150. löggjafarþing — 110. fundur
 29. maí 2020.
leigubifreiðar, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 773. mál (innlögn atvinnuleyfis). — Þskj. 1325, nál. m. brtt. 1496.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:20]

[12:16]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp sem fjallar um tímabundna heimild leigubílstjóra sem hafa haft leyfi skemur en tvö ár til að leggja inn atvinnuleyfi sitt án þess að leyfið falli úr gildi, eins og kveðið er á um í lögum um leigubifreiðar. Gert er ráð fyrir að þetta ákvæði gildi til næstu áramóta. Þetta kemur þessum hópi leigubílstjóra að mörgu leyti til góða, sparar útgjöld og auðveldar þeim að skrá sig á atvinnuleysisbætur.

Ég set fyrirvara við stuðning minn við frumvarpið og ástæður þess eru nokkrar. Fyrst og fremst tel ég, eins og ég hef reyndar tjáð mig um áður, að auðvelda hefði átt leigubílstjórum strax að fara á hlutabótaleiðina sem hefur reynst þeim mjög örðugt og tafsamt að nýta. Þá væri þetta frumvarp næsta óþarft því að leigubílstjórar hafa skyldum að gegna við samfélagið við að halda úti þjónustu við borgarana þótt vinna þeirra hafi vissulega dregist óheyrilega mikið saman. Ég er einnig ósáttur við óviss og sein viðbrögð stjórnvalda hvað varðar þennan hóp og ekki síst framkvæmdina á úrræðum fyrir hann og reyndar er sömu sögu að segja um fleiri hópa einyrkja. Ég verð t.d. að minnast á þau viðbrögð Vinnumálastofnunar að gera það að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til leigubílstjóra að þeir séu í atvinnuleit. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Krafa um atvinnuleit í því ástandi sem er í samfélaginu og í því ástandi sem er á vinnumarkaði leigubílstjóra, (Forseti hringir.) segir allt um ósveigjanleika kerfisins. Tölvan segir einfaldlega nei.



[12:17]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp um breytingu á lögum um leigubifreiðar sem heimilar leigubílstjórum sem haft hafa atvinnuleyfi skemur en tvö ár að leggja inn atvinnuleyfið á gildistíma ákvæðisins, þ.e. út þetta ár. Frumvarpinu er einungis ætlað að tryggja jafnræði leigubílstjóra til innlagnar á atvinnuleyfi í þeim samdrætti sem orðið hefur nú vegna Covid, hvort sem leigubílstjórar hafa haft atvinnuleyfi skemur eða lengur en tvö ár. Þetta frumvarp snýr eingöngu að þessu. Önnur málefni sem snúa hvort sem er að atvinnuleysisbótum eða eftirgjöf vörugjalda leigubílstjóra eru hjá öðrum nefndum og öðrum ráðuneytum og voru því ekki til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd sérstaklega. (Forseti hringir.) Við gerum þó grein fyrir því í nefndarálitinu (Forseti hringir.) að þessi breyting stendur óháð því.



[12:19]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hingað upp eingöngu vegna orða hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar varðandi leigubílstjórana því að við höfum einmitt orðið vör við það í hv. velferðarnefnd að þeir hafa orðið út undan og eru í einstaklega viðkvæmri stöðu þegar kemur að stuðningi stjórnvalda í þessari mjög svo erfiðu stöðu. Ég get tilkynnt það, svo það sé sagt hér líka, að minni hluti velferðarnefndar, þar sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, samflokkssystir hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, er með á nefndarálitinu, gerir ráð fyrir því að leigubílstjórar þurfi ekki að vera í virkri atvinnuleit þegar þeir nýta stuðning hins opinbera á þessum tímum. Við erum einmitt að leggja til þær breytingar þannig að ég hvet alla sem munu greiða atkvæði í dag til að styðja þá tillögu til að tryggja réttindi leigubílstjóra líka.



Brtt. í nál. 1496 samþ. með 55 shlj. atkv.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 56 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 56 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.