150. löggjafarþing — 107. fundur
 20. maí 2020.
hugtakið mannhelgi.
fsp. ÓGunn, 628. mál. — Þskj. 1061.

[17:00]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má segja með réttu að hugtakið mannhelgi sé nokkuð víðfeðmt auk þess sem skilgreining þess kann að innihalda ólíka þætti, eftir því í hvaða samhengi það er skilgreint. Í grundvallaratriðum snertir það það sem okkur er næst, persónu okkar, líf og limi og einkalíf. Í flestum vestrænum samfélögum er mannhelgi ein af grundvallarstoðum samfélagsins og lífi einstaklingsins og vernd þess er því gert hærra undir höfði en öðrum gildum samfélagsins. Þannig hafa til að mynda flest þau samfélög sem við berum okkur saman við lagt bann við dauðarefsingum ríkisins líkt og það að deyða annan einstakling er refsivert. Þannig verður hugmyndin um mannhelgi að einhverju leyti eins og trúarleg nálgun. Með því að virða hana ekki er verið að vinna nokkurs konar helgispjöll. Einnig hefur mannhelgi verið nefnd í sömu andrá og friðhelgi. Þá styttist í umræðu um réttindi sem eru tryggð í stjórnarskrá eins og friðhelgi einkalífsins. Þannig má velta því upp hvort skilgreina eigi mannhelgi sem grundvallarrétt hvers manns engu minna mikilvægan en friðhelgi einkalífs. Þessi tvö helgishugtök tengjast að vissu leyti og má velta fyrir sér hvort þau fari ekki alltaf saman og ætti því að skilgreina saman. Þannig má segja að mannhelgi blandist að vissu marki inn í friðhelgi og að friðhelgi hljóti að einhverju leyti að vera fléttuð úr þáttum sem snerta mannhelgi. Velta má fyrir sér hvort mikilvægi mannhelgishugtaksins verði ekki meira og meira á tímum þegar persónuupplýsingar okkar eru orðnar ein verðmætasta vara í heimi og tækni sem nýtir persónuupplýsingarnar verður umfangsmeiri hluti af lífi okkar og gengur jafnvel nær okkur í auknum mæli. Þannig má aftur segja að hugtökin mannhelgi og friðhelgi samtvinnist og þurfi að skilgreinast saman.

Um þessar mundir fer fram nokkur umræða innan velferðarnefndar þingsins í tengslum við siðferðisleg gildi og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þar er mannhelgi einmitt eitt af lykilgildunum. Því er spurt:

1. Telur ráðherra að skilgreiningin á hugtakinu „mannhelgi“ sé fullnægjandi í lögum á málefnasviði ráðuneytisins? Þá mætti kannski bæta við: Og ætti jafnvel að vinna að því að samræmd skilgreining væri til í íslenskum rétti?

2. Hefur orðið umræða um hugtakið í tengslum við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins? Og aftur: Telur ráðherra jafnvel að efna ætti til slíkrar umræðu meðal almennings og að stjórnvöld ættu að hafa frumkvæði að því?

3. Telur ráðherra rétt að hugtakið komi fram í stjórnarskrá líkt og hugtakið „friðhelgi einkalífs“? Og þá kannski til vara að jafnvel mætti hugsa sér að þótt hugtakið væri ekki hluti af stjórnarskrártextanum verði það notað og skilgreint í greinargerð og fylgiskjölum.



[17:03]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Fyrsta spurning þingmannsins er um þetta orð, mannhelgi, sem við þekkjum úr fornu máli, sem merkti grið og kemur m.a. við sögu í Ólafssögu Tryggvasonar, ef mig misminnir ekki. En þegar leitað er í lagabálkum sem heyra undir forsætisráðuneytið verður ekki séð að þetta hugtak komi fyrir í lögum sem heyra undir forsætisráðuneytið. Það kemur fyrir í lögum sem heyra undir aðra ráðherra og er ekki alltaf notað í sömu merkingu. Þannig kemur það til að mynda fyrir í íslenskri þýðingu mannréttindasáttmála Evrópu sem er fylgiskjal með lögum nr. 62 frá árinu 1994. Það kemur fyrir í þeirri grein sáttmálans þar sem fjallað er um hvenær frelsissvipting er heimil og er þar þýðing á enska hugtakinu, með leyfi forseta, „security of the person“. Á dönsku er talað um, með leyfi forseta: „personlig sikkerhed“. Þannig vísar hugtakið mannhelgi þarna til þess réttar að þurfa ekki að sæta frelsissviptingu eftir geðþótta stjórnvalda. Síðan kemur þetta hugtak fyrir í lögum á heilbrigðissviði þar sem það er augljóslega í víðari merkingu, þar sem það vísar til reisnar mannsins, einstaklingseinkenna og þeirra réttinda sem honum eru næst.

Þetta ósamræmi í hugtakanotkun í lögum, þegar horft er heilt yfir, er vissulega ekki alls kostar heppilegt og kem ég þá að næstu spurningu hv. þingmanns um hvort umræða hafi orðið um hugtakið í tengslum við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Eftir því sem mér er best kunnugt um hefur ekki verið sérstaklega rætt um þetta hugtak í því sambandi. Það hafa komið fram tillögur um hliðstæð hugtök og ég vísa þá til tillagna stjórnlaganefndar árið 2011 sem lagði til að hugtakið reisn mannsins kæmi fyrir í upphafi endurskoðaðrar stjórnarskrár sem eitt af grundvallargildum lýðveldisins. Í frumvarpi sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram haustið 2012, og byggt var á tillögum stjórnlagaráðs, sagði að öllum skyldi tryggður rétturinn til að lifa með reisn og síðan var farið yfir í margbreytileika mannlífsins. Það hugtak var ekki nýtt í því samhengi.

Þriðja spurning hv. þingmanns er hvort ég telji rétt að hugtakið komi fram í stjórnarskrá líkt og hugtakið friðhelgi einkalífs. Eins og kunnugt er stendur yfir endurskoðun stjórnarskrárinnar og fyrirhugað er á næsta kjörtímabili, ef sú áætlun gengur eftir, að taka mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til endurskoðunar. Þar liggur beint við að bera þá kaflann saman við þær tillögur sem hafa komið fram síðan þar sem stuðst er við hugtakið um mannlega reisn. Ég vitna til þeirrar aðgerðaáætlunar sem birt var í dag um aðgerðir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, þar sem mælst er til þess að stjórnvöld móti stefnu fyrir Ísland um gervigreind, nokkuð sem ekki hefur verið gert. Ég held að þróun gervigreindar sem og þróun lífvísinda veki auðvitað nýjar spurningar um grundvöll og eðli mannlegrar tilveru sem eru komnar ansi langt frá því sem við þekkjum úr Ólafssögu Tryggvasonar, sem ég nefndi áðan.

Hvar liggja mörkin varðandi lagfæringar á erfðaefni mannsins? Hver verður staða mannsins þegar tæknin getur tekið yfir og jafnvel leyst af hendi þau störf sem fólk innir af hendi í dag? Hvað með sjálfsákvörðunarrétt mannsins í netvæddu samfélagi þar sem eiginleikar einstaklinga, þarfir og langanir hafa verið kortlagðar? Hver verður réttur okkar til að hafna þjónustu sem veitt er af vélum en ekki mönnum, svo að dæmi sé tekið? Þessi grundvallarmál þarf að ræða og móta í slíkri stefnumótun. Ég hef ákveðið að fylgja eftir þessari tillögu sem birtist í dag og efna til stefnumótunar um málefni gervigreindar fyrir Ísland því að þar liggja auðvitað mikil tækifæri. Þar þarf að takast á við siðferðisleg álitamál og það er mjög mikilvægt að við skilum ekki auðu í þeirri umræðu á alþjóðavettvangi sem er til að mynda farin af stað á vettvangi Evrópuráðsins, svo að dæmi sé tekið. Þessi vinna mun vonandi fara fram á næsta ári. Það tengist ekki beint því sem ég nefndi hér um stjórnarskrána en hins vegar held ég að sú vinna gæti nýst í þá vinnu sem mun svo halda áfram á næsta kjörtímabili.



[17:08]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mjög áhugaverð. Ég sé að hv. þingmaður ætlar að spyrja þrjá ráðherra sams konar spurninga, forsætis-, heilbrigðis- og félags- og barnamálaráðherra. Það væri lag að spyrja dómsmálaráðherra einnig af því að þetta heyrir líka undir hana en það verður kannski ekki í dag. Ég fór að skoða þetta og skoðaði bók sem heitir Mannhelgi – Höfuðþættir almennrar persónuverndar eftir Pál Sigurðsson. Ég fékk bókina bara í dag á bókasafni Alþingis en í henni er talað um að þetta snúist um persónurétt og er m.a. talað um gerhæfi og þar undir lögræði, sjálfræði og fjárræði. Þetta varðar líka það hvernig hægt er að frelsissvipta fólk. Ég bið fólk að fara mjög varlega í það verk að ætla að fara að endurskilgreina þessa hluti af því að í hugtakinu, og hvernig það hefur verið þýtt úr t.d. lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, felst gríðarleg réttarvernd, þetta er inni í rétti sjúklinga. Ef við förum að breyta því einhvern veginn og missa þar af leiðandi einhverja réttarvernd sjúklinga, í því hvernig farið er með persónuupplýsingar þeirra eða hvernig hægt er að frelsissvipta þá, (Forseti hringir.) erum við komin á ofboðslega hálan ís. Ég ítreka bara: Förum varlega í þessu.



[17:09]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara minna á að 10. gr. frumvarps stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er einmitt um mannhelgi, að öllum skuli tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan. Einnig er þetta 3. gr. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Þess vegna finnst mér áhugaverð umræðan í velferðarnefnd um að taka eigi mannhelgi út og setja mannvirðingu eða eitthvað svoleiðis í staðinn. Það hljómar fyrir mér eins og verið sé að draga úr réttindum sem eru mjög vel skilgreind hvað varðar mannhelgi. Það er æðsta réttarorðið sem hægt er að nota til að skilgreina réttindi fólks og að minnka það er eitthvað sem alla vega við Píratar segjum nei við. Það er ekki í rétta átt og ætti frekar styrkja það.



[17:10]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í einhverjar deilur sem mér heyrist enduróma hér inn um notkun hugtaksins í annarri löggjöf sem verið er að fjalla um í velferðarnefnd. Ég hef ekki fylgst með þeirri samræðu og ætla ekki að blanda mér í hana. En þegar kemur að stjórnarskránni þá er það rétt sem fram kom áðan að í tillögu stjórnlagaráðs frá 2011 var í 10. gr. talað um mannhelgi. Í þeirri útgáfu sem lögð var fyrir þingið 2012 hafði ákvæðinu verið breytt samkvæmt áliti sérfræðinga sem þáverandi meiri hluti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði fengið til að vinna fyrir sig og töldu réttara að árétta efnisreglurnar frekar en að nota hugtakið. Þannig að einhver umræða átti sér stað um þetta á þeim tíma. Mér finnst persónulega (Forseti hringir.) óþarfi að setja þetta í stjórnarskrá. Það er auðvitað þannig að við lifum (Forseti hringir.) og mótum löggjöf okkar eftir ýmsum gildum án þess endilega að tiltaka þau í stjórnarskrá.



[17:12]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það kom kannski ekki nægilega vel fram að hér í dag er heilmikið safn af umræðu um mannhelgi og um hugtakið á málasviði marga ráðherra og m.a. hafði ég gert ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra gæti verið með okkur. Af því varð því miður ekki í dag en ég hvet hv. þingmenn til að fylgjast með síðar.

Það má velta fyrir sér muninum á ensku hugtökunum, með leyfi forseta, „human sanctity“ og „security of person“ sem hafa bæði verið skilgreind sem mannhelgi. Ég held að fyrra hugtakið nái í raun betur utan um meininguna og kannski rétt að halda því við. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á snýst þetta svolítið um mannlega reisn. Kannski er það þannig, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi, að við getum ekki skilgreint þetta og kannski eigum við ekki að reyna að negla þetta neitt rosalega fast niður vegna þess að væntanlega hefur tilfinning okkar fyrir hugtakinu mannhelgi einhvern breytileika frá kynslóð til kynslóðar. Ég trúi því að við sem nú erum uppi munum skilgreina hugtakið öðruvísi en þeir sem verða uppi eftir 100 ár, líkt og hæstv. forsætisráðherra kom óbeint inn á áðan. Þetta eru flóknar vangaveltur. Ég teldi að umræða um málið til að mynda í stjórnarskrá eða hliðargreinum stjórnarskrár, eins og greinargerðum og þess háttar, væri gagnleg, einkum og sér í lagi vegna þess að gera má ráð fyrir að þegar fram líða stundir (Forseti hringir.) muni umræða um þetta hugtak fara vaxandi.



[17:14]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur og þeim hv. þingmönnum sem hér tóku til máls því að þetta er flókið mál. Orð eru dýr, sagði einhver einhvern tímann. Við erum að nota þetta hugtak með þeim ólíka hætti sem ég fór mjög hratt yfir í svari mínu þar sem við erum annars vegar t.d. að ræða það sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi hvað varðar vernd fólks gagnvart frelsissviptingu og hins vegar með töluvert almennari hætti þegar kemur að því að ræða þetta út frá mannlegri reisn. Það vekur alveg spurningar um það hvort ekki sé ástæða til að rýna hugtakanotkunina í íslenskum rétti. Ég er hins vegar sammála því sjónarmiði að þar þarf að fara varlega. Það er vandmeðfarið að breyta orðanotkun í lögum og rétti án þess að það kalli á heilmikla keðjuverkun. Mér finnst það gríðarlega gott mál að við séum að ræða þetta út frá þeim ólíku ráðherrum sem hér koma við sögu. Ég held hins vegar að hver sem hugtakanotkunin verður þá munum við þurfa að fjalla um rétt mannsins til mennskunnar, hvaða orð sem við notum yfir það, einfaldlega vegna þeirra tæknibreytinga sem við erum stödd í nú þegar, einfaldlega vegna þess hvernig gögn og upplýsingar um okkur eru orðin með allt öðrum hætti á einum áratug. Einfaldlega vegna þess hvernig sjálfvirknivæðingin á eftir að hafa áhrif á allt mannlegt samfélag verðum við einmitt að velta fyrir okkur þessum rétti til mennskunnar og kannski verður mannhelgi rétta hugtakið til að nota í þeirri umræðu. Ég held að þessi stutta umræða hér sýni okkur að þetta kallar á töluvert djúpa greiningu.