149. löggjafarþing — 80. fundur
 19. mars 2019.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn og reglugerð (ESB) 2017/1129, fyrri umræða.
stjtill., 660. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 1073.

[17:32]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1129 er varðar lýsingar sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta.

Ekki er enn búið að taka umrædda reglugerð nr. 2017/1129 upp í EES-samninginn, en stefnt er að því að það verði gert á næstu vikum. Um er að ræða reglugerð sem kemur í stað núgildandi regluverks ESB um lýsingar. Með hugtakinu lýsingar er átt við skjöl sem gefin eru út vegna útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á verðbréfamarkaði.

Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um kerfi tilkynninga eftirlitsstjórnvalda á staðfestum lýsingum til annarra eftirlitsstjórnvalda innan ESB vegna viðskipta yfir landamæri. Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur ekki tekið gildi þegar umrædd reglugerð tekur gildi innan ESB, sem verður þann 21. júlí 2019, geta kauphallir í öðrum ríkjum neitað að taka við staðfestum lýsingum frá EES/EFTA-ríkjunum. Þær aðstæður geta leitt til óvissu og aukins kostnaðar fyrir útgefendur og heft aðgengi þeirra að fjármagni og þannig skaðað hagsmuni EES/EFTA-ríkjanna.

Efnahagslegir hagsmunir EES/EFTA-ríkjanna, þó einkum Noregs og Liechtensteins, knýja því á um að reglugerðin geti tekið gildi á sama tíma í EES-ríkjunum og hún gerir ríkjum ESB. Til að svo megi verða þarf að tryggja að annaðhvort verði ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn tekin án stjórnskipulegs fyrirvara af Íslands hálfu eða, ef ákvörðun verður tekin með slíkum fyrirvara, að tilkynnt verði um afléttingu hans nægilega snemma til að ákvörðunin hafi öðlast gildi þegar reglugerðin tekur gildi í ríkjum ESB.

Með öðrum orðum felur samþykkt þingsályktunartillögunnar eftirfarandi í sér: Annars vegar: Verði þingsályktunartillagan samþykkt áður en umrædd ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni verður stjórnvöldum heimilt að samþykkja ákvörðunina án stjórnskipulegs fyrirvara. Hins vegar: Verði þingsályktunartillagan samþykkt eftir að umrædd ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara verður stjórnvöldum heimilt að aflétta þeim stjórnskipulega fyrirvara.

Hvað innleiðinguna á Íslandi varðar er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á næsta löggjafarþingi fram lagafrumvarp til innleiðingar á gerðinni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.