131. löggjafarþing — 10. fundur.
Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, 1. umræða.
stjfrv., 191. mál (heildarlög). — Þskj. 191.

[17:00]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Í frumvarpinu, sem lagt var fram á 130. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga, er lagt til að lögfest verði heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi. Þá eru einnig lagðar til nokkrar breytingar sem miða að því að gera birtingu laga, stjórnvaldserinda og milliríkjasamninga í senn skilvirkari og ódýrari. Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra í september árið 2000. Nefndinni var falið að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla og þar með talið að endurskoða gildandi lög með tilliti til möguleika á rafrænni birtingu samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar.

Nefndin hóf starf sitt með því að undirbúa rafræna birtingu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs á netinu. Í því skyni var útbúinn sérstakur gagnagrunnur Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs sem var opnaður á netinu í febrúar árið 2002.

Góð reynsla af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins á netinu varð til þess að heimilað var með lögum nr. 165/2002 að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs og gefa það eingöngu út á rafrænu formi, þó þannig að þeir sem þess óska geti keypt prentaða útgáfu af því.

Með frumvarpi því sem nú liggur fyrir er lagt til að lögfest verði sams konar heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi. Ljóst er að rafræn birting laga og annarra settra réttarreglna getur haft ýmsa kosti í för með sér, einkum þá að auðvelda aðgengi að þeim og að stuðla að sparnaði og hagræðingu þegar fram í sækir. Þó þarf að tryggja að lögin séu aðgengileg þannig að réttaröryggi sé tryggt. Því þarf ýmsum skilyrðum að vera fullnægt svo að rafræn birting komi til álita.

Fyrirkomulag rafrænnar birtingar þarf í fyrsta lagi að taka mið af því að búnaður sem flestra nýtist. Þeim sem ekki geta nýtt sér upplýsingatæknina verði gert kleift að nálgast lögin með hefðbundnum hætti, þ.e. í prentuðu formi.

Í öðru lagi þarf rafræn birting að vera svo örugg að ekki fari á milli mála hvaða lög gilda á hverjum tíma. Um þessi atriði og fleiri vísast að öðru leyti til greinargerðar með frumvarpinu.

Aðrar efnisbreytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lagt er til að birting á EES-reglum og öðrum þjóðréttarreglum, sem leiða þarf í landsrétt, verði gerð skilvirkari þannig að nægilegt sé við innleiðingu þeirra að vísa til birtingar þeirra í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB eða í C-deild í stað þess að birta þær jafnhliða í A-deild eða B-deild Stjórnartíðinda eftir atvikum.

Þá er lagt til að heimilað verði í undantekningartilvikum að birta þjóðréttarreglur á erlendu máli, en heimildin er bundin því afdráttarlausa skilyrði að viðkomandi samningur varði afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda tungumál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar.

Loks er lagt til að tekið verði af skarið um gildistöku birtra fyrirmæla í lögum og að kveðið verði sérstaklega á um að birt fyrirmæli skuli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.

Að öðru leyti felur frumvarpið í sér einföldun á orðalagi og efnisskipan, eða skýringar á atriðum sem talin hafa verið felast í gildandi lögum um birtingu laga og stjórnvaldserinda, nr. 64/1943, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[17:03]
Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja að ég kann betur að meta tóninn í því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir nú en því síðasta sem við ræddum hér. Ég held að þarna sé verið að stíga skref sem er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt, heldur nauðsynlegt og geti orðið mjög til bóta fyrir borgara landsins og ekki síst fyrir þá sem vinna að lögfræði eða þurfa að kynna sér þau gögn sem hér eiga í hlut. Ég tel því að frumvarpið sé af hinu góða og mjög æskilegt.

Mér sýnist líka að til undirbúnings hafi verið vandað og menn velt fyrir sér hugsanlegum álitaefnum sem upp kynnu að koma því auðvitað er birting laga og stjórnvaldserinda vandmeðfarin og þarf að gæta þess að horft sé til allra þeirra sjónarmiða sem þarf að taka tillit til og virðist það allt saman hafa verið skoðað ofan í kjölinn í þessari vinnu.

Ég held að flestir sem vinna að lögfræði séu sammála um að það hafi orðið algjör bylting í þessum efnum þegar fólk fór að fá aðgang eða möguleika á því að ná sér í rafræn gögn, hvort sem um er að ræða lög eða dóma Hæstaréttar, úrskurði umboðsmanns o.s.frv. Auðvitað er það orðið miklu aðgengilegra og auðveldara, bæði fyrir lögfræðinga sem þurfa að fjalla um einstök mál og borgarana að nálgast þessi gögn. Það hlýtur að vera tilgangurinn með birtingu slíkra gagna að þau séu aðgengileg. Ég álít að með því að fá þau yfir á rafrænt form séu miklu meiri líkur á að aðgangur sé góður og greiður en þegar svo var ekki.

Ég vil sérstaklega nefna að auk þess að það er ánægjulegt að lagt sé til að heimilað verði gefa Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað eingöngu út á rafrænu formi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, þá er líka fjallað um birtingu á EES-reglum og öðrum þjóðréttarreglum sem leiða þarf í landsrétt, að það verði gert skilvirkara en nú er. Ég held að þar sé mikið verk að vinna og þurfi að laga verulega það ástand sem nú er. Í sjálfu sér sé ég ekki hætturnar í því að heimilað verði að birta þjóðréttarreglur á erlendu máli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ég held að það hljóti að vera betra að hafa slíkar reglur a.m.k. aðgengilegar á erlendu máli en að hafa þær jafnóaðgengilegar og þær eru í dag. Ég vil t.d. nefna af því að ég hef reynslu af því sjálf nýverið að leita að ákveðnum gögnum frá Evrópuráðinu að það er ekki fyrir hvern sem er að fara inn á heimasíðu Evrópuráðsins og finna þar einhverjar tilteknar samþykktir, jafnvel þó að maður sé vanur að leita að slíkum gögnum á netinu. Það er mikill frumskógur og að mörgu leyti mjög óaðgengilegt a.m.k. fyrir þá sem ekki eru vanir að gera slíka hluti.

Ég held því að það sé af hinu góða að heimildir stjórnvalda hér á landi til þess að koma þessum upplýsingum á framfæri við almenning séu auknar. Jafnvel þótt það kosti í einhverjum tilvikum að gera þurfi það á erlendri tungu er það þó skárra en að fólk sé tiltölulega ómeðvitað um reglurnar í mörgum tilvikum.

Ég vil líka velta því upp í þessu samhengi, þó að það sé ekki að því er mér skilst á málasviði hæstv. dómsmálaráðherra, hvaða reglur séu viðhafðar um hvaða samningar eða sáttmálar eða skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur, íslenska ríkið, eru þýddar. Mér finnst í raun og veru alveg með eindæmum hve lítið af þeim samþykktum sem koma frá Evrópuráðinu eru þýddar á íslenska tungu. Ég veit ekki hvaða vinnureglur gilda hjá þýðingardeild utanríkisráðuneytisins í þeim efnum, en mér finnst að þarna þurfi að gera einhverja bragarbót á, það þurfi í miklu ríkari mæli að þýða þessar reglur þó að það þurfi að sjálfsögðu að vera einhverjar hömlur á því en að helstu samþykktir t.d. Evrópuráðsins, sem Ísland hefur tekist á hendur að fullgilda eða við höfum samþykkt með þátttöku okkar í Evrópuráðinu, séu þýddar á íslenska tungu. Mér finnst allt of mikið um að svo sé ekki.

Ég þekki ekki nákvæmlega vinnulagið þarna en ég hef rekið mig á að það er ansi mikið af slíkum samþykktum sem mundu jafnvel teljast til grundvallarsamþykkta sem ekki hafa verið þýddar, og ég tel að það sé miður. Þó að ég beini því kannski ekki til dómsmálaráðherra, ég held að það eigi heima hjá hæstv. utanríkisráðherra, vildi ég draga það fram í umræðunni hér.



[17:09]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Hér mælir hæstv. dómsmálaráðherra fyrir merku nýmæli í því hvernig birta á þegnunum þá löggjöf eða þær reglur sem þegnunum ber að fara eftir. Það má auðvitað líta á þetta í samhengi allt frá þjóðveldisöld þegar lög voru kynnt af lögsögumanni og var þá bara úr munni og höfði þess manns. Síðan gerist það með prentuðu máli að þetta er bætt og er aðgengilegra. Nú er kominn þriðji birtingarmátinn sem er mjög merkur og í takt við þá tækni sem menn ráða yfir í dag, að birta þetta rafrænt. Þess vegna er það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir í dag barn nútímans og mjög athyglisvert. Auðvitað þarf að gæta að því að sú birting sé nokkuð örugg. Ég veit að tæknin á að sjá til þess af því réttaráhrifin hafa alltaf miðast við það hvenær birtingin fer fram.

Ég tek mjög jákvætt undir málið og það nýmæli sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir hér fyrir og tel að það muni horfa til bóta fyrir réttaröryggið af því að með fullri virðingu fyrir Stjórnartíðindum í því formi sem þau eru gefin út í dag og dreifingu þeirra, er ekki ólíklegt að rafræn birting verði enn aðgengilegri fyrir þegna landsins. Ég lýsi stuðningi við það frumvarp sem hér er flutt.