149. löggjafarþing — 57. fundur
 24. janúar 2019.
Brexit.

[10:52]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mér þykir heldur skuggsýnt yfir þingsalnum í dag. Vandræðagangur Breta við að koma sér saman um hvernig skuli ganga úr Evrópusambandinu er tragikómískur. Útgöngusamningurinn var kolfelldur og nú er hver höndin upp á móti annarri og enginn veit hvernig því máli lyktar og því síður hver áhrifin verða á samskipti Bretlands og Íslands, og þó. Hæstv. utanríkisráðherra hefur oftar en ekki látið að því liggja að í Brexit felist mikil tækifæri fyrir Ísland. Vandséð er reyndar hver þau tækifæri eru að mati þess sem hér stendur.

Um miðjan október sl. lagði ég fram skriflegar fyrirspurnir til hæstv. utanríkisráðherra um stöðu íslenskra borgara í Bretlandi eftir Brexit og með sama hætti hæstv. dómsmálaráðherra um stöðu breskra ríkisborgara hér á landi. Hvorugri hefur verið svarað. Það þykir mér harla undarlegt í ljósi þess að bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa látið hafa eftir sér að gagnkvæm réttindi hafi verið tryggð með eða án útgöngusamnings.

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu frá því 20. desember sl. segir, með leyfi forseta:

„Pólitískt samkomulag ríkir þó á milli Íslands og Bretlands um að tryggja gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án samnings.“

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvers vegna hann treystir sér ekki til að svara skriflegri fyrirspurn minni. Liggja ekki fyrir samningar og loforð milli Breta og Íslendinga um þessi mál?

Að síðustu: Taka þessi loforð og samningar til borgara sem hyggjast setjast að í löndunum í (Forseti hringir.) framtíðinni eða einungis þeirra sem þegar eru búsettir í löndunum?



[10:54]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ég held að mikilvægt sé að draga réttan lærdóm af því. Ég held að öllum þeim sé ljóst sem hér hafa talað í fullri alvöru um að gott væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið að þeir geta aldrei aftur notað þá röksemd, sem öllum var ljóst að var fráleit en var samt notuð, að það sé ekkert mál að ganga í Evrópusambandið af því að það er svo auðvelt að ganga úr því aftur ef mönnum líkar ekki dvölin. Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar sem eru í flokki sem var sérstaklega með Evrópusambandsflaggið á öllum borðum á landsfundi sínum muni aldrei segja neitt slíkt aftur. Ég held að við hljótum að geta treyst því. Er það ekki, virðulegi forseti? Það er ekki auðvelt að ganga úr Evrópusambandinu.

Varðandi tækifæri er það ekki bara sá sem hér stendur sem talaði um þetta. Ef hv. þingmaður flettir upp í viðtölum við formann og varaformann Viðreisnar sér hann að báðir töluðu um það, annar í þinginu og hinn í viðtölum við RÚV, að auðvitað væri tækifæri í því, sérstaklega í sjávarútvegi, ef Bretar fengju aftur það viðskiptafrelsi sitt sem þeir hafa ekki núna.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns kemur á óvart að við séum ekki búin að svara henni því að hv. þingmaður las ágætlega yfir þær fréttatilkynningar sem hafa komið fram. Ég skal kanna hvernig stendur á því. Það stendur ekki á okkur að svara þessum spurningum, bæði skriflega og með öðrum hætti, eins og hv. þingmaður fór yfir og las ágætlega í yfirlýsingu og fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.



[10:57]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta var ágætur fyrirlestur hjá hæstv. utanríkisráðherra sem að vanda dregur kolrangar ályktanir af staðreyndum máls. Það er ekki við Evrópusambandið að sakast að Bretum tekst ekki að komast þaðan. Það er þeirra eigið sjálfskaparvíti sem blasir við öllum sem hafa opin augu og eyru. En það er kannski ekki hægt að segja alltaf um hæstv. utanríkisráðherra.

Að hinu vil ég spyrja hann: Hafa verið gerðar ráðstafanir vegna hagsmuna íslensks sjávarútvegs? Bretar taka við miklum hluta af fiskútflutningi okkar. Fari þeir úr Evrópusambandinu án samnings og ef ekki tekst að gera fríverslunarsamninga milli Bretlands og Evrópusambandsins verða hagsmunir íslensks sjávarútvegs í uppnámi þar sem (Forseti hringir.) verulegur hluti af þeim fiski sem fer til Bretlands er seldur áfram til meginlands Evrópu. Sýnir þetta ekki einmitt í hnotskurn (Forseti hringir.) að fjölþjóðlegt samstarf er miklu mikilvægara en tvíhliða samstarf?



[10:58]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvort hv. þingmaður muni halda því aftur fram að það sé ekkert mál að ganga út úr Evrópusambandinu ef menn ganga inn. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því á næstunni.

Fjölþjóðlegt samstarf og fjölþjóðlegt samstarf er ekkert það sama. Ég vonast til þess að hv. þingmaður sé ekki fylgjandi því að við göngum í allt það fjölþjóðlega samstarf sem er til. Menn þurfa auðvitað að skoða hvað það felur í sér. Hv. þingmaður vísaði til hluta sem við getum ekki ráðið við. Við munum ekki ráða því hvernig viðskilnaður verður á milli Breta og Evrópusambandsins. Okkar lína hefur alltaf verið skýr, bæði gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu og Bretum, að ef viðskiptahindranir verða eftir viðskilnaðinn munu allir tapa á því, þar með talið við. Það liggur alveg fyrir. Það er enginn sigurvegari í því ef einhverjar viðskiptahindranir verða eftir.

En ég ber hvorki ábyrgð á samningum né samningsuppleggi Evrópusambandsins eða Breta í þessum viðræðum og get ekki stýrt því. Það sem við höfum gert, virðulegur forseti, og sem við höfum farið yfir bæði á opinberum vettvangi, í utanríkismálanefnd og í þinginu, er að kortleggja okkar hagsmuni og reynt að búa okkur undir allar þær stöður sem geta komið upp. Við reynum að tryggja íslenska hagsmuni (Forseti hringir.) eins vel og mögulegt er við hverjar þær aðstæður sem upp koma. (Forseti hringir.) Ég held að það hafi verið hárrétt ákvörðun að setja það í forgang þó að sumir aðilar hafi ekki stutt það neitt sérstaklega.