149. löggjafarþing — 119. fundur
 7. júní 2019.
upplýsingalög, 2. umræða.
stjfrv., 780. mál (útvíkkun gildissviðs o.fl.). — Þskj. 1240, nál. 1641, breytingartillaga 1642.

[10:45]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Jónsson frá Háskóla Íslands, Odd Þorra Viðarsson frá forsætisráðuneyti, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ebbu Schram frá Reykjavíkurborg, Þóri Guðmundsson frá Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, Jóhann Óla Eiðsson, Gísla Rúnar Gíslason frá Umhverfisstofnun, Sif Konráðsdóttur og Snæbjörn Guðmundsson frá samtökunum Ófeig náttúruvernd, Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Þórhall Vilhjálmsson frá lagaskrifstofu Alþingis, Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, Skúla Eggert Þórðarson ríkisendurskoðanda, Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins og Hafstein Þór Hauksson frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Nefndin fékk umsagnir frá dómstólasýslunni, samtökunum Ófeig náttúruvernd, Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, Þjóðskjalasafni Íslands, Umhverfisstofnun, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jóhanni Óla Eiðssyni, Reykjavíkurborg, forsætisnefnd, Samtökum atvinnulífsins og loks alveg í restina frá Persónuvernd.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á upplýsingalögum með það að markmiði að styrkja upplýsingarétt almennings með útvíkkun á gildissviði laganna þannig að rétturinn til aðgangs að gögnum nái að meginstefnu til handhafa löggjafar- og dómsvalds. Kveðið verði skýrar á um frumkvæðisskyldu ráðherra til birtingar upplýsinga úr málaskrám. Sérstakur ráðgjafi um upplýsingarétt starfi fyrir hönd stjórnvalda. Æðstu handhafar ríkisvaldsins geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og skerpt er á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining. Lagt er til að lög um upplýsingarétt um umhverfismál falli brott en að við upplýsingalög bætist sérstakur kafli um meðferð slíkra mála. Hér er lagt til að sett verði strangari tímamörk í afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Nefndin fjallaði sérstaklega um gildissvið frumvarpsins og þá útvíkkun sem lögð er til varðandi Alþingi og undirstofnanir þess, umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að við vinnslu málsins á undirbúningsstigi hefði áhersla verði lögð á að ákvæði upplýsingalaga yrðu látin ná til stjórnsýslu eða stjórnsýsluþátta Alþingis en ekki til stofnana Alþingis. Í samræmi við það hafði forsætisnefnd lagt til að orðalag í 2. gr. yrði:

„Lög þessi taka til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. Ákvæði laganna taka ekki til umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar eða rannsóknarnefnda samkvæmt lögum nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir. Um aðgang að upplýsingum hjá þessum stofnunum fer eftir því sem segir í lögum um þær eða reglum settum á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla taka ekki til Alþingis eða stofnana þess.“

Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að gildissvið upplýsingalaga verði látið taka til Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla laganna taki þó ekki til Alþingis og um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslu stofnana Alþingis og rannsóknarnefnda á vegum Alþingis fari samkvæmt ákvæðum laga um umboðsmann Alþingis, laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og laga um rannsóknarnefndir eða reglum settum á grundvelli þeirra.

Í umsögn forsætisnefndar kom fram ábending um að sú leið sem farin var í frumvarpinu að fella orðið „stjórnsýsla“ brott úr ákvæðinu, sé ekki í samræmi við tillögur forsætisnefndar. Það sé ekki í samræmi við áherslur nefndar ráðherra og skýringar í greinargerð við ákvæðið þar sem er talað um stjórnsýslu eða stjórnsýsluþætti á vegum Alþingis. Í þessu samhengi segir í 1. gr. Tromsø-sáttmálans frá 18. júní 2009, um aðgang að opinberum gögnum, enska útgáfan af því er Convention on Access to Official Documents, sem frumvarpið sýnist byggjast á, um merkingu orðanna „opinber aðili“, og tilvitnun hefst á ensku um hvað „public authorities“ þýðir: „2. Legislative bodies and judicial authorities insofar as they perform administrative functions according to national law“. Orðalag frumvarpsákvæðisins sýnist því mun víðtækara en tillaga forsætisnefndar.

Í skýringum með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að forsætisnefnd verði falið að afmarka hvar mörkin liggi á milli eiginlegra þingstarfa og stjórnsýslu þingsins með reglum sem hún setur, en að það geti einnig ráðist að einhverju marki af lögum um þingsköp. Þannig myndi forsætisnefnd sjálf afmarka nánar hvaða þættir teljist til stjórnsýslu þingsins og þannig hvaða þættir starfseminnar falli undir upplýsingalög. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er ekki greint á milli löggjafarmálefna, starfa þingmanna eða stjórnsýslu á vegum þingsins. Þó að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi að láta gildissviðið ráðast einungis af lögum um þingsköp og reglum sem forsætisnefnd setur telur nefndin það í þágu skýrrar lagasetningar að fara að tillögu forsætisnefndar. Nefndin telur því nauðsynlegt að afmarka gildissviðið við stjórnsýslu þingsins og að það sjálft afmarki stjórnsýsluna gagnvart þingstörfunum.

Í umsögn forsætisnefndar er einnig bent á að ekki sé fylgt þeirri tillögu forsætisnefndar að undanskilja stofnanir þingsins, umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, og rannsóknarnefndir, gildissviði upplýsingalaga og að um upplýsingarétt almennings skuli fara eftir lögum sem um þessar stofnanir gilda. Að baki þessari tillögu búi að varðveita sjálfstæði þessara stofnana þingsins, m.a. frá framkvæmdarvaldinu og þeim reglum sem gilda um starfsemi þess, enda falli það undir starfssvið umboðsmanns og ríkisendurskoðanda að hafa eftirlit með því hvernig framkvæmdarvaldið fylgir reglum upplýsingalaga. Þá verði ekki heldur séð að gert sé ráð fyrir því að undir hugtakið löggjafarvald, á ensku „legislative bodies“, í merkingu Tromsø-sáttmálans falli stofnanir þjóðþings á borð við umboðsmann eða Ríkisendurskoðun. Sú framsetning sem nú sé í frumvarpinu er ekki rökstudd sérstaklega og sýnist ástæðulaus og geti valdið vandkvæðum í framkvæmd. Sérstaklega ef ágreiningur verði um gildissvið upplýsingalaga gagnvart stofnunum Alþingis og þar með hvort þessar stofnanir þingsins falli undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og að hvaða marki önnur ákvæði upplýsingalaga en um beinan aðgang að gögnum, svo sem um skráningarskyldu, eigi við í tilvikum stofnana þingsins. Það sé síðan sérstakt úrlausnarefni, sem taka þyrfti afstöðu til í framhaldi af samþykkt frumvarpsins, að hvaða marki sé rétt að gera breytingar og setja í lög um stofnanir Alþingis — rétt eins og þurfi að útfæra í þingsköpum að því er varðar Alþingi — ákvæði um aðgang að gögnum hjá stofnunum þingsins og þá að teknu tilliti til eðlis þeirrar starfsemi sem þær hafa með höndum.

Loks er í umsögninni talið rétt að árétta, varðandi tilvísanir í athugasemdum með frumvarpinu um að reglur norska Stórþingsins geti verið möguleg fyrirmynd fyrir reglur sem settar yrðu á grundvelli laga um þingsköp Alþingis, að norsku upplýsingalögin undanskilji Stórþingið, umboðsmann þess og ríkisendurskoðunina gildissviði upplýsingalaga. Um aðgangsrétt að upplýsingum hjá ríkisendurskoðuninni sé fjallað í lögum um stofnunina. Þá hafi enn fremur verið settar reglur um umboðsmann Stórþingsins að þessu leyti, þ.e. Instruks for Stortingets ombudsmann for forvaltningen, samanber 11. gr. reglnanna. Nefndin tekur fram að Noregur hefur, eins og kemur fram í athugasemdum í kafla 3.1 í greinargerð með frumvarpinu, fullgilt Tromsø-sáttmálann þó að Stórþingið og stofnanir þess séu undanskildar gildissviði upplýsingalaganna. Í þeim reglum sem Stórþingið hefur sett og gera má ráð fyrir að forsætisnefnd hafi til hliðsjónar er gert ráð fyrir að norsku upplýsingalögin gildi að því leyti sem þau geta átt við með þeirri túlkun og undantekningum sem leiðir af reglum Stórþingsins.

Viðfangsefni forsætisnefndar verður því að afmarka nánar hvaða starfsemi Alþingis fellur undir upplýsingalög, en um það er lagt til að vísað verði með almennum hætti til stjórnsýslu Alþingis. Gera verður ráð fyrir að þar verði jafnframt höfð hliðsjón af gildissviði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem taka ekki til starfa Alþingis, samanber 5. mgr. 4. gr. laganna. Er þar vísað til hefðbundinna starfa Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa. Ákvæði upplýsingalaga myndi því ekki taka til þingmanna þingflokka eða starfsmanna þingflokka eða til gagna sem til yrðu í samskiptum þessara aðila, til að mynda við rannsóknarþjónustu þingsins. Nefndin telur nauðsynlegt að bregðast við þeim ábendingum sem koma fram í umsögn forsætisnefndar og leggur því til breytingar á 2. gr. frumvarpsins í samræmi við það þannig að greinin verði eins og forsætisnefnd lagði til.

Þetta þýðir að upplýsingalög ná yfir Alþingi og þar af leiðandi með fókus á stjórnsýslu Alþingis, en annað, þ.e. starfsemi þingflokkanna og þeirra pólitísku störf séu undanskilin. Jafnframt að eftirlitsstofnanir Alþingis, Ríkisendurskoðun, sem hefur eftirlit með því að það sé vel farið með skattfé landsmanna, og umboðsmaður Alþingis, sem er eins konar æðsta úrskurðarvald innan stjórnsýslunnar, þ.e. framkvæmdarvaldsins, þannig að borgararnir geta sótt rétt sinn ef þeim finnst stjórnsýslan brjóta á sér, framkvæmdarvaldið brjóti af sér, séu undanskildar, þessir aðilar séu undanskildir.

Fyrir nefndinni kom fram að taki ákvæði upplýsingalaga ekki til umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar eins og tillaga forsætisnefndar gerir ráð fyrir geti það komið niður á skýrleika þar sem í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er í 2. mgr. 15. gr. um aðgang að gögnum hjá Ríkisendurskoðun vísað til upplýsingalaga. Í þessu tilfelli geti verið ákveðið ósamræmi. Í greininni er kveðið á um að ef óskað er aðgangs að gögnum sem hafa orðið til í samskiptum ríkisendurskoðanda og eftirlitsskylds aðila fari um aðgang að þeim hjá Ríkisendurskoðun eftir ákvæðum upplýsingalaga eða ákvæðum laga um upplýsingarétt um umhverfismál eftir atvikum. Nefndin tekur fram að með þeirri vísun er átt við að um upplýsingarétt almennings fari eftir almennum efnisreglum upplýsingalaga og takmörkunum á þeim þó að stofnunin falli ekki undir upplýsingalög. Þannig sæta ákvarðanir ríkisendurskoðanda um aðgang að gögnum ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Þetta skiptir máli að því leyti til að framkvæmdarvaldið hefur með úrskurðarnefnd upplýsingamála að gera. Það var vilji nefndarinnar að þessar stofnanir Alþingis sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu yrðu ekki undir þann hatt eða það vald settar.

Umboðsmaður Alþingis hefur lögum samkvæmt víðtækan rétt til þess að fá afhent gögn og upplýsingar frá stjórnvöldum vegna athugunar hans á málum. Stjórnvöldum ber að afhenda umboðsmanni gögn og svör við upplýsingabeiðnum óháð þagnarskyldureglum og reglum um aðgang aðila stjórnsýslumáls og almennings að gögnum. Á fundum nefndarinnar upplýsti umboðsmaður Alþingis að hann ynni að því að undirbúa reglur til að tryggja og skýra aðgang almennings, þeirra sem hafa sent honum kvartanir og stjórnvalda að gögnum hjá skrifstofu hans og niðurstöðum vegna mála sem hann fjallar um. Nefndin telur það mjög jákvætt að umboðsmaður setji slíkar reglur og geri þær aðgengilegar á vef sínum.

Þá um aðgang að skjölum eldri en 30 ára. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri tilhögun að Alþingi er undanskilið skilaskyldu til Þjóðskjalasafns og því séu gögn hjá Alþingi ekki aðgengileg eftir 30 ár eins og gildir almennt um aðgang almennings að upplýsingum samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn. Nefndin telur ekki þörf á að gera breytingar á þeirri tilhögun enda hefur skjalasafn Alþingis ákveðna sérstöðu þar sem gert er ráð fyrir því í stjórnarskrá að Alþingi hafi skjalasafn. Þannig er í 10. gr. stjórnarskrárinnar kveðið á um að forsetinn vinni eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en Þjóðskjalasafn hitt. Þannig hefur í starfsemi þingsins ætíð verið skjalasafn og kom fram fyrir nefndinni að fyrir liggja drög að reglum um aðgang að skjölum sem eru eldri en 30 ára. Í framkvæmd hefur aðgangur að gögnum þingsins verið veittur fræðimönnum sem rannsaka einstök málefni.

Um frumkvæðisbirtingu úr málaskrám stjórnvalda. Nefndin fjallaði nokkuð um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varðandi frumkvæðisbirtingu upplýsinga en í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skuli birta upplýsingar úr málaskrám sínum með rafrænum hætti. Lagt er til að kveðið verði á um að að lágmarki verði birt skrá yfir mál sem eru til meðferðar í ráðuneyti í tilefni af innsendu eða útsendu erindi þar sem tilgreint er málsnúmer og heiti máls. Bent er á að ráðherra getur einnig, að fenginni reynslu Stjórnarráðsins af birtingu upplýsinga úr málaskrám ráðuneyta, mælt fyrir um sambærilega skyldu annarra stjórnvalda með endurskoðun reglugerðar um birtingu opinberra upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Nefndin telur að með þessu sé stigið mikilvægt skref í aðgengi almennings að upplýsingum hjá stjórnsýslunni og að takist vel til muni það skapa hagræði í störfum hjá stjórnsýslunni.

Þá er kafli um ráðgjafa um upplýsingarétt almennings. Persónulega er ég einna hrifnastur af þessu.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka upplýsingarétt almennings og því er lagt til að hjá stjórnvöldum starfi sérstakur ráðgjafi um upplýsingarétt almennings sem hafi það hlutverk að stuðla að bættri upplýsingagjöf hins opinbera. Fyrir nefndinni kom fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur verið leiðandi í mótun og skýringu á gildandi reglum. Hún hefur margsinnis kveðið upp réttarmótandi úrskurði og veitt stjórnvöldum aðhald þegar ákvæðum laganna hefur verið beitt með of takmarkandi hætti. Úrskurðarnefndin hefur þó einungis aðkomu að málum þegar beiðandi ákveður að bera mál undir nefndina.

Hérna má kannski bæta við að nefndin hefur ekki frumkvæðisrétt, það er það sem er verið að segja hérna, en líka ef stjórnvald hefur ekkert unnið að máli þá hefur það ekki verið rétt að einstaklingur sem óskar upplýsinga kæri til úrskurðarnefndarinnar. Það er verið að setja inn með þessu frumvarpi.

Úrskurðarnefndin getur því ekki beint almennum ummælum til stjórnvalda, hvorki í einstökum tilfellum né almennt, nema með úrskurði í tilteknu máli. Nefndin tekur fram að úrskurðarnefndin kemur því einungis að málum á lokastigum en með því að setja á fót starf ráðgjafa um upplýsingarétt almennings er unnt að koma leiðbeiningum að á fyrstu stigum, svo sem með því að leiðbeina borgurum um framsetningu gagnabeiðna. Þá er lagt til að ráðgjafinn verði stjórnvöldum og öðrum aðilum sem falla undir gildissvið upplýsingalaga til ráðgjafar við meðferð og afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum. Nefndin telur að mikil tækifæri felist í að hafa slíkan ráðgjafa fyrir almenna borgara og stjórnvöld og að það geti jafnvel orðið til þess að kærumálum fækki hjá úrskurðarnefndinni með tímanum.

Það sem þetta þýðir er að verði frumvarpið að lögum þá geta borgarar, fjölmiðlar og stjórnvöld leitað til ráðgjafans sem getur leiðbeint öllum aðilum um það hvernig eigi að vinna þessi mál. Eins og hefur komið í ljós eru borgararnir oft að senda inn upplýsingabeiðnir sem eru ekki nógu skýrar eða afmarkaðar eða slíkt. Þeir geti þá fengið leiðbeiningu um það, jafnframt fjölmiðlar. Stjórnvöld geta líka lent í þeim vandræðum að vera kannski ekki viss um hvernig þau eigi að vinna beiðnina og þar af leiðandi dragast mál á langinn og geta dregist lengi, sér í lagi náttúrlega vegna þess að við vitum að stjórnsýslan okkar er mjög fjársvelt og ég væri ekki hissa á því að það væru mjög margir að brenna út þar. Frumvarpið þýðir að ef stjórnvöld er óviss um það hvernig eigi að afgreiða upplýsingabeiðni þá geta þau leitað til ráðgjafans og fengið upplýsingar um það og almenningur getur leitað til hans þannig að þetta ýtir undir það að mál séu unnin hratt og faglega og að ráðgjafinn veiti stjórnvöldum aðhald og aðstoð við að klára upplýsingabeiðnirnar, sem er gríðarlega mikilvægt.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að sú kæruheimild sem mælt er fyrir um í 13. gr. frumvarpsins geti valdið hættu á því að mál rati til úrskurðarnefndar um upplýsingamál án þess að hafa hlotið nokkra umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi. Við þær aðstæður fái borgarinn mál sitt aðeins skoðað á einu stjórnsýslustigi en njóti ekki þess réttaröryggis sem endurskoðun á æðra stjórnsýslustigi tryggi honum. Með vísan til framangreinds áréttar nefndin að málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál eftir nýrri kæruheimild 13. gr. frumvarpsins felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að mál fái efnismeðferð á tveimur stjórnsýslustigum með stjórnsýslukæru. Nefndin telur þar af leiðandi eðlilegt að úrskurðarnefnd um upplýsingamál upplýsi kæranda um það og veki athygli hans á möguleika til að leita til ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, samanber 10. gr. frumvarpsins, til að knýja á um afgreiðslu málsins á fyrsta stjórnsýslustigi. Þetta á sérstaklega við í tilvikum þar sem beiðni varðar umfangsmikil gögn, krefst mikillar vinnu eða meðferð hennar tekur langan tíma af öðrum ástæðum og ljóst er að vinna stendur yfir við meðferð hennar á fyrsta stjórnsýslustigi. Kærandi hefur þannig val um að draga kæru sína til baka um stundarsakir frá úrskurðarnefndinni, til að fá notið þeirra réttinda sem málsmeðferð á tveimur stjórnsýslustigum tryggir honum, eða að halda sig við kröfu um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki efnislega ákvörðun um aðgang hans.

Þannig að réttindin eru hjá borgurunum. Í dag er það þannig að ef borgari leggur fram upplýsingabeiðni samkvæmt upplýsingalögum, hann á þennan rétt, en stjórnsýslan vinnur ekkert í málinu, þá er hann fastur. Það sem er verið að bæta inn núna er að eftir 30 daga þá getur hann, ef hann vill, kært til úrskurðarnefndar upplýsingamála sem tekur bindandi ákvörðun. Málið er enn þá í vinnslu á fyrsta stjórnsýslustiginu og úrskurðarnefndin upplýsir kæranda: Þú getur dregið þessa kæru til baka, farið til ráðgjafans sem aðstoðar þig og stjórnvald í því að leysa málið. Þegar það er leyst þá er kæran náttúrlega sjálfkrafa ekki til og úrskurðarnefnd um upplýsingamál þarf ekki að sinna málinu og borgarinn hefur fengið sínar upplýsingar.

Varðandi málsmeðferðartíma. Nefndin fjallaði sérstaklega um tímamörkin sem lögð eru til í frumvarpinu um hámarksafgreiðslutíma beiðna um aðgang að gögnum. Í 1. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um að tekin skuli ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Frestur vegna afgreiðslu beiðni samkvæmt 33. gr. skal þó vera 20 dagar, þ.e. aðgangur að gögnum í rannsóknarskyni.

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksafgreiðslutími beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum verði 40 dagar frá því að beiðni barst. Hafi beiðni um aðgang ekki verið afgreidd innan 40 virkra daga frá móttöku hennar verði beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að nokkur hætta væri á því að stjórnvöld nýttu þennan 40 daga hámarksafgreiðslutíma til fulls í stað þess að fylgja meginreglunni um að afgreiða beiðnir á sjö dögum.

Fyrir nefndinni var nokkuð rætt um mikilvægi þess að hámarksafgreiðslutími yrði sem stystur til að tryggja sem best rétt þeirra sem sækjast eftir upplýsingum frá stjórnvöldum. Fram kom að sá 40 daga frestur sem lagður er til í frumvarpinu áður en bera má mál efnislega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem og 150 daga málsmeðferðartími fyrir nefndina, byggist að nokkru leyti á núverandi verklagi og reynslu af störfum nefndarinnar. Nefndin telur þó, að höfðu samráði við forsætisráðuneytið, mögulegt að stytta fyrrnefndan frest úr 40 dögum í 30 daga og leggur því til breytingartillögu þess efnis við 13. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur í þessu sambandi áherslu á mikilvægi þess að beiðnir um upplýsingar séu afgreiddar svo fljótt sem auðið er enda um grundvallarréttindi að ræða.

Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að úrskurðarnefndin skuli að jafnaði birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að innan 150 daga frá móttöku hennar. Fyrir nefndinni kom fram að meðalmálsmeðferðartíminn hjá úrskurðarnefndinni hefur verið 180–220 dagar og því er hér um verulega styttingu á afgreiðslutíma að ræða. Það myndi krefjast aukins fjármagns til úrskurðarnefndarinnar að stytta málsmeðferðartíma hennar meira. Nefndin telur rétt að unnið verði áfram að því markmiði að halda málsmeðferðartíma í lágmarki, en að það skref sem hér er stigið sé mikilvægt skref í að bæta upplýsingarétt almennings. Þá verði einnig í framhaldinu lagt mat á það hvort hægt verði að stytta málsmeðferðartíma frekar.

Hérna má nefna að það er stefna stjórnvalda í dag að minnka tímann niður í 90 daga og er verið að vinna að því og er búið að senda út auglýsingu um að ráða aukastarfsmann fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Það er verið að vinna sig í áttina að þessu, að stytta þennan tíma. Þið munið að ef stjórnvald fær upplýsingabeiðni þá eru sjö dagar, þau eiga að vinna að því, láta síðan þann sem biður um upplýsingar vita ef það tekur lengri tíma. Eftir 30 daga samkvæmt þessu frumvarpi og breytingum mun sá sem biður um upplýsingar, borgari eða fjölmiðill eða hvað, geta kært það til úrskurðarnefndarinnar. Takið eftir að þá eru það samt sem áður 150 dagar sem þarf að bíða þar, en það er réttur til staðar að draga beiðnina til baka tímabundið, tala við fulltrúa stjórnvalda, upplýsingafulltrúann, sem aðstoðar við upplýsingabeiðnir og fá aðstoð hjá honum og hann geti þá talað við stjórnvöld til þess að reyna að leysa málið. Þetta er langur tími þessir 150 dagar. Stjórnvöld eru að reyna að vinna hann niður í 90, en þetta er svona neyðarúrræði, sem er ekki til staðar í dag ef stjórnvöld gera ekki neitt. Núna verður það til staðar ásamt þessari aðstoð.

Þá um upplýsingarétt um umhverfismál. Nú er ég að verða búinn með tímann en ég held að ég nái þessu. Nefndin fjallaði á fundum sínum um aðgang að gögnum um umhverfismál, en með frumvarpinu er lagt til að sérlög um upplýsingarétt um umhverfismál verði felld brott og færð efnislega inn í upplýsingalög með það að markmiði að einfalda regluverkið.

Frumkvæðisskylda vegna yfirvofandi ástands. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram ábending um að regla, sem kveðið er á um í lokamálslið 1. mgr. 5. gr. laganna, verði ekki lengur í gildi verði frumvarpið að lögum. Í greininni er kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. laganna. Í lokamálsliðnum er kveðið á um að stjórnvöldum sé ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té nema ástand sé yfirvofandi sem geti haft skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Stofnunin tekur fram að ekki hafi reynt á lokamálslið greinarinnar og að hún telji einnig að með nánari útfærslu á frumkvæðisskyldu og almennri miðlun upplýsinga náist fram sama markmið og stefnt er að í ákvæðinu. Stofnunin telur engu síður að kveða þurfi með nákvæmari hætti á um það hvenær frumkvæðisskylda til birtingar upplýsinga vaknar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur nauðsynlegt að hugað verði að þeim við endurskoðun reglugerðar um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Við þá endurskoðun verði haft samráð við Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og aðra aðila.

Varðandi málshraða og málsmeðferð þegar kemur að upplýsingarétti um umhverfismál, þá bendir Umhverfisstofnun á að misræmi sé milli málshraðareglu í 1. mgr. 12. gr. laganna um upplýsingarétt um umhverfismál annars vegar og 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Með frumvarpinu verði því málsmeðferðartími vegna beiðna um aðgang að upplýsingum um umhverfismál styttur um helming. Stofnunin telur það jákvætt að málsmeðferðartíminn verði styttur. Fyrir nefndinni komu fram þær upplýsingar frá forsætisráðuneytinu að ekki væri um eiginlega breytingu á málsmeðferðarreglu upplýsingaréttar að ræða, heldur styttingu á þeim tíma sem stjórnvöld hefðu til að skýra beiðanda frá ástæðum tafa á meðferð beiðni og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Meginreglan verði áfram sú að taka skuli ákvörðun um hvort orðið verði við beiðni svo fljótt sem verða má. Nefndin tekur einnig fram að almenn kæruheimild vegna dráttar á málsmeðferð er í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga en auk þess er í 13. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir sambærilegri kæruheimild og nú er að finna í 2. mgr. 12. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál.

Síðan er farið yfir ákvæði um innleiðingu EES-gerða. Umhverfisstofnun bendir á að í frumvarpinu sé ekki ákvæði um að VII. kafli frumvarpsins sé til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Slíkt ákvæði sé til þess fallið að auka gagnsæi. Nefndin tekur undir mat stofnunarinnar og leggur til slíka breytingu.

Ég á ekki eftir að ná að fara í gegnum þetta. En það er mjög ítarlegur kafli um upplýsingarétt um umhverfismál, við fengum mjög góðar umsagnir um það. Það var farið vel yfir það og þeim spurningum svarað og brugðist við þeim ábendingum, athugasemdum og sjónarmiðum sem komu fram. Það eru margir undirkaflar þar og bendi ég landsmönnum á að þeir geta skoðað það í nefndarálitinu.

Þá er það kafli um gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti. Bendi ég fólki á að skoða hann. Þetta er aðallega varðandi það ef stjórnsýsla, t.d. sveitarfélag, leitar ráðgjafar hjá lögfræðingum eða eitthvað svoleiðis og fær álit þegar um er að ræða ágreiningsmál við aðra aðila þá skuli þau gögn undanskilin upplýsingarétti. Þetta eru lögfræðiálit sem geta skipt máli varðandi framvindu máls þegar það eru ágreiningsatriði. Það voru allir sammála um að það væri mikilvægt að undanskilja þetta þar sem málið er í gangi og það getur skipt máli, þetta eru svona strategískar upplýsingar varðandi málsmeðferðina.

Um lágmarksreglur þá telur nefndin að með frumvarpinu séu stigin markviss skref í átt að betra aðgangi að upplýsingum bæði með því að sérstakur ráðgjafi um upplýsingarétt taki til starfa sem og með auknum skyldum stjórnvalda til birtingar upplýsinga að eigin frumkvæði. Nefndin tekur þó fram að með upplýsingalögum eru settar lágmarksreglur um aðgang almennings að upplýsingum og geta stjórnvöld í mörgum tilvikum gengið lengra og veitt rýmri rétt en þann sem er lögbundinn.

Varðandi endurskoðun málsmeðferðartíma þá telur nefndin að það skref sem hér er stigið sé mikilvægt í að bæta upplýsingarétt almennings og bindur vonir við að nýtt fyrirkomulag, sérstaklega hvað varðar ráðgjafa um upplýsingarétt almennings, geri kerfið skilvirkara og auki málshraða. Mikilvægt er hins vegar að unnið verði áfram að því markmiði að halda málsmeðferðartíma í lágmarki og því telur nefndin nauðsynlegt að unnið verði að endurskoðun á því hvort hægt sé að stytta málsmeðferðartíma enn frekar, bæði hvað varðar hámarksafgreiðslutíma beiðna um aðgang að gögnum og þann frest sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál er gefinn til að birta úrskurð. Þeirri endurskoðun verði lokið fyrir 1. janúar 2022.

Nefndin leggur því til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem hér hafa verið skýrðar, auk nokkurra lagatæknilegra breytinga sem m.a. varða tilvísanir í lögum til laga um upplýsingarétt um umhverfismál sem falla brott verði frumvarpið að lögum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita allir sem eiga sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Helga Vala Helgadóttir formaður, Jón Þór Ólafsson framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, (Forseti hringir.) Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson og Hjálmar Bogi Hafliðason.



[11:15]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er eitt af afar mikilvægum málum sem hafa komið hingað inn til þingsins er varða tjáningarfrelsi og upplýsingalög og langaði mig af því tilefni að þakka hv. framsögumanni málsins fyrir yfirgripsmikla ræðu. Mig langar að fara yfir nokkra hluti.

Upplýsingaréttur almennings er gríðarlega mikilvægur og skiptir okkur öll mjög miklu máli að hann sé virtur og að stjórnvöld virði rétt almennings til upplýsinga úr stjórnkerfinu, frá opinberum stofnunum, opinberum aðilum, ráðamönnum o.s.frv. Við höfum auðvitað fengið fjölmörg tilvik í gegnum tíðina og á undanförnum árum þar sem upplýsingarétturinn hefur ekki verið virtur sem skyldi. Borið hefur á því, og það kom vel fram fyrir nefndinni, bæði hjá þeim sem starfa við fjölmiðla og líka hjá þeim sem voru að vinna þetta frumvarp sem og þeim sem vinna inni í kerfinu, að svo virðist sem stjórnvöld hafi brugðið á það ráð undanfarin misseri að svara engu þegar beiðni um upplýsingar berst frá fjölmiðlum eða svara neitandi, þannig að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fær málið til sín, að það sé í rauninni viðtekin venja að svara illa eða svara neitandi þegar beiðni um upplýsingar kemur til að þurfa ekki að taka afstöðu, til þess til að kaupa sér tíma.

Þetta kom fram í máli nánast allra sem komu fyrir nefndina, hvort sem um var að ræða fulltrúa úrskurðarnefndar um upplýsingamál eða fulltrúa blaðamanna. Tilgangurinn með þessum breytingum er að greiða leið almennings að nauðsynlegum upplýsingum.

Í nefndinni var mjög mikið rætt um þennan ofboðslega langa málsmeðferðartíma sem er verið að veita. Talað var við blaðamenn, fjölmiðlafólk, um það og allir voru sammála um að þetta er auðvitað ofsalega langur tími. Stundum er það þó þannig að um er að ræða mjög umfangsmikla gagnaöflun sem þarf að eiga sér stað. En stundum er það ekki þannig og talað var um það í sambandi við þann 40 daga frest sem stjórnvald hefur til að skila upplýsingum, veita upplýsingar, að vegna þess að þetta er sett þarna inn munu stjórnvöld alltaf notað þá 40 daga, að hætta sé á að það verði alltaf ramminn.

Þetta var rætt á fjölmörgum fundum við fjölmarga gesti. Það er auðvitað þannig í fjölmiðlaheiminum að fréttir lifa stundum aðeins í nokkra daga og ef það líða 40 dagar er fréttin löngu farin og skaðinn skeður. Þess vegna var mikið um það rætt. En allir voru sammála um það í rauninni að þó væri betra að hafa þennan 40 daga frest til þess að veita upplýsingabeiðanda þá skýru heimild að geta kært málið strax til úrskurðarnefndar í staðinn fyrir, eins og núna er, að stjórnvaldið dregur og dregur og dregur að svara og sá sem er að biðja um upplýsingarnar getur ekki leitað neitt. Hann getur ekki kært því að það er ekki komið neitt svar. Það er ekkert nei komið. Það er ekki komið neitt svar og það dregst mjög lengi. (Gripið fram í.) — Nú greip hv. þm. Jón Þór Ólafsson fram í fyrir mér en það verður bara að hafa það.

Talað var um það í frumvarpinu að hafa þessa 40 daga. Fyrir nefndinni var mikið talað um hvað þetta væri langur tími og var mikill vilji til þess að hafa hann styttri. Meginreglan er sú að það á að vera búið að skila upplýsingum innan sjö daga frá móttöku beiðninnar. Það er meginreglan og skal skýra frá því af hverju það fari fram yfir sjö dagana. Stjórnvaldið á að láta þann sem óskar eftir upplýsingum vita hvers vegna upplýsingarnar berast ekki á einni viku.

Ákvörðun var hins vegar tekin í nefndinni um að 40 dagarnir væru full rúmir og þess vegna er lögð til sú breyting í meðförum nefndarinnar að stytta tímann niður í 30 daga. Sitt sýnist hverjum um það. Talað er um að það sé of lítill tími þegar um er að ræða viðamiklar upplýsingar en samt er það nú svo að ef um er að ræða mjög viðamiklar upplýsingar og ef stjórnvaldið er í skýru samtali við þann sem óskar eftir upplýsingunum þá voru hlutaðeigandi, fjölmiðlafólk sem kom fyrir nefndina, sammála um að ef samtal er í gangi er sjaldnast farið í mikla hörku ef það er alveg ljóst að verið er að vinna beiðnina. Það sem hefur helst truflað í dag, eins og regluverkið er núna, er að það er bara þögn. Það berst ekkert svar. Það er algerlega ótækt.

Það sem er verið að breyta er að fáist ekki svar innan 40 daga, sé einstaklingurinn eða fjölmiðillinn ekki virtur viðlits, er núna hægt að fara fyrir úrskurðarnefndina og kæra að ekki sé búið að afhenda upplýsingarnar.

Það er mjög mikilvægur þáttur í þessu frumvarpi er varðar ráðgjafa um upplýsingarétt almennings. Sá ráðgjafi á að vera sá sem veitir bæði stjórnvöldum og almenningi ráð varðandi réttinn til upplýsinga. Þetta eru allir sammála um að muni greiða leið slíkra mála, þ.e. að stjórnvöld geti með því leitað til þessara ráðgjafa og spurt: Höfum við rétt á að birta upplýsingarnar? Megum við að afhenda þær? Í staðinn fyrir, eins og hefur tíðkast undanfarin misseri, að stjórnvöld skýli sér á bak við að vilja frekar vera öruggu megin við línuna og birta engar upplýsingar, afhenda engar upplýsingar og láta úrskurðarnefndina um þetta.

Það voru allir sammála um að slíkur ráðgjafi mun gera það að verkum að mun færri mál fari fyrir úrskurðarnefndina en í dag vegna þess að meiri upplýsingum verður komið áleiðis en núna er þegar stjórnvöld virðast hafa þetta sjálfkrafa svar: Nei, við afhendum ekki upplýsingar nema úrskurðarnefndin veiti heimild til þess.

Við í nefndinni og þeir gestir sem komu fyrir nefndina bindum miklar vonir við að ráðgjafi um upplýsingarétt almennings muni senda stjórnvöldum skýra línu í svörum sínum um að þau hafi bæði frumkvæðisskyldu og eftirlitsskyldu og ráðgjafarskyldu gagnvart almenningi og stjórnvöldum.

Varðandi málshraða hjá sjálfri nefndinni var líka mikið um það rætt hversu langan tíma úrskurðarnefnd um upplýsingamál ætti að hafa til þess að kveða upp úrskurð sinn. Fram kom að meðalmálsmeðferðartíminn hjá nefndinni er 180–220 dagar og eru allir sammála um að það sé algjörlega ótækt. Var talað um það innan nefndarinnar að hámarkstíminn ætti helst að vera 30 dagar, mögulega 60 dagar, en þeir sem þekkja kerfið hvað best og fulltrúar úrskurðarnefndar sem komu fyrir nefndina, og auðvitað þeir sem komu að því að semja þetta frumvarp sem að sögn leituðu upplýsinga hjá úrskurðarnefndinni, sögðu að það væri algerlega óraunhæft að setja slíkt ákvæði inn í lögin á þessum tímapunkti vegna þess að fyrst yrði að byggja upp nefndina, fjölga starfsfólki þar, koma ráðgjafa um upplýsingarétt almennings til starfa og finna hvernig það er áður en tekin verður ákvörðun um að skera niður þann tíma sem nefndinni er ætlaður til að svara.

Þess vegna er um það fjallað í nefndarálitinu og um þetta var mikið tekist á innan nefndarinnar, satt að segja, hvort dagafjöldinn ætti að vera 150 dagar frá móttöku. En ferlið er auðvitað þannig að nefndin fær beiðnina eða kæruna, gagnaðili, stjórnvaldið fær tækifæri til andsvara, til að skila inn greinargerð og svo kemur aftur kærandi sem fær þá að bregðast við henni. Þess vegna tekur þetta tíma. Nefndin fær aðgang að þeim upplýsingum sem verið er að biðja um o.s.frv. Því tekur þetta þennan gríðarlega tíma. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að unnið verði áfram með það markmið að halda málsmeðferðartíma í lágmarki. Það skref sem hér er stigið sé mikilvægt í að bæta upplýsingarétt almennings en í framhaldinu sé algerlega skýr ábending til stjórnvalda um að leggja mat á hvort hægt sé að stytta málsmeðferðartíma frekar þegar reynsla er komin á þennan ráðgjafa. Þeirri ábendingu er haldið til haga til stjórnvalda að halda áfram að þróa þetta.

Það kom líka fram sú ábending fyrir nefndinni um 40 dagana, um rétt beiðanda til að kæra strax ekkert svar stjórnvalds til úrskurðarnefndar, að það væri vankantur á þeirri reglu vegna þess að þá væri ekki fjallað um málið á tveimur stjórnsýslustigum. Nefndin taldi engu að síður mjög mikilvægt að hafa þann rétt til þess að hafa ástandið ekki eins og það er núna þar sem stjórnvöld komast upp með að svara engu lengi og það er ekkert sem beiðandi getur gert í því.

Það var einnig töluvert rætt um sjálfstæðar úrskurðarnefndir í nefndinni og hvort rétt væri að hafa sjálfstæða úrskurðarnefnd eða að þetta væri inni í ráðuneytunum. En það er annað mál.

Aðeins að lokum varðandi úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin fjallaði á fundum sínum um aðgang að gögnum um umhverfismál. Með frumvarpinu er lagt til að sérlög um upplýsingarétt um umhverfismál verði felld brott og færð efnislega inn í upplýsingalög með það að markmiði að einfalda regluverkið, láta það sama gilda. Sitt sýndist hverjum þar.

Það komu ábendingar frá Ófeig náttúruvernd um að með frumvarpinu væri verið að lögfesta takmarkanir á upplýsingarétti almennings um umhverfismál sem samrýmdist ekki Evróputilskipun. Leitaði nefndin sérstaklega eftir upplýsingum um þetta og kom fram að með frumvarpinu væri ekki stefnt að efnislegum breytingum á því sviði heldur væri þvert á móti verið að reyna að aðlaga þetta og samræma. Verið væri að færa ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál næstum því óbreytt inn í sérstakan kafla í upplýsingalögin til að þetta væri á einum stað. Tilskipuninni frá 2003 hefði ekki verið breytt frá því að lög um upplýsingarétt um umhverfismál tóku gildi árið 2006 og að sú ábending frá Ófeig náttúruvernd að tilskipunin á sínum tíma hefði ekki verið réttilega innleidd var í rauninni send til forsætisráðuneytisins frá nefndinni sem taldi nauðsynlegt að framkvæmd yrði sjálfstæð skoðun á því hvort við þyrftum að gera betur þegar kemur að upplýsingarétti almennings er varðar umhverfismál. Er forsætisráðuneytinu falið sérstaklega að kanna hvort ástæða sé til lagfæringar á því sviði. En nefndin vildi ekki tefja allt þetta mál þegar um væri að ræða lagaákvæði sem hafa verið í gildi frá árinu 2006.

Þetta var það sem ég vildi helst fara yfir í örstuttu máli. Frumvarpið er til bóta þó að auðvitað sýnist sitt hverjum. Þeirri sem hér stendur hefði hugnast mjög að hafa þennan tímafrest allan mun þrengri en ég vona að stjórnvöld virði vilja nefndarinnar til að hraða þeim málum eins og frekast er unnt.



[11:30]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Þá ætla ég að flytja mína eigin ræðu í þessu máli. Fyrri ræðu mína flutti ég sem framsögumaður nefndarálits. Mig langar að benda almenningi á hvað það þýðir praktískt fyrir almenning og fjölmiðla þegar frumvarpið verður orðið að lögum. Hvað breytist? Staðan er núna þannig að þegar almenningur óskar eftir upplýsingum getur hann ekki óskað eftir upplýsingum úr stjórnsýslu dómstólanna, þ.e. frá skrifstofu dómstólanna sem vinnur málin og heldur utan um gögnin. Það nær ekki yfir dómana eða gögnin á bak við allt. Það nær yfir stjórnsýsluna sjálfa, skrifstofuna, en það varpast líka yfir skrifstofu Alþingis þannig að þetta er útvíkkun gildissviðs, sem er líka undirheitið á þessu frumvarpi, á upplýsingalögunum. Það eru meiri upplýsingar sem almenningur getur óskað eftir. Jafnframt er frumkvæðisskylda stjórnvalda að veita upplýsingar, en ef einhverjar upplýsingar eru ekki til staðar þýðir þetta praktískt fyrir almenning og fjölmiðla að þeir geta óskað eftir þeim frá stjórnvöldum eins og er í dag. Það er enn þá svo að stjórnvald skal vinna eins hratt og hægt er en láta eftir sjö daga vita ef eru tafir og hversu miklar þær eru. Það er réttur áfram. Síðan hefur það æxlast þannig að jafnvel þótt stjórnvald láti ekki vita eftir sjö daga eins og lögin eru í dag líður tíminn bara. Það er send inn fyrirspurn og tíminn bara líður. Það er ekkert sem almenningur eða fjölmiðlar geta gert ef stjórnvaldið vanrækir skyldur sínar til að vinna málið.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur í áliti sínu til ákvæði um að færa markið úr 40 dögum niður í 30 daga eins og er í frumvarpinu og þá virkjast heimild borgarans og fjölmiðla til að kæra málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þetta eru þessi tvö stig, annars vegar stjórnvaldið sem á að veita upplýsingarnar og vinna þær og hins vegar er úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem á þá að úrskurða. Hún tekur sér mjög langan tíma í að vinna mál. Stjórnvöld vilja reyna að færa það niður, það er stefna stjórnvalda að færa það niður í 90 daga, sem er eftir sem áður gríðarlega langur tími, og alls konar praktískar forsendur fyrir því. Alls konar frestum er beitt, maður óskar eftir upplýsingum, svo hafa menn ákveðinn tíma o.s.frv. Jafnvel þó að það sé unnið á málefnalegum forsendum eftir þeim frestum sem eru eðlilegir í stjórnsýslulögum er það samt sem áður langur tími. Það eru 90 dagar sem stjórnvöld eru að vinna sig niður í. Í dag tekur það alveg 180–220 daga. Í frumvarpinu er lagt til að færa markið niður í 150 daga sem er samt sem áður mjög langur tími. Þetta er það úrræði sem borgararnir og fjölmiðlar hafa ef stjórnvald vinnur bara ekkert í málinu. Það getur gerst. Það er verið að færa inn þau aukaréttindi að eftir 30 daga hafi borgarinn og fjölmiðlar rétt til að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem vinnur þá málið efnislega og gefur út úrskurð á endanum um það hvort borgarar og fjölmiðlar eigi rétt á þeim upplýsingum sem þeir óska eftir.

Ég og lögfræðingurinn minn skoðuðum hvað þessi úrskurður þýddi. Hann þýðir að hann er aðfararhæfur. Það þýðir að ef stjórnvöld neita að veita upplýsingar er maður kominn með réttindi til aðfarar að stjórnvaldi, t.d. sýslumanni, til að fara fram á að fá þessar upplýsingar. Þetta er löng leið en á endanum er tryggt að maður fær upplýsingarnar, þó að stjórnvöld vanræki og nýti 30 daga frestinn og maður þurfi að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hún úrskurðar innan 150 daga. Þegar við fórum að skoða málið bættum við jafnframt við, af því að tíminn er svo langur, hvort ekki væri hægt að gera eitthvað fleira til að þrýsta á stjórnvöld. Þá kom inn ráðgjafi um upplýsingarétt almennings. Athugið hann í frumvarpinu, hann verður í 13. gr. laga um upplýsingarétt. Þetta myndi ég segja að væri sterkasta praktíska réttarbótin um að hlutirnir gerist, að almenningur raunverulega hafi praktískar leiðir til að fá upplýsingarnar. Með leyfi forseta:

„Af hálfu stjórnvalda skal starfa ráðgjafi um upplýsingarétt almennings sem hefur það hlutverk að stuðla að bættri upplýsingagjöf hins opinbera.

Hlutverk sitt rækir hann meðal annars með því að:

1. Leiðbeina einstaklingum, félagasamtökum, fjölmiðlum, lögaðilum og öðrum sem til hans leita um framsetningu beiðni um aðgang að gögnum, hvert henni skal beint og önnur atriði, samanber IV. kafla laganna.“

Ef við erum ekki viss um hvar eigi að byrja getum við leitað til ráðgjafans, fengið upplýsingar um það og sett upplýsingabeiðni rétt fram. Ef við gleymum því eða teljum okkur geta gert þetta vel sjálf getum við leitað strax til stjórnvaldsins. Ef það svarar ekki getum við kært til úrskurðarnefndarinnar eftir 30 daga. Hún leiðbeinir okkur og skal ávallt leiðbeina þeim sem kæra ef þeir eru kannski ekki alveg meðvitaðir um allt þetta ferli. Úrskurðarnefndin leiðbeinir þannig að við getum — þetta er enn í vinnslu hjá stjórnvaldinu sem er greinilega ekkert að gera í því — leitað til ráðgjafans og ráðgjafinn getur þá aðstoðað. Ráðgjafinn er síðan 2. liður hérna. Hann skal:

„Vera stjórnvöldum og öðrum aðilum samkvæmt I. kafla til ráðgjafar um meðferð beiðni um aðgang að gögnum og töku ákvörðunar um rétt beiðanda til aðgangs.“

Ráðgjafinn hefur ráðgjafarhlutverk gagnvart stjórnvaldinu. Eins og kom fram í nefndinni fyrirfinnast alveg tilfelli þar sem stjórnvöld eru ekki viss. Ef þau eru ekki viss um hvernig eigi að gera hlutina dragast málin, þau geta dregist mjög lengi, kannski lent milli skips og bryggju eða lent aftar í forgangsröðinni o.s.frv. Til öryggis getur stjórnvald leitað til ráðgjafans eða ráðgjafi þvert á móti til stjórnvalds og sagt: Heyrðu, ég get leiðbeint ykkur um hvernig á að gera þetta, borgarinn á rétt á þessu samkvæmt hinum og þessum réttarheimildum, og þar af leiðandi leyst úr málinu. Jafnvel þótt það sé komið til úrskurðarnefndarinnar er hægt að draga þá kæru til baka, fara til ráðgjafans eða leyfa ákvörðuninni að standa, fara til ráðgjafans, vinna í málinu og um leið og stjórnvald afgreiðir það léttist á úrskurðarnefndinni.

Jafnframt er hérna 3. liður að ráðgjafi um upplýsingarétt skuli:

„Fylgjast með því hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar til að veita almenningi aðgang að upplýsingum, hvort sem er samkvæmt beiðnum eða að eigin frumkvæði, samanber 13. gr. laganna, og koma tillögum að úrbótum á framfæri þar sem við á.“

Hann hefur það hlutverk að fylgjast með og koma fram tillögum að úrbótum, t.d. beint til stofnananna sem eiga að veita upplýsingar um það hvernig þær geti gert betur og leiðbeint þeim með það eða ef þessi lög skila ekki tilætluðum tilgangi að einhverju leyti getur hann komið þeim tilmælum til ráðherra að breyta lögunum þannig að upplýsingaréttur almennings sé raunverulega virtur.

Í 4. lið segir síðan að hann skuli:

„Fylgjast með rannsóknum og þróun á sviði upplýsingaréttar almennings og koma upplýsingum á framfæri við stjórnvöld“ eins og ég var að nefna. Þetta er gríðarleg réttarbót fyrir landsmenn og fjölmiðla. Þarna geta stjórnvöld ekki bara setið aðgerðalaus hjá, gleymt málum eða vanrækt að sinna þeim. Það er alltaf réttur borgarans, fjölmiðilsins eða félagasamtakanna að vísa eftir 30 daga máli til úrskurðarnefndar sem leiðbeinir og viðkomandi getur leitað til ráðgjafans. Hann getur líka leitað til ráðgjafans strax í upphafi. Allt þetta mun styrkja praktískt aðgengi almennings, félagasamtaka og fjölmiðla að upplýsingum í landinu. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa getað tekið þátt í þessu.