149. löggjafarþing — 66. fundur
 18. feb. 2019.
réttindi barna erlendra námsmanna.
fsp. JÞÓ, 438. mál. — Þskj. 608.

[16:38]
Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Þetta er áframhaldandi fyrirspurn. Ég var með fyrirspurn til þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra — nú er hann orðinn félags- og barnamálaráðherra — Ásmundar Einars Daðasonar einhvern tímann fyrir jól, minnir mig. Nú langar mig að spyrja dómsmálaráðherra því að í fyrirspurn minni til félagsmálaráðherra vísaði hann til þess að hans málefnasvið væri barnavernd en hann hafði ekki að gera með útlendingamál í þessu tilfelli eða dvalarleyfisþáttinn, hann vísaði til dómsmálaráðherra.

Ég beini því spurningum mínum til dómsmálaráðherra. Ástæðan fyrir því að ég er að fara af stað með þetta og er að spyrja að þessu er sú að ég er einn af talsmönnum barna. Allir þingflokkar hafa tilnefnt einn í sínum þingflokki til að vera talsmenn barna. Þetta er verkefni Barnaheilla, UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna. Þar lofum við að við setjum í forgang og höfum það að leiðarljósi — leiðarljós er orðið sem er notað — í okkar starfi að tryggja að lögum um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé fylgt eftir. Í fyrirspurn til ráðherra með ósk um munnlegt svar er ég að sinna skyldu minni sem eftirlitsaðili með því hvort þessum lögum sé fylgt.

Í 1. mgr. 3. gr. segir:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Jafnframt segir í 2. mgr. 2. gr.:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Óháð stöðu foreldranna eigum við, samkvæmt lögum, að hugsa um það sem er barninu fyrir bestu.

Ég sá í fréttum, og ég hef talað við lögmann þessara aðila, rúmlega ársgamlan dreng sem heitir Filip Ragnar. Foreldrar hans eru með dvalarleyfi á Íslandi sem námsmenn en hann fær ekki dvalarleyfi. Það er ákvæði í útlendingalögum, 71. gr. 5. mgr., sem heimilar að veita undanþágu. Það er einhver brotalöm þarna en það má samt veita undanþágu. Þá er sérstaklega talað um, bæði í greininni sjálfri og í greinargerðinni, að það sé gert til að tryggja réttindi barnsins.

Nú var ég að tala um hvaða réttindi barnið hefur samkvæmt lögum, að allar þessar stofnanir hins opinbera geri það sem er barninu fyrir bestu. Og það sem er barninu fyrir bestu, í tilfelli Filips Ragnars og Ernu Reka, sem er ekki með dvalarleyfi hér því að foreldrar hennar eru ekki með dvalarleyfi — þar sem hún er ekki með dvalarleyfi fær hún ekki þau réttindi sem önnur börn á Íslandi hafa — erum við ekki að gæta að jafnræðissjónarmiðinu sem ég nefndi í 2. mgr. 2. gr. laga um réttindi barnsins.

Við ráðherra höfum eitthvað talað um þetta en ég vil fá skýrt upp: Hver er staðan hvað þessi mál varðar? Hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu til að réttindi barnsins og það sem barni er fyrir bestu sé virt?



[16:42]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það hefði kannski verið til skýringar og upplýsandi að heyra hvaða réttindi það eru nákvæmlega sem hv. þingmaður telur að umrædd börn séu að missa af í þessum efnum. (Gripið fram í.) — Ýmis félagsleg réttindi, er kallað hér fram úr þingsal.

Það er ágætt að hafa í huga að við hv. þingmaður höfum rætt þessi mál áður hér í salnum, en rétt er að árétta það samt að börn sem fæðast hér á landi fá svokallaða kerfiskennitölu, hljómar auðvitað ekki vel að byrja lífið á kerfiskennitölunni en þannig er það nú samt og þau eru skráð í þjóðskrá. Það er raunveruleikinn og þau börn hafa komist inn á leikskóla og notið ýmissar annarrar þjónustu á meðan foreldrar þeirra njóta dvalarleyfis við nám, svo það sé tekið sérstaklega sem dæmi.

En það kann auðvitað að vera að hv. þingmaður kunni dæmi af einhverju þar sem barnið fær ekki slíka þjónustu og það er auðvitað ekki gott.

En mig langar líka að nefna og rétt að menn hafi það í huga að handhafar dvalarleyfis hér á landi eru sjúkratryggðir, af því að það er kannski helst horft í þau réttindi, þau eru kannski mikilsverðust í þessu sambandi, að þau börn eru sjúkratryggð eftir sex mánaða búsetu. Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum.

Þetta á við bæði um íslenska ríkisborgara og aðra sem koma hingað eftir dvöl erlendis, að menn fara ekki inn í kerfið fyrr en eftir sex mánuði.

Foreldrar sem eru hér á grundvelli dvalarleyfis, t.d. vegna náms, detta ekki sjálfkrafa inn í sjúkratryggingakerfið hér á landi, en fólki er að sjálfsögðu ávallt frjálst að kaupa sér sjúkratryggingu á meðan dvalið er hér. Það þekkist mjög vel.

Verið er að skoða hvaða réttinda börn sem fæðast íslenskum námsmönnum erlendis, íslensk börn erlendis, njóta í löndunum til samanburðar.

Í dómsmálaráðuneytinu er núna til skoðunar að yfirfara dvalarleyfiskafla útlendingalaga í heild sinni til að sníða af ýmsa vankanta sem hafa komið í ljós við framkvæmd laganna. Við þá vinnu verður jafnframt tekið til skoðunar hvort rétt sé að bæta við nýju ákvæði í lögin sem taki til barna sem fæðast hér á landi á meðan foreldrar þeirra eru með dvalarleyfi sem veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar.

Þetta mál hefur m.a. verið til umræðu á vettvangi þverpólitískrar þingmannanefndar um útlendingamál og þar var rætt að frekar en að bæta við auknum heimildum til fjölskyldusameiningar fyrir námsmenn sérstaklega myndum við skoða það hvort öll börn sem fæðast hér á landi og eiga foreldra með dvalarleyfi ættu að fá sambærilegt dvalarleyfi og foreldrarnir. Slíkt ákvæði myndi ná til stærri hóps en bara barna námsmanna sem fæðast hér á landi og hlýtur að vera mikilvægt, líka í ljósi jafnræðisins sem hv. þingmaður vísaði til.

Áætlað er að vinna við undirbúning frumvarps fari fram á næstu mánuðum og vonast er til að hægt verði að leggja fram frumvarp kannski á næsta þingvetri. Að þessu leyti reynist það eðlilegt.

En ég árétta það líka að mikilvægt er að menn hafi það í huga hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Börn íslenskra námsmanna erlendis, a.m.k. í mörgum löndum sem við sækjum mikið í nám, njóta ekki sérstaks réttar til þess sem kallað er efnahagsleg og félagsleg réttindi í þeim löndum, heldur njóta réttar með foreldrum sínum. Það þarf líka að hafa það í huga að hagsmunir barns eru alltaf fyrst og fremst þeir að vera með fjölskyldu sinni og njóta þeirra réttinda sem fjölskylda hefur.



[16:46]
Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Í rauninni stendur eftir að það er vinna í gangi og ábendingar hafa komist til skila, en samkvæmt lögfræðingi Ernu Rekas, þar sem foreldrarnir eru ekki með dvalarleyfi, hefur hún ekki ákveðin félagsleg réttindi þar sem þau eru bundin við lögheimilisskráningu hennar. Til að mynda hefur hún ekki, með leyfi forseta, „rétt á læknisþjónustu hérlendis, tannlæknaþjónustu, ekki rétt til að ganga í leikskóla í því sveitarfélagi sem hún býr í þar sem skilyrði um inntöku er um skráð lögheimili á Íslandi.“

Það eru greinilegar brotalamir þarna. Ég vil spyrja hvernig dómsmálaráðherra myndi bregðast við ef ég eða aðrir gætum bent á að þarna sé ekki verið að tryggja að barnið hafi jöfn réttindi á við önnur börn samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en það segir í 2. mgr. 2. gr. hans að það er ekki staða foreldranna sem skiptir máli þegar það kemur að réttindum barnsins. Sama hvernig það er gert, hvernig ráðherra er bent á það, ef það eru þannig brotalamir í kerfinu að núna eru börn á Íslandi sem ekki fá þau réttindi sem þau eiga að hafa samkvæmt lögum — og það kemur alveg skýrt fram frá UNICEF að meðan barn er innan okkar landamæra á það rétt á þeim réttindum sem segir í okkar lögum — ef það er hægt að benda ráðherranum á það, væri þá ekki eðlilegast að ráðherra myndi bregðast sem fyrst við? Ráðherra noti þær heimildir sem hann hefur til að koma tímabundið með einhverjar undanþágur til að tryggja réttindin séu til staðar. Það segir í útlendingalögum að Útlendingastofnun sjálfri er heimilt, með leyfi forseta, „að víkja frá skilyrðum ákvæðis þessa ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess.“ Og svo segir í 6. mgr. sömu greinar:

„Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli þessarar greinar …“

Ráðherra hefur heimildir í lögum til að grípa inn í fyrr áður en fram fer einhver heildarendurskoðun eða endurskoðun á dvalarleyfiskaflanum og bregðast við þannig að börnin njóti réttinda sem fyrst. Er ráðherra tilbúinn að stíga þau skref?



[16:48]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað alfa og omega okkar réttarríkis að menn njóti réttar lögum samkvæmt. Það kann að vera að hv. þingmaður hafi mismælt sig þegar hann rakti dæmi um að foreldrar hefðu ekki dvalarleyfi. Ef svo er, þá er auðvitað ekki um það að ræða að barnið njóti annars réttar en foreldrarnir enda nefndi ég það að það er barni fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum. Það þarf líka að huga að því að ef barn fær hér réttindi, t.d. rétt á heilbrigðisþjónustu og öðru, kann það að missa rétt í sínu landi líka. Það er ekki um það að ræða að menn geti hoppað á milli landa til að sækja sér heilbrigðisþjónustu víða.

Mest um vert í þessu er réttur að lögum. Varðandi dæmin sem hv. þingmaður rekur og vill meina að barn njóti ekki réttar sem það hafi lögum samkvæmt þá held ég að það sé misskilningur hjá hv. þingmanni vegna þess að þá er ástæðan sú að börnin njóta einmitt ekki réttar að lögum. Það er einmitt það sem við erum að skoða í dómsmálaráðuneytinu og í hinni þverpólitísku nefnd þingmanna sem hefur til skoðunar útlendingalögin.

Það kann mjög vel að vera að við breytum þessum kafla er varðar réttindi barna, þeirra barna sem fæðast hér en eru börn fólks með tímabundin dvalarleyfi hér á landi. Það er sjálfsagt að gera það en það þarf auðvitað að vera lögum samkvæmt. Við þurfum líka að hyggja að því að menn séu ekki með því að missa kannski mikilsverð réttindi í öðrum löndum, í sínu heimalandi, sem hugsanlega kunna að veita betri þjónustu — þótt við veitum frábæra þjónustu hér, t.d. á heilbrigðissviði — að menn séu ekki missa enn þá betri eða fjölbreyttari þjónustu í sínu heimalandi.

Þetta þarf allt að skoða og ég trúi ekki öðru en að við hv. þingmaður getum verið sammála um a.m.k. markmiðið, að börnin njóti sömu réttinda og foreldrarnir hér. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það.