153. löggjafarþing — 122. fundur
 9. júní 2023.
almannatryggingar og húsnæðisbætur, 2. umræða.
stjfrv., 1155. mál (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). — Þskj. 1973, nál. 2010, nál. m. brtt. 2080.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:00]

[14:50]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við styðjum þessa hækkun en hefðum viljað sjá hana meiri. Það er ekki sama fyrir hvaða hóp er verið að leggja til 2,5% hækkun á útborgun. Það fer svolítið eftir því hversu há útborgunin er. Ef við berum saman það sem öryrkjar munu fá út úr þessari u.þ.b. 7.000–10.000 kr. hækkun á mánuði þá erum við að tala um að með sinni 2,5% hækkun munu þingmenn fá um 34.000 kr., ráðherrar um 55.000 kr. og forsætisráðherra um 61.000 kr. Við leggjum til í þingflokki Pírata að bregðast við ákalli Öryrkjabandalagsins og hækka þetta um 6%. Það rétt dugir upp í þær miklu verðlagsbreytingar sem orðið hafa. Sem hliðarverkun af því leggjum við líka til að frítekjumarkið sé hækkað til að þetta valdi ekki skerðingum. Að því sögðu, og eins og venjulega þá geri ég ráð fyrir því, því miður, að okkar tillögur verði felldar, þá styðjum við nú samt eftir sem áður þetta mál.



[14:52]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin ætlar að hækka almannatryggingabætur um 2,5%. Í fyrra voru það 3%. Þá var minni verðbólga. Nú segja þeir að 2,5% séu nóg og þykjast vera búnir að reikna það út miðað við hvernig verðbólga verði, sem ríkisstjórninni hefur aldrei tekist að reikna út þannig að það stenst ekki að það geti staðist. 6% hefðu verið flott eins og Öryrkjabandalagið leggur til. Þá hefði líka, kannski í fyrsta skiptið, þessi hópur verið að koma út í plús miðað við verðbætur. Við erum með breytingartillögu um það og vonandi fer hún í gegn.

En það sem er kannski furðulegast við þetta er í sambandi við húsnæðisbæturnar. Miðað við einn öryrkja, miðað við að einn öryrki búi í húsi — þegar hann verður 18 ára þá fer hann 50.000 kr. fram yfir frítekjumarkið, 600.000 kr. á ári. Átti ekki að hjálpa þessum aðila? (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum getum við gert það þannig að það á að skerðast hjá þeim 18 ára öryrkja sem er á þeim bótum? (Forseti hringir.) Þetta er stórfurðulegt mál.



[14:53]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég fagna því að þegar stjórnvöld átta sig á því að staða hópsins sem hér er undir verður veikari á árinu en gert var ráð fyrir um áramót þá sé brugðist við. Það er mjög jákvætt. 2,5% er hins vegar mjög lágt hlutfall og lág prósentutala af lágum upphæðum gefur fáar krónur. 2,5% er 7.700 kr. hækkun fyrir skatt. Öryrkjabandalagið skilaði inn umsögn og færði fyrir því rök að nær væri að þessi tala færi upp í 6%. Minni hlutinn gerir tillögu um það sem við í Samfylkingunni styðjum. 6% gæfu þá u.þ.b. 18.450 kr. fyrir skatt, sem er heldur skárra. En aðalatriðið er að þessi hópur, öryrkjar og eldra fólk, sem þarf að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar, er okkar fátækasta fólk (Forseti hringir.) og það þarf að brúa þá kjaragliðnun sem hefur stækkað ár frá ári í tíð þessarar ríkisstjórnar og er nú að ná 100.000 kr. á mánuði.



[14:55]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu öll þau skref sem stigin eru til að verja tekjulægra eftirlaunafólk og öryrkja fyrir verðbólgu. En ég hef stórkostlegar efasemdir um að það skref sem hér er stigið muni duga til að verja kaupmátt þessara hópa á þessu ári. Ég vil bara minna hæstv. ríkisstjórn á að einhver skilvirkasta leiðin til að vinna gegn fátækt á Íslandi er að bæta kjör öryrkja. Það er ekki endalaust hægt að skýla sér á bak við starfshópa sem malla einhvern veginn í einhverju heildarsamráði og heildarendurskoðun árum saman. Það þarf að stíga stærri skref.



[14:56]
Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég fagna að sjálfsögðu þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að styðja við þennan hóp eins og þarna kemur fram. En eins og þeir sem hér hafa áður talað lýsi ég efasemdum um að þetta dugi hreinlega. Þrátt fyrir að í upphafi árs hafi komið til 7% hækkun hefur átt sér stað kaupmáttarrýrnun í því verðbólgubáli sem hefur geisað allt þetta ár þannig að þessir hópar hafa þegar orðið fyrir kjaraskerðingu á þessu ári. Við gætum hugsanlega fengið það út með svona grófum útreikningi að fólk stæði þá hreinlega bara á núlli. Það er engin kaupmáttaraukning fólgin í þessari viðbót, þrátt fyrir að þarna sé talað um 2% hækkun, vegna þess ástands sem hefur verið á markaði. Mér finnst því eðlilegt að við horfum til okkar minnstu bræðra og systra þegar kemur að því að hjálpa þeim sem berjast við þá stöðu sem uppi er.



[14:57]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp sem mér heyrist að flestir hér inni muni styðja enda er frumvarpinu ætlað að milda áhrif aukinnar verðbólgu á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega. Lagðar eru til mótvægisaðgerðir sem fela í sér hækkun á bótum almannatrygginga um 2,5% frá 1. júlí og það er viðbót við hækkun sem tók gildi 1. janúar. Samhliða hækkar frítekjumark húsnæðisbóta. Ástæðan fyrir því að þetta er gert á miðju ári er að verðbólgan er hærri en lagt var upp með í forsendum fjárlaga og tilgangur þessa frumvarps er að koma þannig í veg fyrir kaupmáttarrýrnun seinni hluta ársins. Það verður svo aftur hækkun um næstu áramót eins og lög gera ráð fyrir og munum að yfir stendur heildarendurskoðun á kerfinu, eins og hér hefur ítrekað komið fram.



[14:58]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Bara rétt að lokum þá vil ég kalla eftir því að þegar þing kemur aftur saman í haust verði horft sérstaklega til þess hvernig verðbólga hefur þróast í sumar og þetta verði þá leiðrétt aftur út frá verðlagi ef þess þarf.



Brtt. í nál. 2080,1 felld með 33:20 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  GRÓ,  GE,  GIK,  GFH,  HKF,  HVH,  JFM,  JPJ,  KFrost,  LE,  OH,  SGuðm,  SigurjÞ,  TAT,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ,  ÞSv.
nei:  ÁBG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BGuðm,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BjarnJ,  BHar,  FRF,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  IÓI,  JSkúl,  JFF,  KJak,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SIJ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
2 þm. (BergÓ,  SDG) greiddu ekki atkv.
8 þm. (ÁLÞ,  DME,  GÞÞ,  HSK,  HallM,  IngS,  JónG,  VilÁ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:59]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér erum við að leggja til að hækka þessa hækkun úr 2,5 í 6%, eins og ég áréttaði hér áðan.



[14:59]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. 2,5% eru ekki nóg, 2,5% eru rétt bara til að halda í horfinu. 6% væru plús, 6% væru kannski að skila svona 5.000 kr. aukalega. Er ekki kominn tími til að þessi hópur fái 5.000 kr. aukalega en fái ekki alltaf annaðhvort á núlli, eins og núna, eða eins og hann hefur yfirleitt alltaf fengið, í mínus, og aukið kjaragliðnunina? En ég sé að það hugnast ríkisstjórninni ekki. Hún virðist einhvern veginn ekki vera tilbúin til þess að hjálpa veiku og slösuðu fólki og eins og við sjáum hér virðist henni eitthvað vera í nöp við eldri borgara líka.



 1. gr. samþ. með 55 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 2080,2 felld með 33:18 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  GRÓ,  GE,  GIK,  GFH,  HVH,  JFM,  JPJ,  KFrost,  LE,  OH,  SGuðm,  SigurjÞ,  TAT,  ÞorbG,  ÞSÆ,  ÞSv.
nei:  ÁBG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BGuðm,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BjarnJ,  BHar,  FRF,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  IÓI,  JSkúl,  JFF,  KJak,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SIJ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
3 þm. (HKF,  SDG,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁLÞ,  BergÓ,  DME,  GÞÞ,  HSK,  HallM,  IngS,  JónG,  VilÁ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:01]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ef ég sé rétt erum við að greiða þarna atkvæði um húsnæðisbæturnar. Eins og ég sagði áðan: 18 ára öryrki, sem er bara með lágmarkstekjur, bara venjulegar tekjur, engar aðrar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, fer í 50.000 kr. í mínus, 600.000 á ári. Það þýðir 66.000 kr. skerðingu á húsaleigubótunum. Tveir öryrkjar, eingöngu á bótum almannatrygginga, búa saman. Þeir lenda í því sama. Á ekki að hjálpa þessu fólki? Er ekki lágmark að frítekjumark húsnæðisbóta sé fyrir ofan bætur almannatrygginga en ekki fyrir neðan?



 2. gr. samþ. með 55 shlj. atkv.

 3. gr. samþ. með 55 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.