151. löggjafarþing — 101. fundur
 26. maí 2021.
störf þingsins.

[13:04]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Í síðustu viku funduðu fulltrúar Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE með ýmsum hér á landi til að meta þörfina á kosningaeftirliti í alþingiskosningunum í september. Sjálfur sat ég tvo fundi. Þar lýsti ég áhyggjum af stöðu fjölmiðla, sérstaklega í ljósi þess sem við þá vissum, hvernig Samherji hefur undanfarna mánuði beitt sér gegn Helga Seljan vegna frétta um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Slíkar aðgerðir geta hæglega haft kælandi áhrif á gagnrýna fjölmiðla sem aftur hefur neikvæð áhrif á möguleika okkar til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar. Á þeim dögum sem liðnir eru síðan fulltrúar ÖSE funduðu með okkur hefur staðan breyst gríðarlega. Stundin og Kjarninn hafa leitt í ljós að afskipti Samherja voru mun skipulagðari og djúpstæðari. Svokölluð skæruliðadeild á vegum Samherja beitti sér ekki bara gegn einstökum blaðamönnum og fjölmiðlum heldur reyndi hún að hafa áhrif á val formanns Blaðamannafélagsins og prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þetta er grafalvarleg staða. Í kosningum sem munu m.a. snúast um eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni er stórhættulegt að fjársterkt útgerðarfyrirtæki beiti sér með þessum hætti gegn gervöllu gangvirki lýðræðisins, beiti hagnaðinum af þessari sömu auðlind í herferðir gegn pólitískum andstæðingum, opinberri umræðu og frjálsum fréttaflutningi.

Þingflokkur Pírata hefur þess vegna sent formlegt erindi til ÖSE þar sem við köllum eftir því að stofnunin skipuleggi kosningaeftirlit í haust. Ég vænti þess að forseti og aðrir flokkar hér á þingi taki undir með okkur, enda er það hagur allra, jafnt innan sem utan þessara veggja, að kosningarnar fram undan litist ekki af andlýðræðislegum afskiptum eins og þeim sem við höfum fengið að kynnast.



[13:06]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hafið er nýtt kapphlaup á Íslandi. Það eru 30 til 40 vindorkukostir til skoðunar og mjög margir í erlendri eigu. Þetta eru stórar vindmyllur í hnapp, eins og menn vita, 100–200 MW hver. Meðaltal afls þeirra allra, ef þetta er reiknað út, er 4.500–5.000 MW, þ.e. tvisvar sinnum meira en virkjað afl núna. Kostir og gallar vindorku eru margir og ég ætla ekki að rekja þá, en ég ætla þó að minna á að kolefnisfótspor vindorkuvera má ekki gleymast í öllu þessu.

Ég ætla að leggja áherslu á fjögur atriði: Að vindorka kemur vissulega til greina í bland við jarðvarma og vatnsafl. Að fyrir liggi ávallt að orkunýting vindorkulunda sé í samræmi við orkuþörf hverju sinni og sjálfbæra auðlindanýtingu. Að vindorka lúti samræmdu skipulagi og heildrænni nálgun, enda er það forsenda sjálfbærrar orkunýtingar og orkuframleiðslu. Í fjórða og síðasta lagi að til sé svæðaskipulag, þ.e. þannig að það sé ljóst að höfð sé heildarstjórn á öllu saman.

Það liggja fyrir tvö þingmál, þingsályktunartillaga um svæðaskipulag og breytingar á lögum um rammaáætlun. Í svæðisskipulaginu er það þannig að ekki eru heimil vindorkuver á 31% af landinu. Til álita koma þau á 53% af landinu og er það þá undir rammaáætlun og ráðherra sjálfum. Á forræði sveitarfélaga og annarra stjórnvalda eru þá 16%. Það eru svokölluð græn svæði. Ég ætla að hvetja Alþingi til að tryggja að vindorkukapphlaupið endi ekki úti í mýri. Við skulum hafa gamla Trabant-kjörorðið í heiðri: Skynsemin ræður.



[13:08]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Sú kona sem hér stendur hefur mælt fyrir rétt tæplega 30 þingmannamálum á Alþingi í vetur. Nánast öll þau mál lúta að því að bæta kjör þeirra sem bágast standa í samfélaginu. Eitt af þeim málum er t.d. — nú kem ég bara með spurningu til ykkar, kæru landsmenn og ágæti forseti: Hvað í veröldinni getur komið í veg fyrir að leyfa fátæku fólki að reyna sig á vinnumarkaði ef það hefur heilsu og getu til? Hvað í veröldinni getur komið í veg fyrir að aldraður einstaklingur sem vill vinna áfram skuli vera skertur slíkt og þvílíkt að ekki er nokkur hagur af því heldur er hann látinn fara heim og sitja þar og bíða eftir sinni hinstu ferð. Komið hefur í ljós, og allir vita það sem vilja, að það er ekkert nema ávinningur af því að gefa fólki kost á því að bjarga sér sjálft í stað þess að með vitund og vilja stjórnvalda sé algjörlega einbeittur vilji til að halda þessu fólki áfram í rammgerðri fátækt. Það er þjóðarskömm að skattleggja fátækt.

Flokkur fólksins hefur t.d. mælt fyrir frumvarpi sem kveður á um 350.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Hvernig er farið með það? Þeir sem hafa í rauninni sjaldan þurft að dýfa hendi í kalt vatn og vita ekki hvað það er að berjast í fátækt virðast engan veginn geta sett sig í spor þeirra samlanda sinna sem eiga virkilega bágt. Þessir sömu háu herrar, æðstu embættismenn þjóðarinnar, furða sig hvað mest á því hvernig stendur á öllum þessum andlegu bágindum. Af hverju líður okkur svona illa? Við skulum ekki gleyma því að þetta ástand, þessi kúgun, bitnar á fátækasta fólkinu í landinu og bitnar fyrst og síðast á börnunum sem eiga að byggja landið.



[13:10]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Efling atvinnu og verðmætasköpunar í landi okkar er brýnni nú en nokkru sinni fyrr. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri sérfræðingar hafa talað fyrir því hversu mikilvægt það er að fjölga eggjum, fjölga stoðum velferðarsamfélagsins með aukinni atvinnu og verðmætasköpun. Við munum ekki geta gert betur í þeim málaflokkum sem kallað er eftir meira fjármagni í í velferðarsamfélagi okkar nema til verði aukin verðmætasköpun og fleiri atvinnutækifæri á fjölbreyttari vettvangi en nú er. Sumir flokkar vilja reyndar leysa málin með aukinni skuldsetningu eins og Samfylkingin talar helst fyrir án þess að tala um neinar haldbærar lausnir aðrar.

Við heyrum fréttir af Landsvirkjun, sem bárust bara nú í vikunni, þar sem talað er um miklar viðræður við aðila; að það sé mjög mikil ásókn erlendra aðila, sem hingað vilja koma og byggja upp, í viðræður við fyrirtækið um alls konar nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Það má nefna vetnisframleiðslu, framtíðarorkugjafa í flugvélum, skipum og stærri flutningatækjum. Það má nefna gagnaversiðnaðinn sem mun geta farið af stað af miklum krafti þegar nýr sæstrengur til gagnaflutninga verður lagður milli Íslands og Evrópu á næsta ári. Þeir nefna rafhlöðuframleiðendur sem framleiða rafhlöður í bíla og önnur farartæki. Lykillinn að þessu er raforka, aukin raforka. Við munum ekki geta svarað þessum fyrirspurnum nema til komi frekari virkjanir á náttúruauðlindum okkar.

Það má segja að Alþingi hafi gefist upp í þessum efnum. Nú liggur fyrir Alþingi rammaáætlun sem hefur ekki verið afgreidd í mörg ár, komin langt fram úr þeim tímamörkum sem við eigum að hafa samkvæmt lögum. Það stefnir í að hún strandi eina ferðina enn. Það er mjög alvarlegt, virðulegur forseti, þegar staðan er þessi. Alþingi ber hér mikla ábyrgð.



[13:13]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ísland er frjálst land, land þar sem fólki er frjálst að gera það sem það vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Á Íslandi ríkir málfrelsi, skoðanafrelsi og trúfrelsi og við verðum ávallt að standa vörð um þetta frelsi. Hið opinbera þarf að stíga niður með hógværð og jafnræði að leiðarljósi. Fjölmiðlar eiga að vera beittir og veita aðhald. Þeir eiga að segja satt og rétt frá. Þeir eiga að vera gagnrýnir og þeir eiga að vera opnir fyrir gagnrýni. Fyrirtæki þurfa að hlíta sömu reglum. Öll fyrirtæki sem ætla að eiga sér framtíð þurfa að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Þau þurfa að axla ábyrgð og hafa uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt. Stuðningur við íþróttafélög og menningu er góður og mikilvægur, en það er ekki nóg. Fyrirtæki sem taka samfélagslega ábyrgð alvarlega virða lýðræðið og beita sér ekki gegn því. Fyrirtæki sem ekki huga að samfélagslegri ábyrgð eiga sér ekki framtíð.



[13:14]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Öll viljum við búa við öryggi, ekki bara eigið öryggi heldur öryggi okkar nánustu. Eiginlega skiptir ekkert okkur meira máli en það. Allir sem hafa upplifað öryggisleysi á ögurstundu skilja það best. Þrátt fyrir að íslenska þjóðin sé fámenn er landið stórt. Við verðum að hafa dreift, kröftugt öryggisviðbragð um landið allt. Stundum er sagt að ekki sé gæfulegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Þess vegna hef ég undanfarið rætt um björgunarmiðstöð á Akureyri og að þar verði þyrla á vegum Landhelgisgæslunnar staðsett. Að hafa allar björgunarþyrlur staðsettar í Reykjavík skerðir viðbragðstíma og þjónustugetu, sérstaklega gagnvart Norður- og Austurlandi og hafsvæðum þar sem veður geta verið válynd. Sjófarendur um norðan- og austanvert landið búa í dag við minna öryggi en aðrir þegar þyrlubjörgunarsveitin er einungis á suðvesturhorni landsins. Lausnin felst í að staðsetja þyrlu eða hluta flugdeildar Landhelgisgæslunnar á Akureyri, nálægt landfræðilegri miðju landsins. Augljós tenging er við sjúkraflug á Akureyri. Þar er fyrir reynsla sem nýtist flugdeildinni og geta læknar mannað hluta þyrluáhafnar. Best færi á því að björgunarklasi væri byggður upp samhliða þeim sterka norðurslóðaklasa sem fyrir er við Eyjafjörð. Til staðar eru innviðir sem nauðsynlegir eru slíkri starfsemi. Björgunarklasann ætti að byggja samhliða miðstöð sjúkraflugsins með flugvélum sem eru á Akureyri og læknar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands manna sjúkraflugið þegar þörf er á. Slíkur björgunarklasi fellur vel að áformum um þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu við sjúkrahúsið og fer vel saman við þjálfun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem er rekin við Sjúkrahúsið á Akureyri hjá Sjúkraflutningaskólanum. Á flugvellinum starfa einnig flugvirkjar og þar er fyrsta flokks viðhaldsþjónusta fyrir þyrlu.

Hæstv. forseti. Málið er borðleggjandi.



[13:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú stendur yfir nýsköpunarvika. Það er fjöldi spennandi viðburða um allt land í þessari viku. Sem dæmi má nefna að eitt af sameiginlegum markmiðum sóknaráætlana landshluta er fullvinnsla afurða og tel ég gífurleg tækifæri fólgin í þeim geira, bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og í grænmetisframleiðslu. Sprottið hefur upp fjöldi sprotafyrirtækja vítt og breitt um landið sem hafa nýtt sér það stuðningsnet sem stjórnvöld hafa skapað með sveitarfélögum og fyrirtækjum. Framlög til nýsköpunar hafa verið að aukast mjög mikið undanfarið kjörtímabil, allt að 70%. Nýjungar eins og Matvælasjóður og Kría eru gott dæmi um viðbótarsjóði í því umhverfi sem fyrir er.

Ef farið er inn á vefinn Nýsköpunarvikan.is má sjá þá miklu grósku af öllu tagi sem er í nýsköpun í landinu. Ég nefni hér sem dæmi viðburði: Sjálfbærar sjávarbyggðir – mikilvægi nýsköpunar í orkuskiptum. Hátækni, matvælaframleiðsla og orka. Nýsköpun í mannvirkjagerð. Hvernig getur heilbrigðistækni umbylt þjónustu við sjúklinga? Vegvísir að lykilupplýsingum um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Konur í nýsköpun. Allt eru þetta spennandi atburðir sem eru í boði. Opnuð var textílmiðstöð á Blönduósi nú fyrir nokkrum dögum þar sem er smiðja og er hluti af Textílmiðstöð Íslands. Hluti af verkefninu Matarboðið í nýsköpunargreinum er á ýmsum veitingastöðum, þar á meðal á Sjávarborg á Hvammstanga. Allt eru þetta áhugaverðir viðburðir. Mér finnst þátttaka í nýsköpun af öllu tagi hafa aukist mjög á undanförnum árum. Við þurfum að vera tilbúin til þess að skapa ný störf þegar önnur eldri leggjast af sökum tækniþróunar.



[13:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í þessum töluðu orðum er hafið málþing Öryrkjabandalags Íslands undir yfirskriftinni Heimsmet í skerðingum. Skerðingar og keðjuverkandi skerðingar í almannatryggingakerfinu eru fáránlega miklar og komnar út fyrir öll velsæmismörk. Keðjuverkandi skerðingar ná yfir félagsbótakerfi, barnabætur, húsaleigubætur og einnig sérstakar húsaleigubætur. Þetta skerðingarskrímsli sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi veldur því að stór hópur veiks fólks, eldri borgara og atvinnulausra lendir í sárafátækt. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur byggt upp þetta ömurlega kerfi og viðhaldið því með auknum skerðingum, sett inn krónur hér og þar sem hafa bara skilað smáaurum í vasa fólks ef það er svo heppið. Oft skilar fjármagn á einum stað í kerfinu ekki krónu til þeirra sem þurfa heldur veldur tapi á lífeyri sem er þegar það lágur að vonlaust er að reyna að tóra á honum, hvað þá að lifa mannsæmandi lífi. 140.000 kr. er kostnaður fyrir tvo öryrkja að búa saman. 340.000 kr. er lágmarksframfærsla, sem Útlendingastofnun segir hjón þurfa til framfærslu, sem er 10.000 kr. undir lágmarkslaunum. Á Alþingi er nú í fyrsta sinn heill þingflokkur sem hefur lifað í þessu kerfi og veit því upp á hár hversu ömurlegt það er að reyna að ná endum saman í því. 5 milljarðar á ári í auknar skerðingar og því 20 milljarðar í boði ríkisstjórnar í auknar skerðingar. 109.000 kr. frítekjumark ætti að vera í dag uppfært í 250.000 kr. 100.000 kr. hækkun á frítekjumarki í lífeyrissjóð ætti einnig að vera sjálfsagt mál. Faldar skerðingar hjá ríkinu eru t.d. vegna bifreiðagjalda sem hafa ekki hækkað í fimm eða sex ár. 80–100% skerðingar eru í kerfinu. Þeir sem fá arð upp á milljarð, myndu þeir sætta sig við það að fá bara að halda 260 milljónum eftir?



[13:21]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti.

„Í kórónuveirufaraldrinum hefur tilhneiging fjölmiðla um allan heim verið sú að lýsa ástandinu þannig að vel takist til í baráttunni heima fyrir, á meðan allt sé í kalda kolum annars staðar. Prófessor í stjórnmálafræði segir þetta sýna hvernig heimsmyndin skekkist þegar hvert og eitt samfélag neyðist til að loka sig nánast alveg af eins og raunin varð í faraldrinum.

„Þegar færri eru á ferð og heimurinn lokast svona, þá skekkist svo mikið myndin af því hvernig ástandið er annars staðar. Það er hægt að segja okkur fréttir frá ástandi sem við upplifum þá ekki sjálf og fáum ekki tækifæri til þess að upplifa,““ segir prófessorinn. Það séu nú ýmsar viðsjár í veröldinni sem þurfi að líta til núna þegar hinni heilsufarslegu vá sé að létta.

„Allt svona ástand, sem verður langvarandi og lokar okkur af, hvert inni í sínu samfélagi og við komumst ekki á milli, það skapar svona skekkju sem getur leitt til tortryggni og andúðar. […] Stóra hættan er sú að við fáum ekki aftur það samfélag sem var hér áður. Við fáum ekki það frelsi, það frjálsræði og réttindi sem við höfðum fyrir faraldurinn. Höft kalla á enn frekari höft […]“

Hæstv. forseti. Hvað með fréttir hér á Fróni af raunverulegri pólitík? Mun þeim höftum ljúka og mun þeim linna? Ríkisstjórnin hefur skákað í því skjólinu að við höfum verið með sóttvarnayfirvöld sem hafa staðið sig mjög vel. Lítið sem ekkert af pólitískum álitamálum kemst í fréttir en nú í aðdraganda kosninga ber ég þá von í brjósti að pólitíkin og mál allra flokka fái þá athygli sem þau eiga skilið fyrir komandi kosningar.



[13:23]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram að ræða pólitíkina almennt. Í gær vorum við að tala um traust á stjórnmálum og stjórnsýslunni. Þar ræddi ég nauðsyn þess að ráðamenn töluðu skýrt og útskýrðu gjörðir sínar sem á stundum virka illskiljanlegar í augum venjulegs fólks og nefndi ég nokkur dæmi. Ef stjórnvöldum auðnaðist að gera þetta væri það án nokkurs vafa til að auka traust á stjórnmálum.

Ég ætla að bæta aðeins við núna og tala um mótsagnir í stjórnmálum sem nauðsynlegt er að útskýra betur fyrir fólki, t.d. framganga vinstri manna í umhverfis- og loftslagsmálum. Þar hefur einkennt þeirra framgöngu undanfarin misseri að friða nánast allt sem fyrir finnst og nú á að friða allt hálendi Íslands. Að sjálfsögðu eigum við að ganga vel um okkar einstöku náttúru. En er þá ekki svolítið mótsögn í því að koma þannig í veg fyrir að við höldum áfram á skynsamlegan hátt að nýta okkar grænu og endurnýjanlega orku sem er langstærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála í heiminum? Með því að standa gegn frekari nýtingu grænnar orku hér á landi er verið að auka á vandann á heimsvísu. Stundum er þetta eins og eitt alheimsbókhald en stundum nenna þeir ekki eða gleyma að horfast í augu við þá staðreynd. Með þessu er stuðlað óbeint að meiri mengun annars staðar í heiminum og aukið þannig á loftslagsvandann. Hvernig rímar þetta við að allir taki ábyrgð á loftslagsvandanum? Þyrfti ekki að útskýra þetta betur fyrir fólki?

Nú erum við nýbúin að samþykkja lög til að styðja við einkarekna fjölmiðla sem er í sjálfu sér hið besta mál ef ekki væri fyrir það að annar og miklu stærri vandi er skilinn eftir þar sem er rekstur Ríkisútvarpsins. Þetta lítur út eins og einhvers konar neyðaraðstoð, algerlega án þess að jafnframt sé ráðist á hina raunverulegu orsök vandans. Á sama tíma og við tökum einkarekna fjölmiðla í fang ríkisins eru skattgreiðendur árlega skyldaðir til að greiða 5 milljarða til Ríkisútvarpsins sem er eins og risastórt nátttröll á fjölmiðlamarkaði og leyft að auki að keppa við einkareknu fjölmiðlana á auglýsingamarkaði. Þyrfti ekki að útskýra þetta eitthvað betur fyrir fólki?



[13:25]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi árs voru Íslendingar 368.792 talsins. Íbúaþróun er á einn veg, flestallir rata á suðvesturhornið. Flestir Íslendingar kjósa að búa í þéttbýli. Ísland er smáríki samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Íslendingar eru fámenn þjóð, íbúadreifing er ójöfn og landið er landfræðilega einangrað. Á sama tíma verður samþjöppun meðal fólksins. Hér er skortur á samkeppni. Hér er einpóla borgarmynstur og til verður sjálfnærandi hringrás. Glæsileg og myndarleg höfuðborg er mikilvægur hlekkur í byggðastefnu landsins. 28 þingmenn af 63 eru utan höfuðborgarsvæðisins, rúmlega fjórir af hverjum tíu, og einhverjum finnst nóg um samt.

Forseti. Ég vil vekja athygli þingsins og framkvæmdarvaldsins á einu litlu atriði sem við ættum að taka upp og efla og styrkja byggð hringinn um landið. Á ársþingi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi eystra var rætt um valddreifingu miðað við búsetu. Þingið samþykkti tillögu þess efnis að þegar ríkið skipar í stjórnir, ráð og nefndir og starfshópa skal almennt miða við að þriðjungur nefndarfólks skuli vera búsett utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig stuðlum við að dreifingu valds. Ég vil því skora á þingmenn að taka þetta til skoðunar og ráðherra að sýna kjark og bregðast við með markvissum hætti.

Nýlega voru kynnt drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára, eða hvítbók um byggðamál. Ég vil hvetja alla haghafa til að senda inn umsögn en skilafrestur er aðeins til 31. maí nk. og sá tími er mjög skammur fyrir svo stórt mál.

Að lokum ætla ég að endurtaka hér vísu eftir Þormóður Jónsson Húsvíking:

Byggðastefna lyftir landi

ef laglega er farið með hana.

Hún er eins og heilagur andi,

það hefur enginn séð hana.

Ég vil nota þessar síðustu sekúndur til að skora á hagmæltan forseta Alþingis, sem hefur setið hér síðan 1983, að bregðast við þessu vísukorni og svara okkur þingmönnum, svara þessari vísu.

(Forseti (SJS): Forseti þekkir vísuna en er ekki viss um að hún verði betrumbætt með frekari kveðskap.)



[13:27]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Á fundi velferðarnefndar í morgun lagði ég fram eftirfarandi bókun, en með mér á bókuninni er allur minni hluti nefndarinnar: Við teljum það forkastanlegt að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að færa til skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum innan heilbrigðiskerfisins án þess að samfella þjónustunnar væri tryggð. Nú, fimm mánuðum eftir að flutningur átti sér stað, ríkir enn fullkomin óvissa um afdrif sýna, hvernig upplýsingum er komið á framfæri og hvernig skimunarskrá eigi að virka. Við hörmum sérstaklega að heilbrigðisyfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila með því að flytja allar greiningar á leghálssýnum til rannsóknastofu á Hvidovre-sjúkrahúsinu í Danmörku. Sú ákvörðun var tekin þvert á álit og ráðleggingar opinberra aðila, meiri hluta fagráðs og skimunarráðs, nefnda og fagfólks, þar með talið embætti landlæknis. Félag íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingarlækna og Félag lífeindafræðinga hafa bent á að greiningum leghálssýna verði best borgið hér á landi enda gæði og öryggi slíkra rannsókna tryggð hér. Fagleg þekking er fyrir hendi sem og nauðsynlegur tækjakostur. Þeir hafa einnig bent á að það sé mikilvægt að læknar sem annast sýnatökur geti átt í milliliðalausum samskiptum við rannsóknaraðila vegna sjúkrasögu kvennanna.

Við hvetjum heilbrigðisráðherra til að bregðast við tafarlaust svo ekki hljótist alvarlegur skaði af, og flytja rannsóknir á leghálssýnum aftur til Íslands. Við ítrekum mikilvægi þess að niðurstaða óháðrar skýrslu um málið liggi fyrir sem fyrst. Það þarf að tryggja heilsu kvenna um komandi framtíð.



[13:29]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem á sér stað núna, um ítök stórútgerðarinnar og hvernig hún er að beita sér, þurfa stjórnmálin að vera með það alveg á hreinu hvert þeirra hlutverk er; að standa með og verja almannahagsmuni. Í þessu samhengi verður að mínu viti að skoða það auðlindaákvæði sem stjórnin hefur lagt fram. Þar hrópar á mann spurningin um það í þágu hverra þetta auðlindaákvæði er. Í stjórnarskrá eru skráðar grundvallarreglur samfélagsins sem öll önnur lög þurfa að standast. Það er þess vegna sem það er mikilvægt að ramma inn meginreglur um auðlindir í stjórnarskrá og það er vel. En í frumvarpi forsætisráðherra er talað um þjóðareign án þess þó að nefna að rétturinn til þess að nýta þessa þjóðareign sé tímabundinn og fyrir þann rétt þurfi að greiða eðlilegt gjald. Samþykki Alþingi tillögu forsætisráðherra mun það þess vegna leiða til þess að staðan verður áfram óbreytt fyrir almenning og um leið óbreytt fyrir stórútgerðina. Til þess að gefa orðinu þjóðareign raunverulega þýðingu verður að tryggja að nýting á sameiginlegri auðlind okkar sé gerð með tímabundnum samningum og þar skiptir líka máli að fram komi að greiða skuli eðlilegt gjald fyrir þessa nýtingu. Þannig verjum við sjávarauðlindina og þannig skiptir ekki máli hverjir eru við völd á hverjum tíma. Þetta er það atriði sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi. Orðið þjóðareign fengi með þessu einhverja raunverulega merkingu.

Ég spyr: Hvers vegna er það niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna þriggja að leggja fram ákvæði sem er svo opið? Hvers vegna er ákvæði forsætisráðherra þögult um stærstu pólitísku álitaefnin? Sterkustu skilaboðin í þessu frumvarpi felast kannski einmitt í því sem ekki er sagt, þessari þögn um þau atriði sem myndu tryggja hagsmuni almennings. Er þetta þá kannski orðin þjóðareign hinna fáu?



[13:32]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Síðar í dag ræðum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Fyrst í gærkvöldi lögðu meirihlutaflokkarnir fram endanlegt nefndarálit. Í ljósi þess að fjármálaáætlun næstu fimm ára er eitt af stærri málum sem þingið fjallar um eru það ekki góð vinnubrögð af hálfu meiri hlutans. Hitt er svo orðin viðtekin venja að hunsa með öllu allar breytingartillögur minni hlutans. Umræða dagsins verður að því leyti til sýndarmennska. Það er ekki ætlunin að gera neinar breytingar. Vinnubrögðin eru þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem sérstaklega er vikið að því að efla Alþingi og samráð á þeim vettvangi. Stjórnarflokkarnir þrír hafa allir lýst því yfir að þeirra fyrsta val eftir kosningar sé að halda áfram núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og fjármálaáætlunin verður að skoðast í því ljósi. Í henni felst stefnuyfirlýsing um framhaldið. Ég ætla að nefna hér tvö atriði um metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir því í áætluninni að atvinnuleysi muni festa sig í sessi á bilinu 4–5%. Verulega verður dregið úr stuðningi við nýsköpun. Í áætluninni kemur fram að beita þurfi svokölluðum afkomubætandi aðgerðum á tímabilinu upp á tugi milljarða. Auðvitað vita allir að í því felst niðurskurður eða skattahækkanir nema hvort tveggja sé. En ríkisstjórnin þegir þunnu hljóði um hvaða leið hún ætlar. Það er sjálfsagt vegna þess að hún veit það ekki eða hefur ekki kjark til þess að segja frá því. Ég veit satt að segja ekki hvort er verra.



[13:34]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. 900 börn á barna- og unglingageðdeild, 150 börn á biðlista þar, átta mánaða biðtími. 340 börn á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með alvarlegar þroskaskerðingar, 24 mánaða biðtími. 600 börn á biðlista á þriðju lykilstofnuninni sem sinnir veikum börnum. Hér erum við að tala um Þroska- og hegðunarstöð sem sinnir börnum með taugaþroskaraskanir en þar getur biðin verið allt að 18 mánuðir, sem er heil eilífð fyrir barn í erfiðleikum. 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta svarar til þess að í 22 barna skólabekk hafi tveir nemendur reynt að fremja sjálfsvíg. Geðlæknir á BUGL sagði nýverið að há sjálfsvígstíðni barna væri ekki tilviljun heldur langtímaafleiðing sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.

Herra forseti. Þetta er ömurleg einkunnagjöf um kerfið. Allar glíma þessar stofnanir við fjárskort en samt er ekki eins og þær kosti mikið. Kostnaður hjúkrunar allra barna á legudeild Bugl er svipaður og að reka Menntaskólann á Laugarvatni. Greiningarstöðin kostar minna en einn tíunda af opinberri niðurgreiðslu til nautgriparæktar og Þroska- og hegðunarstöð kostar minna en Landmælingar Íslands. Getum við ekki gert betur? Um er að ræða börn sem samfélagið og ríkisvaldið þarf að sinna miklu betur, rétta út hjálparhönd en gera það af alvöru. Börn á bið er böl og til skammar fyrir okkur öll. Við eigum að setja geðræna heilsu barna í fremsta forgang, herra forseti. Getum við ekki öll verið sammála um það?