153. löggjafarþing — 67. fundur
 22. feb. 2023.
búvörulög og búnaðarlög, 1. umræða.
frv. ÞKG o.fl., 127. mál (verðlagsnefnd, undanþágur frá samkeppnislögum, verðjöfnunargjöld). — Þskj. 127.

[18:20]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn erum að leggja fram í fimmta sinn þetta mál sem hefur verið lagt fram á öllum þingum síðan á 149. löggjafarþingi og nú erum við á 153. þingi, ef mig minnir rétt. Þetta mál hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá ríkisstjórnarflokkunum af því að þeir, eins og við vitum, stoppa mál sem koma frá minni hlutanum. Við vitum það líka að í dag er svokallaður þingmálsdagur þingflokka, þ.e. þingflokkar koma með sín mál og við ákváðum í Viðreisn að leggja áherslu á að mæla strax fyrir þessu máli á þessum tímapunkti þegar verðbólga er núna í kringum 10%, þegar vextir hafa verið hækkaðir ellefu sinnum í röð af hálfu Seðlabanka Íslands, þegar aðstæður eru þannig að matarkarfan á Íslandi hækkar sem vegur mjög þungt í pyngju heimila landsins og ekki síst þeirra sem minna hafa á milli handanna. Við ákváðum að flýta þessu máli með von um að ríkisstjórnin taki nú aðeins mildar á því og hleypi því vonandi gegn, ég ætla að leyfa mér að vera það bjartsýn. Annars vegar ýtir þetta undir meiri neytendavernd, við erum að sjá fram á aukinn styrk á markaði varðandi verslun með búvörur en ekki síður hitt að maður hefði haldið að það væri hægt að kitla einhverja frelsistaug innan ríkisstjórnarflokkanna, sem ég hélt að væri einhvers staðar þar. Mínar vonir eru að það sé hægt að kveikja aðeins í ákveðnum taugum hjá ríkisstjórnarflokkunum þannig að þeir taki til greina og taka til umfjöllunar og hleypa í gegn máli eins og þessu.

Þegar við förum yfir gögn frá Samkeppniseftirlitinu reglulega þá sjáum við samkeppnisleysi og þetta frumvarp gengur út á það að ýta undir samkeppni á mjólkurmarkaði þar sem er einokun í dag. Það er segin saga að þar sem er lagaverk, reglur og reglugerðir og fleira sem takmarkar samkeppni þá leiðir það til fákeppni og jafnvel einokunar eins og við höfum margsinnis upplifað og gerum að vissu leyti í dag. Og hvað gerir fákeppni? Hvað gerir einokun? Hún hækkar verð. Við sjáum það þegar ASÍ er að mæla verðið á matarkörfunni og þegar við sjáum gögn frá Hagstofunni. Hvað kemur nákvæmlega fram þar? Þær vörur sem eru undanskildar samkeppnislögum eru teknar út fyrir sviga af því að það eru vinir og vandamenn stjórnarflokkanna sem stýra málum þar. Það eru nákvæmlega þær vörur, nauðsynjavörur fyrir íslensk heimili, sem hækka mest. Samkeppnisleysið, fákeppnin sem ríkisstjórnin beinlínis stendur vörð um, ýtir undir hækkun á verði á matarkörfunni. Þessu viljum við í Viðreisn breyta. Við viljum segja: Inn með samkeppni, út með fákeppni. Út á það gengur þetta mál.

Af hverju segi ég það að ég bindi vonir við að ég nái að höfða til einhverra sjaldséðra frelsistauga innan ríkisstjórnarflokkanna? Það er m.a. út af þeim orðum sem hafa fallið af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, t.d. í gær í mikilvægri umræðu um EES-samstarfið og skýrsluna sem við ræddum í gær. Það var svolítið viðkvæðið: Kæra Þorgerður, eða reyndar var sagt virðulegur þingmaður, við getum bara gert þetta allt saman sjálf. Það er nákvæmlega sama umræðan og ég man fyrir 200 eða 300 árum síðan á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem var alltaf sagt: Við getum bara breytt þessum reglum sjálf varðandi tollana og varðandi samkeppni. En það hefur ekki gerst. Við erum ekki að beita okkar sjálfstæða valdi, fullveldi okkar, í þágu almennings því að fákeppni er ekki í þágu almennings, fákeppni er til hagsbóta fyrir hina fáu, annars vegar þá sem hafa efni á því að greiða hærra verð og síðan fyrir þau fyrirtæki og þá aðila sem oft eru hinir ósnertanlegu í íslensku samfélagi sem viðhalda þessu. Þess vegna er svolítið verið að viðhalda þessu mynstri og þessum reglum.

Það er ekki bara það að við höfum lagt þetta mál fram ítrekað. Neytendasamtökin í gegnum tíðina, sem virðist vera hentistefna að ríkisstjórnin hlusti á, Samkeppniseftirlitið, Samtök verslunar og þjónustu, Viðskiptaráð og fleiri hafa einmitt talað um að þetta sé mikilvægt. Ef við raunverulega trúum á frelsið og við áttum okkur á gildi og mikilvægi samkeppni þá á að forgangsraða nákvæmlega svona málum sem útrýma fákeppni og sérhygli, sem virðist frekar vera meginregla þessarar ríkisstjórnar heldur en undantekning.

Það er eitt og annað í þessu máli sem ég vil draga fram sem skiptir máli fyrir almenning í landinu, fyrir almannahagsmuni. En um leið, vissulega, ógnar það sérhagsmunum og þess vegna er þessi mikla varðstaða sem ríkisstjórnin sýnir okkur ítrekað í hvaða málum sem er. En við erum að setja þetta á dagskrá núna, við hefðum getað komið með fleiri mál sem við höfum lagt fram en við erum að draga fram nákvæmlega þetta mál núna til þess að segja að það er víst hægt að gera ákveðna hluti sem þurfa ekki að kalla á stórfelld útgjöld hjá ríkissjóði. Við verðum að gæta þess að þenja ekki ríkissjóð út frekar eins og þessi ríkisstjórn hefur gert. Ríkisstjórnin hefur með því ekki auðveldað okkur að berjast við verðbólguna. En þetta er ekki leið sem ýtir undir aukin útgjöld ríkissjóðs, þvert á móti. Hún mun hugsanlega með óbeinum hætti ýta undir auknar tekjur ríkissjóðs með aukinni verslun með þær vörur sem eru dýrari í dag og eru undanþegnar samkeppnislögum.

Þeir sem boða einfaldara regluverk, þeir sem boða gegnsæi, þeir sem boða samkeppni, þeir sem boða frelsi, raunverulegt frelsi, eiga að styðja þetta mál. Þeir sem vilja setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum eiga að styðja þetta mál.

Ég vil aðeins fara yfir inntakið í málinu og það er eftir sem áður markmiðið að auka frelsi og sjálfstæði og sjálfræði framleiðenda búvara, þ.e. bænda, til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Það getur verið að það felist ákveðin ógn í því að við erum svolítið með frumvarpinu að taka út þessa sjálfkrafa virkni sem snertir alltaf Bændasamtökin. Þau hafa staðið sig frábærlega og gert mjög gott fyrir bændur en við teljum samt á grunni þessa að bændur þurfi að meta það sjálfir hvort þeir séu til í að fara inn í ákveðinn farveg eða fara bara aðra leið heldur en Bændasamtökin vilja. Við teljum mikilvægt að bændur sjálfir ákveði þetta en séu ekki sjálfkrafa settir undir regnhlíf Bændasamtakanna þannig að um raunverulegt frelsi þeirra sé að ræða. Við segjum að við þurfum að auka frelsi og sjálfræði framleiðenda búvara til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Í því felst m.a. að við leggjum til afnám sérreglu búvörulaga sem gildir um mjólkuriðnaðinn og við drögum úr afskiptum ríkisvaldsins, þessum gamaldags afskiptum ríkisvaldsins, verðlagsnefnd búvara, af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu búvara. Þetta eru svona grunnelementin í þessu máli.

Af því að ég gat þess að við erum búin að leggja þetta ítrekað fram þá hefur málið hlotið jákvæða umsögn ýmissa hagsmunasamtaka, einkum þegar við settum það fram fyrst og síðan hafa þær umsagnir verið undirstrikaðar og ítrekaðar. Samtök verslunar og þjónustu sögðu frumvarpið skref í rétta átt, í átt til nútímalegra viðskiptahátta. Viðskiptaráð Íslands taldi að með frumvarpinu væri stigið mikilvægt skref í átt að eðlilegra viðskiptaumhverfi. Neytendasamtökin hafa einnig fagnað tillögum frumvarpsins og Félag atvinnurekenda hefur hvatt til þess að frumvarpið verði samþykkt í nær óbreyttri mynd. Þá hefur Samkeppniseftirlitið kallað eftir því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttu horfi. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma kom fram að frumvarpið miði að því að efla samkeppni í landbúnaði og veita bændum frelsi til að hafa val um hvernig afurðum þeirra væri ráðstafað. Við sjáum það m.a. þegar við lesum í gegnum ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að heimila m.a. samruna Kjarnafæðis og Norðlenska — það er alltaf verið að tala um að það sé ekki hægt að beita lögunum um samruna og þess vegna þurfi að búa til sérreglur fyrir sauðfjárræktendur og þeirra afurðir, sem er náttúrlega firra af því að Samkeppniseftirlitið sýndi það með því að heimila samruna Norðlenska og Kjarnafæðis að þetta er alveg hægt samkvæmt núgildandi lögum. Það þarf ekki þessa sérreglu. Það er bara tvennt sem menn þurfa að hafa í huga við svona samruna: Er hægt að sýna að samruninn sé neytendum til hagsbóta og bændum til hagsbóta, en ekki bara fyrir milliliði? Það virðist vera þrálát hugmynd og allt að því þráhyggja, m.a. Framsóknarflokksins og fleiri, Vinstri grænna líka, að það þurfi alltaf þessar sérreglur og það sé ekki hægt að gera þetta á grunni núgildandi laga. En þetta er bara mjög einfalt. Ef viðkomandi fyrirtæki geta sýnt fram á það að samruninn þjóni hagsmunum bænda og þjóni hagsmunum neytenda þá er hægt að fara í svona vegferð. Einmitt í þessum samruna sem ég hef verið að tala um, Norðlenska og Kjarnafæðis, þá kom í ljós að bændur þurfa ákveðinn stuðning, m.a. frá Samkeppniseftirlitinu, sem þeir myndu ekki fá ef það væri búin til sérregla fyrir þá, eins og ríkisstjórnin hefur viljað í gegnum síðustu misseri. Bændur fundu stuðning í Samkeppniseftirlitinu af því að Samkeppniseftirlitið gat í gegnum samrunaferlið allt sett fram ákveðin skilyrði, að bændur væru ekki niðurnjörvaðir í ákveðin viðskipti við þessi fyrirtæki heldur væru aðeins frjálsari. Um leið gátu fyrirtækin blessunarlega sýnt að það var ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtækin heldur líka fyrir neytendur að fara í þennan samruna. Þess vegna var hann heimilaður. Þannig að það er hægt.

Þetta vildi ég segja í tengslum við umsögn Samkeppniseftirlitsins af því að það telur sannarlega að þetta frumvarp myndi leiða til aukinnar samkeppni á vinnslu-, heildsölu- og smásölumarkaði og þannig bæta hag neytenda og bænda. Í þeirri umsögn var líka bent á að nýsköpun og samkeppni ættu fulla samleið. Það er nefnilega skrýtið að Samkeppniseftirlitið er alltaf að reyna, ítrekað, aftur og aftur, að sannfæra ríkisstjórnina um að aukin samkeppni og aukið frelsi á þessum markaði muni ýta undir frekari nýsköpun á markaðnum, hún eigi fulla samleið með samkeppni og þetta tvennt geti ekki án hvor annars verið, þ.e. nýsköpun og samkeppni. Ég hefði haldið að það myndi nú kveikja í einhverjum en það hefur ekki enn þá gerst, alla vega ekki birst okkur þannig að það sé mikill stuðningur við þetta frumvarp af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, sama hvað þeir álykta á sínum landsfundum. En síðan hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað stuðning sinn við þetta mál.

Ég vil síðan sérstaklega draga það fram, og við sjáum það þegar við skoðum lögin, að það er eins og bændur hafi sérstaka stöðu sem helst verður líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Til að stuðla að bættum kjörum bænda þarf að búa til regluverk sem gerir þeim raunverulega kleift að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir. Að þeir geti sjálfir tekið þessa ákvörðun, ekki milliliðirnir og ekki að Bændasamtökin taki þessa ákvörðun fyrir þeirra hönd heldur verði bændur að ákveða hvort það séu Bændasamtökin eða einhverjir aðrir sem sjái um þennan þátt. Þannig verði þeim gert að starfa sem atvinnurekendur og njóta kosta þess að reka bú sín á opnum markaði. Muna: Frelsi, opinn markaður, öllum til hagsbóta.

Í frumvarpi þessu er því lagt til að verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga verði lagðar niður og þannig stuðlað að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun verði í samræmi við almenn markaðslögmál. Hættulegra er þetta nú ekki. Jafnframt er lagt til að felld verði niður heimild til að gera fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva eða um einstakar framleiðsluvörur. Þá er einnig lagt til að felld verði niður heimild afurðastöðva skv. 71. gr. búvörulaga til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu — þetta er svona einokunarákvæði — milli afurða fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 85/2004, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara, nr. 99/1993. Á þeim tíma einkenndi fjárhagsvandi flest svið landbúnaðarins sem aðallega var til kominn vegna óhagstæðra rekstrareininga og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til þess að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara. Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað og mikil hagræðing átt sér stað í þau 17 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum. Til að tryggja samkeppni á mjólkurmarkaði og stuðla þannig að nýsköpun og vöruþróun er nauðsynlegt að vinnsluaðilum sé tryggður aðgangur að hrámjólk/ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.

Hafa undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum verið umdeildar og fyrir liggja fjölmörg álit, eins og ég gat um, Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim. Með þessu frumvarpi er því verið að leggja til að veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum, sem sérákvæði hafa gilt um, verði afnumdar. Við erum að afnema sérreglurnar. Verði frumvarpið að lögum eru leyst helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum í búvörulögum.

Frumvarpið er samið með hliðsjón af gildandi lögum og reglum í nágrannalöndum Íslands. Ég vil bæta því við sem segir hér í greinargerð frumvarpsins að í skuldbindingaskrá Íslands að GATT-samningnum er kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að veita þjónustuveitendum frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar aðgang að markaði sínum. Þess er sérstaklega getið í skuldbindingaskrá GATT. Þar er líka kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að hafa ekki í gildi reglur sem fela í sér mismunun sem sé innlendum þjónustuveitendum í hag gagnvart erlendum þjónustuveitendum.

Hvað erum við að segja? Við erum að segja nákvæmlega að frelsi og samkeppni eiga erindi inn á þennan markað fyrir bændur og ekki síður fyrir neytendur. Þetta myndi hjálpa í núverandi aðstæðum þegar við sjáum fram á þessa dýru matarkörfu þar sem þær vörur sem einmitt falla undir þetta, sem eru með sérreglur, undanþágurnar frá samkeppnislögum, eru akkúrat þær vörur sem leiða hækkanirnar í dag. Þetta er það sem við erum að segja í þessu máli.

Ég vil líka draga fram að í II. kafla frumvarpsins er það sem ég hef verið að ræða varðandi sjálfvirkni og Bændasamtök Íslands, sem hafa, eins og ég segi, staðið sig vel í hagsmunagæslu fyrir sína umbjóðendur. Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði um framkvæmdanefnd búvörusamninga verði fellt brott og lagðar til breytingar sem draga úr sérstöðu Bændasamtaka Íslands sem fyrirsvarsaðila búvöruframleiðenda í samningaviðræðum og samskiptum við ríkið. Í 16. gr. frumvarpsins bætum við því við að enn fremur verði kveðið á um aukinn stuðning ríkissjóðs við umhverfisvernd, nýliðun, skógrækt, lokun framræsluskurða, gerð smávirkjana og þróun á sviði ferðaþjónustu.

Við erum sem sagt að draga fram þessar eðlilegu nútímakröfur sem m.a. horfa til framtíðar í tengslum við umhverfismál, í tengslum við loftslagsmál og líka í tengslum við ferðaþjónustu, einn grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Við erum svolítið að uppfæra 16. gr. miðað við nútímann. Við erum sannfærð um að þessar breytingar eru fallnar til þess að bæta hag íslenskra bænda. Þær eru líka þess eðlis að þær munu stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði, bændum og neytendum öllum til heilla.

Virðulegi forseti. Við eigum að nýta öll tækifæri og horfa líka á það umhverfi sem er núna í dag til þess að taka eðlileg og nútímaleg skref, átta okkur á því að við erum á 21. öldinni sem kallar á að frelsið verði nýtt til hagsbóta fyrir alla. Það ýtir undir samkeppni og það ýtir út fákeppni af því að hún er mjög dýrkeypt fyrir neytendur og samfélagið allt. Við sjáum að því miður hefur það verið þannig, af því að ég nefndi EES-samninginn vegna umræðu okkar um skýrsluna í gær, að þar sem sá samningur er ekki að ýta á samkeppni, þar sem hann ýtir ekki á skýrt regluverk til hagsbóta fyrir neytendur og er að krefjast samkeppni, þá erum við ekki að gera neitt annað hér heima á Íslandi heldur en að vera með frekar lokað regluverk sem er ekki til hagsbóta fyrir bændur, ekki til hagsbóta fyrir neytendur heldur fyrir einhvern sérhóp útvalinna, hina ósnertanlegu, sem er áhrifamikill aðili í þessu samfélagi. Það er eins og við þurfum þennan þrýsting að utan til þess að setja hér almennar, heilbrigðar, gegnsæjar leikreglur fyrir markað hvar sem borið er niður, að við séum ekki þess bær, sérstaklega ekki meðan við erum með þessa ríkisstjórn, til að búa til slíkar reglur þó að við höfum allt í hendi okkar með það að búa til slíkt regluverk. Þess vegna erum við að veita ríkisstjórninni aðhald með þessu frumvarpi. Ég ítreka að þetta er m.a. lagt fram af því að við erum almennt að horfa fram í tímann, reyna að nútímavæða, en líka til að bregðast við því ástandi sem er núna á íslenskum markaði og í íslensku samfélagi, allt of mikil verðbólga í boði ríkisstjórnarinnar og að hluta til Seðlabankans og fleiri aðila. Það er líka þetta skringilega umhverfi sem fákeppnin býður upp á. Við erum einfaldlega að reyna að ýta út fákeppninni af því að við trúum því að samkeppnin muni verða öllum til hagsbóta.

Að því sögðu mæli ég með því, virðulegi forseti, að málið fari til hv. atvinnuveganefndar.



[18:42]
Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er ákaflega gaman að verða vitni að því þegar lögð eru fram svona vönduð frumvörp eins og það sem hér er til umræðu og gaman að sjá þegar heill þingflokkur leggur svona mikla vinnu í það að fara í gegnum þennan, ég veit ekki hvað skal kalla það; þessi búvörulög eru eins konar hornsteinn íslensks samfélags, er það ekki? Eða a.m.k. hornsteinn allrar stjórnmálaumræðu, einn af þeim, í landinu í áratugi.

Mér hefur liðið stundum þessa daga sem ég hef verið hér inni eins og ég sé svolítill draugur sem hefur komið út úr veggnum. Það er enginn þingmaður eftir af þeim sem sátu með mér hér á þingi 1998 og 1999 og ég er svona draugurinn sem mætir. En vissulega hafa hlutir breyst. Það er búið að byggja nýtt hús hérna við hliðina og svona, en það er enn verið að tala um sömu málin. Í þessu tiltekna máli hefur ekkert breyst — ekkert breyst. Það er í sjálfu sér alveg makalaust því að þetta kerfi var í grunninn búið til sem viðbragð við kreppunni miklu á fjórða áratugnum, í lok þriðja og í byrjun fjórða áratugarins. Þá var ríkisvaldið að taka atvinnugreinarnar í sínar hendur til að bregðast við þeim óskunda. En það hefur ekki náðst að vinda ofan af þessu. Þetta er eitt af því fáa sem ekki hefur náðst að vinda ofan af þótt liðin séu hátt í 100 ár síðan þetta gerðist.

Ég tek auðvitað eftir því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu, talar auðvitað beint inn í sinn gamla stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn þegar hún talar um frelsi og samkeppni í tengslum við þetta frumvarp og synd að enginn úr þeim flokki sé hér inni til að hlusta á þau orð. Hún nefni líka til sögunnar alla réttu aðilana sem hafa lagt blessun sína yfir þetta góða frumvarp, fyrir utan kannski Samkeppniseftirlitið. En ég verð hins vegar að segja að þetta talar líka mjög inn í mitt hjarta. Ég hef löngum haft þá skoðun að það sé löngu tímabært að taka til í þessu gamla kerfi sem búið hefur verið til utan um landbúnaðinn og er í rauninni einhvers konar furðufyrirbæri. Ef maður á að trúa fréttum úr landbúnaðinum, virðulegur forseti, þá virðast bændur ævinlega lepja dauðann úr skel þannig að þetta virðist hvorki vera til hagsbóta fyrir bændur né fyrir neytendur. Fyrir hverja er þetta kerfi? Ég segi nú ekki annað. Auðvitað veit ég það, en það verður því miður kannski aldrei viðurkennt upphátt af talsmönnum þess.

Ég verð nú að viðurkenna að ég missti aðeins áhugann á þessu gamla góða baráttumáli míns gamla flokks, Alþýðuflokksins, eftir að ég hætti að borða kjöt og hætti að þurfa að borga fyrir þessar landbúnaðarafurðir. En vissulega eru auðvitað margir enn sem greiða þetta dýru verði því að þessar vörur eru ekki gefins. Svo sannarlega myndi aukin samkeppni, frelsi og samkeppni, eins og hv. þingmaður orðaði það, alveg örugglega leiða til hagstæðara verðs á landbúnaðarafurðum. Neysluvenjur fólks hafa verið að breytast og það er tekið tillit til þess í þessu frumvarpi og í II. kafla er í rauninni ákaflega góð grein þar sem talað er um að þar komi inn umhverfisvernd, skógrækt, lokun framleiðsluskurða, smávirkjanir og ferðaþjónusta því að landbúnaðurinn, eða hvað á maður að segja, nýting bújarða í kringum landið hefur verið að breytast og þarf að breytast, líka bara í takt við það að kjötneysla og kjötframleiðsla eru auðvitað einn af þeim þáttum sem leiða til gróðurhúsaáhrifanna og þarf auðvitað að taka það með í reikninginn.

Annars vil ég bara segja að ég tek undir með hv. þingmanni um að það er löngu kominn tími til þess að landbúnaður á Íslandi komist inn í 21. öldina og við kveðjum þessa arfleifð kreppunnar í eitt skipti fyrir öll. Ég er alveg sannfærður um það, vegna þess að ég þekki til hinna úrræðagóðu íslenskra bænda, að þeir myndu spjara sig vel undir þessu kerfi, undir breyttu kerfi og þegar þeir myndu þurfa að leggja áherslu á hin miklu gæði sinna framleiðsluvara. Ég efast ekkert um að þeir hefðu betur í samkeppninni þegar að því kemur.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.