149. löggjafarþing — 64. fundur
 7. feb. 2019.
samkomulag um lok umræðu um samgönguáætlun.

[13:21]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti hefur talað við forseta Alþingis um málið og farið yfir það. Þetta er að finna í 2. mgr. 86. gr. þar sem segir:

„Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar. Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið áður en umræða hefst að ræðutími skuli vera annar en þingsköp ákveða, svo og hve lengi umræðan má standa. Þegar þannig er samið milli þingflokka um umræðutíma skal skipta honum sem næst því að hálfu jafnt milli þingflokka og að hálfu skal hafa hliðsjón af því hve margir þingmenn eiga aðild að hverjum þingflokki, en forseti ákveður þá ræðutíma þingmanna utan flokka. Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.“

Eins og forseti sagði mun hann að sjálfsögðu bregðast við og tryggja að hér sé farið að lögum um þingsköp. Miðað við þessa lagagrein sýnist forseta, og hefur hann fengið það staðfest frá bæði forseta Alþingis og skrifstofu Alþingis, að í henni felist þetta sama, hvort sem mönnum finnst það óréttlátt eða ekki, að ef þingflokkar semja sín á milli um að takmarka ræðutímann er annars vegar heimild fyrir því að bregða út frá 95. gr. sem talar um almennan ræðutíma, og hins vegar, þegar samningur er um að takmarka ræðutímann er það forseti þingsins sem ræður ræðutíma þeirra sem sitja utan flokka.

Forseta sýnist því að það sé að fullu farið að lögum og reglum þingsins, en bendir þó þingmönnunum á sem finnst þeirra ræðutími óhóflega takmarkaður, að ræða það frekar við forseta þingsins. Þeir geta jafnvel mótmælt á grundvelli þessa og kallað eftir því að greidd séu atkvæði um ákvörðun forseta. Þá þarf þrjá þingmenn og ég efast ekki um að þessir tveir þingmenn utan flokka geta fundið einhvern til að styðja slíka atkvæðagreiðslu.



[13:23]
Ólafur Ísleifsson (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka skýringar forseta en ég fæ ekki séð að þær eigi við hér. Gert er ráð fyrir því að þingflokkar geti tekið slíka ákvörðun. Það var upplýst áður en hæstv. forseti gerði hlé á fundinum að enginn slíkur fundur hefði verið haldinn. Það hlýtur að verða að skýra þessa grein með þeim hætti að það liggi fyrir ákvörðun, það hafi verið boðað til fundar og haldin fundargerð, það hafi verið fært til bókar að ákvörðun af þessu tagi hafi verið tekin ef það á að fara að beita þessari grein. Annað fær ekki staðist. Svona lagatúlkun er ekki sæmandi Alþingi.



[13:24]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Í gærkvöldi fékk ég símtal frá starfsmanni þingfundaskrifstofu þar sem mér var tjáð að þingflokksformenn væru ásamt forseta að ræða eitthvert samkomulag um að takmarka ræðutímann og að einn skyldi tala á morgun, þ.e. í dag, sem talsmaður. Ég hafði ekkert heyrt af þessu og sagði því við starfsmann Alþingis að mér þætti þetta skrýtið því að hvorki forseti né aðrir þingflokksformenn hefðu rætt þetta við mig. Þar með lauk því samtali.

Ég kom hingað í þinghúsið. Ég lét að sjálfsögðu setja mitt fólk á mælendaskrá því að það er ekki hægt að gera svona samkomulag án þess að allir séu með. Þá var ég kallaður inn á teppið hjá forseta þar sem farið var yfir að klára þyrfti umræðuna og ég spurður hvort við værum til í það. Ég tók mér umhugsunarfrest og síðan tókum við okkur af mælendaskrá í ljósi þess að þarna ætti að vera eitthvert samkomulag.

Það var aldrei haldinn neinn fundur meðal þingflokksformanna. Það var aldrei skýrt fyrir þingflokksformönnum hvað í þessu nákvæmlega fælist, þ.e. að einhverjir ákveðnir þingmenn fengju ekki þann ræðutíma sem þeim kannski bæri í þessu öllu saman. Það er rétt að í 86. gr. er gert ráð fyrir að forseti geti, ef það er komið samkomulag, (Forseti hringir.) ákveðið ræðutíma þeirra sem eru utan flokka. Það er ekki hægt að búa við að þessi vinnubrögð verði framar stunduð, að það sé hlaupið um á göngunum og reynt að búa til eitthvert samkomulag milli einhvers hóps og svo öðrum stillt upp við vegg, eins og ég held að megi segja að hafi verið gert í gærkvöldi. Mér finnst mjög skynsamlegt að hér verði bara ákveðið að þessi ágæti þingmaður fái þann ræðutíma sem hann þarf.



[13:25]
Karl Gauti Hjaltason (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, sem er þingflokksformaður Miðflokksins, að hann er ekki þátttakandi í þessu samkomulagi en þó segir í 86. gr. að þegar þannig er samið milli þingflokka, þ.e. takmarkaðan ræðutíma eða að umræðan verði með einhverjum ákveðnum hætti, geti forseti ákveðið að skera niður tíma og ræður manna. Um það virðist ekki vera að ræða hér, það virðast vera einræðistilburðir forseta að skera niður án samráðs við alla þingflokka þannig að greinin á ekki við. Ég vil bara minna á enn og aftur, eins og ég hef fyrr sagt, að í landinu eru í gildi lög sem heita þingskapalög og þeim verður ekki vikið til hliðar á göngum Alþingis í samræðum manna á milli. (Forseti hringir.) Það er bara þannig, við búum í lýðræðisþjóðfélagi — enn þá.



[13:27]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér finnst tilefni til að gera athugasemdir við framkomu forseta gagnvart tveimur þingmönnum utan flokka. Mér finnst skýringar forseta hér áðan því miður bera með sér ákveðið yfirlæti forseta, m.a. forseta Alþingis eins og starfandi forseti lýsti því, gagnvart þessum þingmönnum og stöðu þeirra hér. Eins og komið hefur fram lá ekki fyrir neitt formlegt samkomulag sem hefði þá þurft að byggja á, en ég er þeirrar skoðunar að jafnvel þó að slíkt samkomulag hefði legið fyrir væri ekki hægt að líta svo á að tveir þingmenn utan flokka væru bundnir af samkomulagi sem þeir sem eru innan flokka gera sín á milli, enda hefur reglan verið sú þegar þingflokksformenn koma saman og reyna að ná niðurstöðu að þá séu allir með, formenn allra þingflokka, ella sé ekkert samkomulag. Þeir geta með öðrum orðum á vissan hátt bundið þingmenn síns flokks en þeir geta varla bundin þingmenn sem eru ekki í neinum þeirra flokka sem standa að samkomulaginu.

Og vel að merkja, það var ekki einu sinni samkomulag í þessu tilviki.



[13:28]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti vill árétta að sama hvað mönnum finnst það óréttlátt gilda lög um þingsköp, Þegar starfandi forseti er þingmaður hefur hann oft látið þau orð falla að vald þingflokkanna sé mikið en sem starfandi forseti hefur forseti staðfest að þingflokksformönnum er einmitt heimilt að gera samninga samkvæmt lögunum og koma fram fyrir hönd þingflokkanna gagnvart forseta Alþingis og öðrum þingflokksformönnum. Þetta eru samningar aðila og þeir geta vissulega gert þá samninga um símalínu eins og hv. þingmenn sem hafa starfað hérna sæmilega lengi vita. Það er samkvæmt lögum þannig að þetta er heimilt, sama hvað mönnum finnst það óréttlátt.



[13:29]
Ólafur Ísleifsson (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Skýr ákvæði þingskapa um ræðutíma þingmanna verða ekki upphafin með því að vísa til einhverra samtala á göngum þingsins. Ef það á að beita því ákvæði þingskapanna verður að gera þá kröfu að lögð sé fram fundargerð frá þeim fundi þar sem þetta var ákveðið, að sú ákvörðun hafi verið færð til bókar og að hér séu teknar réttar og lögmætar ákvarðanir. Ég ætla að leyfa mér að minna á það að við erum stödd á Alþingi Íslendinga og lagatúlkanir eins og hér virðist vera boðið upp á eru bara allsendis langt fyrir neðan virðingu Alþingis.



[13:30]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti áréttar að eitt stendur út af varðandi lagaskýringuna og það er að hv. þingflokksformaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur sagt að það hafi ekki verið samkomulag. Ef ekki var samkomulag er ekki farið að 2. mgr. 86. gr.

Þingforseti hefur sagt að það hafi verið samkomulag þannig að núna stendur eitthvað út af en Gunnar Bragi Sveinsson — mér sýnist hann vera að biðja um orðið — getur útskýrt fyrir okkur hérna hvers vegna hann telur að ekki hafi verið samkomulag og þá kannski óskað eftir því að ræða þetta nánar við forseta Alþingis.



[13:30]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Málið er einmitt hvenær menn gera samkomulag og hvenær menn gera ekki samkomulag. Eins og ég lýsti áðan hringdi í mig starfsmaður skrifstofu Alþingis í gærkvöldi og mér var sagt að þingflokksformenn væru að koma sér niður á það samkomulag að hætta umræðunni, einn til tveir gætu talað og síðan myndi talsmaður tala á morgun, þ.e. í dag. Þetta kom mjög flatt upp á mig vegna þess að hvorki forseti Alþingis né aðrir þingflokksformenn höfðu rætt þetta við mig.

Ég kom hins vegar hingað í þinghúsið, eins og ég lýsti áðan, forseti kallaði á mig og sagði mér að þetta hefði orðið niðurstaðan milli þeirra. Ég tók mér hlé til að skoða þetta mál. Okkar fólk fór á mælendaskrá í mótmælaskyni við þá aðferðafræði sem hér hafði þá verið stunduð þennan dag af hálfu forseta og hinna þingflokksformannanna.

Ég féllst hins vegar á það eftir mína ræðu að taka fólkið af mælendaskrá og kannski má líta á það þannig að um það hafi þá verið samkomulag. Ég ætla ekki að neita því ef menn túlka það þannig en það er galið að fara í þessa vegferð hlaupandi hér á göngunum og skilja eftir tvo heiðursmenn sem ekki fá að tala hér eins og þingsköp gera ráð fyrir. (Forseti hringir.) Ég held, herra forseti, að það ætti hugsanlega að gera hlé aftur á þingfundinum til að fara betur yfir þetta.

Í öðru lagi höfum við alltaf þann möguleika (Forseti hringir.) að láta bara þingsalinn greiða atkvæði og þá sjáum við hvað þingmenn vilja, hvar réttlætið er í þessu. Ég er alveg til í að bakka þá tvo heiðursmenn upp í að biðja um það.



[13:32]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti áréttar að til þess að fá að greiða atkvæði um það, eins og hann nefndi, þarf þrjá til en það þarf að gera áður en umræða hefst þannig að sá möguleiki er ekki stöðunni.

Hlé á þingfundinum? Eru einhverjir aðrir sem óska eftir að taka til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta?



[13:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil gera athugasemd við að forseti hafi kynnt þennan möguleika áðan, boðið mönnum upp á að láta greiða atkvæði um þetta, ef þrír menn æsktu þess, en lýsir því nú yfir að það sem hann boðaði hér fyrir fáeinum mínútum sé ekki valkostur. Þetta þykir mér benda til þess að skýringar forseta almennt séu nokkuð þversagnakenndar og ljóst, eins og komið hefur fram, að ekki lá fyrir það formlega samkomulag sem hefði þurft til þess að forseti gæti gengið fram með þeim hætti sem hann reynir að gera hér.

Loks vil ég höfða til þess að forseti hljóti nú að vilja engu að síður láta þingstörfin ganga þolanlega fyrir sig þrátt fyrir allt sem á undan er gengið af hálfu forseta Alþingis varðandi túlkun þingskapa og leitast við að leysa þetta mál með því að leyfa þingmönnum að tala, þótt ekki væri nema nokkrar mínútur. Er til of mikils mælst af (Forseti hringir.) forseta Alþingis að leyfa þingmönnum að tjá sig um eins stórt mál og samgönguáætlunin er?



[13:33]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti áréttar að hann las áðan 2. mgr. 86. gr. í lögunum í allri viðleitni til að hérna skyldi farið eftir lögum um þingsköp. Þar segir m.a.:

„Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.“

Það er talað um að það þurfi að gerast áður en umræða er hafin. Það er það sem kemur fram í ákvæðinu. Ég nefndi það við hv. þingmenn Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason í fundarhléinu að það væri leið sem þeir gætu farið í framtíðinni ef þeir hefðu áhuga á því og lenda aftur í sömu stöðu.

Varðandi ræðutímann er ákveðið samkomulag í gildi núna um hann. Þingforseti getur svo sem alveg, bara til að hægt sé að hreyfa við þessum fundi, boðið Karli Gauta Hjaltasyni að taka tíu mínútna ræðu ef hann óskar eftir því sérstaklega. (KGH: Núna?) Já, þá getur hann haldið áfram þar sem frá var horfið. Er það ásættanlegt? Þá fimm mínútna ræðu til að klára sínar tíu mínútur og svo óskar þá starfandi forseta eftir því góðfúslega að þingmennirnir tali við forseta Alþingis.



[13:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemdir við fundarstjórn forseta og ef hann vill rýmka ræðutíma hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar uni ég því ágætlega. Ég lít hins vegar ekki á það sem fordæmi, hvorki gagnvart því að orð standi né að vald forseta í svona tilvikum sé virt. Það sem hér gerðist í gær var að forseti lýsti áformum sínum, þegar atkvæðagreiðsla var um lengd fundar, um að við myndum ljúka umfjöllun og afgreiðslu þessa máls áður en kjördæmavika hæfist. Við því hreyfði enginn andmælum. Það var löng mælendaskrá og ljóst að hér gæti þurft að funda mjög langt inn í kvöldið eða nóttina til að ljúka umræðunni. Þess vegna fóru menn að ræða hér undir kvöldmat um hvort betur færi á því að þeir töluðu í gærkvöldi sem þyrftu að tala en síðan yrði samið um lok umræðunnar, eins og iðulega er gert, að henni lyki með vel skipulagðri umferð þar sem talsmenn allra flokka fengju orðið. (Forseti hringir.) Þetta féll í góðan jarðveg og þetta samþykktu allir formenn þingflokka, að vísu hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson með þeim hætti sem hann hefur hér lýst, (Forseti hringir.) að ég sá að hann var genginn inn í samkomulagið. Ég sá það m.a. á mælendaskránni. Ég lít (Forseti hringir.) það mjög alvarlegum augum ef ekki er hægt að byggja í (Forseti hringir.) góðri trú á samkomulagi um svona hluti.