151. löggjafarþing — 14. fundur
 22. október 2020.
stuðningur ríkissjóðs við sveitarfélög.

[10:31]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Sveitarfélögin hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og auknum kostnaði í þessum aðstæðum. Þeim er býsna þröngt sniðinn stakkur. Álag á nærþjónustu eykst gríðarlega í þessu erfiða árferði og við erum að tala um leikskóla, skóla, öldrunarþjónustu, málefni fatlaðra o.fl. Nú þarf að verja þetta af alefli. Ég efast ekki um vilja sveitarfélaganna til þess, en útsvarstekjur fara minnkandi og framlög úr jöfnunarsjóði fara lækkandi samkvæmt fjármálaáætlun.

Þrátt fyrir að sveitarfélögin séu einn armur hins opinbera reka þau sig að mörgu leyti eins og fyrirtæki þar sem skýr greinarmunur er gerður á rekstri og fjárfestingu og áhersla á að halda rekstrinum við núllið. Ef þeim á að takast það á sama tíma og þau berjast við aukinn kostnað er hætt við að þau bregðist við með minni fjárfestingum. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir beinlínis ráð fyrir því. Hvort tveggja eru hins vegar afar slæmir kostir. Niðurskurður þjónustu bitnar harðast á tekjulægsta fólkinu og eykur mismun á milli fólks. Neyðist sveitarfélög til að draga úr fjárfestingu mun það soga máttinn úr viðspyrnunni og vinna beinlínis gegn örvandi aðgerðum ríkissjóðs. Það kemur illa niður á hagkerfinu í heild sinni, herra forseti, á öllum almenningi.

Nú er vissulega hægt að spyrja hvort sveitarfélögin eigi ekki bara og geti ekki skuldsett sig meira fyrir fjárfestingu. Þá er líka hægt að spyrja á móti: Er eðlilegt að þau neyðist til að gera það á lánakjörum sem eru mun lakari en þau sem standa ríkissjóði til boða? Á endanum er það nefnilega þannig að nettóskuldasöfnun hins opinbera verður nákvæmlega sú sama óháð því hvor armurinn tekur lánið. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Verður komið betur til móts við sveitarfélög landsins með beinum stuðningi eða í það minnsta hagstæðum lánalínur umfram það sem gert hefur verið hingað til?



[10:33]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem hv. þingmaður setur á dagskrá, þ.e. hið opinbera og hlutverkaskipti ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingin þeirra á milli, sjálfstæði sveitarfélaganna. Hér á Íslandi höfum við lagt mjög mikla áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga, sjálfstæða tekjustofna þeirra og ábyrgð á eigin málaflokkum. Það birtist okkur t.d. í því að hér á Íslandi er umfang sveitarstjórnarstigsins í heildarútgjöldum hins opinbera mun lægra en t.d. á við á Norðurlöndunum.

Þá eru ýmiss konar tilfærslur og beinn stuðningur frá ríkinu, t.d. gegnum jöfnunarsjóð, mun lægra hlutfall af heildartekjum sveitarfélaga en á við á þessum sömu stöðum sem ég hef verið að vísa til, þ.e. á Norðurlöndunum. Þar eru verkefni sveitarfélaganna sömuleiðis mun umfangsmeiri, þau eru færri og telja miklu fleiri íbúa að jafnaði en á hlutfallslega við hér.

Með þessu er ég að vekja athygli á því að það hefur afleiðingar að reka þá stefnu sem við höfum keyrt á Íslandi, að leggja svona mikla áherslu á sjálfstæða tekjustofna sveitarfélaga, sjálfstæði þeirra og ábyrgð á eigin málum. Það má lýsa því í mjög grófum dráttum þannig að þegar vel gengur fleyta sveitarfélögin dálítið rjómann af því og fá til sín mikla aukningu og fara tiltölulega létt í gegnum slíkt skeið. En á hinn bóginn, þegar ekki árar eins vel þá ráða þau varla við breytinguna. Ég tel að sú staða sem upp er komin, m.a. í samtali við sveitarfélögin, kalli á miklu dýpri spurningar en bara þá hvort ríkið ætli núna að reiða fram milljarðatugi til að leysa einhvern vanda til skamms tíma. Það kallar á miklu dýpri spurningar en það. En að sjálfsögðu ætlar ríkið að standa við það sem við höfum sagt. Við höfum nýlega gengið frá samkomulagi við sveitarfélögin um að standa með þeim og höfum staðið í fjölþættum aðgerðum til þess á þessu ári.



[10:36]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er einmitt vegna meiri beins stuðnings á Norðurlöndunum til sveitarfélaga sem þau eru ekki í eins vondri aðstöðu núna og sveitarfélögin okkar. Þau búa bara við ofboðslega erfitt ástand núna. 80% af launakostnaði sveitarfélaga er vegna fræðslumála og félagsþjónustu. Launakostnaður sveitarfélaga er 50% af rekstrarfé á ári á meðan hann er ekki nema 25% hjá ríkinu á sama tíma og verið er að skera niður. Ég er ekkert að tala um að ausa út peningum, mér hefur sýnst það vera drjúgt sem hefur verið sett í nauðsynlegar aðgerðir til fyrirtækja. Ég spyr einfaldlega: Kemur til greina að beita sér fyrir því að sveitarfélögin geti tekið hagstæðari lán, bara á svipuðum kjörum og stuðningslán til fyrirtækja voru? Og ég spyr á endanum: Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um það að veik viðspyrna og geta sveitarfélaganna til að taka þátt í þessu erfiða verkefni muni bitna á okkur öllum, líka verkefni hæstv. ráðherra?



[10:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Jú, ég get tekið undir það að veik viðspyrna af hálfu þess hluta hins opinbera sem sveitarfélögin eru eða standa fyrir væri ekki gott innlegg inn í þá efnahagsstefnu sem við erum núna að keyra. Þess vegna höfum við verið í margvíslegum aðgerðum til að létta undir með sveitarfélögum. Við höfum farið í gegnum þingið með fjöldann allan af aðgerðum og vorum núna síðast, bara svo ég nefni eitt dæmi, að auka endurgreiðslur vegna framkvæmda sem mun gera þeim auðveldara fyrir að standa í þeim á næsta ári.

Hv. þingmaður segir að það sé meiri beinn stuðningur á Norðurlöndunum. Það er vegna þess að þar er beinlínis að jafnaði miklu meiri beinn stuðningur. Menn eru meira á fjárlögum. Þar er ekki farið með jöfnunarsjóð með þeim hætti sem við gerum hér, að vera með fyrir fram settar formreglur þannig að jöfnunarsjóður sé að ýkja sveiflurnar eins og gerist á Íslandi, heldur horfa menn til hinnar raunverulegu þarfar. (Gripið fram í.) Þess vegna er það sem ég segi að þetta kallar á miklu dýpri spurningar eða dýpri skoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það getur vel verið (Forseti hringir.) að við ættum að ráðast í þá spurningu: Er það þess virði fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð eins og þau gera í dag með sjálfstæða tekjustofna, þegar betur er skoðað?