149. löggjafarþing — 123. fundur
 14. júní 2019.
félagsleg aðstoð og almannatryggingar, 2. umræða.
stjfrv., 954. mál (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna). — Þskj. 1655, nál. m. brtt. 1813.

[11:48]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna) frá meiri hluta velferðarnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Ágúst Þór Sigurðsson og Hildi Sverrisdóttur Röed frá félagsmálaráðuneytinu, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Sigurjón Unnar Sveinsson, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Bergþór Heimi Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands og Árna Múla Jónasson og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Tryggingastofnun ríkisins.

Líkt og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem í daglegu tali hefur verið kallað króna á móti krónu skerðing. Einnig er markmiðið að auka sveigjanleika hvað varðar meðferð atvinnutekna lífeyrisþega við útreikning greiðslna þannig að það verði valkostur að tilfallandi eða tímabundnar atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif á útreikning bóta í þeim mánuðum þegar þeirra er aflað en skerði ekki rétt til bóta í öðrum mánuðum.

Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Í ákvæðum a–e-liðar er lagt til að ýmis ákvæði reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1200/2018, verði lögfest. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að við hækkun tekjuviðmiða í a- og b-lið væri ekki nógu langt gengið.

Þá var við umfjöllun nefndarinnar bent á að þótt ákvæði c- og d-liðar fælu einnig í sér lögfestingu á ákvæðum reglugerðarinnar lægju áhrif lögfestingar þeirra ekki að öllu leyti fyrir. Í c-lið er lagt til að fjárhæð uppbótar skuli reiknast í samræmi við réttindi til lífeyris, samanber 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og í d-lið er lagt til að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar skuli teljast til tekna við útreikning lífeyrisuppbótar. Meiri hlutinn bendir á að í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri segir að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga teljist til tekna og því feli ákvæðið ekki í sér efnislega breytingu. Hins vegar var bent á að rétt væri, áður en slíkt ákvæði yrði lögfest, að hafa ítarlegt samráð. Meiri hlutinn tekur undir þetta og telur c- og d-liði þarfnast frekari umfjöllunar. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu að stafliðirnir verði felldir brott.

Í f-lið er lagt til að við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþegans með þeim undanþágum sem lagðar eru til í frumvarpinu og raktar eru í greinargerð. Hins vegar er lagt til að ekki skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Til að tryggja samræmi við aðrar breytingartillögur leggur meiri hlutinn til að tilvísun til laga um slysatryggingar almannatrygginga verði felld úr ákvæðinu. Meiri hlutinn bendir þó á að sú breyting hefur þá efnislegu þýðingu að bætur samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga munu áfram teljast til tekna samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð en þó þannig að einungis 65% þeirra teljist til tekna við útreikning framfærsluuppbótar.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 16. gr. laga um almannatryggingar að við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna verði heimilt að telja einungis til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ákvæði 5. mgr. 16. gr. laganna væri í mörgum tilfellum ósanngjarnt og þá sérstaklega gagnvart lífeyrisþegum sem starfa einungis hluta ársins. Atvinnutekjum sem aflað væri einstaka mánuði ársins væri jafnað niður á alla mánuði þess og skipti jafnvel ekki máli hvort viðkomandi hefði fengið lífeyrisgreiðslur í þeim mánuðum eða ekki. Tekjurnar gætu þannig leitt til þess að skuld myndist vegna ofgreiddra bóta.

Með frumvarpinu væri lagt til grundvallar að lífeyrisþegi gæti valið hvort framangreint fyrirkomulag væri viðhaft eða hvort atvinnutekjur verði einungis lagðar til grundvallar í þeim mánuðum þegar þeirra er aflað. Við endurreikning bótafjárhæða samkvæmt 7. mgr. 16. gr. geri Tryggingastofnun ríkisins samanburð á útreikningi greiðslna til viðkomandi lífeyrisþega samkvæmt báðum aðferðum og leggi til grundvallar þá niðurstöðu sem leiðir til hærri greiðslna til viðkomandi.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að af orðalagi 2. gr. væri ekki skýrt að ákvæðið fæli í sér undanþágu frá ákvæði 5. mgr. 16. gr. sem tæki einungis til atvinnutekna. Gæti ákvæðið því valdið þeim misskilningi að við áætlun tekna samkvæmt ákvæðinu ætti einungis að taka tillit til atvinnutekna. Meiri hlutinn leggur til breytingu til að auka skýrleika ákvæðisins. Leggur meiri hlutinn til að ákvæðið orðist þannig að heimilt sé að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Sé þannig skýrt af ákvæðinu að það feli í sér sérreglu sem taki einungis til atvinnutekna en um aðrar tekjur fari samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Í ljósi annarra ábendinga félagsmálaráðuneytisins leggur meiri hlutinn einnig til að í 2. málslið 2. gr. verði fjallað um samanburð á útreikningum heildargreiðslna, en ekki eingöngu greiðslna, til að taka af allan vafa um að samanburður skuli gerður á áhrifum beggja leiðanna á heildargreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Við 1. gr.

a. C- og d-liður falli brott.

b. Í stað orðanna „Bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um almannatryggingar og lögum um slysatryggingar“ í 2. málslið f-liðar komi: Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar.

2. Við 2. gr.

a. Í stað orðanna „heimilt að telja einungis til tekna bótaþega atvinnutekjur í þeim mánuði sem þeirra er aflað“ í 1. málslið efnismálsgreinar komi: heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað.

b. Í stað orðsins „greiðslna“ í 2. málslið efnismálsgreinar komi: heildargreiðslna.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Andrés Ingi Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Undir álitið rita, auk framsögumanns, Ásmundar Friðrikssonar, Ólafur Þór Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[11:57]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hef hingað til látið ógert að ræða mikið um þetta frumvarp efnislega. Mér hefur ekki þótt það tímabært og ég taldi rétt að allar upplýsingar lægju fyrir áður en ég tæki til máls um þetta frumvarp félags- og barnamálaráðherra.

Allt frá því að ég settist á þing hef ég látið mig varða málefni öryrkja. Þetta er flókinn málaflokkur sem er mögulega ástæðan fyrir því að fáir þingmenn veita honum áhuga þrátt fyrir að á Íslandi séu rétt um 20.000 öryrkjar. Þetta er fjölmennur hópur, fjölmennari en margar af okkar helstu atvinnugreinum. En það er engin tilviljun að málaflokkurinn er flókinn. Örorkulífeyriskerfið hefur nefnilega verið hannað með það í huga að vera flókið og fyrir vikið er það eitt flóknasta kerfi sem íslenskt samfélag hefur búið til, flóknara en kvótakerfið og flóknara en regluverk fyrir fjármálafyrirtæki. Fjöldi einstaklinga sem hafa fullkominn skilning á öllum reiknireglum örorkulífeyrisbóta er í raun afar lítill. Samt eru þetta reglurnar sem eiga að gilda um tekjur þeirra sem eru óvinnufærir sökum örorku. Flækjustigið endurspeglar fullkomlega kafkaískan fáránleikann sem felst í kerfinu. Ástæðan fyrir þessu flækjustigi er líklega margþætt en áhrifin eru mjög augljós. Því flóknara sem kerfið er, því erfiðara er að gagnrýna það og því erfiðara er að breyta því. Óréttlæti virkar ekki eins ósanngjarnt þegar maður skilur ekki hvernig það virkar.

Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem felur í sér að dregið verði úr hinni svonefndu krónu á móti krónu skerðingu, skerðingunni sem fulltrúar allra flokka sögðust vilja afnema í aðdraganda seinustu kosninga. Ég skal vera fyrst eða önnur til að viðurkenna að í þessu frumvarpi felst kjarabót fyrir örorkulífeyrisþega. Það er gott en þetta er hænuskref. Ákall öryrkja hefur alla tíð verið um fullkomið afnám krónu á móti krónu skerðingar. Þetta er breyting sem ráðherra gerir einn og að eigin frumkvæði, að því er virðist í miklum flýti rétt fyrir þinglok, án nokkurs samráðs við hagsmunasamtök öryrkja. Mér þykir það sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að starfshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga lauk störfum einungis fyrir nokkrum vikum þar sem áttu sæti fulltrúar öryrkja. Lágmarkssamráð hefði verið auðsótt, einfalt og fljótlegt verk af hálfu ráðherra. Það að hafa ekki samráð sýnir einfaldlega skeytingar- og hirðuleysi ráðherra um hagsmuni og velferð öryrkja.

Að meginstefnu til felur þetta frumvarp í sér að króna á móti krónu skerðingin verði 65 aurar á móti krónu skerðing í stað krónu á móti krónu. Kostnaðurinn við þessa aðgerð er 2,5 milljarðar, sem eru í sjálfu sér ekki svo svakalegur, en það er engu að síður ámælisvert að ráðherra hafi ekki einu sinni kannað hvernig sú aðgerð muni koma við fólk í mismunandi stöðu.

Engin greining er á því hvernig þetta kemur út fyrir örorkulífeyrisþega á mismunandi aldri, í mismunandi búsetuskilyrðum, með mismunandi tekjur o.s.frv. Þegar um svona fjárhæðir er að ræða hefði mér þótt eðlilegt að þess væri gætt af hálfu ráðherra að aðgerðin kæmi raunverulega til með að hjálpa þeim sem mest þyrftu á að halda, þeim sem króna á móti krónu skerðingin hefur hvað mest áhrif á.

Eftir samþykkt þessa frumvarps munu sitja eftir nokkrar staðreyndir sem mér hefði þótt eðlilegra að skoða í aðdraganda að framlagningu þess. Það verður enn skert frá fyrstu krónu. Það er ekkert frítekjumark. Öryrkjar mega enn ekki vinna sér neitt inn án þess að verða fyrir skerðingum á tekjum sínum. Það er enn ósamræmi milli ellilífeyris og örorkulífeyris, öryrkjar munu áfram búa við þyngri skerðingar en ellilífeyrisþegar. Þetta tekur ekki tillit til þeirra sem hafa lægstar tekjur heldur gengur jafnt yfir alla og kemur þá mögulega betur út fyrir þá sem hafa meiri starfsgetu eða er hipsum happs, skilst mér, hvernig áhrif þetta hefur.

Þetta frumvarp flækir enn frekar reglur um skerðingar á örorkulífeyri þar sem það kynnir til sögunnar þrjú mismunandi skerðingarstig fyrir mismunandi tekjur. Það hefði verið lítið mál fyrir ráðherra að vinna þetta mál einfaldlega betur, með meiri fyrirvara og vera í samráði við hagsmunasamtök öryrkja við þá vinnu, hagsmunasamtök öryrkja sem eru með mjög góða hugmynd um hvernig þau hefðu helst viljað sjá þessum 2,5 milljörðum varið.

Ákallið um afnám krónu á móti krónu skerðingu hefur verið afar hávært mjög lengi í umræðunni og engin þörf á því að vinna þetta mál á handahlaupum korteri fyrir þinglok. Af hverju var ekki löngu búið að undirbúa þetta?

Þó að í þessu máli felist kjarabót fyrir öryrkja skrifa ég ekki undir nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar og tek þannig ekki undir afstöðu hans. Ástæðan er einföld. Mér finnst það vera sjálfsagt réttlætismál að afnema alla krónu á móti krónu skerðingu og það strax. Ég hef lagt fram frumvarp þess efnis, nú reyndar í annað skipti, en frumvarpið komst til velferðarnefndar í september sl. og þar hefur það nú setið fast í níu mánuði. Frumvarpið felur í sér eina einfalda lagabreytingu sem á einu bretti afnemur krónu á móti krónu skerðingu, auk þess að einfalda kerfið, eins og fulltrúar allra flokka segjast vilja gera fyrir kosningar, þ.e. að einfalda almannatryggingakerfið og afnema krónu á móti krónu skerðingu. En þegar ég bað um atkvæðagreiðslu um að málið yrði afgreitt úr nefnd í desember sl. var sú tillaga felld af meiri hlutanum. Málið er í raun afar skýrt, það er ekki pólitískur vilji fyrir því að afnema þessa skerðingu að fullu og líklega var sá vilji aldrei til staðar.

Forseti. Blessunarlega hefur komið í ljós að meiri hluti velferðarnefndar hefur ákveðið að fjarlægja c- og d-liði en mig langar samt að ræða þá aðeins. Til að það geti gerst þarf fyrst að segja smásögu, söguna af búsetuskerðingum. Ég ætla ekki að fara í miklum smáatriðum í það hvernig búsetuskerðingar komust á og því er kannski rétt að byrja söguna af úrskurði umboðsmanns Alþingis sumarið 2018. Þar kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að reikningsaðferð Tryggingastofnunar til að finna út búsetuhlutfall einstaklinga sem fluttust til Íslands eftir búsetu um tíma í öðru landi innan EES hafi verið ólögleg. Úrskurðurinn snerist í meginatriðum um að Tryggingastofnun hafi ekki haft heimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila, eins og hún hafði gert um árabil, milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nyti ekki bóta frá öðru EES-ríki.

Fyrir þau sem hafa ekki sett sig inn í örorkulífeyriskerfið og jafnvel inn í þetta sérstaka mál sem varðar búsetuskerðingar kann þetta að hljóma eins og framandi tungumál. Og það er nákvæmlega það sem ég var að lýsa áðan, þetta kerfi er svo ólýsanlega flókið að það er erfitt að vera reiður yfir óréttlætinu sem í því felst.

Ég ætla að útskýra það á mannamáli eða gera heiðarlega tilraun til þess.

Þegar einstaklingur sem á rétt á örorkulífeyrisbótum á Íslandi hefur búið hluta ævi sinnar í útlöndum á hann ekki fullan rétt. Það hversu miklar bætur hann fær fer eftir því hvað hann bjó lengi í útlöndum. Aðferðin sem Tryggingastofnun ríkisins beitti fólst í stuttu máli í því að gert var ráð fyrir því að hann myndi verja hlutfallslega jafn miklum tíma erlendis og hann hafði gert frá 16 ára aldri þangað til hann varð öryrki. Í þessu tiltekna máli umboðsmanns voru málavextir þannig að 16 ára stúlka flutti til Danmerkur með foreldrum sínum og svo aftur til Íslands u.þ.b. 21 árs gömul. Hún var metin 100% öryrki árið 2013 en litið var svo á að hún hefði verið óvinnufær frá árinu 2011, þá u.þ.b. 22 ára. Þegar verið var að ákveða rétt hennar til örorkulífeyrisbóta var því bara þetta stutta tímabil undir, þ.e. tíminn frá 16–22 ára aldurs, og af þessum sex árum hafði hún verið fimm erlendis. Bótaréttur hennar var því aðeins 118.000 kr. á mánuði.

Þetta dæmi sýnir nákvæmlega hversu ósanngjarnar búsetuskerðingar geta verið. Hérna er 16 ára stúlka sem flytur til útlanda með foreldrum sínum og býr þar um nokkurra ára skeið og snýr svo aftur til Íslands, heimilis síns stærsta hluta ævinnar, og henni er sagt að velferðarsamfélagið Ísland vilji að hún dragi fram lífið á 118.000 kr. á mánuði það sem eftir er ævinnar.

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis var sú að þessi reikniaðferð Tryggingastofnunar væri ólögleg, að henni væri ekki heimilt að reikna þessi framtíðarár þannig að þau yrðu í sama hlutfalli og tíminn frá 16 ára aldri fram að því að viðkomandi var metin öryrki. Þessi ár ætti einfaldlega að telja til búsetu á Íslandi. Það væri hin eina löglega túlkun á ákvæðum almannatryggingalaga.

Það að greiða öryrkjum í samræmi við lög á ekki að vera flókið. Sé það of flókið eiga öryrkjar ekki að bera hallann af því og bíða í marga mánuði eftir að greiðslur hefjist. Sú er raunin nú. Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að það hefur tekið svona ofboðslega langan tíma að hefja réttar greiðslur til öryrkja? Mögulega er svarið að finna í þessu frumvarpi sem og frumvarpi félags- og barnamálaráðherra sem sett var inn í samráðsgátt stjórnvalda þann 13. maí sl., en það frumvarp felur í sér að búsetuskerðingar eru í raun lögfestar. Svar ráðherra við úrskurði umboðsmanns við því að þessar skerðingar séu ólöglegar verður þá í raun bara: Þá gerum við þær löglegar, óháð því hvort þær eru ósanngjarnar, ómannúðlegar, óréttlátar — og brot á EES-reglum ef út í það er farið.

Ráðherra sýndi með þessu frumvarpi að hann vildi helst ekki greiða öryrkjum í samræmi við gildandi lög. Það er bara þannig. Hann vildi bara breyta lögunum — og það fjórum dögum eftir að ráðuneytið sendi út fréttatilkynningu þess efnis að endurgreiðslur vegna leiðréttinga á búsetuhlutfalli væru að hefjast.

Afar hörð gagnrýni á frumvarpið hefur, í það minnsta enn sem komið er, komið í veg fyrir framgang þess. Það hefur ekki verið lagt fram á Alþingi og ég vona að svo verði aldrei. En það frumvarp sem við ræðum hér er ekki síður áhugavert. Eins og fram hefur komið ætlar meiri hluti nefndarinnar að fella út c- og d-lið 1. gr. frumvarpsins. Það er gott og það er rétt niðurstaða, en c-liðnum var nefnilega ætlað að lögfesta búsetuskerðingar á þessari sérstöku framfærsluuppbót sem við höfum verið að ræða. Í þessum lið segir að fjárhæð sérstöku framfærsluuppbótarinnar skuli reiknast í samræmi við réttindi til lífeyris, samanber 1. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Breyting þessi er rökstudd þannig að verið sé að lögfesta viðtekna framkvæmd Tryggingastofnunar, þ.e. að beita búsetuskerðingum á þessa sérstöku framfærsluuppbót. Með því er í raun verið að lögfesta mjög umdeilda reglugerð og um leið taka afstöðu til þess, án umræðu eða nánari skoðunar, að beita eigi búsetuskerðingum á lágmarksframfærslu. Þetta er sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að ráðherra hengir þessa í raun ótengdu breytingu við frumvarpið sitt sem hefur það hlutverk að draga úr krónu á móti krónu skerðingu öryrkja. Svo virðist sem ráðherra svíði svo svakalega að þurfa að greiða öryrkjum þessa fjármuni, sem þeir eiga þó rétt á, að hann freistar þess að lauma inn þessari umdeildu grein og vonar að enginn taki eftir því. Ég get bara ekki séð það öðruvísi. Með annarri hendinni býður hann minni háttar kjarabót en með hinni frekari skerðingar.

Forseti. Við lok þessa þingvetrar mun ég láta af störfum sem formaður velferðarnefndar. Það hefur verið einstaklega lærdómsríkt verkefni að takast á við þennan tíma og að mörgu leyti er ég sátt við þau mál sem við höfum unnið að og klárað á síðustu tveimur árum. Að mestu leyti hefur líka gengið vel að vinna saman innan nefndarinnar. Ein mín helsta eftirsjá er líklega sú að okkur láðist að koma á víðtækari kjarabótum fyrir öryrkja. Við erum þó vel á veg komin og ég er hvergi hætt, bara svo það komi skýrt fram, ég mun halda áfram að krefjast þess að loforð um afnám krónu á móti krónu skerðingar verði efnd og berjast fyrir því að hér fái allir tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi, óháð því hver starfsgeta þeirra er.



[12:10]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp ráðherra um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Ég verð því miður að lýsa yfir gífurlegum vonbrigðum með frumgerð þessa frumvarps vegna þess að maður á að trúa því að verið sé að einfalda hlutina. Því miður er hins vegar verið að auka flækjustig, eiginlega stórauka það. Einföldun á þessu máli væri sú að taka út krónu á móti krónu á nákvæmlega sama hátt og var gert við eldri borgara, bara burt með skerðinguna. Þá værum við að einfalda kerfið. Svoleiðis eigum við að vinna. Í stað þess er komið inn að krónu á móti krónu er hætt af því að þau ætla að hafa 65 aura á móti krónu og segja stolt: Krónu á móti krónu er hætt.

Fyrir mér snýr það þannig að í staðinn fyrir að einstaklingur á örorkubótum, með sérstöku uppbótina og aldurstengdu uppbótina, ætlar að reyna að fara að vinna og sér fram á að á diskinum er réttur til að geta farið að vinna er þar boðið upp á að allt er tekið í burtu.

Nei, ríkisstjórnin ætlar að taka einn þriðja í burtu, skilja eftir tvo þriðju. Hvað þýðir það fyrir flesta? Einfaldlega að það borgar sig ekki fyrir þá að fara út í þetta. Þeir fá ekkert út úr þessu. Sumir fá eitthvað upp úr þessu og þess vegna mun ég styðja málið í atkvæðagreiðslu. Allt er gott, sama hversu lítið það er, fyrir þá sem eiga að lifa af 212.000 kr. á mánuði, að ég tali nú ekki um þá sem eru á hálfum bótum með búsetuskerðingar og fá 106.000 kr. á mánuði sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð.

Annað sem gerir málið enn ömurlegra er að í upphaflega frumvarpinu var laumað inn liðum c og d í 1. gr. Eiginlega það ömurlegasta í þessu öllu saman var í c-liðnum. Þar stóð til að lögfesta búsetuskerðingar. Þarna inni eru 2,5 milljarðar en ekkert samráð var haft við Öryrkjabandalagið um hvernig þeim skyldi varið og ekkert tillit tekið til óska þess um að fjárhæðin yrði sett í grunnlífeyrinn þannig að hún nýttist öllum, líka þeim sem þurfa mest á því að halda. Nei, það var ekki gert og þess vegna er alveg með ólíkindum að þau ætli í gegnum þessar búsetuskerðingar sem er talið að kosti um 500 milljónir á ári að reyna að ná inn aftur og kroppa í þessa 2,5 milljarða.

Það er ömurlegt að setja smáaur í vasa þeirra verst settu með annarri hendinni og reyna svo að fara með hinni hendinni og taka hann í burtu. Það segir okkur að það er eitthvað að kerfinu sem við erum búin að byggja upp og það segir okkur líka að þegar svona brellur eru reyndar á síðustu stundu í von um að enginn taki eftir þeim og þetta fari í gegn er full ástæða, og nú er hún komin staðfest, fyrir öryrkja til að tortryggja allt sem kemur frá þessari ríkisstjórn. Annað er einfaldlega ekki hægt vegna þess að þetta sem er í gangi og það sem er verið að gera í þessu frumvarpi kom hvergi fram í samráðshópnum um endurskoðun almannatrygginga. Það kom hvergi fram að þar ætti að lauma inn búsetuskerðingum eða slysatryggingum. Það var aldrei rætt.

Það er ömurlegt til þess að vita að einhverjir skuli vera með það innræti að reyna þetta og hugsa: Við getum þetta, kannski getum við klekkt á þeim. Og á hverjum er verið að klekkja? Þeim verst settu, þeim sem hafa gjörsamlega setið eftir ár eftir ár, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og hafa ekki fengið sömu hækkanir og aðrir.

Maður verður stundum alveg gáttaður á flækjustiginu á þessari vitleysu vegna þess að þarna erum við eingöngu að tala um atvinnutekjur. 65 aurar á hverja krónu skerðast, af þúsundkallinum erum við að tala um 350 kr. sem verða eftir. Það segir sig sjálft að þetta er allt of lítið. Fyrir þá sem verst eru staddir er þetta eiginlega bara sorglegt og maður getur líka spurt: Hvað er ekki þarna inni? Það verður aftur haldið áfram að skerða algjörlega séreignarsparnað og lífeyrissjóðssparnað. Það sem er eiginlega stórmerkilegt við þær skerðingar og þessar skerðingar á krónu á móti krónu er að þetta er gert fyrir skatt. Þar af leiðandi verða skerðingarnar mun meiri. Fyrst er skert og síðan skattað sem er auðvitað alveg fáránlegt.

Það sýnir að hugsunin er að borga sem minnst til þeirra sem virkilega þurfa á að halda.

Maður verður stundum algjörlega kjaftstopp á þeirri vitleysu sem getur verið í gangi í sambandi við vinnubrögðin á þessu öllu. Það sem slær mig mest er að við vorum að vinna í marga mánuði í samráðshópi um endurskoðun almannatrygginga til að einfalda kerfið, búa til einfalt og gagnsætt kerfi sem allir skilja og ganga líka þannig frá því, eins og mér skildist, að fólk gæti lifað með sæmilegri reisn á þeirri framfærslu sem það fær.

Því miður var greinilega ekki stefnt að því. Ég sé það á því hvernig þetta frumvarp er sett inn að því miður fer alltaf allt í sama farið.

Í þessu samhengi verðum við líka að átta okkur á því, eins og ég hef áður bent á, að allir hafa fengið afturvirkar leiðréttingar og hækkanir, þar á meðal þingið, leiðréttingar vegna hrunsins — nema eldri borgarar og öryrkjar. Þeir hópar sitja eftir.

Við sjáum það t.d. á því að atvinnuleysisbætur eru um 280.000 kr. í dag en flestallir öryrkjar eru á 247.000 kr., þ.e. 212.000 kr. eftir skatt. Við erum kannski búin að gleyma að þingmenn hækkuðu úr 550.000 í 1,1 milljón, ráðherrar úr 785.000 í 1,8 milljónir og forsætisráðherra úr 870.000 í yfir 2 milljónir. Öryrkjarnir sátu eftir.

Það sem á að vera gott í þessu frumvarpi er að gerðar verða upp atvinnutekjur frá mánuði til mánaðar. Fyrst þegar ég heyrði þetta hugsaði ég: Já, ókei, nú eru þeir loksins farnir að pæla í því að taka út skerðingardaginn mikla þegar skerðingin skellur á og reikna bætur í rauntíma eins og þeir eiga að gera. En svo gott er það ekki. Þetta flækir hlutina. Það verður áfram ótrúleg flækja. Í flestum tilfellum skuldar maður Tryggingastofnun 1. júlí en fáir eiga inni og fá greitt út. Í flestum tilfellum skulda menn og er sagt að borga til baka á næstu mánuðum á eftir. Þetta er ekki verið að laga, þessir 65 aurar á hverja krónu flækja þetta enn þá meira.

Eins og ég segi er alveg ömurlegt að það skuli alltaf vera séð til þess að sparka fjárhagslega í öryrkjana. Eins og ég hef líka sagt er í þessu tilfelli verið að sparka í þá tvisvar en sleppa því að gera það í þriðja skiptið. Og þótt það sé lítið er það samt betra en ekki neitt og þess vegna mun ég styðja þessa niðurstöðu. Ég hefði samt helst viljað, og geri eiginlega kröfu um það, að séð yrði til þess að hætta krónu á móti krónu skerðingunni og það bara strax næsta haust vegna þess að allir voru búnir að lofa þessu. Það á að standa við þau loforð. Við verðum að horfa á það þannig að ef við viljum að okkur sé treyst á þingi og ef við viljum stunda þau nýju vinnubrögð, sem alltaf er verið að tala um að eigi að fara að stunda, verðum við að sýna það í verki. Þá ber okkur skylda til þess að byrja á þeim sem verst hafa það. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þeir geti lifað mannsæmandi lífi, að þurfa ekki hreinlega að svelta. Það segir sig sjálft að þeir sem eru undir búsetuskerðingum geta ekki lifað mannsæmandi lífi. Þeir svelta eiginlega. Ég veit varla hvernig ég á að lýsa því. Það hlýtur að vera ömurlegast af öllu ömurlegu að fyrir það eitt að veikjast og hafa búið stundarkorn í öðru landi sé hægt að refsa manni svo grimmilega að ekki er möguleiki að lifa með nokkurri reisn.

Það segir okkur að okkur ber skylda til að búa til lágmarksframfærslu í þessu landi þar sem allir geta lifað með reisn og svelta ekki. Okkur ber skylda til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að sá útreikningur verði. Það er það sem við verðum að gera og eigum að gera.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen, formanni velferðarnefndar, fyrir frábær störf og góða stjórn á velferðarnefnd. Ég hefði helst viljað að hún héldi áfram með formennsku þar en því miður verður það víst ekki en ég þakka líka velferðarnefnd fyrir vel unnin störf. Sem betur fer tók velferðarnefnd til sinna ráða og gerði kröfu um að c- og d-liðirnir yrðu ekki inni og þegar þeir eru farnir út get ég stutt málið. Ef þeir hefðu verið inni hefði ég aldrei getað stutt það vegna þess að það er ekki hægt að styðja það að rétta þeim sem minnst hafa með annarri hendinni og hrifsa með hinni. Svoleiðis vinnubrögð eigum við ekki að ástunda og það er okkur til ævarandi skammar að það skuli hafa komið svona inn. Við eigum að læra af því í eitt skipti fyrir öll og sýna þeim sem eru veikir og slasaðir þarna úti þá virðingu að svona hlutir komi aldrei fyrir aftur og að við sjáum til þess að þeir geti fengið sínar bætur og lifað með reisn.



[12:25]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar þar sem við tölum stundum um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Mig langar svolítið að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður sem talaði hér á undan sleppti honum. Það er mjög gott að hv. velferðarnefnd hafi tekið eftir því að lauma átti tveimur stafliðum inn í frumvarpið sem nú er til umræðu. Það eru þá sérstaklega stafliðir c og d, það þarf klárlega að ræða þá betur.

Eins og segir í umsögn Öryrkjabandalagsins virðist sem það hafi alls ekki fengið tækifæri til að vera með í ráðum þegar um slíka risabreytingu er að ræða. Mér sýnist á umsögn Öryrkjabandalagsins að það hafi aðeins fengið tvo daga til að vega og meta það sem lá fyrir.

Það er rétt að þetta er skref en ég tek undir orð formanns velferðarnefndar, hv. þm. Halldóru Mogensen, sem segir að þetta sé aðeins lítið hænuskref.

Það er rétt, sem fram kemur, að þessu er kastað fram á síðustu dögum þings og hlutirnir eiga að ganga mjög hratt í gegnum þingið. Þá er það enn og aftur hlutverk velferðarnefndar að rýna í þetta frumvarp og þar tóku menn eftir því að þessir stafliðir, c og d, voru teknir út. Mér detta í hug einkunnarorð Öryrkjabandalagsins: Ekkert um okkur án okkar. Það hefur greinilega alls ekki verið haft, af hendi félags- og barnamálaráðherra, samráð við Öryrkjabandalagið. Því var ekki velt upp hvort kæmi betur út, að settur yrði ákveðinn peningur eða ákveðið fjármagn inn í grunnlífeyri eða hvort það ætti að fara inn annars staðar. Öryrkjabandalaginu var sagt að það myndi geta haft áhrif á það hvernig þeim fjármunum yrði ráðstafað sem hér um ræðir, en síðan var aðeins ein kynning á einum stuttum fundi og svo var málinu lokað. Það er líka merkilegt að þessir stafliðir, c og d, voru aldrei kynntir, þeir voru aldrei orðaðir við Öryrkjabandalagið. Það er eiginlega fyrirséð að stafliðirnir hafi verið settir inn í frumvarpið með það að markmiði að skerða örorkulífeyrisgreiðslur enn frekar. Öryrkjabandalagið hefur einnig gagnrýnt, og ég vil taka undir það, að þó svo að þetta skerðingarhlutfall, sem nú er komið í 65 aura, sé lítið hænuskref hefur Öryrkjabandalagið ítrekað bent á að svo sé ekki meira sagt. Það er í raun skilið eftir í lausu lofti og Öryrkjabandalagið hefur ekki hugmynd um hvað muni koma svo.

Samráðshópur til að einfalda kerfið skilaði af sér niðurstöðu þar sem mér sýnist á öllu að verið sé að flækja kerfið. Og það sem meira er: Það er verið að byrja á röngum enda. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að fyrst hefði átt að byrja á því að setja fram hlutastörf. Síðan mætti auglýsa — ég hef talað um þetta áður — eftir þátttakendum sem hefðu getu til að ganga í þau störf. Eftir það mætti sjá hver reynslan yrði af því fyrirkomulagi og ákveða hvernig það hefði reynst og auglýsa svo bara aftur. Það sem ég er að vísa í eru sérstaklega hugmyndir um hvað gert var með NPA-aðstoð. Þá var farið í að auglýsa og þá var ákveðinn kvóti eða ákveðinn fjöldi sem gat sótt um að fá aukna persónulega aðstoð. Og ég sé ekki betur en að byrja verði á þeim enda. En valið var að búa til nýtt flækjustig. Samráðshópurinn skilaði frá sér þessum tillögum, sem í mínum huga eru ekkert annað en aukin flækja á því sem er þekkt í dag. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á virðist enginn skilja hvernig kerfið virkar. Það eru alla vega ekki margir sem skilja það.

Til þess að fara aftur inn í þennan c-lið frumvarpsins, sem hv. velferðarnefnd tókst sem betur fer að taka út úr frumvarpinu, átti að lögfesta svokallaða búsetuskerðingu á sérstakri framfærsluuppbót. Það má halda því fram að þá sé verið að girða fyrir, ef það hefði farið í gegn, að hæstv. félags- og barnamálaráðherra þyrfti að standa við að endurgreiða þær búsetuskerðingar sem eru ólögmætar — það verður aldrei nógu oft sagt að það er ólögmætt að ætla ekki að greiða þetta til baka, þessi tíu ár. Það er furðulegt til þess að vita að nú er hugmyndin að greiða aðeins fjögur ár til baka. Það er enn ein spurning sem er dálítið merkileg. Ef við förum aftur í þennan c-lið sem fjallar um búsetuskerðingarnar var ætlun hæstv. ráðherra að setja inn í frumvarpið, lauma inn í það, þáttum sem alls ekki hefur verið rætt um og er alls ekki sátt um. Því er haldið fram að það hefði haft skelfilegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.

Ef ég fer aðeins yfir í d-lið frumvarpsins sem hv. velferðarnefnd náði einnig að fella út, þá átti að lauma inn skerðingum er varða slysatryggingar. Það átti sem sagt að vera enn einn skerðingaflokkurinn. Þess vegna talaði ég um hér fyrr að það væri sannarlega verið að flækja kerfið. Og enn og aftur er alveg ljóst að það átti að heimila og tryggja lagagrundvöll fyrir frekari skerðingar.

Ég ætla aðeins að vitna í lokaorð álits Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Af framangreindu má sjá að ÖBÍ er ekki sátt við þá útfærslu sem hér er kynnt. Við hefðum svo sannarlega viljað sjá samráð haft við fatlað fólk um það hvernig þessari fjárhæð hefði best verið varið. Þá er það ekki til að skapa traust í garð stjórnvalda að sjá hér laumað inn ákvæðum (sjá c- og d-lið) sem aldrei hafa verið kynnt eða rædd við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, og verða eftir því sem best fæst séð bara til að þrengja að örorkulífeyrisþegum. Það er von okkar að þessi tilteknu ákvæði verði tekin út úr frumvarpinu þannig að þau verði ekki lögfest.“

Það er einmitt það sem hv. velferðarnefnd tók að sér að gera, að fjarlægja þessa tvo stafliði sem hæstv. ráðherra ætlaði að lauma í gegn. Það er alveg stórmerkilegt að koma svo seint fram með þetta mál og halda að það rúlli bara hér í gegn. En ég skrifaði undir álit meiri hlutans með fyrirvara. Fyrirvarinn hjá mér liggur mest í því að ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að við reynum að minnka skerðingar, nú eru það 65 aurar á móti krónu, en það er alveg skýrt í mínum huga að króna á móti krónu tillagan, sem lá hér fyrir þinginu, er mun betur til þess fallin að afnema skerðingar. Og annað er hitt að það átti líka að vera liður í því að einfalda kerfið. Ég held að það sé aðalmálið, við verðum að fara að huga að því að vinda ofan af flækjustigi þessa kerfis á meðan fólk nær ekki að skilja hvað um er að ræða.

Að lokum ætla ég að grípa hér aðeins niður í umsögn Tryggingastofnunar sem líka barst hv. velferðarnefnd. Tryggingastofnun er með nokkrar ábendingar en bendir að lokum á það mikilvæga atriði að ekkert kostnaðarmat kom fram í greinargerð frumvarps hæstv. ráðherra, hvorki varðandi bótaflokk né annan kostnað. Tryggingastofnun gerir sér grein fyrir því að það muni verða umtalsverður aukinn kostnaður. Breytingar á kerfum kalla á aukinn kostnað og auðvitað er utanumhald vegna starfsmanna sem þarf að ráða vegna þess að Tryggingastofnun gerir sér grein fyrir því að verið er að auka flækjustig við útreikninga.



[12:38]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur fundið sér hóp sem er undir það búinn að bera mestu byrðar sem leggja á á nú um stundir. Hópurinn með breiðu bökin er öryrkjar þessa lands. Það frumvarp sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, mætti sem best kalla 65 aura frumvarpið vegna þess að hér er gert ráð fyrir að í stað þess að skerða öryrkja um krónu á móti krónu skuli skerða þá um 65 aura á móti hverri krónu.

Svo virðist sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé eitthvað í nöp við öryrkja vegna þess að nú stöndum við hér um miðjan júní og erum að ræða enn frekari skerðingar en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Í því fyrra voru uppi áform um að leggja 4 milljarða kr. í það að hefja þá vegferð að taka krónu á móti krónu skerðinguna af. Í meðförum fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytisins var þessi tala lækkuð niður í 2,9 milljarða og okkur sem mótmæltum þessu á sínum tíma í desember var sagt að þetta væri ekkert mál vegna þess að þegar kæmi fram um örfáa mánuði yrði allt komið í lag milli öryrkja og ríkisstjórnarinnar og þetta fé yrði greitt tafarlaust.

Nú erum við um miðjan júní og ekkert er búið að gerast, nákvæmlega eins og allir gátu sagt sér að myndi fara. Það var nefnilega eitt skilyrði fyrir því að öryrkjar fengju þær bætur sem þeir eiga skildar og þeim ber, það að ríkisstjórnin heimtaði að þeir samþykktu upptöku starfsgetumats án þess að neitt lægi fyrir um hvernig ætti að tryggja þeim sem undirgengjust slíkt mat aðgang að vinnu við hæfi, þ.e. hlutastörfum, störfum sem hentuðu þeim sem hafa skerta starfsgetu. Ekkert slíkt liggur fyrir, ekki nema það að hæstv. félags- og barnamálaráðherra, eins og hann heitir núna, hafði komið hingað og skorað á vinnumarkaðinn að skapa aukinn fjölda hlutastarfa. Auðvitað á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi, herra forseti, og skapa þessi störf ef það á að verða von til þess að hægt sé að taka upp svokallað starfsgetumat. Áður en byrjað er að huga að því þarf að tryggja að til séu á hverjum tíma hlutastörf sem henta þeim sem hafa skerta starfsgetu.

Þetta hefur m.a. verið gert víða erlendis, í Þýskalandi, í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, með því móti að ríkið lögleiðir það að skapa og bjóða upp á á hverjum tíma að ákveðinn hluti þeirra starfa sem ríkið auglýsir sé fyrir fólk með skerta starfsgetu. Ef við hefðum ætlað að taka þessa hluti í réttri röð hefðum við byrjað á því að lögfesta það að ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki á almennum markaði byggju til vettvang til að auka framboð þessara starfa áður en starfsgetumati hefði verið hellt ofan í hálsmálið á öryrkjum. Það er í raun og veru búið að halda öryrkjum í nokkurs konar gíslingu með starfsgetumatið sem vopn. Og það er náttúrlega engin hemja, herra forseti, að koma þannig fram við fólk og þá sérstaklega það fólk sem stendur veikast og á erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér.

En þennan „andstæðing“ fann ríkisstjórnin og sækir mjög að þessum hópi. Það er ekki nóg með þetta, herra forseti, núna er þingið komið allnokkra daga fram yfir áætluð starfslok en það vill bara þannig til að það eru mál sem hafa fengið dálitla umræðu og hafa þess vegna dregið þingstörf ögn. Ég veit ekki hvar menn væru með ríkisfjármálaáætlun sem er ekki tilbúin og sem hefur ekki verið lögð fram. Ætli menn hefðu þá kallað þingið aftur saman ef það hefði hætt á þeim tíma sem áætlað var?

Í sjálfu sér getur ríkisstjórnin þakkað m.a. Miðflokknum fyrir að hafa haldið uppi nokkrum umræðum sem hafa orðið til þess að þinglok hafa dregist um örfáa daga, en í sjálfu sér ekki meitt þingstörfin að neinu leyti vegna þess að þær umræður fóru mest fram þegar hér var ekki reglulegur þingfundur og ég kannast ekki við að þær umræður hafi eiginlega truflað svefn nokkurs manns, nema þá helst þeirra sem stóðu í þeirri umræðu. Ég held að ríkisstjórnin ætti að vera frekar glöð yfir því að hafa fengið þennan gálgafrest til að leggja fram þessa fjármálaáætlun. Það er til vansa, herra forseti, að koma með hana korter fyrir þrjú þegar á að fara að ljúka þingstörfum og rumpa henni í gegnum þingið á núll einni, eins og við segjum, á engum tíma. Þetta eru engin vinnubrögð, herra forseti, en því miður eru þetta þó vinnubrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að koma í sífellu með stór álitamál sem á að böðla í gegnum þingið með engri umræðu, samanber það sem átti að gera með þriðja orkupakkanum en tókst ekki, menn ætluðu að böðla því máli í gegnum þingið án nokkurrar umræðu. Á sama hátt vænti ég þess að hér komi — ja, ég veit ekki hvenær, hvaða dagur er í dag? Föstudagur? Þá kemur fjármálaáætlun væntanlega ekki til umræðu fyrr en á þriðjudaginn. Ég trúi því að menn ætli bara að fá hana í gegn samdægurs, daginn eftir eða eitthvað slíkt.

Þetta er ekki boðlegt, herra forseti.

Eins er með þetta mál hér, 65 aura frumvarpið, að það kemur fram og fær litla sem enga umræðu. Hæstv. ráðherra fer undan í flæmingi og formaður fjárlaganefndar neitar því augljósa. Hann neitar því að í þeirri fjármálaáætlun sem aðeins hefur glitt í blasi við að frá upphaflegri fjármálaáætlun á að draga öryrkja um 8 milljarða kr. á næstu fjórum árum. Menn segja: Nei, þeir fá þetta samt. Hvenær þá? Það liggur ekki fyrir. Menn segja: Það á ekki að skerða neinn. En það var búið að gefa ádrátt um að 8 milljarðar kr. færu í þennan málaflokk á næstu fjórum árum og nú er búið að draga það til baka. Breiðu bökin eiga að bera kostnaðinn af því að síðasta fjármálaáætlun og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, nokkurra mánaða gömul, er ónýt. Það er ekki öryrkjum að kenna. Sá hópur sem hæstv. forsætisráðherra var alveg ákveðinn í fyrir líklega 24 mánuðum að væri alls ekki fær um að bíða eftir réttlæti stóð samt þarna. Sætin í ríkisstjórninni eru svo mjúk að viðmótið breyttist um leið og sest var í ríkisstjórn. Þá breyttist þetta í að nú geta öryrkjar vel beðið eftir réttlæti að mati ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti, þegar fólk sem hefur kynnt sig sem talsmenn og málsvara þeirra sem minnst hafa og veikast standa kemur nú fram við öryrkja á þennan hátt. Það er alveg ljóst og maður hefur heyrt og lesið ótal viðtöl, álit og greinar frá forystumönnum Öryrkjabandalagsins þar sem þeir segja farir sínar ekki sléttar af samvinnu, eða réttara sagt skorti á samvinnu, við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það kemur m.a. fram í umsögn þeirra um einmitt það frumvarp sem við erum að ræða núna. Þroskahjálp hefur líka talað á svipuðum nótum.

Það er engin hemja, herra forseti, að á sama tíma og nánast ekkert virðist gert til þess að koma böndum á svart hagkerfi, sem auglýsir sig sjálft opinberlega á hverjum einasta degi en er ekki hægt að taka á, er ekki hægt að bæta við mannskap og tækjum fyrir ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra sem þó hafa báðir sagt að hver starfsmaður sem þeir fengju núna, ekki alveg endalaust en upp að vissu marki, myndi væntanlega koma til baka með tíföld laun sín í formi innheimtra tekna ríkissjóðs.

Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að 1% innheimtubæting er 7 milljarðar. Ég geri ekki lítið úr því að innheimtuprósenta hjá ríkisskattstjóra og tollstjóra sé gríðarlega há. Hér á að skerða öryrkja fjögur ár fram í tímann um 8 milljarða. Það er þegar búið að hirða um 1.100 milljónir sem var gert um síðustu áramót. Menn segja að þetta sé gert af því að ekki séu til peningar. En menn virðast ekki hafa áhuga á því að innheimta þegar álögð gjöld. Og nú er það skýrt, herra forseti, að ég er ekki að tala um nýja skattheimtu, það höfum við Miðflokksfólk ekki gert. Við erum eingöngu að tala um að bæta innheimtu þegar álagðra gjalda og skatta. Ef gerð væri gangskör að því fengju menn nóg af peningum í ríkiskassann til að þurfa ekki að vera að skerða þennan hóp sem svo veikt stendur með þessu 65 aura frumvarpi. Það er skömm að því. Ég held að ég hafi eiginlega sagt það í 1. umr. að menn hefðu kannski valið 65 aurana af því að menn yrðu svo lengi að segja 65 aurar á móti krónu. En það má alveg eins segja tveir þriðju á móti krónu, það er þjált og það segir nákvæmlega sömu söguna.

Það eru heldur engin fyrirheit í þessu um hvað verði svo gert þegar 65 aura frumvarpið hefur verið samþykkt og er orðið að lögum. Hvað bíður þá? Samkvæmt þeirri 8 milljarða kr. skerðingu sem við vorum að tala um áðan geta öryrkjar þessa lands ekki verið fullir bjartsýni, a.m.k. ekki um hvernig þeim reiði af næstu fjögur ár. Svo virðist, eins og hefur stundum verið sagt áður úr þessum ræðustól, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli að láta þá sem veikast standa og minnst hafa bíða enn um hríð eftir réttlæti, a.m.k. næstu fjögur ár. Það er nokkuð klárt. Og þá segir maður: Hvað á svo að breytast að þessum fjórum árum liðnum? Opnast þá gullæð á Íslandi til að hægt sé að leysa hvers manns vanda? Eða verður það kannski boðað eftir sirka 20 mánuði þegar við nálgumst kosningar? Verða þá dregnar upp úr hatti sömu kanínurnar og búið er að troða ofan í hattinn núna? Verða þær kannski teknar upp og einhverjar nýjar með til að slá ryki í augu fólks rétt fyrir næstu kosningar? Einhvern veginn hefur maður grun um það.

En þetta mál er verulega slæmt. Það er rétt hugsanlegt að það fái stuðning minn vegna þess að það fer hænufet í að laga stöðu þessa hóps. Það er í sjálfu sér ekki hægt að setja sig upp á móti því að staða þessa hóps sé bætt um sem nemur hænufeti en það er bara svo himinhrópandi ósanngjarnt að nú eigi „bara“ að skerða þennan hóp um 65 aura af hverri krónu en ekki krónu af hverri krónu. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti, held ég að verði að segjast hér.

Fyrst menn neyddust til að taka upp fjárlög á síðustu metrunum í síðustu fjárlagaumræðu og núna fjármálaáætlun, á síðustu klukkutímum þingsins liggur mér við að segja, held ég að ef menn hefðu leitað hefðu þeir fundið aðra hópa í samfélaginu sem væru e.t.v. í betri stöðu til að taka á sig byrðar af þessari stærðargráðu. En þessi hópur virðist bara liggja svo vel við höggi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að menn leita ekki lengra. Menn sjá að þarna er hægt að skerða hóp sem fær ekki rönd við reist um upphæð sem „nægir“ til að hægt sé að troða í gegn fjármálaáætlun á síðustu klukkutímum þingsins og menn gera það. Er það stórmannlegt? Nei. Skynsamlegt? Heldur ekki. Er eitthvert réttlæti í þessu? Ekki arða.

Þess vegna, herra forseti, held ég að mönnum væri sæmra að taka málið aftur til nefndar á milli umræðna og koma til baka með að lágmarki tillögu um að króna á móti krónu breyttist í hálfa krónu á móti krónu, þó ekki væri nema það. Hvað kostar það? 1 milljarð, myndi ég halda fljótt á litið. Það er hægt að leiðrétta mig ef það er rangt, en ég hygg að það sé ekki hærri upphæð. Þá væri kannski hægt að orða það þannig að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri að rétta þessum hópi sem svo illa stendur vott af sáttarhönd. Þá væri kannski hægt að segja að ríkisstjórnin væri að koma til móts við þennan hóp og með góðum vilja væri hægt að segja að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tryggði alltént að þessir veikustu aðilar sem minnst hafa þyrftu ekki að bíða lengur en brýnasta þörf er á eftir réttlæti.

En ég er ekki bjartsýnn á þetta.



[12:58]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þetta mál og stöðu öryrkja almennt í samfélaginu. Mér finnst afskaplega sorglegt hvernig komið er fyrir öryrkjum í þessu landi þegar kemur að forgangsröðun ríkisfjármála í þágu þessa hóps. Í fyrsta lagi búa yfir 20.000 manns við þær aðstæður að vera öryrkjar eða fatlaðir á Íslandi og allt of lengi hefur þessi hópur setið eftir. Hann var skilinn eftir á hagvaxtarskeiðinu og nú lítur út fyrir að hann verði líka skilinn eftir á samdráttarskeiðinu. Þetta er algjörlega ótækt, herra forseti. Ísland er tíunda ríkasta land í heimi og það er fullkominn óþarfi að haga hlutunum með þeim hætti sem raun ber hér vitni. Ríkisstjórnin tekur hænuskref þegar kemur að því að draga úr svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu sem allir flokkar hafa ítrekað sagt að þeir vilji losna við, allir flokkar, ekki síst ríkisstjórnarflokkarnir. Ég velti fyrir mér af hverju við getum ekki sammælst um að taka skrefið til fulls og afnema svokallaða krónu á móti krónu skerðingu í einu skrefi.

Tölurnar ljúga ekki og ekki heldur excel-skjölin. Við sjáum að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt í mars sl. var gert ráð fyrir aukningu í málefni öryrkja um 4 milljarða sem er u.þ.b. einn þriðji af því sem það kostar að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Síðan fáum við breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, á fundi fjárlaganefndar sl. föstudag þar sem koma djúpt í fylgiskjali VII breytingartillögur þessara ríkisstjórnarflokka við fjármálaáætlun sem þessir flokkar sjálfir lögðu fram fyrir einungis rúmum tveimur mánuðum. Þar koma fram mikil pólitísk tíðindi því að svo virðist sem öryrkjar, af öllum hópum, eigi að taka á sig stærsta skellinn í þeim samdrætti sem íslenskt hagkerfi er að verða fyrir núna. Fjárframlög til öryrkja eiga að dragast saman um 8 milljarða kr. samanlagt næstu fimm árin. Auðvitað mun þessi hópur finna fyrir því. Það er tóm tjara sem maður hefur heyrt suma þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tala um, að þessi hópur muni ekki finna fyrir því þótt hann fái 8 milljörðum kr. minna næstu fimm árin samanlagt en til stóð fyrir einungis tveimur mánuðum.

Það er ótrúleg forgangsröðun, herra forseti, að hér sé hlutunum hagað með þessum hætti. Til að setja þetta í smásamhengi er niðurskurðurinn í fjárframlögum til öryrkja tíu sinnum hærri upphæð en niðurskurðurinn sem hin æðsta stjórnsýsla fær í breytingartillögum ríkisstjórnarflokkanna. Það er alveg ótrúlegt.

Ég hef talað mjög skýrt fyrir því, og við í Samfylkingunni, að við eigum að hlífa velferðarkerfinu og skólunum. Við sjáum að ekki bara öryrkjar eiga að fá högg í þessum breytingartillögum. Það er líka nýsköpun, 3 milljarðar, umhverfismálin, 1,4 milljarðar, framhaldsskólinn, 1,8 milljarðar, hjúkrunarheimilin fá beinlínis lækkun, fá minna 2024 en 2019, og sjúkrahúsþjónustan fær 4,7 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin í breytingartillögunum frá framlagðri fjármálaáætlun. Heilsugæsla og sérfræðiþjónusta fær 2 milljarða kr. lækkun.

Þetta er svört tafla, herra forseti, breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna á sinni eigin fjármálaáætlun.

Ég hef verið að hamast í þessu máli alla vikuna og ég vona svo sannarlega, því að málið er enn til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd, að menn sjái að sér og fari ekki eftir þessum breytingartillögum heldur hlífi þessum hópum eins og við ættum að gera. Á sama tíma var það forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að lækka veiðileyfagjöldin, gjöld sem eru í eðli sínu aðgöngumiði útgerðar að einum gjöfulustu fiskimiðum jarðar. Það er búið að lækka veiðileyfagjöldin niður í þá upphæð að þau nálgast tóbaksgjaldið, gjald sem við setjum á sígarettur sem 8–9% af þjóðinni reykja.

Hvers konar pólitík er þetta? Einungis fyrir einu ári ætluðu ríkisstjórnarflokkarnir að keyra í gegnum þingið lækkun á veiðileyfagjöldum um 3 milljarða. Stjórnarandstaðan stoppaði það á þeim tíma en flokkarnir náðu síðan lækkuninni í gegn sl. haust.

Svo má spyrja hvort það sé raunveruleg ástæða til að hafa hér lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum á sama tíma og við erum að ganga í gegnum samdrátt í hagkerfinu? Einnig: Þarf það að vera pólitískt forgangsmál að lækka svokallaðan bankaskatt um 8 milljarða kr.?

Ég bendi á aðrar leiðir en að fara í þennan vonda niðurskurð í gegnum breytingartillögur ríkisstjórnarinnar. Við þurfum ekki að fara þessa leið, herra forseti. Þetta eru vondar tillögur, þetta er vond pólitík og kjósendur Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks geta ekki setið heima og verið sáttir við forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Þetta er til skammar, herra forseti. Við eigum að gera miklu betur hér og fara fram á veginn en ekki aftur á bak. En þessi ríkisstjórn virðist vera föst í bakkgírnum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.