153. löggjafarþing — 7. fundur
 21. september 2022.
störf þingsins.

[15:01]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. „Engin lausn í sjónmáli á sprunginni krabbameinsdeild á Landspítalanum“, segir í fyrirsögn í dag, enda býr krabbameinsdeildin við óboðlegar aðstæður. Það er ótrúlegt að árið 2022 sé þetta staðan hjá einni ríkustu þjóð heims. Forstöðumaður krabbameinskjarna Landspítala lýsir stöðunni í fjölmiðlum, stöðu sem starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur þekkja. Plássið er of lítið. Deildin er sprungin. Umræða um krabbamein snertir sára taug hjá mörgum, að greinast með krabbamein og að takast á við krabbameinsmeðferð reynir bæði á sjúklinga og aðstandendur þeirra og þá á að vera tryggt að sú deild sem býður meðferð og þjónustu hafi þá aðstöðu sem til þarf. Krabbameinsfélagið hefur margsinnis vakið athygli á því að það þarf að leysa húsnæðisvandann og félagið gekk svo langt í fyrra að lofa ríkinu fjármagni til að flýta fyrir byggingu nýrrar deildar, 450 millj. kr. framlag. Markmiðið sennilega svo einfalt að vekja ríkisstjórnina og flýta fyrir því að viðunandi aðstaða fáist. En gjöf upp á næstum 500 milljónir dugði ekki til. Ríkisstjórnin sefur fast.

Ég sendi heilbrigðisráðherra fyrirspurn um samskipti hans við Krabbameinsfélagið eftir að þessi gjöf bauðst og vil fá svör við því á hvaða forsendum var ákveðið að ganga ekki til viðræðna við félagið um þátttöku í kostnaði til að bæta stöðu deildarinnar. Engar tímasettar fyrirætlanir liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar um nýja deild og það varð til þess að Krabbameinsfélagið taldi ekki lengur forsendur fyrir því að gefa þessa gjöf. Þessi rausnarlega gjöf dugði ekki til til að hreyfa við ríkisstjórninni þrátt fyrir að þessi staða hafi legið fyrir árum saman. Það er ótrúlega sorglegt. Það þarf tímasetta áætlun um nýja deild. Þetta mál þolir enga bið.



[15:03]
Halldóra Mogensen (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Við getum öll átt í hættu á að veikjast einhvern tímann á lífsleiðinni. Alvarleg veikindi koma fólki oftast algerlega í opna skjöldu. Á einu augnabliki umturnast líf fólks og ekki er óalgengt að samhliða sæti áherslur, lífsskoðanir og framtíðarsýn fólks endurskoðun. Að ná bata er vegferð sem krefst fullrar athygli fólks. Það skiptir miklu máli þegar við veikjumst að við höfum fullt svigrúm til að setja alla okkar orku og tíma í að hlúa að okkur sjálfum og að ástvinum okkar. En þegar við veikjumst erum við sett í ákveðna stöðu innan samfélagsins, stöðu sjúklings. Þessir staða getur verið miserfið fyrir fólk. Eðlilega er fólk með misgott bakland og misgóða þekkingu á réttindum sínum og því hvernig þjónustukerfin okkar virka. Alls konar ágreiningur getur sprottið upp innan heilbrigðiskerfisins, sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, en það sem er hins vegar óeðlilegt er að sjúklingar eiga sér engan málsvara þegar ágreiningur kemur upp. Sjúklingarnir eru settir í þá stöðu að gæta sjálfir eigin hagsmuna. Afleiðing þess er að fjöldi fólks fær ekki nauðsynlegt rými til að einbeita sér að bata þar sem það þarf að berjast fyrir réttindum sínum innan kerfis sem það er á sama tíma algerlega háð til að ná bata.

Forseti. Ég tel mikla þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga til að mæta þörf sjúklinga fyrir bandamann innan heilbrigðiskerfisins sem stendur vörð um hagsmuni sjúklinga, starfar sem opinber talsmaður þeirra og sinnir upplýsingamiðlun og eftirliti með heilbrigðisþjónustu þeirra. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis og sent út beiðni um meðflutning. Ég vona innilega að þingheimur taki afstöðu með sjúklingum og sameinist um að styðja þessa tillögu.



[15:05]
Kristrún Frostadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Eins konar klofning má nú sjá í litlu landi, verðbólga er nálægt tveggja stafa tölu, hraðar vaxtahækkanir þvert á nýleg skilaboð æðstu ráðamanna í efnahagsmálum, eignaójöfnuður hefur aukist en fjármagnstekjur eru í hæstu hæðum og stríð þrýstir verðbólgunni enn ofar á meðan verðmæti sjávarafurða hefur snarhækkað. Hvernig væri ef fólkið sem stjórnar landinu hefði forystu um að tryggja að hvalreki vegna stríðs og verðbólgu dreifðist með sanngjörnum hætti um samfélagið? Í stað þess birtast fjárlög sem skella verðbólguaðhaldinu á sömu hópa og lenda nú í vandræðum.

Í ljósi forystuleysis ríkisstjórnarinnar hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lagt fram þingmál um samstöðuaðgerðir til að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, hækkunar húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu. Aðgerðirnar eru tímabundnar á meðan hækkanir ganga yfir til að freista þess að ná samstöðu um aðgerðirnar hér á Alþingi. Við leggjum til að komið verði á leigubremsu til að verja leigjendur fyrir tilhæfulausum hækkunum og halda verðbólgu í skefjum og beinum því til ríkisstjórnarinnar að beita vaxta- og barnabótakerfinu til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili vegna þrefalds höggs í formi aukinnar húsnæðisbyrði, hækkunar nauðsynjavara og þungra námslánagreiðslna. Til að sporna við þensluáhrifum aðgerðapakkans á hagkerfið er lagt til að fjármögnun verði tryggð, komið verði í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar til fjármagnstekna hjá einstaklingum með félög í kringum atvinnurekstur og lagðir verði á tímabundnir hvalrekaskattar í formi viðbótarfjármagnstekjuskatts og sérstaks álags á veiðigjöld stórútgerðarinnar. Fyrir öllum þessum tekjuaðgerðum hafa ráðherrar Framsóknar og VG talað að undanförnu en þau virðast valdalaus í ríkisstjórninni. Hér er tækifæri til að taka neitunarvaldið af fjármálaráðherra, styðja samstöðuaðgerðirnar og veita landinu alvöruforystu á erfiðum tímum.



[15:07]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Svefnlyf, svefnlyf og meiri svefnlyf. Svefnlyfjanotkun Íslendinga hefur oft verið í umræðunni en nýverið fékk ég svar frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um notkun þeirra hjá mismunandi aldurshópum. Notkun svefnlyfja hefur aukist hjá aldurshópum yngri en 40 ára og aukist verulega hjá börnum. Svefnlyfjanotkun hjá börnum hefur meira en fjórfaldast á síðustu níu árum — fjórfaldast. Árið 2012 notuðu sem sagt tíu börn af hverjum 1.000 svefnlyf. Árið 2021 voru það 45 börn af hverjum 1.000 sem voru á svefnlyfjum. Þessi notkun svefnlyfja hjá börnum er mjög varhugaverð og mikið áhyggjuefni. Það bendir ýmislegt til þess að ekki sé verið að sinna þessum foreldrum og fjölskyldum nægilega vel með viðeigandi úrræðum heldur er svefnlyfjum einfaldlega ávísað. Foreldrar vilja lausnir, þau vilja úrræði, eðlilega. En lyfjagjöf er ekki eina eða besta úrræðið við svefnvanda. Svefnmeðferðir sem byggja á atferli hafa sýnt meiri og langvarandi árangur. Þessi aukning í svefnlyfjagjöf er birtingarmynd þess að foreldra skortir úrræði fyrir börnin sín sem eru með svefnvanda. Lyfjagjöf ætti að vera síðasta úrræðið þegar önnur meðferð hefur verið reynd en ekki það fyrsta. Erlendis hefur læknum verið ráðlagt að byrja á að vísa sjúklingum í samtalsmeðferð áður en gripið er til lyfjagjafar. Hér á landi er sálfræðiþjónusta ekki niðurgreidd og því geta læknar hér illa beint fólki í samtalsmeðferð áður en lyfjagjöf tekur við. Staðreyndin er sú að við erum að ávísa svefnlyfjum til barna oft að óþörfu vegna þess að við erum ekki búin að reyna aðrar meðferðir fyrst vegna vanfjármögnunar stjórnvalda á öðrum úrræðum. Afleiðingar af þessu ástandi eru ófyrirsjáanlegar. Stjórnvöld eiga og þurfa að veita fjölskyldum vægara úrræði en lyfjagjöf og það strax.



[15:09]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ýmsum þykir ástæða til að hafa áhyggjur af virðingu Alþingis. Þingið hefur samþykkt þingsályktunartillögu um siðareglur alþingismanna og sömuleiðis eru til siðareglur um störf ráðherra. Af hverju nefni ég þetta hér? Jú, ég tel svikin loforð stjórnmálamanna mun líklegri til að hafa neikvæð áhrif á tiltrú fólks á því sem við stjórnmálamenn fjöllum um hverju sinni en uppákomur sem verða í amstri dagsins og eru flestum gleymdar skömmu síðar. Þessi vandi á fyrst og fremst við afmarkaðan hóp okkar þingmanna, nánar tiltekið ráðherrana, en freistnivandi þeirra sem sátu sem ráðherrar í aðdraganda kosninga 2021 virðist hafa orðið þeim ofviða. Það er raunverulegt vandamál þegar kemur að virðingu fólks fyrir stjórnmálunum, freistingin að lofa hlutum sem aldrei var ætlunin að standa við varð ráðherrunum ofviða. Hvert málið á fætur öðru fellur um sjálft sig og veikburða plön ráðherrana sem loforðin gáfu, undirrituðu viljayfirlýsinguna eða héldu fjölmiðlaviðburðinn alla jafnan á kostnað skattgreiðenda. Til að nefna dæmi þá hefur í þessari viku komið í ljós að fjölmiðlasýningin í Laugardal þar sem ráðherra íþróttamála og forsætisráðherra skutust með borgarstjóra til að láta taka af sér mynd þar sem leiksýningin um nýja þjóðarhöll var römmuð inn með samkomulagi var lítið annað en það, leiksýning, enda hefur hæstv. fjármálaráðherra nú upplýst að hann var ekki aðili að samkomulaginu og engar forsendur til þess að hafa framkvæmdafé vegna nýrrar þjóðarhallar í fjárlögum fyrir árið 2023. Allt var þetta til að villa kjósendum sýn í aðdraganda kosninga. Fjármálaráðherra lýsti því vel í viðtali í gær að málið væri í raun svo skammt á veg komið að það væru engar forsendur til að tilgreina fjárveitingar til uppbyggingar í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir enda lægi ekki einu sinni fyrir hvernig hús ætti að byggja, hver ætti að eiga það og hver ætti að reka það.

Það eru fleiri sambærileg mál, virðulegur forseti, miklu fleiri. Er ekki mögulegt að svona æfingar séu raunverulega að draga úr tiltrú almennings á stjórnmálunum?



[15:11]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Forsenda þess að samgöngukerfið geti talist öflugt er sú að öll geti nýtt sér það og á það sé hægt að treysta, að hægt sé að skipuleggja fram í tímann læknisheimsóknir, sækja tónleika, mæta á fundi o.s.frv. Inn í það spila vissulega breytur sem eru ófyrirsjáanlegar eins og veðurfar sem er og hefur verið órjúfanlegur hluti af tilveru okkar sem hér búum. Að öðru leyti ætti að vera hægt að treysta á þau almenningssamgöngukerfi sem við búum við og við eigum að geta treyst því að þau séu rekin með það í huga að veita okkur almenningi þá þjónustu sem við þurfum á að halda.

Það sem af er þessu ári hefur verið veruleg brotalöm á flugsamgöngum innan lands eins og margítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum. Það sem af er septembermánuði hafa flugáætlanir til og frá Akureyri að mestu leyti ekki staðist og það sama á við líka austur á land. Ég hef reynt það sjálf, seinkun eða niðurfellingu flugs, oft með mjög litlum fyrirvara. Nú er svo komið að þeir sem þurfa að nýta sér flugsamgöngur eru hættir að treysta á þær. Þetta er ekki boðlegt. Og hver er ástæðan? Samkvæmt forstjóra Icelandair er um að kenna stórum viðhaldsverkefnum sem töfðust vegna Covid en hann lofar úrbótum í þessum málum og öðrum sem betur mega fara og hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. En það var líka sagt í sumar að þetta væri vegna Covid og viðhalds og það getur tæpast átt við alltaf.

En hvernig ætlar Icelandair að bæta sig og byggja upp traust að nýju? Það er ekki nóg að funda með sveitarstjórnum, við þurfum að fá að sjá áætlun, öll sem eitt. Það þarf að koma í veg fyrir að þessar óásættanlegar aðstæður skapist ítrekað og því hefur ekki verið svarað hvernig það á að gera. Um er að ræða fokdýran ferðamáta og landsbyggðarfólk tapar jafnvel Loftbrúnni sem flugfélagið hirðir þá í eigin vasa. Ég sagði áðan að þetta væri ekki boðlegt og ég segi það aftur. Við verðum að gera þær kröfur til Icelandair að flugsamgöngur séu í ásættanlegum farvegi og þjóni okkur sem á þær treystum. Það þarf að láta verkin tala.



[15:14]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er ólíkt hvernig við höldum upp á tyllidaga. Í dag er alþjóðlegur dagur friðar hjá Sameinuðu þjóðunum. Vladimir Pútín ákvað að nýta tækifærið og henda aðeins olíu á eldinn í stríði sínu gegn fólkinu í Úkraínu og lýsti því yfir að hann ætlaði að kalla út varalið í rússneska herinn. Hann gerði gott betur og minnti heiminn á að hann ætti kjarnavopn og væri sko ekki hræddur við að beita þeim, bætti meira að segja við í yfirlýsingunni, svo það færi ekki á milli mála, að hann væri ekki að blöffa. Staðan er nefnilega sú að meðan kjarnavopn eru samþykkt sem hluti af heimi mannfólksins þá getum við alltaf staðið frammi fyrir þeim veruleika að brjálæðingar eins og Pútín búi yfir þeim og geti beitt þeim. Það er staða sem við getum ekki sætt okkur við.

Hvað kemur þetta litla Íslandi við? Við erum nefnilega í bandalagi utan um kjarnavopn. Atlantshafsbandalagið hýsir hluta þeirra ríkja sem búa yfir þessum gereyðingarvopnum og er hluti af þeim hagsmunaöflum sem berjast gegn beru banni við kjarnavopnum í heiminum. Fyrr á árinu var haldinn fyrsti aðildarríkjafundur samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum og þar skrópaði Ísland eins og megnið af NATO-ríkjunum.

Þetta getur ekki gengið lengur, herra forseti. Ísland, sem segist vilja tala fyrir friðsamlegum lausnum, þarf að nota rödd sína til að hafna kjarnavopnum og meðan við erum innan NATO þá þýðir það að hafna því að NATO normalíseri kjarnavopn. (Forseti hringir.) Það geta fulltrúar okkar innan NATO gert án þess einu sinni að segja sig úr NATO, (Forseti hringir.) einfaldlega með því t.d. að skrifa ekki undir yfirlýsingar (Forseti hringir.) þar sem sagt er að kjarnavopn séu kjarninn í varnarstefnu bandalagsins, eins og gerðist á leiðtogafundi í vor. (Forseti hringir.) Hér getur Ísland gert betur.



[15:17]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Hv. þingkona Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, átti orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra hér fyrr í þessari viku vegna aðgerðar sérsveitarinnar í Kópavogi um síðustu helgi. Þar lenti venjuleg fjölskylda í aðstæðum sem enginn ætti að lenda í nokkru sinni. Ég vil í framhaldi af þeim orðaskiptum sem hér urðu á milli þingmannsins og ráðherra vekja athygli þingheims á því hvernig hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurninni. Eitt af því sem hann sagði, hæstv. forseti, var, og þetta er bein tilvitnun: „Það verður aldrei hjá því komist að slík mistök geti átt sér stað í hita leiksins.“

Nú ætla ég ekki að halda því fram að mistök séu ekki gerð, auðvitað geta þau orðið, en það er eiginlega óhugsandi að hugsa til þess að viðbrögð við útkalli sem þessu, að mat á aðstæðum sé með þeim hætti, að það sé hægt að afgreiða það sem mannleg mistök að það mæti sérsveitarmenn með alvæpni, ógni venjulegu fólki heima hjá sér og handtaki það. Mér er nær að halda að í þessu tiltekna máli hafi verið á ferðinni mjög alvarlegur dómgreindarbrestur í viðbrögðunum. Það verður væntanlega skoðað af eftirlitsnefnd með störfum lögreglu. En það er hins vegar alveg ljóst að þetta er ekki einangrað tilvik, því miður, við höfum fleiri dæmi nýverið af framgöngu sérsveitarinnar og ég hef áhyggjur af því að réttaröryggi borgaranna sé ógnað.



[15:19]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Í fréttum vikunnar hefur m.a. verið fjallað um að ekki hafi náðst samningar við sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Sú staða er auðvitað grafalvarleg og mun hafa áhrif á þúsundir einstaklinga sem hafa verið skjólstæðingar slíkra stofnana í mörg ár. Árið 2017 var tekið í notkun fjármögnunarlíkan sem reiknar fjármagn til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í því skyni voru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og leitast við að gæta jafnræðis milli rekstraraðila og gagnvart notendum. Notaðar eru fyrir fram skilgreindar skýribreytur sem hafa á einn eða annan hátt áhrif á framleiðni og eftirspurn í heilsugæslunni. Tilgangur kerfisins er að gæta jafnræðis við úthlutun fjármagns og auka gæði og skilvirkni með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum. Spurningin í mínum huga nú er hins vegar þessi: Eru þessar fyrir fram skilgreindu skýribreytur réttar? Af samtölum við forsvarsmenn sjálfstætt starfandi heilsugæslna virðist svo ekki vera. Þeir halda því fram að heilsugæslustöðvum sé mismunað þegar kemur að fjárveitingum og nú sé svo komið að einhverjar þeirra eru reknar með halla. Slíkum hallarekstri verður ekki mætt á annan hátt en með því að segja upp fólki, draga úr þjónustu eða hreinlega að loka stofnununum.

Virðulegur forseti. Það var mikið framfaraskref þegar nýju fjármögnunarlíkani var komið á fót sem fól í sér að fjármagnið ætti að fylgja sjúklingi. Hins vegar er það svo að þessar fyrir fram skilgreindu skýribreytur eru mannanna verk og eðlilegt að þær séu endurskoðaðar þegar ljóst er að þær mismuna rekstraraðilum og þar af leiðandi sjúklingum. Sjálfstætt reknar heilsugæslur þjóna um 17.000 manns og viðbúið að ófremdarástand skapist ef þær neyddust til að skella í lás.



[15:21]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það var áhugavert að hlusta á tvo hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hingað í ræðustól undir þessum dagskrárlið í gær og lýsa furðu sinni og depurð vegna þeirra erfiðleika og þeirrar andstöðu sem hefur mætt einkareknum heilsugæslustöðvum af hálfu stjórnvalda síðustu fjögur, fimm árin. Það er ekki bara þannig að það hafi gerst í stjórnartíð ríkisstjórnar sem flokkur þessara ágætu þingmanna á aðild að heldur sátu þeir báðir í velferðarnefnd Alþingis á meðan, svo ég vísi í orð viðmælenda Morgunblaðsins í frétt sem virðist hafa vakið hv. þingmenn, heilbrigðisyfirvöld lögðu sig í líma við að grafa undan tilvist einkarekinna heilsugæslustöðva, sem þjóna nota bene yfir 70.000 einstaklingum á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég var líka í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili og hef ekki tölu á þeim fjölda ræðna, greina, breytingartillagna og þingmála sem ég lagði fram til að vekja athygli á nákvæmlega þessari stöðu. Ég hef heldur ekki tölu á því hversu oft forsvarsfólk einkareknu heilsugæslustöðvanna setti sig í samband við mig og okkur í þingflokki Viðreisnar til að fara yfir þessi mál. En þetta kemur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd mjög á óvart og er að sögn þeirra alvarlegt að það sé nú að koma í ljós að leikurinn hafi ekki verið jafn frá árinu 2017 og hallað hafi á einkareknar heilsugæslustöðvar gagnvart þeim ríkisreknu.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að ganga út frá því að tilraun hafi verið gerð af hálfu forsvarsmanna einkareknu stöðvanna til að ná eyrum annarra þingflokka og ég ætla líka að gera ráð fyrir því að mögulega hafi sérstaklega verið leitað til Sjálfstæðisflokksins. Það hefði jafnvel mátt gera ráð fyrir áhuga á málinu hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem tala á tyllidögum um sig sem boðbera einkaframtaksins. En það virðist ljóst að sú orðræða er á sömu vegferð og orðræða flokksins um minni umsvif ríkisins og báknið burt; áferðarfalleg en innihaldslítil.



[15:23]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frítekjumörk öryrkja vegna fjármagnstekna eru svo lág að sparifé þeirra ber í raun neikvæða vexti. Hvernig haldið þið að þeim gangi að safna sér fyrir útborgun í íbúð? Af 5.000 kr. fjármagnstekjum einstæðs öryrkja skila sér bara 2.000 kr. til hans, 3.000 kr. tekur ríkið í formi skatta og skerðinga. Frítekjumörk gilda ekki um hann því að framfærsluuppbótin skerðist strax um 65%. Þarna er verið að skatta og skerða tapaða ávöxtun, sparifé fatlaðs einstaklings. Á sama tíma borgar sá sem nýtur arðgreiðslna upp á milljarð króna bara 22% fjármagnstekjuskatt upp á 220 milljónir kr. og heldur eftir 780 millj. kr. og það án allra skerðinga. Ef sama fjárhagslega ofbeldið gilti um hann væri hann skertur um nærri 400 milljónir og héldi eftir 300 milljónum og allt í plús. Öryrki sem er með 4% vexti á sínu sparifé í banka og því með mínusávöxtun í 9,7% verðbólgu fær bara 5.000 kr. vexti og tapar 3.000 kr., heldur bara eftir 2.000 kr. í formi vaxta og er því í bullandi tapi í boði ríkisins. En auðmaðurinn er í boði ríkisins með hundruð milljóna króna og tapar ekki krónu. Hvað hefur veikt fólk, fatlað fólk og þeir sem eru að reyna að lifa á almannatryggingum gert á hlut ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna er ráðist eingöngu á þau eins og þau ein eigi það skilið að vera rænd ávöxtun sinni með grófum skerðingum og það af ávöxtun sem þegar er í bullandi tapi? Hvers vegna er verst setta fólkið eingöngu sett í þessar fáránlega háu skerðingar og ávöxtun sparifé síns og því gróflega mismunað gagnvart öllum öðrum? Þrátt fyrir 90.000 kr. frítekjumark á fjármagnstekjur í almannatryggingum gagnast það ekki öllum því að þeir sem sleppa við skerðingarnar í fyrstu lenda í þeim síðar. Tökum þessar skerðingar út strax, gerum alla jafna fyrir lögum og reglum og hættum þannig að níðast eingöngu á þeim sem geta ekki varið sig.



[15:26]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason gerði að umtalsefni hér áðan viljayfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík og ráðherra um nýja þjóðarhöll. Hæstv. fjármálaráðherra hefur loksins tjáð sig um þetta atvik nokkrum mánuðum seinna og er skemmst frá því að segja að hæstv. ráðherra bendir á að ekkert liggi fyrir um fjármögnun verkefnisins. Á sínum tíma skrifaði ég þetta þegar fréttir birtust um tilkynninguna, með leyfi forseta:

„Kostulegt að sjá þessa undirritun viljayfirlýsingar um nýjan meiri hluta í Reykjavík. Það er reyndar ólíklegt að þessir þrír flokkar nái meiri hluta en samt líklegra en að staðið verði við samkomulagið um þjóðarhöll. Ekkert þeirra virtist vita mikið um málið. Ekkert skipulag, engar teikningar, engin fjármögnun, ekkert vitað um skiptingu kostnaðar og enginn fjármálaráðherra, bara sameiginlegur áhugi á að gera eitthvað til að komast í meiri hluta í Reykjavík.“

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra loksins tjáð sig um þetta og hefði svo sem mátt gera það fyrr. En hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar ekki látið sitt eftir liggja í að auka útgjöld ríkissjóðs þrátt fyrir að hann gjaldi varhuga við sumum af hugmyndum samráðherra sinna og í Viðskiptablaðinu er fjallað um þessa þróun. Það er greinarhöfundurinn Óðinn sem gerir það og bendir á, það sem sem við þingmenn Miðflokksins höfum rætt um frá því að fjárlögin voru kynnt, að þau feli í sér stórkostlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs án þess að útskýrt sé hvað fáist fyrir það. En ég minni á að það er hlutverk okkar Alþingis, þingsins, að taka ákvarðanir um ríkisútgjöld. Er ekki tímabært að við grípum þar inn í og stoppum ráðherra af þegar þeir fara fram úr sér í sýndarmennskunni, jafnvel þótt það sé undir leiðsögn almannatengslafulltrúa og hugmyndafræðings Framsóknarflokksins, borgarstjórans í Reykjavík? (Forseti hringir.) Við þurfum að grípa inn í því að þetta er orðið ófremdarástand, herra forseti.



[15:28]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hvaða afleiðingar hefur það að taka verðtryggt lán fyrir 40 millj. kr. til 25 ára samkvæmt reiknivél Landsbankans? Greiðslubyrði óverðtryggðs láns á 7% vöxtum til 25 ára er 283.000 kr. á mánuði og sú upphæð á að haldast óbreytt út lánstímann þó að vaxtabreytingar geti vissulega haft áhrif. Verðtryggða lánið er hins vegar á 2,3% vöxtum og fyrsta greiðsla af því er 177.000 kr. Eftir tæp fimm ár er afborgun verðtryggða lánsins komin upp í 283.000 kr. og búin að ná afborgununum á því óverðtryggða og þá fyrst byrjar ballið fyrir alvöru. Eftir tíu ár er afborgun verðtryggða lánsins komin upp í 450.000 kr. og eftirstöðvar þess hafa hækkað um 28,6 milljónir á meðan eftirstöðvar óverðtryggða lánsins hafa lækkað um tæpar 9 milljónir. Eftir 15 ár er afborgun verðtryggða lánsins komin upp í 723.000 kr. Til að standast greiðslumat fyrir svo háum afborgunum í dag þarf fólk að hafa 2 milljónir á mánuði í laun. Eftir þessi 15 ár hafa eftirstöðvar óverðtryggða lánsins lækkað um 15 milljónir en höfuðstóll verðtryggða lánsins hefur á sama tíma hækkað um 37 milljónir og er 77, 4 milljónir eða þrefalt hærri. Eftir 20 ár eru eftirstöðvar óverðtryggða lánsins 14,3 milljónir en af óverðtryggða láninu eru þær 65,6 milljónir. Þá þarf lántakandinn að greiða niður 65 millj. kr. höfuðstól á aðeins fimm árum, enda hækka afborganir upp frá því sífellt og enda í 1,9 milljónum í síðustu afborgunum. Manni fallast hreinlega hendur gagnvart þessu. Á lánstímanum mun óverðtryggði lántakandinn greiða 85 milljónir en sá verðtryggði 215 milljónir. Þetta er ekkert annað en opinber glæpastarfsemi.



[15:30]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. „Krabbameinsdeildin löngu sprungin og engin lausn á borðinu“, er fyrirsögn sem birtist á Vísi í morgun. Mikið óskaplega þótti mér sorglegt að lesa þessa fyrirsögn, sérstaklega í ljósi þess að á síðasta ári ákvað Krabbameinsfélag Íslands að gefa íslensku þjóðinni tæplega hálfan milljarð sem var skilyrtur við uppbyggingu á dagdeild fyrir blóð- og krabbameinslækningar í K-byggingu Landspítala í Fossvogi. Uppleggið var að Krabbameinsfélagið myndi leggja til tæplega hálfan milljarð og ríkið kæmi með um 700 milljónir á móti. Einhverjum myndi finnast þetta vera kostaboð, að einhver sé reiðubúinn að gefa ríkinu hálfan milljarð sisvona. Því er merkilegt að vita hvað gerðist í framhaldinu. Nákvæmlega ekki neitt. Í marga mánuði svaraði heilbrigðisráðuneytið ekki einu sinni Krabbameinsfélaginu. Það var ekki fyrr en um tíu mánuðum síðar að heilbrigðisráðuneytið steig fram eftir að málið hafði vakið athygli í fjölmiðlum og sagði málið komið í þarfagreiningu. Dagdeild blóð- og krabbameinslækninga hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið. Deildin er nú í 550 fermetrum en fyrir liggur að þörfin er um 850 fermetrar. Aðstaðan er með öllu óboðleg fyrir sjúklinga, fyrir aðstandendur og starfsfólk. Í nýjum meðferðarkjarna Landspítalans er ekki gert ráð fyrir þessari starfsemi og það eru engar áætlanir fram komnar um hvernig eigi að haga þessari starfsemi en við vitum þó að á næstu 20 árum mun þjónustan aukast um rúmlega 50%. Landspítalinn leggur til að klára K-byggingu. Sá kostnaður er um 1.200 milljónir og það væri hægt að taka bygginguna í notkun 2024. Nú er lag að bregðast hratt við því tími aðgerða er runninn upp.



[15:33]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp í dag til að ræða um innlenda matvælaframleiðslu og unga bændur. Matvælaframleiðsla er ekki sjálfsagður hlutur. Á hverjum degi heldur fjöldi fólks út í daginn til að vinna að því að skapa og afla matvæla fyrir okkur, bæði á sjó og landi, og það er ekki sjálfsagt. Það er virðingarvert og forréttindi að geta unnið við matvælaframleiðslu og þess vegna er mjög mikilvægt að við hlúum að og styðjum þau sem hafa það að atvinnu að skapa og afla fæðu, bæði fyrir sig og fyrir aðra í samfélaginu. Það var rætt við unga bændur og um málefni þeirra í Bændablaðinu sem kom út 8. september síðastliðinn. Ég næ því miður ekki að nefna allt í þeirri grein sem mikilvægt væri fyrir þingheim að heyra og því mæli ég með því að þingmenn lesi þessa grein. Þar kemur fram að einn helsti vandi ungra bænda er fjármögnunarhliðin. Við höfum farið í margs konar verkefni síðastliðin ár sem hafa nýst mjög vel en það er mikilvægt að vera í stöðugri endurskoðun. Við þyrftum að skoða betur nýliðastyrkinn og horfa til þess að styrkurinn verði meira í samræmi við þær fjárfestingar sem farið er í. Við þyrftum einnig að skoða betur skatta- og lánaumhverfið, bæði hjá þeim sem eru að taka við búi og þeim sem eru að hætta. Við höfum verkfærin og við höfum stofnanirnar en það þarf að gæta að því að það sé meiri samfella í þessu kerfi til að geta styrkt þessa mikilvægu grunnstoð samfélagsins. Það eru fjöldamörg tækifæri í íslenskum landbúnaði og við sem sitjum á þingi þurfum að halda áfram að styðja við þau tækifæri.