131. löggjafarþing — 22. fundur.
stjórnarskipunarlög, 1. umræða.
frv. KLM o.fl., 37. mál (kosningaaldur). — Þskj. 37.

[16:03]
Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sem er 37. mál á þingskjali 37, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Auk mín eru flutningsmenn að frumvarpinu hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Katrín Júlíusdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson.

1. gr. hljóðar svo: „Í stað orðanna „eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram“ í 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar kemur: verða 18 ára og eldri á kosningaári.“

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er lagt til að breyta aldursmörkum vegna kosninga til Alþingis og um leið til sveitarstjórna þannig að allir sem verða 18 ára á kosningaári hafi kosningarrétt, en ekki aðeins þeir sem eru orðnir 18 ára á þeim degi sem kosið er. Að mínu mati er þetta mikið sanngirnismál. Mér finnst eðlilegt að öllu því unga fólki sem verður 18 ára á árinu sé gefinn kostur á því að kjósa, en ekki eingöngu þeim sem eru orðnir 18 ára þegar kosning fer fram.

Síðast, virðulegi forseti, var þessum kafla stjórnarskrárinnar breytt og það staðfest af fyrrverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, 1. júní 1984. Þá var kosningaaldur færður úr 20 árum niður í 18 ár. Ef minni mitt svíkur ekki fengu 18 ára og eldri fyrst að kjósa árið 1986 í kosningum til sveitarstjórna á Íslandi og í alþingiskosningum árið eftir, 1987, var kosið til Alþingis eftir ákvæðinu. Frá því að sú samþykkt var gerð með breytingu á stjórnarskránni eru liðin 20 ár. Mér finnst eðlilegt, miðað við það sem ég er að flytja, að sú breyting sé sett inn að miðað sé við almanaksárið.

Virðulegi forseti. Í greinargerð með frumvarpinu stendur um þau atriði sem ég hef fjallað um, með leyfi forseta:

„Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Þar sem í frumvarpinu er gerð tillaga um breytingu á stjórnarskránni skal fara eftir ákvæði 1. mgr. 79. gr. hennar um þingrof verði frumvarpið samþykkt. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta eftir þingrof og kosningar verður að breyta ákvæðum kosningalaga til samræmis við efni frumvarpsins. Tillögur að breytingum á ákvæðum laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, eru birtar með frumvarpinu sem fylgiskjal.“

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að þessi ágæta tillaga hljóti samþykki, alla vega ekki á þessu þingi, þó svo að það væru kostir við það. Það yrði þá þingrof í framhaldi af því og þjóðin gæti gengið til nýrra kosninga og reynt að koma nýrri ríkisstjórn að, en ég reikna nú ekki með því. Engu að síður er frumvarpið flutt þó ekki sé lengra liðið á kjörtímabilið til þess að koma málinu á dagskrá, skapa umræðu um það og koma því til nefndar. Enda segir hér að við flutningsmenn vonumst til þess að frumvarpið fái ítarlega meðferð á þinginu og í þeirri sérnefnd sem það á að fara til.

Virðulegi forseti. Það er ekki eingöngu að kosningaaldrinum yrði breytt, vegna þess að samkvæmt 34. gr. stjórnarskrárinnar verður kjörgengi manna hið sama þannig að þeir sem verða 18 ára á almanaksárinu eru jafnframt kjörgengir til að bjóða sig fram til Alþingis eða sveitarstjórnarkosninga.

Hvers vegna er frumvarpið flutt? Aðallega er það vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að unglingar nú til dags hafa miklu meiri tækifæri til og fylgjast með pólitík, taka jafnvel þátt í starfi stjórnmálaflokka, enda eru sumir stjórnmálaflokkar með allt niður í 16 ára einstaklinga í prófkjörum. Það hefur sést, þó mér sé ekki alveg kunnugt um það hvaða aldursmörk menn setja á unglinga til að ganga í viðkomandi stjórnmálaflokka nema unglingahreyfingar viðkomandi flokka.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta vera sanngirnismál, vegna þess að ég man eftir því að þegar ég var að skoða þetta mál fyrir síðustu kosningar birtist í Morgunblaðinu, föstudaginn 9. maí, viðtal við fjóra unglinga sem áttu afmæli á kjördag, 10. maí. Það var ansi merkilegt að lesa viðtalið við þau, þó ég ætli ekki að hafa orð á fyrirsögn greinarinnar, enda fylgdi með frá viðkomandi unglingi sem rætt var við að hann reiknaði ekki með að blaðamaðurinn mundi birta það og sagt innan gæsalappa. En það er nú annað mál.

Þarna var sem sagt rætt við fjóra unglinga sem fengu kosningarrétt 10. maí sl., við alþingiskosningarnar sem þá voru, en ekki viðtal við þá unglinga sem áttu afmæli og urðu 18 ára daginn eftir, 11. maí, þegar úrslit úr viðkomandi kosningum tóku að berast fram eftir nóttu. Mér finnst því sanngirnismál að miðað sé við almanaksárið, eins og hefur margoft komið fram, að 18 ára og eldri á kosningaári fái kosningarrétt.

Virðulegi forseti. Ég legg til, samkvæmt 42. gr. þingskapalaga, að frumvarpinu verði vísað til sérnefndar. Vænti ég þess að Alþingi framfylgi því og frumvarpið fari út til umsagnar í þjóðfélaginu.[16:10]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. 1. flutningsmaður frumvarps til stjórnarskipunarlaga, Kristján L. Möller, gerði ágæta grein fyrir viðhorfum okkar fimm þingmanna Samfylkingarinnar sem flytjum málið. Okkur og þeim sem hér stendur þykir það réttlætismál, sanngirnismál, að mörkin séu dregin við almanaksárið, við skólaárganginn ef svo má segja. Einhvers staðar þarf að draga mörkin, væri hægt að segja, og af hverju er sanngjarnara að draga þau við almanaksár en við afmælisdag? Þá er alltaf einhver sem er einum degi frá því að komast í hópinn. Meginrökin fyrir því, að mínu mati, eru að um er að ræða mörk sem eru dregin í sambandi við skólaárið. Þetta er sá hópur sem fylgist að í gegnum skólann og skipar bekki. Þá er verið að halda línu, að draga ein mörk þar sem önnur eru dregin. Samræming nokkurs konar. Jafnframt vil ég sjá sömu breytingar annars staðar, eins og þegar verið er að tala um að jafna réttindi eftir aldri, að færa t.d. áfengiskaupaaldurinn úr 20 árum niður í 18 ára. Það er annað þingmál sem ég er flutningsmaður að. Þar held ég að við ættum einnig að miða við almanaksárið en ekki afmælisdaginn.

Ég held við ættum almennt að notast við almanaksárið í stað afmælisdaga, draga línuna sem víðast á sama stað. Það er ekki víst að það henti af praktískum ástæðum þegar kemur að bílprófi því þá værum við með 4.500 til 5.000 einstaklinga sem hefðu rétt á að fá bílpróf á sama degi. Það getur vel verið að það sé erfitt viðureignar þó að mér þætti það sanngjarnt og eðlilegt að draga þau mörk á sama stað hvað varðar kosningaaldurinn, áfengiskaupaaldurinn og ýmis önnur réttindi og jafnframt skyldur sem einstaklingar öðlast við ákveðinn aldur.

Ég held að við ættum almennt að breyta þessu viðhorfi og miða við almanaksárið í stað afmælisdagsins og draga öll mörkin á sama stað. Þá eru jafnaldrar sem eru saman í bekk og fylgjast að í gegnum skólann að öðlast réttindin á nákvæmlega sama tíma. Þá er ekki einn félagi sem fær að kjósa af því hann á afmæli 10. maí en ekki hinn af því hann á afmæli 11. maí. Þeir eru í sama árgangi og öðlast því réttindin á sama tíma.

Jafnframt þessu hef ég verið mjög jákvæður fyrir því að skoða hvort við ættum að lækka kosningaaldurinn um tvö ár, úr 18 ára niður í 16 ára. Mér finnst mjög margt styðja að það væri réttlátt og sanngjarnt þó ég sé ekki búinn að gera upp hug minn endanlega í því og hef ekki ákveðið að halda því fram sem afstöðu minni í málinu er mjög margt sem styður það að lækka eigi kosningaaldurinn úr 18 ára í 16 ára. Verið er að skoða það í Bretlandi.

Tímarnir eru svo breyttir. 16 ára einstaklingur tekur fullan þátt í samfélaginu. Hann er að ljúka grunnskólagöngu sinni og fara út í lífið, oftast vonandi í framhaldsskóla. Hefur lokið barnæskunni ef svo má segja í gegnum skólagönguna og er að fara að takast á við lífið með öðrum hætti. 16 ára einstaklingur í nútímasamfélagi er einfaldlega orðinn það upplýstur og virkur þátttakandi í þjóðfélaginu að mér þætti ekki óeðlilegt að 16 ára aldurinn yrði kosningaaldur.

Hvað mælir í sjálfu sér gegn því? Hvorki bernska né fáfræði. Það eru mjög svo þroskaðir og upplýstir einstaklingar á þessum aldri í nútímasamfélaginu, orðið fullorðið fólk að miklu leyti þó svo að þeir flokkist sem börn upp að 18 ára aldri. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að taka upp til alvarlegrar skoðunar jafnframt þessum umræðum öllum um stjórnarskrárbreytingar, lýðræðismálin, kosningamálin — við ræddum hér í síðustu viku merkilega tillögu til stjórnarskrárbreytinga um mörg brýn atriði eins og jöfnun atkvæðisréttar, beint lýðræði og margt, margt annað — hvort við ættum að lækka kosningaaldurinn úr 18 ára í 16. Það væri mjög skemmtilegt ef t.d. ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna og önnur samtök sem ungmenni skipa tækju upp virka umræðu, lýðræðislega umræðu um einmitt þetta mál, um kosti og galla þess að lækka kosningaaldurinn úr 18 ára í 16. Hvað mælir sérstaklega á móti því? væri hægt að spyrja. Sjálfsagt geta menn tínt ýmislegt til en um leið er mjög margt sem styður það.

Ég mundi vilja umræðu hérna á næstunni sem leiddi þetta til lykta. Þetta er mál sem væri þá hægt að taka til umræðu í þinginu á þessu kjörtímabili, a.m.k. væri það af hinu góða að umræða færi fram. En það er annað mál og seinni tíma mál.

En þessa breytingu á stjórnarskipunarlögum, að breyta kosningaaldrinum og kjörgenginu þannig að miðað sé við almanaksár en ekki fæðingardag, styð ég eindregið og heils hugar og vona að hún fái jákvæða meðferð í þinginu eins og flutningsmenn ítreka hér. Ég vonast til að frumvarpið fái ítarlega og vandaða meðferð í þinginu þannig að hægt sé að afgreiða þessa sanngirnisbreytingu á yfirstandandi þingi og byrja á því að draga línuna alltaf á sama stað, draga hana við almanaksárið en ekki við fæðingardag einstaklinganna.