150. löggjafarþing — 47. fundur
 17. desember 2019.
staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl., 3. umræða.
stjfrv., 449. mál (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar). — Þskj. 773.

[12:52]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka örstutt til máls í lokin á þessari umræðu. Það hefur verið reynt að láta það kvisast út einhvern veginn að Píratar séu voðalega mikið á móti kirkjunni af því að við tölum á móti þessum hryllilega, ömurlega, lélega samningi. Það er náttúrlega algjört bull, við viljum alla jafna lífsskoðunarfélögum allt hins besta þótt það sé velflest ímyndunaruppspuni í trúfélögunum þegar allt kemur til alls. En til þess að hafa það algjörlega á hreinu snýst öll gagnrýni okkar um þennan hryllilega lélega samning en ekki um einstakar skoðanir fólks, lífsskoðanir eða trúfélagaskoðanir. Ég tek þetta bara fram til að hafa það algjörlega á hreinu.