149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
stjórnsýsla búvörumála, 2. umræða.
stjfrv., 781. mál (flutningur málefna búnaðarstofu). — Þskj. 1241, nál. m. brtt. 1724.

[23:28]
Frsm. atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Það er nú oft gott að fikra sig upp dagskrár, sjá hvert það leiðir okkur. Ég mæli fyrir þessu nefndaráliti í fjarveru framsögumanns sem vann hvað mest að málinu innan atvinnuveganefndar, þ.e. hv. Ásmundur Friðriksson.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á stjórnsýslu landbúnaðarmála með því að flytja framkvæmd búvörusamninga og framleiðslustjórn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Megintilgangur frumvarpsins er að efla stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðar og matvæla með fjölgun starfsmanna sem sinna þeim málum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta um þetta mál á nokkrum fundum og fór yfir allmargar umsagnir sem bárust um málið. Meðal þess sem bent var á var að með flutningi búnaðarstofu flyttust öflug tölvukerfi, sem byggjast á verðmætum gagnagrunnum um íslenskan landbúnað, til ráðuneytisins. Fram komu áhyggjur af því að verið væri að vinna að samþættingu tölvukerfa og gagnagrunna Matvælastofnunar og búnaðarstofu, auk þess sem góð samvinna hefði verið milli starfsmanna innan stofnunarinnar vegna eftirlits með aðbúnaði og velferð búfjár og þar með framkvæmd búvörusamninga.

Nefndin leggur áherslu á að tryggðir verði samningar um upplýsingatæknimál milli ráðuneytisins og Matvælastofnunar sem fyrst til þess að tryggja að framkvæmd búvörusamninga gangi snurðulaust fyrir sig. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að áfram verði unnið að uppbyggingu rafrænnar stjórnsýslu í landbúnaði.

Nefndinni var bent á að unnið hefði verið að uppbyggingu upplýsingatæknimála innan Matvælastofnunar sem yrðu í óvissu með þessum breytingum. Nefndinni var jafnframt bent á að flæði milli gagnagrunna væri unnt að tryggja með gerð samninga þar um.

Nefndin telur mikilvægt að sú uppbygging í upplýsingatæknimálum sem hefur átt sér stað innan Matvælastofnunar haldi áfram þrátt fyrir að búnaðarstofa og tölvukerfi sem tilheyra starfsemi hennar verði flutt í ráðuneytið og beinir því til ráðuneytisins að tryggja stofnuninni það fjármagn sem hún þarf til að halda þeirri uppbyggingu áfram.

Forseti. Í sem skemmstu máli beindust áhyggjur ýmissa að því að uppbygging tölvukerfa og -grunna hefur átt sér stað innan Matvælastofnunar. Að mestu leyti hefur það snúið að verkefnum búnaðarstofu en einhverju leyti hafa verið samlegðaráhrif þannig að verið er að byggja upp þessa þætti innan Matvælastofnunar. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að tryggja að sú uppbygging haldi áfram þrátt fyrir flutning búnaðarstofu.

Fyrir nefndinni var lýst yfir áhyggjum af því að ekki yrði mögulegt að skjóta ákvörðun til æðra stjórnvalds og óljóst væri hvaða skipan yrði komið á ef upp kæmi ágreiningur um ákvarðanir ráðuneytisins. Var nefndinni jafnframt bent á að slík kærumál væru almennt fá.

Nefndin bendir á að í greinargerð kemur fram að þegar um eitt stjórnsýslustig sé að ræða sé unnt að krefjast rökstuðnings vegna ákvörðunar og eftir atvikum bera undir stjórnvald að nýju. Ráðuneytið geti með innri reglum formgert slíka endurskoðun. Nefndinni var bent á að ráðuneytið hefði þegar hafið skipulagningu á því hvernig tryggt yrði að réttaröryggis yrði gætt með þessum hætti. Nefndin leggur áherslu á að ráðuneytið tryggi að innri ferlar vegna kærumála verði komnir í gagnið þegar verkefni búnaðarstofu hafa verið flutt í ráðuneytið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem finna má í nefndarálitinu.

Undir álitið rita hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara, og Sigurður Páll Jónsson, með fyrirvara.