga hegðun sem á bara alls ekki að líðast.

Einnig er umræða um nálgunarbann, umsátur, einelti og ýmislegt fleira sem þarf að koma inn í þessa umræðu. Hér er líka talað um rannsóknir á ofbeldi og ofbeldismálum, birtingarmyndir ofbeldis og annars slíks. Það er held ég líka verkefni sem við þurfum að bæta okkur í og efla.

Ég er mjög ánægð með þetta plagg og geri mér grein fyrir að það er ekki fullkomið eins og það er lagt fram og ýmislegt sem má bæta og þétta. Væntanlega tekur velferðarnefnd það til umræðu og ég efast ekki um að allir þeir sem taka þátt í þeirri vinnu munu leggja eitthvað til vinnunnar.



[20:32]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Kannski í ljósi þess sem á daga okkar hefur drifið undanfarið, ekki síst, og allra þeirra byltinga sem við höfum verið þátttakendur í þá held ég að það sé hvatning til að gera enn betur en gert hefur verið mjög víða í samfélaginu, eins og hér hefur verið minnst á, ekki síst innan skólakerfisins, innan réttarvörslukerfisins og víðar.

Ég ætlaði bara rétt að klukka þetta mál hérna, en það sem mér finnst vera mikilvægt, af því að ég kom inn í umræðuna um fræðslu til handa foreldrum og öðrum og fræðslan getur farið fram í gegnum skóla og í gegnum heilsugæsluna og á fleiri stöðum auðvitað, en fyrst og fremst held ég að það sé afskaplega mikilvægt að það fólk sem starfar með börnum í umhverfi þar sem áreiti er mikið, og það er alls konar, fái þá fræðslu sem þörf er á á hverjum tíma. Auðvitað þurfum við líka að gera vel og betur í því að efla fræðslu og eftirfylgni með þeim úrræðum sem við höfum þó varðandi þessi mál þegar kemur að ofbeldi.

Hér er fjallað um aðgerðaáætlun um gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þar höfum við líka heyrt ljótar sögur þar sem hefur verið ofbeldi af margs konar tagi. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra lagði m.a. hér á dögunum fram tillögu um samskiptafulltrúa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum til að vera yfir því starfi og ásamt því sem hér er nefnt er það eitt af því sem getur hjálpað til að mínu mati þegar kemur að því að taka á svona málum.

Það er mikil þörf gagnvart börnum og gagnvart ungu fólki líka sérstaklega að fræðast um mjög margt þegar kemur að ofbeldi, sérstaklega í ljósi allra þeirra miðla sem aðgangur er að og alls þess kláms og annars slíks sem í boði er og virðist það enn þá vera þannig að sérstaklega íslenskir ungir piltar skora allt of hátt þar. Þá er mikilvægt að á öllum þeim vígstöðvum sem við getum komið því við sé fræðsla. Hvernig hún fer fram er auðvitað eitthvað sem þarf að útfæra.

Nú erum við lögð af stað með það að setja upp geðheilsuteymi á heilsugæslunum. Þar ætti þessi samræmda heilsuvernd skólabarna að geta hjálpað til líka, m.a. að til bregðast við en líka með forvörnum. Það er auðvitað það sem við þurfum að gera. Við þurfum að efla forvarnir til að reyna að koma í veg fyrir þessi mál, svo að við þurfum að takast á við sem allra fæst málefni af þessu tagi.

Ég er ánægð með að þetta mál er komið fram og vona svo sannarlega að það fái vandaða umfjöllun í velferðarnefnd. Ég tel líka að það sé ástæða til þess að við reynum að koma þessu verkfæri af stað, samþykkja þetta þannig að við getum farið að vinna eftir þessu. Þó að margt sé vel gert og verið að gera marga af þessum hlutum þá er betra að hafa þetta klappað og klárt og formið sé í lagi.

Virðulegur forseti. Ég hvet fulltrúa velferðarnefndar sem hér sitja að sjá til þess að málið fái vandaða umfjöllun en líka skjóta.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.