131. löggjafarþing — 85. fundur.
samkeppnislög, 1. umræða.
stjfrv., 590. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 883.

[14:27]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum sem snúa að skipulagi þeirra stofnana sem sjá um framkvæmd samkeppnisreglna og neytendamála. Hér er um að ræða frumvarp til samkeppnislaga sem er 590. mál þingsins á þskj. 883 og frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins sem er 591. mál þingsins á þskj. 884.

Í þessum tveimur frumvörpum eru gerðar tillögur að breytingum á skipulagi þeirra stofnana sem sjá um framkvæmd samkeppnisreglna og neytendamála, en það varð niðurstaða nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis að nauðsynlegt væri að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði. Taldi nefndin að þetta yrði best gert með því að gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari og veita meira fjármagn til þerra með því að þau verkefni sem lúta að óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins yrðu ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.

Hæstv. forseti. Ég mun fyrst fjalla um frumvarp til samkeppnislaga og því næst um frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Frumvarp til samkeppnislaga sem er 590. mál þingsins á þskj. 883 var samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis en breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þó ekki að öllu leyti í samræmi við tillögur nefndarinnar. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar tveggja reglugerða Evrópusambandsins, þ.e. annars vegar er um að ræða reglugerð nr. 1/2003, um framkvæmd samkeppnisreglna, og hins vegar samrunareglugerð nr. 139/2004, um eftirlit með samfylkingum.

Í frumvarpinu eru ekki gerðar tillögur um heildarendurskoðun samkeppnislaga. Breytingarnar sem lagðar eru til snerta flest ákvæði samkeppnislaga auk þess sem lagt er til að þrír kaflar laganna verði felldir brott og settir í sérstök lög. Því var talið eðlilegt að leggja fram frumvarp til nýrra laga í stað þess að leggja til breytingar við gildandi lög.

Segja má að frumvarp til samkeppnislaga sé þríþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skipulagi samkeppnisyfirvalda sem miða að því að einfalda stjórnsýslu á sviði samkeppnismála. Nú eru liðin 11 ár frá gildistöku samkeppnislaga og hefur það sýnt sig að samkeppnisyfirvöld geta ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum. Því er nauðsynlegt að gera breytingar á starfsemi og skipulagi þeirra annars vegar með því að að færa verkefni frá samkeppnisyfirvöldum og hins vegar með því að breyta skipulagi og þar með verklagi samkeppnisyfirvalda.

Tillögur um breytingar sem lúta að skipulagi og stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda miða að því að einfalda stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála. Nú annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði sem samkeppnislögin taka til. Gegnir samkeppnisráð lykilhlutverki í stjórnsýslu samkeppnismála, en það er aðalúrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustigi. Samkeppnisstofnun undirbýr mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og ráðgjafarnefndir þess og annast dagleg störf ráðsins. Ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sæta kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þykir þetta fyrirkomulag óþarflega flókið.

Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, en henni er ætlað að taka við þeim verkefnum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs er snúa að samkeppnismálum. Þá er lagt til að samkeppnisráð verði lagt niður en að Samkeppniseftirlitinu verði skipuð þriggja manna stjórn sem að nokkru leyti er ætlað að yfirtaka þau verkefni er nú heyra undir samkeppnisráð. Stjórninni er ætlað að móta áherslur í starfi Samkeppniseftirlitsins og fylgjast með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Þá er lagt til að áður en stofnunin tekur meiri háttar ákvarðanir skuli þær bornar undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.

Þar sem sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins gagnvart viðskiptaráðherra er mikilvægt er lagt til að forstjóri þess verði ráðinn af stjórn stofnunarinnar og að hann beri ábyrgð gagnvart henni.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að lögfestar verði heimildir samkeppnisyfirvöldum til handa til þess að krefjast þess að fyrirtæki sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga breyti skipulagi sínu. Er þetta lagt til í samræmi við niðurstöðu meiri hluta nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Ákvæði gildandi samkeppnislaga eru ekki talin veita samkeppnisyfirvöldum nægilega skýrar heimildir til að krefjast skipulagsbreytinga en mikilvægt þykir að í samkeppnislögum sé skýr heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að krefjast þess að fyrirtæki breyti skipulagi sínu. Tillagan er í samræmi við breytingar sem nýlega voru gerðar á samkeppnisreglum Evrópusambandsins, sbr. reglugerð nr. 1/2003, og norskum samkeppnislögum og í samræmi við heimildir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur að því er varðar brot á 53. og 54. gr. EES-samningsins. Sambærilegar heimildir er einnig að finna í fleiri löndum, m.a. Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum, auk þess sem fyrir liggja tillögur um slíka löggjöf í Þýskalandi. Þá er tillagan einnig í samræmi við þær heimildir sem Samkeppnisstofnun hefur nú þegar skv. 14. gr. samkeppnislaga og hefur iðulega beitt til að krefjast skipulagsbreytinga hjá opinberum stofnunum sem stunda samkeppnisrekstur.

Lagt er til að Samkeppniseftirlitið geti beitt úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd. Þó er gert ráð fyrir að einungis verði heimilt að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef fullreynt þykir að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila en úrræði til breytingar á skipulagi. Jafnframt þessari breytingu er lagt til að c-liður 1. mgr. núgildandi 17. gr. samkeppnislaga falli brott, en þar er kveðið á um að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar á tveimur reglugerðum Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Í fyrsta lagi er um að ræða reglugerð nr. 1/2003, um framkvæmd samkeppnisreglna, sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans. Í öðru lagi er um að ræða breytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar reglugerðar nr. 139/2004, um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerðina). Innleiðing gerðanna hefur í för með sér efnislegar breytingar á bókun 4 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem nauðsynlegt er talið að lögfesta. Breytingarnar sem lagðar eru til vegna innleiðingar þessara gerða snúa einungis að ákvæðum í VII. kafla frumvarpsins, um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl., samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Frumvarp vegna innleiðingar reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1/2003 var lagt fram á 130. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og hafa ákvæði þess frumvarps verið felld inn í það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu með nokkrum breytingum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um frumvarp til samkeppnislaga. Miðað við það sem hér hefur komið fram, hæstv. forseti, þá skilst mér að einhver misskilningur hafi orðið í sambandi við hvaða frumvörp óskað var eftir að yrðu rædd saman og hvaða frumvarp yrði rætt sérstaklega. Það er því kannski rétt að ég láti hér staðar numið og taki þá framsögu þess máls sem ég ætlaði nú að mæla fyrir með frumvarpi um Neytendastofu sem ég mun mæla fyrir á eftir.

Ég vil að síðustu segja að í því frumvarpi sem ég hef nú mælt fyrir eru gerðar tillögur að breytingum á skipulagi þeirrar stofnunar sem sér um framkvæmd samkeppnisreglna og verði það óbreytt að lögum mun það hafa í för með sér öflugra eftirlit með samkeppnishömlum á markaði og gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari en nú er. Fjárframlög til samkeppniseftirlits munu aukast um 60 millj. kr. og hægt verður að fjölga sérfræðingum stofnunarinnar um sjö, þ.e. úr tíu í sautján.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en ég mælist til þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[14:36]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hlutverk stjórnar væri m.a. að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Það væri ágætt að fá nánari skýringu á því vegna þess að stjórnin er einmitt skipuð af ráðherranum sjálfum og það væri því fróðlegt að fá upplýst hvernig hún sjái það fyrir sér að stjórnin auki sjálfstæði stofnunarinnar. Mér er það ekki fyllilega ljóst. Einnig er það í ósamræmi að skipa sérstaka stjórn vegna þess að þróunin hefur verið sú að hætta með ákveðnar stjórnir yfir ríkisstofnunum. Hvers vegna er þessi stofnun tekin út úr og skipuð sérstök stjórn yfir hana? Það væri mjög fróðlegt að fá að heyra nánar um það atriði.



[14:37]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram að þetta stjórnskipulag er í samræmi við skipulag Fjármálaeftirlitsins og það þykir hafa reynst mjög vel þar.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni mun ráðherra skipa þriggja manna stjórn og stjórnin mun ráða forstjóra. Það verður sem sagt ekki eins og er í dag að forstjóri heyri beint undir ráðherra. Það er ekki samband þarna á milli sem skiptir miklu máli. Lagt er til að það sé hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins að móta áherslur í starfi stofnunarinnar og fylgjast með starfsemi og rekstri hennar.

Einnig er lagt til að áður en Samkeppniseftirlitið tekur meiri háttar ákvarðanir skuli þær bornar undir stjórn. Með því er ætlunin að tryggja enn frekar að meðalhófs sé gætt í öllum aðgerðum stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórn Samkeppniseftirlitsins móti á svipaðan hátt eigin reglur um störf sín og samskipti við stofnunina, forstjóra og starfsmenn hennar, og er hvað varðar Fjármálaeftirlitið og skilgreini þannig sjálf nánar hvers konar ákvarðanir skuli bera undir stjórn. Ekki er kveðið nákvæmlega á um það í lagatextanum.



[14:39]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Menn breyta ekki eingöngu til þess að breyta heldur hlýtur eitthvað að hafa verið að skipulaginu eins og það var. Ég tel að hæstv. ráðherra sé einmitt að fella þann dóm að ekki hafi verið gætt meðalhófs, það sé í raun gefið hér í skyn með orðunum. Mér finnst í rauninni tímabært að hæstv. ráðherra tali hreint út hvað það er nákvæmlega og hvaða ákvarðanir það eru sem bera þurfi undir ákveðna stjórn. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég átta mig alls ekki á því að með þessu sé verið að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar, sérstaklega í ljósi þess að ráðherra skipar sjálf stjórnarmennina. Það er í rauninni fáheyrt að bera slíka vitleysu á borð fyrir fólk og almenning í landinu. Auðvitað trúir þessu enginn maður. Það er bara algjör della í hæstv. ráðherra að halda þessu fram. Það sjá allir í gegnum þetta.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti einmitt að taka þetta ákvæði til endurskoðunar eða þá að tala hreint út um hlutina og segja nákvæmlega frá því hvað var að í fyrra skipulagi stofnunarinnar.



[14:40]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú erfitt að rökræða við hv. þingmann þegar hann talar með þeim hætti sem hann gerir hér. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til með þessu frumvarpi býður upp á einfaldari stjórnsýslu á sviði samkeppnismála (Gripið fram í.) því núverandi fyrirkomulag þykir óþarflega flókið og tímafrekt.

Af því að hv. þingmaður kallaði hér fram í og sagði að verið væri að bæta við nefnd, þá er það svo að í dag er starfandi samkeppnisráð sem vill svo til að viðskiptaráðherra skipar, viðskiptaráðherra skipar samkeppnisráð í dag. Hér er hins vegar verið að tala um stjórn í staðinn fyrir ráðið og stjórnin ræður forstjórann. Það er alveg með endemum ef hv. þingmaður getur ekki tekið undir að það auki sjálfstæði stofnunarinnar þegar forstjórinn heyrir ekki beint undir ráðherra heldur undir stjórnina. (SigurjÞ: Og þarf að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir …)

Það er kannski ekki gott að vera hér með tveggja manna tal, hæstv. forseti, ég held að hv. þingmaður fái tækifæri til að koma upp aftur ef hann sér ástæðu til. En það kemur mér ekkert á óvart að þessi málflutningur skuli vera hafður uppi hér vegna þess að hv. þingmaður hefur eflaust leitað lengi að því sem hann gæti helst fundið að þessu máli og þarna ber hann niður og er ekkert frekar um það segja. Ég hef sannfæringu fyrir því að það sem lagt er til í þessu frumvarpi sé til mikilla bóta.



[14:43]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til nýrra samkeppnislaga sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir. Ég verð að segja að mér þótti óskaplega miður hve rýr ræða hæstv. ráðherra var og hve lítið hún reyndi að gera grein fyrir þeim breytingum sem ráðast á í og reyndi í engu að útskýra hvers vegna verið er að setja þessi nýju lög. Ef einhverjir ætla einhvern tíma í framtíðinni að reyna að nota þessa ræðu til skýringar á þeim reglum sem hugsanlega verða lögfestar þá verður hún til einskis nýt og það er afleitt í eins stóru máli og hér um ræðir að framsöguræður ráðherra séu af þeim toga sem við hlýddum hér á.

Almennt má rekja þessa lagabreytingu til mikillar umræðu í samfélaginu um vaxandi hringamyndun, ótta manna við að fáir sterkir aðilar væru að eignast hér flesta hluti eða eins og Morgunblaðið orðaði það stundum í baráttu sinni fyrir nýrri löggjöf, að það væru fáir sterkir aðilar að eignast Ísland. Það væri mikilvægt að setja ný lög sem tryggðu og kæmu í veg fyrir að slík þróun ætti sér stað. Um þetta varð mikil umræða, margar blaðagreinar birtust, m.a. eftir hæstv. þáverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, og hæstv. viðskiptaráðherra fjallaði um málið víða í samfélaginu.

Þá var ákveðið að setja á fót nefnd sem hefur gengið undir nafninu hringormanefndin og átti hún að skila tillögum til að ná þessu markmiði. Nefndin skilaði tillögum á síðasta ári og fannst mönnum ýmislegt um þær, ýmist að þær yrðu til bóta eða ekki. Því verður að segjast eins og er að þetta frumvarp hlýtur að vera mikið áfall fyrir þá sem hér töluðu lengi um nauðsyn þess að setja ný lög á samkeppnissviði með það að markmiði að koma í veg fyrir hringamyndun, óeðlileg eignatengsl í samfélaginu og markaðsráðandi stöðu. Lagt var upp með þau markmið og slík lög áttu að tryggja virka samkeppni í samfélaginu.

Þegar frumvarpið er skoðað, virðulegi forseti, verður fyrst á vegi manna að horfa á það hvernig eftirlitsstofnuninni sjálfri er skipt upp. Ég tel í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við þá hugmynd að skipta stofnuninni upp eins og fram kom hjá svokallaðri hringormanefnd og er stuðst við í þessu tilviki en það sem stingur í augu hvað það varðar er vitaskuld þessi sérstæða stjórn sem er sett yfir stofnunina, og að því er virðist henni til höfuðs. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, og einnig kemur fram í greinargerð, hefur stjórnin það hlutverk að tryggja meðalhóf í ákvörðunum og starfsemi stofnunarinnar. Þá hljóta menn að spyrja: Hvar hefur stofnunin farið út fyrir mörkin? Hvar var þetta óhóf sem kallaði á það að setja þriggja manna herráð, pólitískt skipað herráð, yfir þessa stjórn? Hvernig leyfist hæstv. ráðherra að segja í umræðunni að þetta sé til þess fallið að efla sjálfstæði stofnunarinnar? Í mörgum ræðum á hinu háa Alþingi og víðar í samfélaginu hefur hæstv. viðskiptaráðherra sagt: Ég skipti mér ekki af og beiti mér ekki gagnvart þessum eftirlitsstofnunum. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. ráðherra hafi gert það, enda hefur Samkeppnisstofnun oft og tíðum, og oftast, unnið mjög vel.

Hvar var þetta ósjálfstæði sem verið er að tryggja með því að skipa þriggja manna nefnd til að hafa eftirlit með því að það sé meðalhóf í ákvörðunum stofnunarinnar? Hvað er verið að fara? Í þessu ferli frá því að fyrstu drög voru kynnt er búið að taka út ákvæði þess efnis að þeir sem sitja í stjórninni skuli uppfylla ákveðin hæfisskilyrði sem þó eru í lögum um Fjármálaeftirlitið. Vel má vera að hér sé eitt af þessum gömlu trixum sem felast í að menn búa til vandamál til að geta leyst þau. Menn setja svo vitlausar hugmyndir fram að fólk sem hefur í raun og veru mikilla hagsmuna að gæta yrði sett í slíka stjórn. Ef lögin fara óbreytt í gegn gæti hæstv. ráðherra skipað forstjóra í tryggingafélögum, olíufélögum og matvörukeðjum sem stjórnarmenn í þessa stjórn til að gæta meðalhófs og tryggja að ekki verði farið út fyrir meðalhóf í starfsemi stofnunarinnar. Hvers konar dómadagsdella er þetta, virðulegi forseti? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé aðeins ein af þessum æfingum þar sem sett er fram hugmyndafræði sem allir vita að gengur ekki upp og svo eftir einhvern tíma þegar menn eru búnir að búa til vandamálið kemur lausnin og hún er að setja þetta inn aftur, þ.e. gera ákveðin hæfisskilyrði á sama hátt og er í Fjármálaeftirlitinu og þá séu menn búnir að leysa slík vandamál. Ég lít svo á að hér sé slíkur bjálfagangur á ferðinni að það sé á mörkum þess að hægt sé að taka málið alvarlega.

Það sem er jákvætt við þetta, og verður að taka fram strax, er að samkvæmt frumvarpinu á að bæta 60 millj. kr. í samkeppniseftirlit. Því ber að fagna. Því ber að fagna að loksins á að setja meira fé í stofnunina eftir að hún hefur verið svelt í öll þessi ár. Einkanlega hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið fremstur í flokki. Það er vissulega jákvætt að bæta eigi 60 millj. í stofnunina en þess ber þó að gæta að í þarfagreiningu hefur komið fram að a.m.k. 100 millj. þurfi, aðeins til að sinna þeim erindum sem stofnuninni berast. Það þarf að bæta við 100 millj. miðað við núverandi fjárlög til að geta sinnt þeim verkefnum sem stofnuninni berast þannig að þrátt fyrir þessar 60 millj. sem hér á að bæta við er ekki gert ráð fyrir því að stofnuninni takist að sinna þeim verkefnum sem henni eru ætluð. Engu að síður ber að fagna því að setja eigi meiri fjármuni í stofnunina.

Hið alvarlega í þessu máli er hins vegar að eftir alla þá umræðu sem fram hefur farið, alla þessa umræðu um hringamyndanir, alla umræðuna um að koma í veg fyrir að fáir sterkir aðilar kaupi upp Ísland, alla umræðuna sem var tilefni þess að menn eru að breyta þessum lögum, er niðurstaðan sú að hér liggur á borðinu frumvarp til laga sem, verði það óbreytt að lögum, er veikara en sú löggjöf sem nú er í gildi. Hringormanefnd vann skýrslu vegna þess að menn óttuðust þessa samþjöppun og hringamyndun en nú sjáum við fram á veikari löggjöf. Skýringin er í sjálfu sér mjög einföld. Fella á út heimild samkeppnisyfirvalda um að í tilvikum þar sem sú staða er uppi að eiginleg samkeppni getur ekki átt sér stað hefur stofnunin ekki lengur þau tæki á höndum sem hún hefur við núverandi fyrirkomulag. Það er athyglisvert vegna þess að í umræðunni hafa stjórnarliðar oft og tíðum talað mikið og farið mikinn um til að mynda þá samþjöppun sem átt hefur sér stað á matvörumarkaði.

Við skulum bara taka það dæmi. Samkvæmt gildandi lögum gæti Samkeppnisstofnun gripið inn í og skipt upp eða krafist skipulagsbreytinga á Baugi sem hefur oftast verið nefndur til sögunnar. Samkvæmt núgildandi lögum væri það hægt. Samkvæmt núgildandi lögum væri hægt að krefjast uppskiptingar á Baugi. Sennilega væri það sama hægt með Símann verði hann seldur með a.m.k. 70% markaðshlutdeild og eins getur þetta átt við um lyfjafyrirtæki. Eftir setningu þessara laga er það ekki hægt nema þau verði staðin að brotum. Við skulum gefa okkur lítið dæmi.

Það að ráða 70% af matvörumarkaðnum er alveg gríðarlega öflug staða og gefur mönnum óheyrilegt vald. Þeir sem vilja komast inn í búðir, inn á markað þar sem einstakur aðili hefur slíka yfirburðastöðu, þurfa að gefa gríðarlegan afslátt á vörum sínum til að komst inn í þessar verslanir. Það er afsláttur sem hann verður síðan að sækja annars staðar og hver maður sér í hendi sér að aldrei getur þróast eðlileg, skynsamleg og virk samkeppni við slíkar aðstæður. Það getur einfaldlega aldrei gerst vegna þess að það þarf að sækja þennan afslátt eða tap á þessum viðskiptum til einhverra annarra. Hér er samt ekki um að ræða nein brot. Hér er um að ræða ákveðna kröfu til viðskiptavina birgja fyrir því að þeir komist að. Svona vinnubrögð gera það þó að verkum að samkeppni getur aldrei þróast. Samkeppni fær ekki þróast á eðlilegan hátt við þessar aðstæður. Það tæki er tekið út. (Gripið fram í: Hefur því verið beitt?) Því hefur ekki verið beitt en hér er verið að taka það út. Því verður a.m.k. ekki beitt ef það verður tekið út.

Mig langar, virðulegi forseti, til að vekja sérstaka athygli á einu vegna þess að það er eins og hér hafi verið samið út atriði eftir atriði án samhengis við önnur atriði. Ég held að full ástæða sé til að líta á 8. gr. d í þessu frumvarpi þar sem fjallað er um hlutverk samkeppniseftirlits. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja; skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni; stofnunin skal birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða …“

Með því að taka út það ákvæði sem ég vísaði til hefur stofnunin engin tæki til að grípa til aðgerða, engin einustu tæki. Þannig er þá búið um hnútana að það frumvarp sem við hér fjöllum um, þær lagareglur, þau tæki sem á að setja og lögfesta í þessu samfélagi sem eiga að vera umgjörð og leikreglur um íslenskt viðskiptalíf, er veikara en það sem er við lýði. Það vantaði alveg skýringar í framsögu hæstv. ráðherra á því hvers vegna hæstv. ráðherra velur að fara þessa leið. Hvers vegna velur hæstv. ráðherra að veikja lögin frá því sem nú er? Það var lagt af stað með allt aðra hugmynd og ég verð að segja að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir, þ.e. verði hún óbreytt að lögum, hlýtur að verða mikið áfall fyrir þá sem börðust hatrammri baráttu fyrir því að hér yrðu sett lög sem gætu tekið á hringamyndun, samþjöppun og eignatengslum í íslensku samfélagi.

Ég vildi nefna eitt vegna frammíkalls hv. þm. Péturs Blöndals áðan. Ekki er hægt að líta fram hjá því ákvæði sem ég vitnaði til að horft væri til í ákvörðun 21/1998, um breiðband Símans. Það er ekki rétt að aldrei hafi verið horft til þessa ákvæðis og í þeim úrskurði kemur einmitt fram að samkeppnisyfirvöld hafa talið sér heimilt að skipta upp fyrirtækjum hingað til. Það sem nú er verið að setja í lögin sem menn jafnvel kunna að segja að sé eitthvað nýtt er aðeins hluti sem kemur inn vegna EES hvort sem er þannig að það hefur enga breytingu í för með sér, enga. Það er engin viðbót við þau tæki sem samkeppnisyfirvöld hafa.

Það sem hér verður einnig að vekja athygli á samkvæmt því frumvarpi sem verið er að ræða er ætlunin að skipa nýjan forstjóra yfir þessari nýju stofnun, og það gerir þessi stjórn. Þessari stjórn sem ég nefndi áðan er ætlað að gera það og hún gæti verið þess vegna skipuð forstjórum tryggingafélaga, olíufélaga og ráðandi keðja á matvörumarkaði vegna þess, virðulegi forseti, (Viðskrh.: Þetta er fyndið.) að hæstv. ráðherra tók út úr drögum að frumvarpinu ákvæði þess efnis að gera ákveðin hæfisskilyrði. Hæstv. ráðherra kallar fram í að þetta sé óskaplega fyndið. Kannski er það trixið að búa fyrst til vandamál og leysa það svo og það þykir hæstv. ráðherra óskaplega fyndið. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni sem talaði hér áðan, það er algerlega ótækt að hæstv. ráðherra flytji þá framsöguræðu sem hún flutti um þetta tiltekna málefni, enda gerir það að verkum að hún verður algerlega ónothæf þegar kemur til þess að reyna að skýra þetta ákvæði.

Hæstv. ráðherra verður einnig að skýra það af hverju hún hefur ákveðið að fara þá leið að fylgja ekki tillögum hinnar svokölluðu hringormanefndar, sem ég hef leyft mér að kalla svo, um að heimilt verði að gera húsleit á heimilum og landsvæðum vegna þessara brota, þ.e. af hverju þessu er ekki fylgt eftir. Þar var um að ræða hreinar og klárar tillögur þessarar nefndar. Reyndar átti hið sama við um að þessi svokallaða 17. gr. eins og hún nú er í samkeppnislögum yrði áfram inni. Það hélst nú reyndar í hendur. Hæstv. ráðherra verður að skýra þetta.

Þá er einnig búið að taka út frá fyrstu drögum þessa frumvarps ákvæði sem ég tel vera mjög mikilvægt, þess efnis að samkeppnisyfirvöld geti einnig áfrýjað málum til dómstóla. Það er mjög mikilvægt þegar yfirvöld álykta sem svo að áfrýjunarnefnd hafi komist að niðurstöðu sem samræmist ekki hagsmunum almennings að geta látið á það reyna fyrir dómstólum, þ.e. ekki bara þeir sem eru taldir hafa gerst brotlegir við samkeppnislög, ekki bara þeir heldur einnig þeir sem hafa það hlutverk í íslensku samfélagi að gæta hagsmuna almennings, að gæta hagsmuna neytenda, að þeir geti farið með þessi mál fyrir dómstóla. Ég tel það, virðulegi forseti, afar mikilvægt og þar sem ég veit að þetta mál kemur til efnahags- og viðskiptanefndar þá mun ég tala fyrir því þar í nefndinni.

Svona rétt í lokin af því ég sé að tími minn er að verða útrunninn vil ég segja að samkeppnislög eru þannig í eðli sínu að þau hefta ákveðið athafnafrelsi í því skyni að reyna að tryggja samkeppni. Þetta verður því alltaf barátta á milli þess að hafa óheft athafnafrelsi og þess að reyna að tryggja samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur og almenning í landinu. Þess vegna er mjög athyglisvert í þessu samhengi að þeir einustu sem fagna þessu frumvarpi séu Samtök atvinnulífsins, þ.e. fulltrúar þeirra sem Samkeppniseftirlitinu er ætlað að hafa eftirlit með. Það, virðulegi forseti, segir nokkuð (Forseti hringir.) um efni þess frumvarps sem við hér ræðum og munum ræða áfram í dag.



[15:03]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess að við upphaf þessarar umræðu var gert ráð fyrir að 10. og 11. dagskrármálið yrðu rædd saman. Það voru mistök sem leiðréttast hér með. Við ræðum því nú 10. mál á dagskrá, samkeppnislög, en munum að lokinni þeirri umræðu taka saman til umræðu 11. og 12. dagskrármálið sem lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og Neytendastofu.



[15:04]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki brugðist við öllum þeim atriðum sem komu fram hjá hv. þingmanni sem vissulega voru mörg.

Í fyrsta lagi vil ég segja í sambandi við af hverju tekið var út ákvæðið um að stjórnarmenn megi ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi, að þetta ákvæði þótti of takmarkandi því í raun má segja að þá væru bara embættismenn og fræðimenn hæfir til að sitja í stjórn. — Tíminn er svona óskaplega stuttur, já.

Síðan í sambandi við 17. gr. og c-liðinn þá verður þetta ákvæði ekki í samræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins ef það yrði haft óbreytt í lögunum. Þess vegna er það tekið út. Í raun má segja að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA og norsk samkeppnisyfirvöld hafa — nú, þetta var bara of stutt, hæstv. forseti. Ég stoppa hér.



[15:05]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað fyrra atriðið varðar og hæfisskilyrðið með setu í stjórn þá vil ég upplýsa og minna hæstv. ráðherra á að þau skilyrði sem voru í upphaflegu drögunum eru í lögunum um Fjármálaeftirlitið. Þau eru skilyrði þar til setu í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Sú röksemdafærsla að þetta sé of takmarkandi eða að mjög fáir geti tekið sæti í stjórn er því vitaskuld alveg fráleit.

Í öðru lagi vildi ég nefna það af því hér kom til umræðu c-liður 17. gr. sem hér á að taka út að þetta er eina tækið til þess að bregðast við hringamyndun í viðskiptalífinu, einasta tækið til þess að bregðast við nema í tilvikum þar sem um afbrot er að ræða. Þetta er einasta tækið sem er til staðar. Nú á að taka það út. Það gengur þvert á þá hugmyndafræði sem lagt var upp með þegar farið var af stað í þessa vinnu. Því er ekki nema von, virðulegi forseti, að þeir sem eru (Forseti hringir.) að fara yfir þetta núna botni hvorki upp né niður í ferðalagi hæstv. viðskiptaráðherra.



[15:06]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að Fjármálaeftirlitið var nefnt þá ætla ég að lesa upp 6. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn skulu búa yfir þekkingu á fjármagnsmarkaði og hafa haldgóða menntun sem nýtist á þessu sviði. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust.“

Ég er að segja þetta hérna vegna þess að við erum að fara mjög svipaða leið hvað varðar Samkeppniseftirlitið og hvað varðar Fjármálaeftirlitið.

Svo er það annað sem ég var byrjuð á að tala um áðan þegar ég komst ekki lengra. Ef við hefðum haldið þessu ákvæði í 16. gr. þá hefði Samkeppniseftirlitið víðtækari heimildir til að krefjast skipulagsbreytinga en t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og norsk samkeppnisyfirvöld, þar sem heimild til að krefjast skipulagsbreytinga yrði ekki takmörkuð við að fyrirtækið hefði brotið gegn lögum. Þetta finnst mér mjög mikilvægt atriði.



[15:07]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður vitaskuld mjög athyglisvert að sjá hvernig þingið mun bregðast við þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir um að fella niður þennan svokallaða c-lið 17. gr. vegna þess að þetta ákvæði varð til í þinginu. Þetta ákvæði varð til í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta ákvæði varð til vegna þess að menn vildu bregðast við hringamyndun. Það er ástæðan. Það eru rökin fyrir því að þetta ákvæði varð til, kemur hér inn. Þetta ákvæði er búið að vera í lögum frá því á árinu 1993. Samkeppnislögum höfum við breytt a.m.k. í tvígang og aldrei hefur þetta þvælst fyrir.

Virðulegi forseti. Það vantar því öll rök til þess að hæstv. ráðherra geti talist trúverðug í því að tala nú um það í ljósi þeirra markmiða sem lagt var upp með við setningu nýrra samkeppnislaga að taka út núna einasta ákvæðið sem til er í íslenskri löggjöf til þess að bregðast við hringamyndun.



[15:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Burt séð frá orðalagi eins og því að hér sé bjálfagangur í gangi o.s.frv. þá vil ég gjarnan koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um að stjórnin væri sett stofnuninni til höfuðs. Núna er það þannig að ráðherra skipar forstjórann og getur rekið hann og forstjórinn á allt sitt lífsviðurværi undir því að halda sínu starfi. Miðað við það fyrirkomulag sem hér er fyrirhugað þá er hins vegar þriggja manna stjórn sem er skipuð til fjögurra ára að sjálfsögðu miklu óháðari ráðherranum en forstjórinn núna því að tveir af þessum þremur þurfa að hlíta vilja ráðherrans eftir þessa breytingu. Ég tel því að þetta sé miklu óháðara fyrirkomulag en í dag.

Svo vil ég minna á að varla líður sá mánuður eða vika að hæstv. stjórnarandstaða hvetji ekki ráðherra til þess að hlutast til um málefni eftirlitsstofnana.



[15:10]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var dálítið skrítin ræða. Hæstv. ráðherra sagði í sínu máli og það kemur einnig fram í greinargerðinni að þessi stjórn er sett á laggirnar til þess að tryggja að stofnunin gæti ákveðins meðalhófs í sinni starfsemi. Með öðrum orðum er stjórnin sett stofnuninni til höfuðs til þess að tryggja að hún gæti meðalhófs í starfsemi sinni.

Þá vil ég einnig minna á af því að hæstv. ráðherra hefur verið óspar á yfirlýsingar þess efnis að hæstv. ráðherra skipti sér ekki af eftirlitsstofnunum (Viðskrh.: Sem er rétt.) og hefur ekki gert þannig ég skil ekki, virðulegi forseti, hvernig stofnunin getur orðið sjálfstæðari við það að hæstv. ráðherra skipi þriggja manna herráð, stjórn, til þess að gæta þess að stofnunin gæti meðalhófs í störfum sínum. (Viðskrh.: Gæti ekki komið annar ráðherra? Það er mögulegt.)



[15:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að nefna það að það getur komið verri ráðherra sem ekki er eins góður og núverandi ráðherra við þessar stofnanir og (Gripið fram í.) beitir sér ekki gagnvart stofnununum. Það getur nefnilega gerst.

Ég vil líka koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um að löggjöfin væri veikari vegna þess að nú mætti ekki skipta upp fyrirtækjum nema sekt væri sönnuð. Ég spurði að því í frammíkalli hvort það hefði nokkurn tímann gerst? Nei, það hefur ekki gerst. Af hverju hefur það ekki gerst? Vegna þess að að margra mati brýtur það eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem við höfum öll svarið eið að. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Ef skipta á upp fyrirtæki án sektar sem veldur eigandanum tjóni, þá þarf því að bæta honum tjónið. Ég er hræddur um að þá brygði nú ýmsum.



[15:12]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það ræðu minni að verkefni Samkeppnisstofnunar eru þess eðlis að spurningar um eignarrétt koma alltaf upp. Þær koma alltaf upp. Starfsemi svona stofnunar er þess eðlis að hún jafnvel dregur úr athafnafrelsi manna með það að markmiði að tryggja samkeppni og hagsmuni neytenda. (Gripið fram í.) Þetta eru hagsmunir sem togast á enda fagna núna Samtök atvinnulífsins því sem aldrei fyrr að fá yfir sig svona veika löggjöf.

Þetta, þessi eignarréttarspurning, kemur alltaf upp. Hv. þingmaður veit það mætavel eins og sá er hér stendur að þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni. Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir breytingum á eignarréttarákvæðinu. Það verður áfram við lýði. Það verður áfram að virða stjórnarskrána. Ég bara næ því ekki alveg að ákvæði sem hefur verið í lögum frá 1993, hefur reyndar komið til skoðunar í eitt skipti, sé (Forseti hringir.) allt í uppnámi út af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er náttúrlega bara ... (Gripið fram í.)



[15:13]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að gera athugasemd við nokkur atriði sem komu fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hv. þingmaður nefndi að með þeirri breytingu sem gerð væri á lögunum með þessu frumvarpi væri verið að veikja núgildandi samkeppnislög, þ.e. með því að fella niður c-lið núgildandi 17. gr. laganna, og hann taldi að samkvæmt þeirri heimild núgildandi laga væri samkeppnisyfirvöldum heimilt að brjóta upp og skipta upp fyrirtækjum. Hann tók sem dæmi matvörumarkaðinn í því sambandi. Ég vil benda hv. þingmanni á að þetta er nú ekki alveg rétt vegna þess að árið 2001 kom út skýrsla Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn. Í þeirri skýrslu kom skýrt fram að Samkeppnisstofnun taldi sig einmitt ekki á grundvelli þessa ákvæðis heimilt að skipta upp fyrirtækjum á matvörumarkaði vegna eignasamþjöppunar sem þar hafði átt sér stað.

Ég hlýt í framhaldinu að spyrja hv. þingmann: Er hann almennt þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé eðlilegt (Forseti hringir.) að veita samkeppnisyfirvöldum heimildir til þess að skipta upp fyrirtækjum án þess að þau hafi brotið lög?



[15:15]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísaði til þess í máli mínu að þegar samkeppnisráð fjallaði um breiðband Landssímans í ákvörðun nr. 21/1998 tók það þetta til skoðunar og taldi sér þetta heimilt. Miðað við þá tilvísun sem hv. þingmaður var með áðan er því alveg ljóst að Samkeppnisstofnun hefur að einhverju leyti breytt um kúrs og ég á nú eftir að sjá það. Hins vegar hefur þetta verið sá skilningur sem ég hef a.m.k. haft á lögunum.

Ég nefndi áðan að vegna markaðsráðandi stöðu, yfirburðarstöðu, geti sú staða komið upp að ekki sé mögulegt að koma á virkri samkeppni. Við þær aðstæður tel ég koma vel til skoðunar að skipta upp fyrirtæki ef markmiðið er að tryggja samkeppni. Ef markmiðið er að tryggja almannahagsmuni segi ég já, ég tel það koma vel til álita.



[15:16]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka og minni á að hv. þingmaður tók matvörumarkaðinn sérstaklega sem dæmi í ræðu sinni um að á grundvelli núgildandi laga, c-liðar 17. gr. samkeppnislaga, væri samkeppnisyfirvöldum heimilt að grípa til aðgerða og skipta upp fyrirtækjum vegna aðstæðna sem kynnu að skerða samkeppni. Svo er ekki og kemur fram í skýrslunni frá árinu 2001 sem samkeppnisyfirvöld gerðu hvað varðar matvörumarkaðinn.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að það er alveg rétt að í svokölluðu breiðbandsmáli sem hann vísaði til var vikið að c-lið 17. gr. núgildandi laga. Þetta var sjónarmið sem haft var uppi í málinu en það reyndi ekki á það í því máli. Ég bið því hv. þingmann um að kynna sér þann úrskurð betur en hann hefur gert.

Yfirlýsing hv. þingmanns var athyglisverð um að hann telji eðlilegt að samkeppnisyfirvöld hafi heimildir til að skipta upp fyrirtækjum án þess að þau teljist hafa gerst brotleg við lög. Þetta er tímamótayfirlýsing og dálítið sérstök, að hv. þingmaður sé tilbúinn til að beita refsivendinum með svo rosalega afgerandi hætti án þess að um lögbrot sé að ræða.



[15:17]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hvaða leið hv. þingmaður velur til að ræða það mál sem hér liggur fyrir. Ég vil beina athygli hv. þingmanns að niðurstöðu svokallaðrar hringormanefndar. Hverjar eru þær? Að leggja til að ákvæðið sé inni vegna þess að þær aðstæður kunni að skapast að það hafi skaðleg áhrif á samkeppni og við þær aðstæður breyti þær skipulagi sínu. Þetta er niðurstaða hringormanefndar sem hæstv. viðskiptaráðherra skipaði. Sú niðurstaða er í samræmi við að núverandi ákvæði 17. gr. sé áfram inni. Ég er sammála niðurstöðu hringormanefndar í málinu. (Gripið fram í.)



[15:18]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í málflutningi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem ég tel rétt að gera athugasemdir við. Vegna síðustu ummæla hans er rétt að taka fram að það er ótvírætt í niðurstöðu nefndar viðskiptaráðherra um viðskiptalífið sem vísað hefur verið til, að forsenda fyrir því að hægt sé að beita skipulagsbreytingum er að um brot hafi verið að ræða. Við getum í nefndarstörfum okkar í efnahags- og viðskiptanefnd farið í gegnum það, en þetta er alveg klárt.

Varðandi samanburð milli Fjármálaeftirlits og samkeppnisyfirvalda varðandi hæfisskilyrði er rétt að geta þess að í lögum um Fjármálaeftirlitið er getið mjög sérhæfðra atriða sem lúta sérstaklega að fjármálamarkaðnum þegar hæfisskilyrði eru tilgreind, þannig að það getur engan veginn verið algerlega sambærilegt. Það er nauðsynlegt að það komi fram að í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.“

Þetta er það sem máli skiptir og er í samræmi við almennar reglur í stjórnsýslurétti.



[15:20]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega tveimur síðustu hv. þingmönnum sem komu í pontu því nú er að koma fram kjarni umræðunnar. Nú er að koma fram hverjir eru helstu riddararnir í því að reyna að veikja samkeppnislögin. Nú er að koma fram hvernig baráttan hefur farið fram í þessum efnum, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn hefur knúið Framsóknarflokkinn til þessarar niðurstöðu, enda hefur Framsóknarflokkurinn lagst algerlega á flótta og dregið út úr upphaflegu drögunum flest það sem máli skiptir. Niðurstaðan er því sú að það er ekkert nýtt í frumvarpinu, engin ný heimild, ekkert nýtt tæki. Það er bara eitt tæki sem er tekið brott. Niðurstaðan er því sú að verið er að veikja samkeppnislögin.

Virðulegi forseti. Þó hv. þingmaður berji sér á brjóst yfir því að málsaðilar skuli ekki koma beint að þessu finnst mér það ekki vera athugasemd sem dýpkar þá umræðu sem hér fer fram.



[15:21]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það dýpki ekki umræðuna að standa í einkunnagjöf og sleggjudómum eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert í umræðunni, en ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að við viljum nálgast málið út frá ákveðnum sjónarmiðum um jafnvægi eins og hann nefndi í ræðu sinni. Við vitum að samkeppnislögin hafa þann tilgang að finna ákveðið jafnvægi milli fullkomins viðskiptafrelsis þar sem engar reglur ríkja og þess hlutverks síns að vera með ákveðnar umferðarreglur til að tryggja að þeir aðilar sem starfa á markaði rekist ekki á, heldur að samkeppnin og starfsemin geti gengið nokkuð vel fyrir sig.

Ég vil lýsa mig algerlega ósammála þeim sjónarmiðum hv. þingmanns að heimild til að skipta upp fyrirtækjum hafi verið fyrir hendi í núgildandi lögum. Við vitum að þetta atriði hefur verið umdeilt meðal lögfræðinga. Það er ótvírætt að ákvæðinu hefur aldrei verið beitt með þessum hætti og einmitt í ljósi þess sem nefnd viðskiptaráðherra tók þetta upp og gerði að tillögu sinni að skipulagsbreytingarákvæðið yrði tekið upp í lögin. (Forseti hringir.) Ef um gildandi rétt væri að ræða hefði málið ekki verið nálgast með þessum hætti.



[15:22]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður koma að kjarna málsins í ræðu sinni. Það er vitaskuld affarasælast ef hér ríkir ákveðið jafnvægi, þ.e. að markaðurinn sé að einhverju leyti reglusettur en hefti ekki athafnafrelsið svo að til tjóns sé. Við erum að leita að þessu jafnvægi. Það skilar okkur mestu. Það skilar mestum arði fyrir samfélagið.

Ég er einmitt að benda á í umræðunni að það ríkir ekki jafnvægi, enda fagna engir frumvarpinu nema Samtök atvinnulífsins. Þau eru þau einu sem fagna frumvarpinu vegna þess að þau telja að þá verði athafnafrelsi þeirra ekki eins þröngur stakkur skorinn og í gildandi löggjöf. Þess vegna lýsa þau yfir sérstakri ánægju og Samtök atvinnulífsins hafa í gegnum tíðina unnið markvisst og hatrammt að því (Forseti hringir.) að reyna að veikja lögin og nú hafa þau náð fram því sem þau hafa stefnt að.



[15:24]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að sú breyting sem á að gera á samkeppnislögunum hefur verið mikið hitamál á milli stjórnarflokkanna. Frumvarpið hefur nefnilega tekið verulegum breytingum frá þeim drögum að frumvarpi til samkeppnislaga sem hæstv. viðskiptaráðherra kynnti á heimasíðu ráðuneytisins í október 2004. Allar þær breytingar sem sjálfstæðismenn hafa náð í gegn hafa orðið til þess að veikja og draga mjög úr sjálfstæði stofnunarinnar, verði frumvarpið að lögum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að hann skildi ekki hvers vegna hæstv. ráðherra væri að fara þessa leið. Hæstv. ráðherra hefur bara ekkert val í þessu efni, hún er knúin til þess af íhaldinu að draga verulega úr þeim ákvæðum sem voru í upphaflegu frumvarpsdrögunum og það er alvarlegt þegar verið er að skerða sjálfstæði þessarar mikilvægu stofnunar í þjóðfélaginu.

Hvað hefur raunverulega breyst í umhverfinu frá því í október þegar hæstv. ráðherra lagði fram drög sín að frumvarpinu og kynnti tillögur sínar og þar til nú t.d. í byrjun mars? Jú, Samkeppnisstofnun skilaði niðurstöðu sinni í rannsókninni í olíumálinu þar sem olíufélögin voru sökuð um að ávinningur þeirra af verðsamráði væri 6,5 milljarðar kr. Það er það sem gerðist í millitíðinni. Maður spyr: Var það ástæða til að veikja Samkeppnisstofnun og samkeppnislög í ljósi þeirrar niðurstöðu? Nei, auðvitað ekki. Þvert á móti sannaði Samkeppnisstofnun þar gildi sitt, en af einhverjum ástæðum telur íhaldið greinilega ástæðu til að veikja stofnunina og kippa þeim stoðum sem forstöðumenn hennar höfðu til að halda uppi árangursríku og virku eftirliti.

Ef við förum yfir þær breytingar sem gerðar voru í millitíðinni eftir að þingflokkur sjálfstæðismanna hafði haft frumvarpið til umfjöllunar frá því í nóvember og þar til nýlega, hafði það í gíslingu í tvo mánuði, er ástæða til að fara yfir hvernig frumvarpið var veikt í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna. Mér sýnist nefnilega að þær breytingar sem á að gera á Samkeppnisstofnun þýði ekkert annað en að hægt verði að vera með pólitísk inngrip gegn hagsmunum neytenda þegar gerðir stofnunarinnar ganga gegn hagsmunum einhverra gæðinga stjórnarflokkanna, ef tillögurnar sem veikja stofnunina verða að veruleika.

Þegar verið er að veikja stofnun sem hefur staðið sig t.d. mjög vasklega í olíumálinu minnir það mann á þær aðgerðir sem stjórnarflokkarnir fóru í undir forustu hæstv. þáverandi forsætisráðherra þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður af því að hún var ekki nógu þæg við stjórnarflokkana og setti ýmislegt fram að því er varðar stöðu efnahagsmála og fleira sem var þeim ekki að skapi. Hér hefur Samkeppnisstofnun og forustumenn hennar farið í inngrip á markaðinn sem var nauðsynlegt og það hefur greinilega ekki verið stjórnarflokkunum að skapi.

Ef við förum yfir hverju var breytt t.d. í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna er það í fyrsta lagi ákvæðið sem nefndin sem fór yfir málið fyrir ráðherra og skilaði skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi lagði til, að heimiluð yrði húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja. Þar vísaði hún í reglur Evrópusambandsins og líka t.d. í norsku samkeppnislögin sem höfð voru til hliðsjónar við gerð frumvarpsins. Húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja er heimiluð í norskum lögum. Af því hefur verið góð reynsla og m.a. oft fundist samráðsgögn á heimilum forstjóra sem voru ekki vistuð í fyrirtækinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hún geti komist hjá því — ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé að hlusta — að setja inn ákvæðin með tilliti til reglugerðar Evrópusambandsins sem beinlínis kveður á um húsleitarheimildir á heimilum stjórnenda ef litið er til reglugerðarinnar sem fram kemur í fylgiskjölum með frumvarpinu.

Síðan það ákvæði sem hér hefur verið rætt um að fella brott ákvæði c-liðar í 17. gr. samkeppnislaga, sem er alveg með ólíkindum, um að Samkeppnisstofnun geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi nauðsynlegt að setja þessi ákvæði inn á árinu 1993.

Ákvæðin hafa vissulega mikil varnaðaráhrif og ég veit ekki betur en að túlkun samkeppnisráðs hingað til á ákvæði 17. gr. sé þess eðlis að það feli í sér að hægt sé að skipta upp fyrirtækjum. Af því að nú er verið að tala um að það séu einhver ný ákvæði og ný úrræði sem Samkeppnisstofnun sé að fá þá hefur verið litið á þetta þannig af hálfu samkeppnisráðs, að því ég best veit, að hún hafi þessa heimild þó ekki hafi verið gripið til hennar. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Þetta er túlkun mín á málinu og hv. þingmaður getur komið fram með sjónarmið sín á eftir.

Hæfisskilyrðið vekur kannski hvað mesta tortryggni og kann að vera það alvarlegasta í málinu. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að hér gæti verið um pólitískt möndl á milli stjórnarflokkanna að ræða. Í drögum ráðherra frá því í október tel ég að hafi verið inni ákvæði sem er í núgildandi lögum og kveður á um að stjórnarmenn megi ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Það er í lögunum núna og það er óskiljanlegt að það ákvæði sé tekið út. Maður veltir því fyrir sér hvað liggi þar að baki.

Skipan þessarar þriggja manna stjórnar sem þarna á að skipa er líkt við skipan stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í þeim lögum eru ákveðin ákvæði varðandi hæfisskilyrði stjórnarmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn, forstjóri og starfsmenn mega ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar eftirlitsskyldra aðila.“

Þar er það beinlínis tekið fram.

Mér finnast rökin sem hæstv. ráðherra setur fram fyrir því að fella þessi ákvæði brott óskiljanleg. Þetta býður náttúrlega upp á að valdir verði inn í þessa stjórn, sem ráðherrann á að skipa, ýmsa aðila sem hafa hagsmuna að gæta og eru í atvinnustarfsemi. Ég tel mjög brýnt að í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar verði þetta ákvæði tekið upp og sett skilyrði um að ekki megi skipa þá í þessa stjórn sem hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Við það bætist að stjórnin fengi vald sem veikti þau úrræði sem forstöðumenn stofnunarinnar hafa, að bera þyrfti allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa stjórn. Þar með vekur þetta enn þá meiri tortryggni en ella.

Allt er þetta sett fram undir því yfirskyni og vísað til þess að Samkeppnisstofnun og stjórn hennar eigi faglega að vera sjálfstæð gagnvart viðskiptaráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur stjórn stofnunarinnar ekki verið sjálfstæð gagnvart ráðherra? Hefur ráðherra verið með einhver afskipti af Samkeppnisstofnun með þeim hætti að ástæða sé til að breyta um eins og hér er verið að gera? Það er ástæða til þess að spyrja um þetta þegar litið er til þeirra raka sem sett eru fram um að ráðherra eigi að skipa stjórn þessa. Ég tel rökin sem tínd eru til um þetta í frumvarpinu afar furðuleg, virðulegi forseti. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þó að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn samkeppnismála er honum ekki ætlað að hafa bein afskipti af stjórn Samkeppniseftirlitsins og er því talið nauðsynlegt að sérstök stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar og hafi eftirlit með starfseminni.“

Þarna er beinlínis, samkvæmt orðanna hljóðan, ýjað að því að hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft pólitísk afskipti af stofnuninni og þess vegna sé ástæða til að breyta því og skipa sérstaka stjórn sem fari með yfirstjórn stofnunarinnar.

Það er hnykkt á þessu á bls. 23 þar sem fjallað er um 6. gr.:

„Í ljósi þess að Samkeppniseftirlitinu er ætlað að vera eini úrskurðaraðilinn á neðra stjórnsýslustigi er enn mikilvægara en áður að Samkeppniseftirlitið sé faglega sjálfstætt gagnvart viðskiptaráðherra.“

Það er eins og hæstv. viðskiptaráðherra hafi bara verið með puttana í starfi Samkeppnisstofnunar, gefið henni bein fyrirmæli og þess vegna sé ástæða til að setja sérstaka stjórn yfir stofnunina.

Síðan er mjög sérstakt að stjórn stofnunarinnar skipi forstjórann, þessi þriggja manna stjórn sem ekki er ólíklegt og er a.m.k. hægt að skipa pólitískum fulltrúum flokkanna. Að forstjórinn verði skipaður af stjórn stofnunarinnar og sé í beinu ráðningarsambandi við stjórn stofnunarinnar er afar óeðlilegt. Mér sýnist að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi mikið verk fyrir höndum við að lagfæra þetta frumvarp.

Maður spyr líka, virðulegi forseti: Hvers vegna er verið að breyta ákvæðum samkeppnislaga? Hvaða forsendur gefur hæstv. ráðherra fyrir þessari breytingu? Voru breytingarnar byggðar á faglegu mati, t.d. stjórnsýsluúttekt? Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert. Fór fram rannsókn eða úttekt sem gaf til kynna að æskilegt væri að breyta öllu skipulagi stofnunarinnar eins og hér er verið að gera til að auka þá skilvirkni stofnunarinnar og gera henni kleift að halda uppi öflugu samkeppniseftirliti? Engin slík stjórnsýsluúttekt eða rannsókn liggur hér að baki.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var t.d. haft samráð við samkeppnisráð, forstöðumenn stofnunarinnar, um þessar breytingar? Hvað höfðu þeir til málanna að leggja? Ég trúi ekki, þegar farið er út í svo mikilvægar breytingar, að ekki sé leitað til þeirra sem gerst til þekkja til að vita a.m.k. hvað þeir hafa til málanna að leggja. Mig grunar að ekki hafi verið leitað til þeirra aðila.

Það sem háð hefur þessari stofnun er ekki skipulagsleysi, virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst peningaleysi og mannekla sem hefur háð þessari stofnun, ekki að breyta þurfi öllu skipulaginu í þeim eina tilgangi að veikja stofnunina, draga úr þrótti hennar og sjálfstæði hennar til að sinna verkefnum sínum.

Ég get t.d. vitnað í forstjóra stofnunarinnar í síðustu ársskýrslu. Þar fer hann mjög ítarlega yfir það hvernig fjársveltið hefur háð stofnuninni. Það hefur komið fram að mál þurfa stundum að bíða í 12–14 mánuði áður en hægt er að taka þau fyrir. Stofnunin þarf að forgangsraða mjög og málin þurfa því oft að bíða æðilengi. Við þekkjum það hvernig tryggingamarkaðurinn var til skoðunar í nokkur ár hjá stofnuninni og allur kraftur hennar fór í að rannsaka tryggingamarkaðinn. Hún hafði því ekki getu til að sinna öðrum málum og við vitum hvernig það fór, að sökin var fyrnd í þessu efni eins og við munum.

Ég minni á að ég átti orðaskipti við ráðherra fyrr í vetur um fjárþörf Samkeppnisstofnunar í tengslum við frumvarp sem ég flutti um að fram færi þarfa- og kostnaðargreining á því hve mikið fjármagn stofnunin þyrfti til að geta sinnt verkefnum sínum eðlilega. Þá lýsti hæstv. ráðherra því yfir að slík þarfa- og kostnaðargreining hefði farið fram. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að sú þarfagreining er ekki sem fylgiskjal með þessu frumvarpi til samkeppnislaga? Það væri mjög mikilvægt að við fengjum í hendur þessa þarfagreiningu sem hefur verið gerð, að mér skilst í samráði við stofnunina. Það hefur komið fram að 100 millj. kr. vanti til að stofnunin geti með eðlilegum hætti sinnt sínu hlutverki en hér á færa henni 60 millj. kr. Ef ég skil rétt þessa þarfagreiningu, sem við höfum lauslega farið yfir í efnahags- og viðskiptanefnd, þarf að vera þarna 21 sérfræðingur á samkeppnissviði, en þeir eru 11 í dag. Viðbótin sem ráðherrann ætlar að skila inn í stofnunina nægir því ekki til að hægt sé að fjölga starfsmönnum upp í 21 á samkeppnissviði eins og þarf að gera.

Hvers vegna fór ráðherrann út í þessar breytingar, hvert var meginmarkmið hennar og hvaða leiðir ætlar hún að fara að því markmiði? Það er fróðlegt að skoða það. Hæstv. ráðherra segir í greinargerð með frumvarpinu að einfalda þurfi stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála, fyrirkomulagið sé þunglamalegt og flókið og ekki hafi verið að finna sérstakan rökstuðning fyrir skipulaginu í lögskýringargögnum við setningu samkeppnislaga. Er eitthvað verið að einfalda skipulagið, virðulegi forseti? Nei, það verður ekki einfaldara. Í stað samkeppnisráðs kemur bara þessi þriggja manna stjórn, sem mjög líklegt er að verði pólitískt skipuð, a.m.k. hafa stjórnarflokkarnir öll tök á því.

Auðvitað er hægt að taka undir það að eðlilegt sé að færa frá Samkeppnisstofnun eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, gagnsæi markaðarins o.s.frv. og að neytendaverndin verði annars staðar, eins og ráðherrann ætlar sér, en við ræðum um það undir öðrum dagskrárlið hér á eftir. Hins vegar er líka verið að veikja verulega neytendaverndina vegna þess að stofnun embættis talsmanns neytenda verður afar veikt. Það embætti verður sömu annmörkum háð, eins það á að vera gagnvart forstöðumönnum Samkeppnisstofnunar. Talsmann neytenda vantar allt sjálfstæði til að hann geti skilað því verki sem ætlast er til af talsmönnum neytenda.

Ljóst er að það er langt í frá að hægt sé að sjá að verið sé að styrkja eftirlit með samkeppni eða að tryggja aukna neytendavernd með tillögum ráðherra. Þetta er allt saman yfirvarp hjá hæstv. ráðherra. Þar þarf ekki annað en að auka fjármagn og mannskap. Þetta er yfirvarp í þeim auðsæja tilgangi að breyta skipulaginu, m.a. til að auðvelda stjórnarflokkunum að hafa taumhald á stofnuninni, t.d. með því að hafa meira um það að segja að koma þeim fyrir í stjórninni sem þeim eru þóknanlegir.

Orðalagið er ákaflega furðulegt, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði að umræðuefni, að stjórnin væri sett inn til að gætt væri meðalhófs. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi gagnrýnt það alvarlega að forstöðumenn hafi ekki gætt meðalhófs í ákvörðunum sínum. Maður spyr hvort þau ákvæði sem nú á að taka upp, t.d. varðandi skipan stjórnarinnar, séu sett til höfuðs núverandi forstjóra og hvort verið sé að búa í haginn til að reka núverandi forstjóra.

Maður getur tekið fyrir ýmis ákvæði í þessu frumvarpi, t.d. í 6. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þá er lagt til að stjórn Samkeppniseftirlitsins ákveði starfskjör forstjóra hennar og er því litið svo á að forstjóri sé ekki embættismaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Síðan er kveðið á um að það sé verið að leggja niður Samkeppnisstofnun. Maður spyr hvort hæstv. ráðherra ætli að skáka í því skjóli að verið sé að leggja niður Samkeppnisstofnun og þar með starf núverandi forstjóra og henni sé því greiður vegur að ráða nýjan forstjóra eftir þessa breytingu.

Ég vil í lokin, af því að ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kemur í skýrslu þingnefndar sem gerði skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Nefndin leggur ekki til að settar verði neinar frekari skorður við því með hvaða hætti fyrirtæki geti átt samstarf eða hvernig eignatengsl þeirra eða samstarf eigenda megi vera háttað umfram það sem þegar er í lögunum, eða þær sem lagðar eru til í 2. kafla og snúa að yfirtökuskyldu.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra og vona hún hlýði á mál mitt, virðulegi forseti, hvort hún telji, sem hefur nokkuð verið rætt ... — Það er voðalega erfitt að ræða við ráðherrann þegar hún er alltaf að ræða við aðstoðarmenn sína í hliðarsölum. — Ég vil spyrja ráðherrann um það sem ég vísaði til og hvort hún telji ekki ástæðu til að setja ákvæði sem komi í veg fyrir að t.d. fjármálafyrirtæki geti til langframa staðið í fjárfestingum. Það er kannski eðlilegt að þau geti það um tíma til að koma á umbreytingum á fyrirtækjum sem þau bjarga frá gjaldþroti og þess háttar. En er ráðherra ekki reiðubúin að skoða hvort setja eigi þak á þann tíma sem t.d. fjármálastofnanir geti verið virkar í rekstri fyrirtækja? Ég tel að það þurfi að skoða. Ég spyr um álit hæstv. ráðherra á því í tengslum við það álit nefndarinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi að engin ástæða sé til að setja frekari ákvæði sem lúta að eignum og eignatengslum fyrirtækja.



[15:44]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer hér mikinn, talar m.a. um hæfisskilyrðin og lætur að því liggja að verið sé að draga úr. Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn skulu hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og menntun sem nýtist á þessu sviði.“

Hvernig skyldi þetta vera í dag? Með leyfi forseta stendur í 6. gr.:

„Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins [þá er verið að tala um samkeppnisráð] og skal þess gætt að þeir hafi ekki beinna og verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi sem lögin taka til.“

Í dag eru sem sagt bara gerðar hæfiskröfur til formanns og varaformanns samkeppnisráðs. Þegar hv. þingmaður talar eins og það sé bara augljóst að í stjórn samkeppniseftirlitsins verði skipaðir einhverjir flokksgæðingar, það er þannig sem talað er, held ég að hv. þingmaður ætti aðeins að velta því fyrir sér hverjir sitja í samkeppnisráði í dag. Það er ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en að þar hafi verið raðað inn miklum flokkshestum stjórnarflokkanna.

Hv. þingmaður talar um að húsleitarákvæðið hafi verið tekið út. Það er rétt. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ef um slíkt yrði að ræða skyldi það vera undir umsjón lögreglu. Ekki fannst leið til að útfæra þessa tillögu nefndarinnar en þannig er að nefnd á vegum forsætisráðherra er að skoða samskipti lögreglu, samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins í refsiréttarlegu tilliti og ekki er útilokað að ákvæði um þetta efni geti komið inn síðar. Ég vil líka geta þess að ESA má gera húsleit í heimahúsum, sbr. 22. gr. frumvarpsins, en það er ekki tilskipun frá Evrópusambandinu sem kallar á það að ákvæði það sem var í nefndarálitinu verði sett í lög.



[15:47]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hæstv. ráðherra smám saman vera að viðurkenna að verið sé að veikja þessi samkeppnislög. Það er búið að taka út þetta ákvæði um húsleitina sem er eins og ég nefndi áðan t.d. mjög mikilvægt í norskum lögum. Þetta frumvarp tekur nokkurt mið af norskum lögum sem hefur iðulega verið beitt og oft orðið til þess að samráðsgögn hafa fundist hjá forstjórum norskra fyrirtækja. Ég tel mjög brýnt að slíkt ákvæði sé hér til staðar. Hérna er það tekið út og gert þá í ... Var það ekki, virðulegi forseti, gert í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna? Ég spyr af því að hæstv. ráðherra réttlætir þetta með því að nú sé nefnd starfandi á vegum forsætisráðherra, held ég að hún hafi nefnt, sem er að skoða samskipti lögreglu og samkeppnisyfirvalda, þá væntanlega til þess að hægt sé að koma með skýrari verkaskiptingu milli þessara aðila. Menn þekkja það frá því í olíusamráðinu að verkaskipting milli þessara stofnana eru mjög óljós.

Ég spyr: Hvenær á þetta að liggja fyrir? Hvenær mun niðurstaða liggja fyrir? Verður það t.d. áður en efnahags- og viðskiptanefnd afgreiðir málið frá sér? Það er mikilvægt að við fáum inn í þessa umræðu hvernig eigi að haga þessum málum.

Ég vil svo sannarlega ekki gefa upp alla von um að hægt verði að ná einhverju samkomulagi um það í efnahags- og viðskiptanefnd að koma aftur inn með þetta húsleitarákvæði.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi er náttúrlega alveg ljóst að í núverandi samkeppnislögum er ákvæði sem bannar þeim sem hafa hagsmuna að gæta af atvinnurekstri að sitja í samkeppnisráði, þ.e. formanni og varaformanni. Það er verið að taka þetta ákvæði út. Það eru ekki nokkur rök, virðulegi forseti, sem kalla á það brottfall. Ég mun reyna það sem ég get í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar að ná aftur inn þessu ákvæði sem er í núgildandi samkeppnislögum.



[15:49]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að segja var það að gerðar eru hæfiskröfur til stjórnarmanna í samkeppniseftirlitinu samkvæmt frumvarpinu en hins vegar eru bara gerðar slíkar kröfur til formanns og varaformanns í samkeppnisráði eins og lögin eru í dag. Ekki eru nokkrar kröfur til annarra stjórnarmanna. Hv. þingmaður kaus að tala ekki mikið um það hverjir sætu í samkeppnisráði, en hún um það.

Það er fjarstæðukennt af hálfu þingmannsins að tala um að verið sé að veikja samkeppnislögin eins og hún kemur inn á í sambandi við meðför í Sjálfstæðisflokknum. Það á ekki við rök að styðjast en ég fer ekki yfir það frekar núna.

Það sem mér finnst aðalatriðið í sambandi við þetta mál er að vegna ástandsins í viðskiptalífinu skipa ég nefnd sem skilar niðurstöðum, skilar góðri skýrslu. Í framhaldi af því eru samin þau frumvörp sem hér eru komin fram. Það er augljóst að hv. þingmaður er að leita að einhverju, nál í heystakki, til þess að finna eitthvað til að setja út á.

(Forseti (SP): Forseti beinir því til hv. þingmanna að þeir virði ræðutíma. Hann er styttri í seinni ræðum þar sem það eru þrír hv. þingmenn sem óska eftir að veita andsvar.)



[15:50]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra verður að gera sér ljóst og skoða í samhengi núverandi samkeppnisráð og hlutverk þess og síðan hlutverk þessarar þriggja manna stjórnar sem á að koma í stað samkeppnisráðs. Allar meiri háttar ákvarðanir þarf að bera undir þessa þriggja manna stjórn. Ég spyr: Hefði ekki þurft að bera undir þessa stjórn t.d. þegar Samkeppnisstofnun ákvað að fara í húsleit hjá olíufélögunum? Maður getur spurt sig hvort slík heimild hefði fengist hjá þessari þriggja manna stjórn eða ekki. Samkeppnisráð vissi t.d. ekkert um að farið var í þessa húsleit eftir því sem ég best veit. Á þessu verður veruleg breyting þegar bera þarf allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina.

Þetta verður þriggja manna stjórn, væntanlega formaður, varaformaður og síðan þriðji aðili. Ég minni á að t.d. fór sá sem sat lengi í samkeppnisráði, Brynjólfur Sigurðsson, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, úr samkeppnisráði þegar hann fékk forstjórastarfið, (Forseti hringir.) m.a. út af þessu ákvæði sem er verið að fella brott.



[15:52]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nokkur atriði vöktu athygli mína í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Eitt var í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni, fullyrðingar um að það sem samkeppnisyfirvöld skorti fyrst og fremst séu peningar og mannskapur. Hv. þingmaður lýsti því að stofnuninni hefði verið haldið í miklu fjársvelti og vildi kenna íhaldinu um að það hefði staðið fyrir því að halda stofnuninni í fjársvelti og veikja hana með því.

Ég bendi hv. þingmanni á það að frá 1998–2004 hafa fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukist um 87%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 29%. Þetta eru verulegir fjármunir sem hafa runnið aukalega til Samkeppnisstofnunar á þessu tímabili. Nú, samkvæmt nýjustu fjárlögum, eru fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukin enn fremur, um ríflega 10 millj. til viðbótar. Fjárframlög til Samkeppnisstofnunar á þessu tímabili hafa aukist um tæplega 100 millj.

Það vekur hins vegar athygli að á sama tíma, og það kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers, hefur starfsmannafjöldi Samkeppnisstofnunar ekki aukist nema um 0,1 stöðugildi. Þetta eru þær aðstæður sem hafa átt sér stað. Þetta er allt fjársveltið sem hér er til umræðu. Ég blæs á allt tal um fjársvelti stofnunarinnar.

Það vekur líka athygli út af fyrir sig að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir telur slæmt að samkeppniseftirlit og Samkeppnisstofnun skuli ekki fá heimildir til að gera rannsóknir á heimilum stjórnenda fyrirtækja. Mér finnst mjög athyglisvert að hv. þingmanni þyki slæmt (Forseti hringir.) að eftirlitsaðilar fái ekki heimildir til að rannsaka svefnherbergi og stofur saklauss fólks. Ég minni á að það eru líka konur og börn (Forseti hringir.) sem búa á þessum heimilum og óeðlilegt að veita eftirlitsaðilum heimildir til að rannsaka slíkan vettvang.



[15:54]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Mér kemur ekkert á óvart þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson geri athugasemdir við það og finnist allt í lagi að Samkeppnisstofnun búi við það fjársvelti sem ég fullyrði að hún hafi búið við á síðustu árum. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi sagt í tímariti laganema á árinu 2001 að hann vildi ekki hafa nein samkeppnislög og hann vildi engin viðurlög við samkeppnisbrotum. Það kemur manni ekkert á óvart að ef hann vill ekki hafa neina Samkeppnisstofnun vilji hann ekki setja neina peninga í hana.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur fjármagn til Samkeppnisstofnunar frá 1999–2003 aukist um 30%. Ef við erum að tala yfir lengra tímabil sem hv. þingmaður nefnir gleymir hann að geta þess hvað allt viðskiptaumhverfið hefur breyst á þessum tíma, hvað verkefnin hafa verið aukin hjá Samkeppnisstofnun sem auðvitað kallar á það að hún fái meira fjármagn og mannafla til að geta sinnt hlutverkum sínum. Þó að við lítum bara á fjármálamarkaðinn sem slíkan hefur hann stækkað svo að umfangi að það hlýtur að kalla á það að Samkeppnisstofnun þurfi meira fjármagn til verkefna sinna. Ég hvet hv. þingmann til að lesa síðustu ársskýrslu Samkeppnisstofnunar þar sem forstjórinn fer mjög skilmerkilega yfir það hvað umfang stofnunarinnar hefur aukist á umliðnum árum. Það setur hann fram sem rökstuðning fyrir því að meira fjármagn þurfi inn í stofnunina.

Ég vek athygli á því þegar hv. þingmaður talar um að ekki þurfi meiri peninga inn í þessa stofnun, hún hafi nóga peninga, að ég kallaði eftir því við hæstv. viðskiptaráðherra að fá fram hjá henni þá þarfagreiningu sem hefur verið gerð. Það væri gott að fá hana inn í þessa umræðu þannig að menn töluðu um þessi mál út frá réttum forsendum. Sú þarfagreining var gerð í samráði við stofnunina.



[15:57]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er eitthvað verið að leggja mér orð í munn. Ég sagði það aldrei að ég teldi að Samkeppnisstofnun þyrfti ekki á meiri peningum að halda. Það er reyndar þannig að mér dettur ekki í hug nein ríkisstofnun eða neinn ríkisforstjóri sem telur sig ekki þurfa á meiri fjármunum að halda til að stunda starfsemi sína. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti bent mér á stofnun sem ekki teldi sig þurfa meiri peninga.

Ég var ekkert að ræða þetta, hv. þingmaður. Ég nefndi það að Samkeppnisstofnun hefur ekki verið haldið í fjársvelti eins og hv. þingmaður telur. Hv. þingmaður hefur í rauninni verið eins og rispuð plata, ekki bara í þessari umræðu heldur í nokkur missiri. Hún talar endalaust um að Samkeppnisstofnun hafi verið haldið í fjársvelti. Ég nefni það að í þessu meinta fjársvelti á árunum 1998 til ársins 2004 hafa fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukist um 87% (JóhS: En verð…?) á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29%. (JóhS: En verð…?) Þetta er nú allt fjársveltið. Ég vildi bara gera (Forseti hringir.) athugasemd við það vegna málflutnings hv. þingmanns.



[15:58]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil aftur hvetja hv. þingmann til að lesa þessa ársskýrslu Samkeppnisstofnunar, (SKK: Ég er búinn …) þá sér hann hvað umsvif stofnunarinnar hafa vaxið í ljósi stækkunar á öllu hagkerfinu, fjármálamarkaðnum og öllu því. Hv. þingmaður hefur heldur ekki fylgst með þeim skýrslum og úttektum sem hafa komið fram í þessu máli og svörum sem hafa komið við fyrirspurnum á þinginu. Það hefur komið fram, t.d. hjá viðskiptaráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn minni, að sumir sem leggja erindi sín inn til Samkeppnisstofnunar þurfa að bíða allt að 14 mánuðum eftir niðurstöðu. Verkefnin hlaðast svo upp hjá Samkeppnisstofnun að hún hefur ekki við að vinna úr þeim. Það segir t.d. sína sögu hve langan tíma málefni tryggingafélaganna tók.

Ég tók líka eftir því að hv. þingmaður svaraði því ekki — þá liggur bara fyrir að hann hefur sagt það, að vísu áður en hann varð þingmaður, nú veit ég ekki hvort hann hefur breytt um skoðun, að hann vilji ekki hafa nein samkeppnislög og engin viðurlög við samkeppnisbrotum. Það skýrir auðvitað sjónarmið hv. þingmanns í umræðunni.



[15:59]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. stjórnarandstæðingar tala oft um það að þingflokkar stjórnarsinna séu eins konar afgreiðslustofnanir fyrir hæstv. ríkisstjórn. Þegar svo Sjálfstæðisflokkurinn tekur sér góðan tíma til að skoða ákvæði í þessu frumvarpi sem við ræðum hér, sérstaklega ákvæðið um að skipta megi fyrirtækjum án þess að sekt liggi fyrir, er það kallað að hann hafi málið í gíslingu. Þetta er dálítið mótsagnakennt, frú forseti.

Gefum okkur þrjú fyrirtæki sem stunda harðvítuga samkeppni, tvö þeirra liggja í valnum og halda ekki áfram rekstri, hætta, en eitt þeirra heldur áfram í krafti góðrar stjórnunar og góðs reksturs. Það stendur eftir og breytir engu í verðlagningu eða þóknunum eða öðru slíku. Þá mætti, samkvæmt gildandi lögum, skipta því upp. Til hvers? Hvað ætla menn að gera ef verðfall verður á hlutabréfum í þessu félagi í kjölfarið? Hvað ætla menn að gera með eignarréttinn sem tryggður er í 72. gr. stjórnarskrárinnar? Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Það þarf sem sagt að bæta tjónið, frú forseti. Ég spyr: Til hvers á að kljúfa upp fyrirtæki sem misnotar ekki aðstöðu sína á neinn máta?

Varðandi hæfisskilyrði sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni vil ég benda á það að Fjármálaeftirlitið fylgist bara með litlum hluta markaðarins, Samkeppnisstofnun fjallar hins vegar um allan markaðinn, meira að segja Háskóla Íslands sem er í samkeppni við aðra skóla. Það er eiginlega enginn Íslendingur sem lengur mætti vera í stjórn.



[16:01]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig kannski ekkert við það að athuga að þingflokkar taki sér góðan tíma til að skoða stjórnarfrumvörp. Oft eru þau þess eðlis að þingmenn stjórnarflokkanna ættu að taka sér enn lengri tíma en þeir stundum gera. Það sem ég gagnrýni er að þegar þingflokkur sjálfstæðismanna hefur haft frumvarpið til skoðunar frá því í nóvember og þar til núna í mars kemur það út frá sjálfstæðisþingmönnum með þannig ákvæði að veikja verulega samkeppniseftirlitið og allt sjálfstæði stofnunarinnar. Það er það sem ég er að gagnrýna og við höfum margfarið yfir það í þessari umræðu, ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ég tel að það veiki stofnunina að fá ekki þá heimild sem nefnd hæstv. ráðherra lagði til um íslenskt viðskiptaumhverfi, húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja. Það ákvæði er í norskum lögum og ég tel afar mikilvægt að fá það inn.

Ég ítreka það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði varðandi stjórnarskrána. Það er ekki verið að breyta henni neitt með þessu. Meira að segja hefur samkeppnisráð túlkað ákvæði 17. gr. í þá veru að hægt sé að skipta upp fyrirtækjum þó að á það hafi ekki reynt, að túlkunin á þessu ákvæði sem er í 17. gr. núgildandi samkeppnislaga sé í þá veru að það sé hægt, þetta ákvæði sem nú á að fella brott um að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Þegar verið er að fella út þetta ákvæði sem hefur haft slík varnaðaráhrif er verulega verið að veikja stofnunina.

Það er alveg furðulegt að hv. þingmaður skuli hafa stutt það — ef hann hefur þá gert það í þingflokknum sem ég hef ekki hugmynd um — að verið sé að draga úr hæfisskilyrðum stjórnenda, sérstaklega þegar það á að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa stjórnendur þrjá. Það er verið að taka út þetta ákvæði sem segir að þeir megi ekki hafa hagsmuna að gæta af atvinnustarfsemi. (Forseti hringir.) Þetta er náttúrlega mjög eðlilegt ákvæði. Furðulegt ef hv. þingmaður hefur stutt það í þingflokki sínum.



[16:04]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom ekki inn á það hvort þá ætti að bæta fyrirtækjum það tjón sem þau yrðu fyrir ef þeim yrði skipt upp án þess að hafa unnið neitt til saka. Ég spyr að því aftur.

Varðandi stjórnina er það þannig í dag að forstjórinn heyrir beint undir ráðherra, á allt sitt undir því að ráðherra reki hann ekki. Hann er í beinu ráðningarsambandi við ráðherra, einn ráðherra sem ræður.

Hv. þingmaður talaði um að forstjórinn væri núna í beinu ráðningarsambandi við þriggja manna stjórn sem er kosin til fjögurra ára. Stjórninni verður ekki sagt upp. Ráðherra hefur ekki áhrif á hana. Hún situr þarna í fjögur ár og það er miklu sjálfstæðari rekstur sem kemur út úr því þegar tveir af þessum þremur þurfa að segja forstjóranum upp á meðan ráðherra getur einn gert það í dag. Ég held að stofnunin sé miklu sjálfstæðari eftir en áður.



[16:05]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega furðuleg röksemd, þessi síðasta. Hv. þingmaður setur það hér fram að miðað við þær breytingar sem búið er að gera í þingflokki sjálfstæðismanna á lögunum um Samkeppnisstofnun séu stjórnin og Samkeppnisstofnun miklu sjálfstæðari en áður. Er hv. þingmaður virkilega að ýja að því að ráðherrann hafi verið með einhverjar pólitískar íhlutanir í þessari stofnun? (Gripið fram í.) Það mætti ætla það af því að hérna er það beinlínis sagt, með leyfi forseta:

„Þó að viðskiptaráðherra fari með yfirstjórn samkeppnismála er honum ekki ætlað að hafa bein afskipti af stjórn Samkeppniseftirlitsins og er því talið nauðsynlegt að sérstök stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar …“

Ég veit ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi verið með neinar íhlutanir (Gripið fram í.) í sjálfstæði stofnunarinnar, þess vegna sé engin ástæða til að breyta skipulaginu (Gripið fram í: Spurðu forsætisráðherra.) út af því. Það er alvarlegt ef hv. þingmaður er að ýja að því að ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu eins og mér fannst hann vera að gera.



[16:06]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég tel mjög mikilvægt að samkeppnislög séu vel unnin og góð og samkeppniseftirlit eins gott og hugsast getur þótt ég verði að gera þá játningu hér í upphafi að ef hægt er tala um að menn séu samkeppnistrúar er ég ekki þeirrar trúar. Ég er eiginlega miklu fremur samvinnutrúar, svona eins og Framsóknarflokkurinn var einu sinni. Hann er náttúrlega löngu hættur því, enda allt í heiminum hverfult.

Það er óhætt að segja að við lifum við miklar breytingar. Það er allt breytilegt, og breytilegast af öllu eru áherslur og stefna ríkisstjórnarinnar. Við ræddum það t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun að á sínum tíma þegar hafist var handa um að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum var viðkvæðið jafnan það að nauðsynlegt væri að auðvelda stofnunum sem verið hefðu í ríkisrekstri að athafna sig á markaði, ráðast í fjárfestingar og þar fram eftir götunum í tengdum eða skyldum rekstri. Þegar þetta hefur síðan verið gert venda menn kvæði sínu í kross og nú þarf að búta allar þessar sömu stofnanir sundur til þess m.a. að standast samkeppnislög.

Eitt hefur náttúrlega ekki breyst hjá þessari ríkisstjórn, það er vilji hennar og ákafi að einkavæða og markaðsvæða þjónustu sem áður hafði verið á vegum hins opinbera. Í ljósi þess er mjög mikilvægt að hafa traust samkeppniseftirlit; annars vegar lögin og hins vegar þær stofnanir sem eiga að framfylgja því að lögunum sé fullnægt. Þegar einkavæðingarhrinan fór fyrir alvöru af stað í upphafi 10. áratugarins voru gerðar breytingar á þessu eftirlitskerfi. Verðlagsstofnun sem svo hét var lögð niður og til sögunnar kom Samkeppnisstofnun. Það mun hafa verið árið 1993.

Nú eru enn boðaðar breytingar með þessu frumvarpi og áform eru uppi um að kljúfa Samkeppnisstofnun niður, annars vegar til að sinna samkeppnissviði og hins vegar neytendasviði.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fella neina endanlega dóma um ágæti slíkra breytinga, hvorki með né á móti. Þetta eru hlutir sem við þurfum einfaldlega að taka til rækilegrar skoðunar. Ég tel mjög mikilvægt að þinginu verði gefið gott ráðrúm til slíkrar skoðunar. Það er mjög óheppilegt þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á stofnunum, og lögum ef því er að skipta, þegar vinnunni er hraðað um of. Við bíðum þess núna svo að dæmi sé tekið að inn í þingið komi frumvarp ríkisstjórnarinnar um ný útvarpslög. Þá skiptir öllu máli að mínu mati að þinginu verði skýrt frá því á fyrstu stigum að ekki komi til álita að keyra málið í gegn á þessu þingi, heldur gefist þinginu ráðrúm til að athuga það rækilega. Sama tel ég að eigi að gilda um þessi lög.

Þetta er í rauninni fyrsta áhersluatriði mitt um vinnubrögð við afgreiðslu þessara mála. Ég tel að við eigum ekki að fella neina endanlega dóma á þessu stigi, benda á það sem við teljum almennt til bóta, eða ókosti í frumvarpinu, og síðan þurfum við að fá mjög rækilega skoðun í nefndum þingsins áður en þær senda málið frá sér.

Örfá atriði vildi ég nefna en þó geta þess í tengslum við það sem ég hér sagði að málefni starfsmanna megum við ekki leiða hjá okkur. Það hefur stundum verið sagt að nauðsynlegt sé að hraða afgreiðslu laga af því tagi sem hér eru, sem varða breytingar á starfsumhverfi, vegna þess að nauðsynlegt sé að draga úr óvissu starfsmanna. Ég held hins vegar að það sé hægt að gera það með allt öðru móti, ræða við starfsmenn um það sem á döfinni er og síðan geta þeir mátað sig inn í þær breytingar sem hugsanlega verða uppi þegar þar að kemur. Þannig er þessu yfirleitt ekki háttað. Mönnum er stillt upp við vegg og síðan eru breytingarnar keyrðar í gegn. Ég tel það afar óheppilegt.

Varðandi stjórn þessarar stofnunar hef ég ákveðnar efasemdir um það sem hér er að gerast. Reyndar vil ég taka fram að mér finnst vera álitamál hvort stofnanir af þessu tagi eigi að heyra undir ráðherra eða ráðuneyti eða hvort fara eigi með þessar almennu eftirlitsstofnanir inn í annan farveg, t.d. að þær heyri undir Alþingi. Samkeppniseftirlitið á að lúta stjórn sem ráðherra skipar. Rækileg athygli hefur verið vakin á því hér við umræðurnar að þeim sem ráðherra skipar, þ.e. stjórnarmönnum, eru ekki sett af ráðherra nein skilyrði við skipan í stjórnina. Þannig væri eðlilegt að stjórnarmenn í Samkeppniseftirlitinu hefðu ekki neinna hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu.

Ég spyr: Getur það verið vegna þess að eftir 10 ára valdasetu Framsóknarflokksins sem skúffu í skrifborði Sjálfstæðisflokksins fyrirfinnist ekki lengur framsóknarmaður sem ekki á einhverra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu? Er það skýringin?

Mér finnst þetta vera mjög óeðlilegt fyrirkomulag og það hefur verið vakin athygli á því, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson gerðu það, að hér er verið að draga úr skilyrðum frá núverandi lögum. Samkeppnisráð, þ.e. formaður og varaformaður þess mega ekki eiga slík viðskiptatengsl en samkvæmt þessum lögum eru engin slík skilyrði sett varðandi stjórnarsetu.

Einu velti ég fyrir mér. Ef nauðsynlegt er að hafa þennan hátt á við stjórn Samkeppnisstofnunar, að setja forstjórann undir stjórn, hvers vegna er það ekki gert með Neytendastofu? Hvers vegna er forstjórinn þar skipaður beint af ráðherra? Þurfum við ekki að fá skýringar á þessu? (Gripið fram í: Minna batterí.) Minna batterí. Minni ábyrgð hugsanlega, eða hvað? Afdrifaríkari ákvarðanir sem kunna að verða teknar? Þar staldra ég aftur við nýju lögin.

Ég staldra þar aftur við nýju lögin vegna þess að stjórnin á í rauninni að taka ákvarðanir eða veita grænt ljós á allar meiri háttar rannsóknir sem Samkeppniseftirlitið ræðst í. Og viti menn, við slíkar ákvarðanir er sérstaklega tekið fram í greinargerð með þessum lögum að stjórnin skuli sjá til þess að meðalhófs sé gætt. Hvað þýðir það? Var meðalhófs gætt í rannsókn á olíufélögunum? Á tryggingafélögunum? Er með öðrum orðum verið að þrengja verksvið Samkeppnisstofnunar að þessu leyti?

Við þurfum að fá svör vegna þess að spurningarnar gerast áleitnar. Og áleitin spurning er sú að þessum lögum sé stefnt gegn þeim sem nú stýra för í Samkeppnisstofnun, að menn séu að losa sig við forstjórann og þá sem hafa stýrt Samkeppnisstofnun á undanförnum missirum og ráðist í verkefni sem hafa verið mjög umdeild en skilað almenningi árangri að því leyti að lokið hefur verið tekið af spillingarbrunni. Er það þetta sem menn eiga við þegar talað er um að hin nýja stjórn skuli gæta meðalhófs? Hvað þýðir það?

Ég velti því fyrir mér hvort það er heppilegt fyrirkomulag yfirleitt að ráðherra skipi stjórn í þessari stofnun sem síðan stýrir henni hvað þann pólitíska þátt snertir — ég er ekki að tala þar um flokkspólitík — í hvaða stórverkefni eigi að ráðast. Ég spyr: Gæti jafnvel verið heppilegra til þess að hin pólitísku tengsl verði skýrari að hafa sama hátt á og í Neytendastofu, að það verði bara ráðherra sem skipar forstjórann og síðan verði ráðherrann ábyrgur gagnvart þinginu? Ég hef ekki sjálfur komist að niðurstöðu í því efni.

Ég teldi hins vegar að heppilegasta fyrirkomulagið væri allstór stjórn sem skipuð væri af fleiri aðilum en einum, en það er ráðherrann einn sem á að skipa. Engin skilyrði eru sett, hvorki um tengsl stjórnarmanna við fyrirtæki Framsóknarflokksins né fyrirtæki almennt í þjóðfélaginu. Menn yggla sig nokkuð hér í salnum, sérstaklega framsóknarmenn, en þetta er bara staðreynd. Það er bara staðreynd sem taka þarf alvarlega í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi að hinar miklu einkavæðingar undanfarinna ára hafa opnað leið fyrir flokksgæðinga að verðmætum eignum þjóðarinnar. Þetta eru bara staðreyndir. Við eigum að tala alveg opið og tæpitungulaust um þetta því svona er það.

Síðan var þetta með gíslinguna. Það fannst mér ansi gott hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann spurði með nokkurri hneykslan og jafnvel þjósti hvort mönnum fyndist það óeðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi sér góðan tíma til að skoða þessi lög. Það væri fullkomlega eðlilegt. Ég skrifa alveg upp á það, en ég skrifa líka upp á það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji fá tíma til að skoða málin. Og Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn og síðast en ekki síst Alþingi allt og vinnunefndir þess. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og ég mun leggja áherslu á að við fáum mjög góðan og rúman tíma til að skoða þessi mál niður í kjölinn og að ekki verði reynt að hraða afgreiðslu þessara laga eins og því miður hefur viljað brenna við þegar ráðist er í grundvallarbreytingar í stjórnkerfinu.

Komið hafa fram mjög alvarlegar ásakanir vegna þessa frumvarps. Hverjar eru þær? Menn hafa sagt að verið sé að veikja samkeppnislögin. Við þurfum að skoða það. Mér hafa fundist koma fram mjög sannfærandi rök fyrir því. Menn hafa sagt að vegna þeirra kerfisbreytinga sem verið er að framkvæma með þessum lögum muni Samkeppnisstofnun veikjast. Er það rétt? Ef svo er þá þarf að gera breytingar á þessum frumvörpum.

Síðast en ekki síst og það finnst mér vera mjög alvarlegt mál: Getur verið að með þessu frumvarpi og þeim lögum sem menn ætla að koma hér í gegnum þingið sé verið að refsa stjórn Samkeppnisstofnunar? Við þurfum að ræða þetta opinskátt í þinginu vegna þess að ef svo er þá er það grafalvarlegt mál.



[16:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum rætt hér nokkuð um hæfi stjórnarmanna og hv. þingmaður taldi eðlilegt að stjórnarmenn hefðu ekki hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu. Það er sjónarmið. — Ég vona að hv. þingmaður sé að hlýða. — Það er ákveðið sjónarmið en vandinn er sá að Samkeppniseftirlitið mun hafa eftirlit með öllu atvinnulífinu, mörgum opinberum stofnunum, meira að segja Háskóla Íslands þar sem flestir viskubrunnar á þessu sviði starfa. Hann er í samkeppni við aðra háskóla. Hann gæti lent í því að samkeppnisráð þyrfti að úrskurða þar á milli. Það er því orðið vandséð hverjir í atvinnulífinu, hvaða fólk, Íslendingar, eigi ekki einhverra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu, annaðhvort sem starfsmenn fyrirtækja eða sem forstjórar eða stjórnendur.

Það er þess vegna sem menn hafa tekið þá ákvörðun að hafa ekki eins þröng hæfisskilyrði og eru í Fjármálaeftirlitinu sem fjallar bara um mjög lítinn þátt atvinnulífsins, þ.e. fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki. Þar er því miklu meira úrval fyrir utan þann þátt atvinnulífsins.

Það er talað um að stjórnarmenn taki ekki þátt í ákvörðun sem varðar þá eða fyrirtæki þeirra. Þetta er venjulegt ákvæði og á að koma í veg fyrir að menn taki ákvörðun um eigin mál.

Menn hafa síðan rætt töluvert um að verið sé að veikja samkeppniseftirlitið. Mín skoðun er sú að þriggja manna stjórn sem kosin er til fjögurra ára — ráðherra getur ekki sagt henni upp — sé a.m.k. óháðari ráðherra en forstjóri sem heyrir beint undir hann og þiggur öll sín laun frá honum og er mjög háður því að „vondur“ ráðherra gæti rekið hann, en að sjálfsögðu höfum við mjög góðan ráðherra núna.



[16:24]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að gefa núverandi ráðherra einkunn vegna þess að hún er fjarverandi í augnablikinu og getur ekki svarað fyrir sig af því að ég tel að hún hefði viljað gera það.

Varðandi skipan í samkeppnisráð eða nú stjórn Samkeppniseftirlitsins. Telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að samkeppnisráð sem nú starfar sé vanhæft? Annað sem ég vil spyrja varðandi skipan í stjórn Samkeppniseftirlitsins og hugsanlega einhverjar takmarkandi reglur sem þar yrðu settar. Sem betur fer er ekki búið að koma öllu þjóðfélaginu út á markaðstorgið, það er enn þá hægt að finna fólk sem á ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta í fyrirtækjum og stofnunum. Væri ekki eðlilegt í þessu tilviki að leita inn á slíkar slóðir?

Það lá í orðum hv. þingmanns, eins og ég skildi þau, að hann vildi jafnvel útiloka háskóla vegna þess að þeir ættu í samkeppni núorðið. Er það ekki svolítið annað að kenna við háskóla, sem hugsanlega á í samkeppni við aðra skóla á einhverjum sviðum, en að eiga sjálfur persónulega beinna hagsmuna að gæta í fyrirtækinu eða fyrirtækjarekstri? Mér finnst ekki saman að jafna þarna.

Síðan tel ég að skoða mætti leiðir að auki sem Danir hafa farið. Danska forsætisráðuneytið skýrði frá því í gær, held ég að hafi verið, að á heimasíðu þess, og ég hef skoðað hana, væri að finna upplýsingar um hagsmunatengsl allra ráðherra í dönsku ríkisstjórninni. Þar er skilmerkilega gerð grein fyrir þeim. Í dag lagði ég inn fyrirspurn (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra muni svara um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það verður fróðlegt að hlusta á það svar.



[16:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að hið svokallaða markaðstorg sem hann talar um og óttast mikið stækkar sífellt. Meira að segja Háskóli Íslands er kominn í samkeppni við Háskólann í Reykjavík. Ef eitthvert mál kæmi upp þar væri stjórnarmaður sem er prófessor við Háskóla Íslands vanhæfur til að fjalla um það mál. Það getur því orðið mjög erfitt að finna einhvern Íslending sem ekki er í einhverjum tengslum við fyrirtæki sem í sívaxandi mæli taka þátt í samkeppnismarkaði.

Hv. þingmaður spurði líka af hverju stjórn væri yfir Samkeppniseftirlitinu en ekki yfir Neytendastofu? Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að það eru ekki nema sex starfsmenn hjá Neytendastofunni og það er dálítið ankannalegt að hafa þriggja manna stjórn yfir sex manns og kannski ástæðulaust, en þetta má ræða. Ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður veltir upp þessum flötum því þetta getum við allt saman rætt í nefndinni og fengið skýringar á því af hverju ekki er sambærilegt stjórnarfyrirkomulag á þessu miklu minna fyrirtæki eða stofnun, sem er Neytendastofa, og Samkeppniseftirlitinu. Auk þess sem ég held að þær ákvarðanir sem Neytendastofan tekur séu ekki eins dramatískar eða hafi ekki eins miklar afleiðingar og þær sem Samkeppniseftirlitið tekur.

Upplýsingar hv. þingmanns um dönsku ríkisstjórnina og ráðherrana eru mjög athyglisverðar. Það var einmitt verið að ræða hérna að það liggi fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um siðareglur fyrir þingmenn. Það er mjög athyglisvert að skoða þetta og ég væri alveg til í að skoða það að tekin yrðu fram öll hagsmuna-, eigna- og alveg sérstaklega, frú forseti, skuldatengsl manna.



[16:29]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nú ekki rétt að segja að ég óttist markaðstorgið en það má vel vera að ég óttist þá ríkisstjórn sem hér er einráð í landinu og virðist ekki ganga fyrir öðru en að koma öllu lifandi og dauðu út á þetta markaðstorg. Þegar þangað er komið tel ég hins vegar mjög brýnt að við höfum skýra löggjöf um hvernig aðilar skuli bera sig að á markaði. Þess vegna er þessi löggjöf mjög mikilvæg og það er mikilvægt að til hennar sér vandað.

Ég vil gjarnan enda á þeim jákvæðu nótum að ég vil taka hv. þm. Pétur H. Blöndal á orðinu og vona að alvara sé að baki þeirri yfirlýsingu hans að þessi mál fái mjög rækilega og ítarlega skoðun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.



[16:30]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að leggja orð í belg varðandi frumvarpið sem hér er til umfjöllunar, þ.e. frumvarp til samkeppnislaga.

Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að ég tel að þær kerfisbreytingar sem frumvarpið og önnur frumvörp sem verða til umræðu á eftir séu til bóta fyrir það umhverfi sem málið nær til. Ég held að kerfisbreytingar sem þar er gert ráð fyrir að gera séu skynsamlegar.

Mig langar í yfirferð minni einkum að víkja að fjórum atriðum sem koma fram í þessu frumvarpi. Þótt hæstv. viðskiptaráðherra sé ekki í húsinu núna fagna ég því að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar skuli vera hér þar sem mig langar að biðja hv. þm. Pétur Blöndal og nefndina að taka til skoðunar fjögur atriði þessa frumvarps.

Í fyrsta lagi langar mig að víkja að ákvæðum 16. gr. frumvarpsins, sem varðar eftirlit með samkeppnishömlum. Þar segir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða við tilteknar aðstæður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geta falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að stöðva brot gegn ákvæðum laganna eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið getur beitt úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi, í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd.“

Ég held að við þurfum ekkert að deila um að ef til þess kemur að þessu ákvæði verði beitt, sem ég tel reyndar mjög ólíklegt með hliðsjón af meðalhófsreglu og öðrum þeim ákvæðum sem stjórnvöldum ber að fara eftir við slíkar ákvarðanir, að um er að ræða mjög viðurhlutamikið inngrip í starfsemi fyrirtækja. Verði gripið til þessa úrræðis kann að vera að þeir sem í hlut eiga nýti sér þær kæruheimildir sem lögin gera ráð fyrir og eftir atvikum, telji þeir að á sér sé brotið, muni leita réttar síns fyrir dómstólum, fara með mál sín fyrir héraðsdóm og eftir atvikum Hæstarétt.

Í ákvæði 16. gr. þessa frumvarps er ekki gert ráð fyrir því að við slíkar aðstæður verði réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frestað. Með öðrum orðum: Taki Samkeppniseftirlitið ákvörðun á grundvelli 16. gr. frumvarpsins um að rétt sé að krefjast breytingar á skipulagi fyrirtækja þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að sú ákvörðun hafi áhrif þá þegar.

Ég hefði talið skynsamlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki til athugunar hvort ekki sé rétt að við þær aðstæður, þegar þeir aðilar sem í hlut eiga vilja leita réttar síns fyrir dómstólum, að réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi víkja að varðandi þetta frumvarp.

Í annan stað vil ég nefna 17. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist getur stofnunin ógilt samruna …“

Með öðrum orðum: Ákvæðið, sem er í raun óbreytt frá núgildandi samkeppnislögum, gerir ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitinu verði veitt heimild til þess að ógilda samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja við tilteknar aðstæður. Í 2. mgr. 17. gr. er tekið fram að ákvæðið eigi einungis við um „samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira.“ Þetta þýðir að ef tvö fyrirtæki vilja renna saman á Íslandi og heildarvelta þeirra er einn milljarður eða meira þá þurfa þau að fá til þess heimild hjá samkeppnisyfirvöldum og tilkynna þann samruna Samkeppniseftirlitinu. Því er síðan gert skylt að gefa niðurstöðu sína innan 30 daga, ef ég man rétt, um það hvort þetta sé heimilað.

Frumvarpið er lagt fram m.a. með hliðsjón af tillögum nefndar hæstv. viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi. Megintilgangurinn með þeim kerfisbreytingum sem þetta frumvarp og önnur byggja á er að reyna að tryggja að málsmeðferð hjá samkeppnisyfirvöldum verði hraðari en verið hefur. Ákveðin verkefni eru færð frá Samkeppnisstofnun til þess að hún geti sinnt þeim málum sem teljast mikilvægari. Það er ljóst að miðað við 17. gr. frumvarpsins eru afar fá fyrirtæki, alvörufyrirtæki á markaðnum, sem mega renna saman án þess að Samkeppniseftirlitið þurfi að hafa afskipti af því.

Ég fór yfir lista Frjálsrar verslunar um stærstu fyrirtæki landsins og þar kemur fram að velta 153 fyrirtækja nemur einum milljarði eða meira og velta 220 fyrirtækja nemur 500 millj. kr. eða meira. Þessu ákvæði samkeppnislaganna hefur ekki verið breytt í langan tíma. Ég tel að ef menn vilja ná fram hraða í málsmeðferð hjá samkeppnisyfirvöldum væri rétt, og ég óska eftir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, kanni hvort ekki sé rétt í meðförum nefndarinnar að hækka það veltuviðmið sem fram kemur í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Það mundi létta mjög á stofnuninni og gera henni kleift að sinna verkefnum sem mikilvægari teljast á þessu sviði.

Í þriðja lagi, herra forseti, langar mig að víkja að ákvæði sem ég tel að kunni að vera nokkuð umdeilt. Það er 22. gr. frumvarpsins. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að því í ræðu sinni að henni þætti miður að þær húsleitarheimildir sem nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi lagði til að yrðu felldar inn í samkeppnislögin hefðu ekki ratað þar inn en ég verð að segja að ég tek ekki undir þær áhyggjur eða vonbrigði með hv. þingmanni. En í 22. gr. frumvarpsins er að finna sakleysislegt ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfir forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 3 og bókun 4 með samningnum …“

Ákvæðið hljómar sakleysislega og leikmenn sem skoða þetta frumvarp gætu haldið að fulltrúar Eftirlitsstofnunar EFTA gætu bankað upp á í fyrirtækjum og kannað það hvernig starfsemin gengi fyrir sig og hvort þar færi ekki allt fram eftir eðlilegum reglum, yrði frumvarpið að lögum. Ekki kemur fram í þessu ákvæði frumvarpsins nákvæmlega um hvað er að ræða. En þegar menn lesa greinargerðina með frumvarpinu sést hvað er í rauninni á ferðinni. Ákvæðið felur nefnilega í sér að Eftirlitsstofnun EFTA verði heimilað að gera vettvangsrannsóknir á heimilum stjórnenda, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna að undangenginni heimild frá innlendum dómstólum. Þessi breyting á lögunum er réttlætt með því að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að gera þessa breytingu vegna skuldbindinga okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég mundi vilja fá hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kanna hvort það sé virkilega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að innleiða þessa reglu í íslenskan rétt, að innleiða þá meginreglu að Eftirlitsstofnun EFTA megi brjótast inn á heimili stjórnenda, framkvæmdastjóra og starfsmanna fyrirtækja við rannsókn mála. Ég vil að nefndin kanni hvort það sé nauðsynlegt vegna samningsskuldbindinga okkar að innleiða þá reglu.

Ég verð að taka fram að ég er á móti slíkum heimildum. Ég er á móti því að heimila eftirlitsaðilum að ráðast inn á heimili fólks nema í algjörum undantekningartilvikum. En verði niðurstaðan sú að nauðsynlegt sé að heimila þessa vettvangsrannsókn tel ég að nefndinni beri að skoða vel og vandlega hvort ekki sé ástæða til að fella þessar heimildir, eins og þær koma fram í greinargerðinni, inn í texta frumvarpsins, í ákvæðið sjálft. Það gengur náttúrlega ekki gagnvart borgurunum að ákvæðið segi einungis að Eftirlitsstofnun EFTA sé heimilt að gera vettvangsrannsókn og vísa bara til tveggja bókana, bókana 3 og 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, en ekki tekið fram hvað felst í þeim vettvangsrannsóknum. Ég tel að þegar um svo mikla íhlutun í friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er að ræða sé lágmarkið að það sé tekið sérstaklega og skýrt fram í lagatexta. Það er ágætlega útskýrt í greinargerð með frumvarpinu en ég tel að það nægi ekki að gera það þar heldur sé nauðsynlegt að það komi fram í lagatextanum sjálfum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og ligg ekkert á henni, að við ættum að forðast það í lengstu lög að heimila slíkum eftirlitsstofnunum að ráðast inn á heimili fólks til að rannsaka mál sem þessi. Ég tel að þeir sem eru fylgjandi slíkum úrræðum eftirlitsstofnana ættu að velta því fyrir sér hvort slík ákvæði hafi þau varnaðaráhrif sem þeir telja. Ef stjórnendur fyrirtækja vita að verði þeir uppvísir að brotum eða grunaðir þá kunni eftirlitsaðilar að koma inn á heimili þeirra þá geyma þeir hinir sömu gögn sín annars staðar. Menn komast alltaf undan svona löguðu en við verðum að hafa það í huga að það eru fleiri en bara stjórnendur þessara fyrirtækja sem búa á heimilunum. Þar eru líka saklaus börn, makar og aðrir sem koma rannsókn þessara mála ekkert við. Það er óumdeilt að við slíkar rannsóknir mundu þessi úrræði bitna á þeim einnig. Ég tel því skynsamlegast að fara varlega í þessu sambandi.

Ég ítreka hins vegar að ef ákvæðið telst nauðsynlegt samkvæmt skuldbindingum okkar á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þá er algjört skilyrði að þær heimildir séu niðurnjörvaðar og komi skýrt fram í 22. gr. lagafrumvarpsins.

Í fjórða lagi, og það er síðasta atriðið sem ég ætla að víkja að varðandi efni frumvarpsins, er ákvæði 27. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun. Enn fremur skal hann forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að gera í máli sem hún hefur til meðferðar.“

Með öðrum orðum er hér á ferðinni framsal dómsvalds til alþjóðastofnana. Ákvæðið er dálítið sérstakt að því leyti að íslenskum dómstóli er óheimilt að úrskurða í máli á annan hátt en þann sem Eftirlitsstofnun eða dómstóll EFTA „kann“ að úrskurða í máli sem ekki liggur fyrir úrskurður í. Þetta er dálítið sérstakt.

En varðandi þetta ákvæði og það sem ég fjallaði um áðan, 22. gr., tel ég þörf á að kanna hvort nauðsynlegt sé samkvæmt skuldbindingum okkar að taka ákvæði þessa efnis upp í íslensk lög. Ég bendi á að í álitsgerð sem Davíð Þór Björgvinsson prófessor skilaði vegna þessa ákvæðis segir hann að þess séu ekki dæmi að íslenskir dómstólar hafi áður verið bundnir af ákvörðunum alþjóðlegra stofnana við úrlausn mála sem þeir eiga annars lögsögu í, eins og ákvæðið kveður á um.

Ég velti því fyrir mér hvort lögfesting slíks ákvæðis sé nauðsynleg. Ég held að þetta sé atriði sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að taka fyrir og kanna sérstaklega og ég velti því fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að taka það fram í lögum að ætlunin sé af hálfu Íslands að standa við samningsskuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum sem lögfestar hafa verið í íslenskan rétt. Er nauðsynlegt að það sé tekið sérstaklega fram í sérlögum eins og samkeppnislögunum að menn ætli að fara að skuldbindingum sínum og þeim lögum sem gilda í landinu? Ég er ekki viss um það, það má vera að ég hafi rangt fyrir mér í því sambandi en ég beini því til nefndarinnar að þetta verði kannað.

Í því sambandi bendi ég á að samkvæmt 3. gr. EES-samningsins segir að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi, almennar og sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja að staðið sé við þær skuldbindingar sem af samningnum leiða og að með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni beri við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins að túlka þau í samræmi við úrskurði Evrópudómstólsins. Það eru því mjög skýr ákvæði í EES-samningnum um einsleitni varðandi túlkun ákvæðanna og túlka má EES-samninginn þannig að íslenskir dómstólar séu að sínu leyti skuldbundnir til að túlka EES-reglurnar í samræmi við þá réttarframkvæmd sem gildir á því svæði sem reglunum er ætlað að ná til.

Ég leyfi mér að sama skapi að vísa til þeirra ákvæða sem birtast okkur í 106., 107., 108. og 109. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég leyfi mér að efast um að tæknilega sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að tiltaka sérstaklega í lögum að við ætlum að fara eftir þeim þjóðréttarskuldbindingum sem við höfum þegar tekist á hendur.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir þau fjögur meginatriði sem ég tel nauðsynlegt að könnuð verði við meðferð málsins hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að í fyrsta lagi sé nauðsynlegt að kanna hvort ekki sé rétt að bæta inn í 16. gr. ákvæði um frestun réttaráhrifa telji menn að á sér sé réttur brotinn og vilji tæma kæruleiðir eða fara dómstólaleiðina með ágreiningsmál sín. Í öðru lagi hvort ekki sé rétt að hækka veltuviðmið við samrunatilkynningar í samkeppnismálum. Í þriðja lagi hvort nauðsynlegt sé að lögfesta heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA til vettvangskannana á heimilum einstaklinga og stjórnenda fyrirtækja og í fjórða lagi það sem ég gat um síðast varðandi framsal dómsvalds til alþjóðastofnana.

Að svo búnu, herra forseti, lýk ég máli mínu um frumvarpið en ítreka að ég tel að þær kerfisbreytingar sem það kveður á um séu til bóta.



[16:50]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var fyrsti hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tók til máls og hélt ræðu og má segja að hún endurómi að einhverju leyti þær hugmyndir sem búa að baki því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði frumvarpið fram.

Mig langar í örstuttu andsvari að taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þingmanni varðandi 22. gr., það er mjög mikilvægt hvað varðar friðhelgi heimilisins að allar heimildir sem eftirlitsstofnanir hafa séu mjög nákvæmlega skilgreindar í lögum, ég vil taka undir það sjónarmið.

Hv. þingmaður hafði orð á því í ræðu sinni að kerfisbreytingarnar væru til bóta. Mig langaði ekki að koma upp til annars en að spyrja hv. þingmann, af því að hann er fyrsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðunni: Styður hv. þingmaður frumvarpið sem hér er til umræðu eða ekki?



[16:52]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég tel að gera þurfi breytingar á frumvarpinu eins og það er lagt fram. Ég þykist vita að hverju hv. þingmaður var að ýja með spurningu sinni, en ég geri ráð fyrir því að þegar gengið verður til atkvæða um frumvarpið muni skoðun mín koma í ljós og ég geri ráð fyrir að ég styðji það. Ég tel að frumvarpið sé til bóta miðað við gildandi rétt á sviði samkeppnismála, þrátt fyrir að ég vildi hugsanlega fara einhverjar aðrar leiðir á því sviði.



[16:52]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var rétt hjá hv. þingmanni að það var ekki að ástæðulausu sem ég spurði hann um afstöðu hans til málsins því að hv. þingmaður lýsti því yfir í viðtali árið 2002, með leyfi forseta:

„Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum þá tel ég að viðurlög eigi engin að vera.“

Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann væri andvígur samkeppnislögum og teldi að þau ættu ekki að vera í gildi. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji hvort hann sé fylgjandi því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Viðhorf hv. þingmanns sem fram kom áðan, að hann teldi kerfisbreytingarnar vera til bóta, vöktu sérstaka athygli. Það verður aðeins hægt að túlka það á einn hátt, að verið sé að veikja gildandi samkeppnislög og af þeim ástæðum telji hv. þingmaður þetta vera til bóta, vegna þess að hann er í hjarta sínu á móti samkeppnislögum og hefur lýst því yfir að hann sé andvígur þeim og að ekki eigi að beita neinum refsingum, (Forseti hringir.) en hv. þingmaður lýsti því yfir áður en hann var kominn á þing.



[16:54]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að vera ekki að gera mér upp skoðanir og kokka upp ástæður þess að ég tel frumvarpið vera til bóta umfram þann rétt sem nú er í gildi.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar til að ég hef tjáð mig mjög opinskátt um samkeppnislög og reyndar varðandi allt regluverk og reglusetningu hvað atvinnulífið varðar. Ég vil að reglur séu sem fæstar og hömlurnar séu sem minnstar á atvinnulífið — öfugt við hv. þingmann sem hefur lýst því yfir að hann sakni þess að Samkeppniseftirlitinu verði ekki veitt heimild til vettvangsrannsókna á heimili fólks og hefur lýst sig samþykkan því að rétt sé að brjóta upp fyrirtæki án þess að nokkur lög hafi verið brotin. Ég er bara ekki sammála slíkri framtíðarsýn og regluverki.



[16:55]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þau fjögur atriði sem hv. þingmaður nefndi eru öll til bóta og öll til skoðunar og að mínu mati öll vel ígrunduð. Kanna þarf hvort réttaráhrifum skuli ekki frestað og hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að sjálfsögðu að meta hvort skaðinn sé meiri eða minni fyrir hvorn aðilann sem er, atvinnulífið eða viðkomandi fyrirtæki.

Varðandi 1 milljarðinn, ég man eftir umræðu um þetta á sínum tíma að þetta var tekið sem 1/20 af hámarkinu í Danmörku. Að mínu mati er þetta allt of lágt, vegna þess að þetta er mjög hamlandi fyrir fyrirtæki til að sameinast því þau þurfa að fara í gegnum ákveðið ferli sem fælir starfsmenn frá og veldur mikilli óvissu. Ég mundi vilja skoða þetta og fá upplýsingar um það erlendis frá hver mörkin eru þar.



[16:56]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lýsa mig andsnúinn því sem fram kom í andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals, ég vil bara þakka fyrir að nefndin muni taka þessi atriði til skoðunar. Ég tel að þau séu mikilvæg fyrir atvinnulífið í landinu og ekki síður fyrir þá aðila sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hafa eftirlit með. Ég tel að þetta skipti líka miklu máli fyrir réttaröryggi manna og sérstaklega þeirra sem telja að á sér sé brotinn réttur og ástæða til þess að réttaráhrifum sé frestað, sérstaklega þegar horft er til þess með hvaða hætti samkeppnisyfirvöld hafa farið fram gagnvart fyrirtækjum í landinu. Þegar við förum yfir þær sektarákvarðanir sem samkeppnisráð hefur lagt á fyrirtæki og skoðum svo endanlega niðurstöðu fyrir Hæstarétti sést að það hefur verið ástæða fyrir fyrirtæki að gera athugasemdir við þann málatilbúnað sem Samkeppnisstofnun hefur haft uppi í samkeppnismálum til þessa.



[16:58]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þriðja atriðið sem hv. þingmaður nefndi, að taka mjög nákvæmt ákvæði úr greinargerð og setja það í frumvarpið eða lögin finnst mér vera sjálfsagður hlutur því borgarinn á að geta lesið lögin og á ekki að þurfa að fara í greinargerð með frumvarpi sem kannski var samþykkt fyrir löngu. En það er dálítið athyglisvert að í greininni er Eftirlitsstofnun EFTA veittur sterkari réttur en Samkeppniseftirlitinu íslenska.

Hið sama á við um 27. gr. og ég er með dálítið óbragð í munninum — vegna þess að ég lít á Ísland sem fullvalda ríki — með bæði ákvæðin og samskiptin við EFTA. Mig langar að skoða hvort hægt sé að koma inn ákvæði sem getur um að á meðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í gildi, þá gildi ákvæðið þannig að gefið sé í skyn að Íslendingar hafi fallist á ákvæðin á meðan þeir vilji vera aðilar að samningnum en um leið og þeir segi honum upp gildi þau ekki lengur.



[16:59]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom einmitt að kjarna málsins varðandi 22. gr. Það er nefnilega þannig að þegar eftirlitsaðilum, lögreglu eða yfirvöldum eru yfir höfuð veittar heimildir sem teljast íþyngjandi fyrir borgarana er mjög nauðsynlegt að menn geti kynnt sér þær reglur, viti hvað felist í þeim og hverjar takmarkanir þeirra eru í þeim lögum sem birt eru. Slíkt kemur ekki í ljós í frumvarpinu. Það er bara beitt svokallaðri tilvísunaraðferð þar sem vísað er til bókunar 3 og 4 og þeir sem lesa textann geta ekki áttað sig á því að þar eru víðtækar húsleitarheimildir inni á heimilum fólks sem eftir atvikum er saklaust og kemur þeirri rannsókn sem um ræðir ekkert við. Það er því mjög mikilvægt að á þessu verði tekið.



[17:00]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er með örstutta ábendingu, e.t.v. meira lögfræðilega en pólitíska. Ég hef skilið það þannig að ef innleiðing EB-tilskipunar tekst ekki að einhverju leyti taki tilskipunin ekki gildi að því er það varðar sem ekki er innleitt. Það leiðir hins vegar hugsanlega til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins og það gæti hugsanlega orðið, en ólíklega, um þau úrræði sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði að umtalsefni, þ.e. um húsleit o.fl. Ef þau eru ekki beinlínis lögfest með þessum nýju samkeppnislögum getur maður ekki stuðst við EB-löggjöfina.

Til eru dæmi um ófullnægjandi innleiðingu EB-tilskipunarinnar, ég nefni lög um ríkisábyrgð á launum og nú síðast lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.



[17:01]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni ábendinguna. Mér er alveg kunnugt um það sjónarmið sem hann reifaði hér varðandi innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt.

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að mér hefur fundist hér í löggjafarstarfinu á hinu háa Alþingi sem menn trúi í rauninni öllu sem nýju neti sem frá Brussel kemur og telji nauðsynlegt að fella allt andmælalaust inn í íslenskan rétt sem þaðan kemur. Ég var einungis að beina því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að taka sérstaklega til athugunar hvort það væri nauðsynlegt. Hér er um verulega íþyngjandi ákvæði að ræða og ég hvatti nefndina til að kanna skuldbindingar okkar að þjóðarrétti, sérstaklega með hliðsjón af því hvað við þyrftum að innleiða í landsrétt okkar.



[17:02]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að segja að ég hef ekki trú á öllu því sem kemur að utan.



[17:03]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Maður er svona að átta sig á því hvar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson stendur í þessu máli. Það getur verið svolítið erfitt en ég minnist þess að hann hafi talað um að hann vildi ekki brjótast inn á heimili og ekki heldur brjóta upp fyrirtæki. Ég man samt ekki betur en að síðasta vor hafi hann staðið fremstur í flokki þeirra manna sem vildu einmitt brjóta upp ákveðið fyrirtæki, og gekk mjög hart fram í því. Ég átta mig oft ekki á þessum málflutningi, mér finnst þetta ekki alveg ríma.

Það er annað sem ég átta mig ekki heldur á hjá ungum sjálfstæðismönnum, þeir sjái ekki hvað samkeppnislög eru mikilvæg, einmitt fyrir þá sem eru að búa sér til leið inn á markaðinn og þurfa kannski að berjast við ofurefli. Þess vegna eru samkeppnislög mikilvæg fyrir viðskiptalífið og við eigum að tryggja það að þessum lögum sé framfylgt. Ja …



[17:04]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta andsvar hv. þingmanns enda í takt við málflutning hans, það endaði á orðinu ja, og svo bara kom ekkert. Ég veit ekkert almennilega hver spurningin er.

Ég get sagt hv. þingmanni það að þrátt fyrir að hann hafi ofurtrú á samkeppnislögum og Samkeppnisstofnun hef ég verið að benda á það sjónarmið að menn eigi ekki að trúa um of á slíka lagasetningu. Ég hef bent mönnum á það að það var ekki eggið sem kom á undan hænunni, heldur öfugt.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmanni sé kunnugt um að það var samkeppni bæði á íslenskum markaði og á mörkuðum um allan heim áður en menn komu Samkeppnisstofnun á fót og settu samkeppnislög. Oftrú þessara manna á lagasetningu og valdboði er algjör, þar á meðal hv. þingmanns. Menn verða að hafa þetta í huga þegar þeir fjalla um samkeppnislög.

Það getur vel verið að margt í þessum samkeppnislögum sé ágætt. Ég er ekkert að mæla fyrir því að þeim sé ekki framfylgt en í guðanna bænum, þessari hreintrúarstefnu sem hv. þingmaður fer hér með hafna ég alveg.



[17:05]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég byrji ræðu mína eins og ég endaði þá síðustu: Ja, það er stórfurðulegt að verða vitni að þessum málflutningi. Er ekki ríkisstjórnin að setja þessi lög? Og hefur hann enga trú á þessari löggjöf? (Gripið fram í.)

Ég er alveg hissa á því að maðurinn sem gekk svo hart fram í því að brjóta niður eitt ákveðið fyrirtæki, Norðurljós, skuli allt í einu vera eins og heilagur maður og algerlega á móti allri lagasetningu — en segir að að vísu þurfi eitthvað að vera að bisa við þetta. Mér finnst þetta alveg stórundarlegt og engin samfella í þessum málflutningi. Ég hefði einmitt talið að ungir sjálfstæðismenn ættu að vera með okkur í Frjálslynda flokknum í að setja löggjöf og vera jákvæðir í garð þess að tekið sé á markaðsráðandi öflum þannig að ungir menn geti komið sér inn í atvinnulífið. Æ ofan í æ verðum við vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga trú á því. Hann vill ekki hafa markaðslögmál hvað varðar t.d. fiskinn, það á enginn að komast þar inn, þar eiga bara að vera þeir sem eru þar fyrir.



[17:06]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til samkeppnislaga. Það má segja að umræður hafi farið nokkuð um víðan völl hjá okkur í dag og það er kannski ekki óeðlilegt að miklar umræður skapist. Við verðum samt að gera okkur grein fyrir markmiðum lagasetningarinnar.

Mig langaði aðeins í byrjun til að fara örstutt í forsöguna. Eins og við vitum skipaði hæstv. viðskiptaráðherra nefnd fyrir um ári síðan um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem var m.a. ætlað að taka fyrir hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og hvernig ætti að þróa reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og traust.

Nefndin skilaði síðan af sér afar vandaðri skýrslu í fyrrahaust og þar má finna tillögur varðandi samkeppnismálin sem við erum að ræða hér. Með leyfi forseta segir m.a. í skýrslunni:

„Nefndin taldi æskilegra að fara svipaðar leiðir í samkeppnismálum og farnar hafa verið í nágrannalöndum okkar til að bregðast við vandamálum vegna fákeppni.“

Nefndin telur „nauðsynlegt að skerpa eftirlit með samkeppni á markaði, m.a. með því að gera skipulag samkeppnisyfirvalda skilvirkara og veita meira fjármagni til þeirra ...“

Skýrar samkeppnisreglur og skilvirkt eftirlit gera fyrirtækjum kleift að keppa á eðlilegum viðskiptalegum forsendum. Sú samkeppni er besta trygging viðskiptavina þeirra.“

Undir þessi sjónarmið tekur hæstv. viðskiptaráðherra og hefur því lagt fram þetta frumvarp.

Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um samkeppnismál og ekki síst eftir stórmál eins og t.d. olíumálið en í því unnu samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun gott starf. Það kemur auðvitað í ljós að almenningur vill hafa eftirlitsstofnanir virkar og vill að þær gæti hagsmuna okkar sem neytenda. Ég tel afar mikilvægt að vel takist til í slíkri löggjöf vegna þess að reglurnar þurfa að vera einfaldar, skilvirkar og njóta trausts.

Það er eðlilegt að slík löggjöf sé sífellt í endurskoðun. Við erum þó ekki hér að breyta efnisákvæðum samkeppnisreglnanna sem slíkra, heldur snúa breytingarnar að skipulagi Samkeppniseftirlits og viðbrögðum samkeppnisyfirvalda við tilteknum samkeppnisaðstæðum. Menn hafa í umræðunni í dag lagt þetta út á versta veg, þ.e. að það sé eitthvað mikið að núverandi samkeppnisyfirvöldum. Ég vil alls ekki líta á það þannig, heldur að við séum bara að horfa fram á við, við erum að þróast fram á við og dveljum ekkert við fortíðina, enda tel ég að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hafi staðið sig ágætlega, t.d. í olíumálinu eins og ég sagði áðan.

Hér eru helst lagðar til tvær breytingar á starfsemi samkeppnisyfirvalda. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skipulagi og stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda og í öðru lagi er lagt til að þau verkefni er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá samkeppnisyfirvöldum til stofnunar sem fer með neytendamál. Við munum ræða það atriði síðar. Meginmarkmiðið, eins og áður segir, er að einfalda stjórnsýsluna. Hæstv. viðskiptaráðherra fór ítarlega í þær breytingar áðan og er óþarfi að endurtaka það.

Við framsóknarmenn höfum nýlega haldið flokksþing okkar og þar var ályktað um íslenskt viðskiptaumhverfi. Mig langar að vitna í þær samþykktir, er lúta beint að þessu máli:

„Miklar breytingar hafa orðið á íslensku viðskiptaumhverfi á síðustu árum. Rekstrarumhverfi hér á landi er með því besta í alþjóðlegum samanburði og hefur það átt sinn þátt í útrás íslenskra fyrirtækja. Aukið frelsi til viðskipta en jafnframt öflugt eftirlit og lagaumhverfi sem byggir á evrópskum lagareglum hefur styrkt íslenskt viðskiptalíf. Áfram skal byggja á þeim grunni sem til staðar er og tryggja íslensku viðskiptalífi bestu mögulegu samkeppnisskilyrði. Jafnframt verði áfram lögð áhersla á öflugt eftirlit með viðskiptalífinu. …

Í ljósi breyttra tíma skal hlutverk eftirlitsstofnana eflt og úrræði þeirra styrkt. Í því sambandi skal þó tryggja gott samstarf við atvinnulífið og samtök innan þess. Mikilvægt er að íslenskt viðskiptaumhverfi sé í senn einfalt og skilvirkt og auðvelt að stofna fyrirtæki. ...

Fagnað er áherslum í frumvörpum viðskiptaráðherra í kjölfar skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Tillögur um öflugt samkeppniseftirlit eru nauðsynlegar í ljósi aukinnar samþjöppunar á mörkuðum. Auknar heimildir til handa samkeppnisyfirvöldum og aukning fjármuna eru skýr skilaboð stjórnvalda um áherslur á þessu sviði.“

Virðulegi forseti. Í umræðunni hafa komið fram, eins og ég sagði áðan, ýmis sjónarmið varðandi frumvarpið. Eðlilega munum við í framhaldinu fara yfir þau í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að lokinni 1. umr. Ég hef þá skoðun að við séum að stíga hér skref til að einfalda kerfið og jafnhliða styrkja það. Ég vona að þessar breytingar verði til þess að efla og treysta íslenskt viðskiptalíf neytendum til hagsbóta.



[17:12]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór hér yfir og lagði fram sjónarmið sín og væntanlega ástæður þess að hún styður það frumvarp sem hér er til meðferðar. Hv. þingmaður vísaði einnig til nefndar um íslenskt viðskiptalíf sem skilaði vandaðri skýrslu, eins og hv. þingmaður orðaði það, og lagði fram tillögur.

Það má segja sem svo að í þessari nefnd séu lagðar fram þrjár, fjórar beinar tillögur um það hvaða breytingar skuli ráðast í. Af þessum þremur beinu tillögum sem lagðar eru til um breytingar er aðeins ein sem á að lögfesta. Það á ekki að lögfesta að heimila vettvangsrannsóknir og húsleit eins og lagt er til. Það á heldur ekki að lögfesta eða viðhalda því ákvæði sem hér hefur verið talsvert til umræðu og hefur verið kallað 17. gr. c-liður í núgildandi lögum þar sem segir m.a.: „Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni .“ Það er bara breyting á skipulagi stofnunarinnar sem manni virðist vera farið eftir þannig að aðeins í sáralitlu er fylgt tillögum þeirrar nefndar sem vísað er til og talið er upphaf þessa máls.

Þá er, virðulegi forseti, spurning mín til hv. þingmanns þessi: Hvers vegna er ekki farið að fleiri tillögum sem birtast í niðurstöðum þeirrar ágætu nefndar sem hv. þingmaður vitnaði til?



[17:15]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þær tillögur sem komu fram hjá nefndinni þá mig langar í upphafi að fjalla sérstaklega um húsleitarákvæðið sem hv. þingmaður kom inn á. Við vitum að sjálfsögðu að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og það var gagnrýnt töluvert í umsagnarferlinu en staðan í því máli er sú að á vegum forsætisráðherra starfar nefnd sem er að skoða samskipti lögreglu, samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins í refsiréttarlegu tilliti og það er alls ekki útilokað að ákvæðið verði tekið inn síðar. Ég held að við verðum að bíða og sjá hverju nefndin skilar af sér og ég bind vonir við það. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að þetta ákvæði er mjög umdeilt og menn hafa skiptar skoðanir á því.

Í skýrslu nefndarinnar koma fram atriði varðandi stjórnsýslu Samkeppniseftirlits og við erum að fylgja því eftir. Einnig koma fram í skýrslunni ákvæði varðandi Neytendastofu sem verður til umræðu síðar í dag og við erum einnig að fylgja því eftir.



[17:16]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins í örstuttu andsvari vekja athygli á því að þær tillögur sem nefndin lagði til eru ekki margar og ekki mjög efnismiklar. Þess vegna er mjög auðvelt að fara yfir það hvaða tillögur hugmyndin er að lögfesta og hverjar ekki. Það gengur ekki heldur að skýla sér á bak við það að nú sé að störfum nefnd sem skoði hvernig verkaskipting skuli vera milli samkeppnisyfirvalda og lögregluyfirvalda. Það er fyrirsláttur. Kjarni málsins er í raun og veru sá að nefndin skilar tillögum sem í litlu sem engu er farið eftir að því undanskildu að samkeppniseftirlitinu sjálfu er breytt.



[17:17]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja hv. þingmanni að í þessu er heimild til að krefjast skipulagsbreytinga á fyrirtækjum og ég tel það mjög mikilvægt. Ég held að ekki sé ástæða til að gera lítið úr því þó að nefnd sé að störfum á vegum hæstv. forsætisráðherra sem skoða á þessi samskipti. Þetta er viðkvæmt mál hjá mörgum en ég tel það góð og vönduð vinnubrögð að kafað sé djúpt ofan í það mál og ítreka að þegar niðurstaða úr þeirri vinnu kemur er ekki útilokað að við tökum ákvæðið inn.



[17:18]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta fremur villandi málflutningur um stöðu samkeppnismála. Það var að heyra á hv. þingmanni eins og allt væri í stakasta lagi og menn horfðu til framtíðar. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að upplýsa hv. þingmann ef hún trúir þessu í raun og veru að árið 2004 tók 16 mánuði að fá úrskurð frá Samkeppnisstofnun. Það tók jafnvel á annað ár að fá mál til efnislegrar meðferðar. Auðvitað er þetta ekki í lagi. Þessi málaflokkur hefur drabbast niður í tíð Framsóknarflokksins, því miður. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur og ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála hvað það varðar. Því miður hefur stöðugildum þar ekki fjölgað frá árinu 1995, það var upplýst hér við umræðuna. Það sýnir í rauninni forgangsröðunina hjá Framsóknarflokknum að á sama tíma fjölgaði flokkurinn sendiherrum í kringum 70%. Það er auðvitað með ólíkindum.

Annað sem ég áttaði mig ekki á í ræðu hv. þingmanns var þetta með einfaldleikann og skilvirknina. Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti útskýrt fyrir mér hvernig það einfaldi stjórnsýsluna og geri hana skilvirkari að skipa einhverja nefnd til að horfa yfir öxlina á forstjóranum. Það væri mjög fróðlegt því ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Það var eins og hún ætti erfitt með að útskýra þetta. Ég tel í rauninni mjög erfitt að skýra þetta út með nokkrum hætti og þess vegna væri mjög fróðlegt að fá það fram hjá hv. þingmanni.



[17:20]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gaf í skyn að það væri ekki allt í lagi með samkeppnisyfirvöld í dag. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan, sökum þeirra ummæla sem hafa fallið hér í dag að við séum að fara út í þessar breytingar vegna þess að eitthvað stórkostlegt hafi verið að hjá núverandi samkeppnisyfirvöldum, og tiltók til að mynda olíumálin þar sem mér þóttu samkeppnisyfirvöld standa sig mjög vel í því að klára það mál.

Hv. þingmaður talar um að málaflokkurinn hafi drabbast niður og þetta sé ekki rétt forgangsröðun. Við erum einmitt að forgangsraða núna með þessu frumvarpi. Til að mynda get ég nefnt að í síðasta fjárlagafrumvarpi var lagt til að framlög til Samkeppnisstofnunar yrðu aukin um 20 millj. kr. og ef þetta frumvarp verður að lögum óbreytt er áætlað að kostnaður aukist um 60 millj. kr. sem koma þá aukalega og sérfræðingum verður fjölgað um sjö, úr tíu í sautján. Ég tel að þetta séu aldeilis góð tíðindi fyrir samkeppnisyfirvöld í landinu og ekki síst fyrir neytendur, og vona auðvitað að það verði til þess að hægt sé að hraða málum þar í gegn.

Varðandi stjórnsýsluna sjálfa, að verið sé að skipa nefnd til að horfa yfir öxlina á yfirvöldum, þá vil ég benda á að við erum að fara svipaða leið og er hjá Fjármálaeftirlitinu og enginn hefur sagt annað en að það kerfi sé mjög skilvirkt.



[17:22]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru fyrstu merki þess að maður heyri það á framsóknarmönnum að þeir séu að átta sig. Þeir eru að átta sig á því að það hafi verið röng forgangsröðun að fjölga sendiherrum um 70% á sama tíma og ekki var fjölgað starfsmönnum á stofnun sem ítrekað hafði verið lofað, m.a. þegar verið var að taka ákvörðun um sölu Símans. Mér finnst það mjög gott mál.

Ég áttaði mig ekki á þessum rökum þó svo að annars staðar sé eitthvert slíkt fyrirkomulag. Er eitthvað í starfsemi stofnunarinnar og hvernig forstjórinn hefur starfað sem kallaði á þá þörf að horfa yfir öxlina á honum? Bent er á meðalhófsreglu en það er einmitt þannig að allir embættismenn eiga að gæta meðalhófs. Var eitthvað þarna sérstaklega sem kallaði á þetta? Því þarf að svara en ekki hvernig þetta er annars staðar.



[17:23]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki að röng forgangsröðun hefði verið í gangi heldur að nú væri röðin komin að Samkeppnisstofnun. Við höfum verið að gera marga góða hluti þar á undan og nú er röðin komin að þessum málaflokki. Ég vil bara halda því til haga. Ef fyrirkomulag virkar vel annars staðar af hverju ættum við þá ekki að taka það upp á fleiri stöðum? Mér finnst það vera rök í málinu.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri mjög til bóta fyrir hinn nýja forstjóra að vera ekki skipaður af ráðherra.



[17:24]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa lýst ánægju með það frumvarp sem við ræðum hér. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur líka lýst ánægju með frumvarpið og hann styður það. Samt lýsti hann því yfir árið 2001 að hann væri á móti samkeppnislögum. Nú spyr ég hv. þingmann: Er þetta ekki alveg lýsandi dæmi um að Framsóknarflokkurinn hefur látið beygja sig í þessu máli? Eða er hv. þingmaður komin í hóp með Sigurði Kára Kristjánssyni sem vill ekki nein samkeppnislög og Samtökum atvinnulífsins sem hafa haft allt á hornum sér varðandi núgildandi samkeppnislög? Ég spyr hv. þingmann hvort fjallað hafi verið um málið í Framsóknarflokknum eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði veikt frumvarpið verulega með því að fella brott húsleitarheimildir hjá forstöðumönnum fyrirtækja, eftir að hafa fellt brott og veikt hæfisskilyrði sem segja að þeir sem sitja í þessari þriggja manna stjórn megi ekki hafa neinna hagsmuna að gæta í atvinnulífinu og eftir að fellt var brott ákvæði 17. gr. sem hefur mikil varnaráhrif með því að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Þetta eru þrjú mikilvæg atriði.

Ég spyr einnig hvort Framsóknarflokkurinn hafi fjallað um frumvarpið eftir að búið var að veikja það svona í meðförum sjálfstæðismanna eða hvort Framsóknarflokkurinn hafi þurft að láta málið yfir sig ganga án þess að fá tækifæri til að ræða það í flokknum og hann hafi bara séð frumvarpið með þessari veikingu hér í þinginu.

Það væri líka fróðlegt að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að verið sé að einfalda stjórnsýsluna þegar sett er þriggja manna stjórn í stað samkeppnisráðs, það er allt og sumt sem verið er að einfalda þar, og hvort hún telji það til bóta að bera þurfi allar meiri háttar ákvarðanir undir þessa þriggja manna stjórn.



[17:26]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á álit Samtaka atvinnulífsins og ákveðinna hv. þingmanna sem hafa talað í dag. Ég er mjög ánægð með að þeir aðilar skuli hafa skipt um skoðun og séu sammála okkur í því að efla samkeppnisyfirvöld í landinu og ég sé ekki að það sé mikið vandamál í þessu máli að þeir skuli vera með okkur í því.

Varðandi húsleitarheimildina var málsmeðferðin sú að hæstv. viðskiptaráðherra lagði sjálf til að það ákvæði yrði tekið út. Um það var fjallað í þingflokki Framsóknarflokksins til að upplýsa hv. þingmann um það sem fer fram þar innan dyra. En það er alveg ljóst að það kom í ljós að þetta ákvæði er ekki í samræmi við evrópskan samkeppnisrétt og er hálfgerður bastarður eins og sumir hafa orðað það og þess vegna var ákveðið að taka það út.



[17:27]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki hv. þingmann það vel að ég veit að hún talar gegn betri vitund þegar hún telur að Samtök atvinnulífsins og Sigurður Kári Kristjánsson séu allt í einu farin að breyta um skoðun og telja sig vera að efla samkeppnisyfirvöld. Þar talar hv. þingmaður gegn betri vitund vegna þess að hún veit vel að það er verið að veikja Samkeppnisstofnun og draga úr sjálfstæði stofnunarinnar með þeim leiðum sem fara á með þessu frumvarpi.

Ég spyr hvort það hafi virkilega verið samþykkt í þingflokki framsóknarmanna að draga úr hæfisskilyrðum frá því sem er í frumvarpinu núna, að það sé í lagi að þeir sem sitja í stjórn stofnunarinnar eigi hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi, þeir séu samt gjaldgengir í stjórnina. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvort hún teldi eðlilegt að bera þyrfti allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórn stofnunarinnar.



[17:28]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég tala ekki gegn betri vitund þegar ég tel að við séum að efla samkeppnisyfirvöld. Ég er þess fullviss, sérstaklega í ljósi þess að nú loks eru samkeppnisyfirvöld að fá aukið fjármagn. Þau geta ráðið sjö sérfræðinga í viðbót, það fjölgar úr tíu í sautján, það er engin smáræðis fjölgun, og vonandi munu mál geta gengið greiðar fyrir sig hjá þeim.

Varðandi það að draga úr sjálfstæði þá er ég ekki sammála því. Ég held að það sé mikill kostur að forstjóri sé til að mynda ekki ráðinn beint af ráðherra. Síðan var talað um meiri háttar ákvarðanir sem þurfi að bera undir stjórn. Auðvitað á eftir að móta allar þær reglur hvernig meiri háttar ákvarðanir verða skilgreindar. Það koma engin skilaboð fyrir fram um það frá Alþingi. Ég vil bara ítreka að ég tel þetta vera gott mál og við eigum að sjálfsögðu eftir að vinna það áfram í nefndinni.



[17:29]Útbýting:

[17:30]
Atli Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til samkeppnislaga sem hér er til umræðu í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, er markmiði og gildissviði laganna lýst í I. kafla. Það á að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna að hagkvæmni o.s.frv. og því er síðan lýst til hvers lögin taka en skilmerkilega undanþegið að lögin taki ekki til launa og annarra starfskjara. Það er enn fremur samhliða þessu frumvarpi mælt fyrir um sérstaka Neytendastofu sem er allrar athygli vert ef hún virkar.

Hæstv. viðskiptaráðherra sér ástæðu til að láta semja ítarlegt fjörutíu og fjögurra greina frumvarp með tuttugu og þriggja blaðsíðna greinargerð um samkeppnismál en undanskilur þar reyndar algjörlega mál sem snúa að samkeppnisstöðu kynjanna. Ég spyr: Af hverju er þetta frumvarp lagt fram? Það hefur komið fram að á því sé engin brýn þörf, núgildandi samkeppnislög eru ekki sá dragbítur á virkri samkeppni og eftirliti með henni heldur fjársvelti. Það vita allir sem koma nálægt þessu máli og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði því verulega góð skil í ræðu sinni hér á undan. Samkeppnisstofnun hefur þrátt fyrir fjársveltið afrekað ótrúlega mikið með faglegum og óháðum vinnubrögðum. Ég segi það hér og það er mín eindregna skoðun að Samkeppnisstofnun þarf að vera algjörlega óháð flokkspólitískum afskiptum eða ríkisstjórnarafskiptum og það gildir einu hvort sú ríkisstjórn sem hér er við völd nú á í hlut eða aðrar.

Ég bendi á að umboðsmaður Alþingis nýtur slíkrar stöðu. Hann sækir vald sitt til Alþingis ef svo má að orði komast. Sama gildir um Ríkisendurskoðun. Þessar stofnanir sinna eftirliti með hinu opinbera, með stjórnsýslu og öðru slíku, og með opinberum rekstri. Þó er allt lagaumhverfi opinbers reksturs með þeim hætti að það má fremur treysta honum heldur en einkarekstrinum. Það sem ég er að segja hér er að það verður að tryggja Samkeppnisstofnun, Samkeppniseftirliti, eins og það mun heita, sömu starfsskilyrði og Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis við eftirlit með einkarekstri. Það eru í raun sterkari rök fyrir og meiri þörf á óháðum aðila sem sinnir slíku eftirliti en eftirliti með ríkinu. Nær væri að slíta öll tengsl Samkeppniseftirlits við framkvæmdarvaldið og tengja það fremur Alþingi og auka virðingu þess og auka það sem er grundvöllur lýðræðisins, þ.e. hið þrískipta ríkisvald, láta ekki framkvæmdarvaldið vera með puttana í eftirlitsstarfinu.

Ég segi að þetta frumvarp sé bakslag í þessum efnum. Það er afturhvarf að mínu viti frá því sem ég vil nefna gegnsætt eða gagnsætt lýðræði. Það er mælt fyrir slakara eftirliti með ríkisfyrirtækjum sem verða einkavædd heldur en nú er með þeim. Nefni ég þar Símann.

Ég hygg að hæstv. viðskiptaráðherra hefði fremur átt að huga að — það er mun brýnna — virkum stjórnvaldsaðgerðum og lögum til að tryggja samkeppnisstöðu kynjanna. Hæstv. viðskiptaráðherra veit fullkomlega að kynbundinn launamunur er talinn vera á bilinu 14–18% þegar borin eru saman laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Hún veit að kerfisbundinn launamunur hefur verið viðvarandi um árabil og engin teikn á lofti eru um breytingar. Hún veit líka að með kynbundnum launamun er brotið gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og það er gert á hverjum degi. Það er líka brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og þessi mismunun sem er svo brýnt að taka á leiðir til annars misréttis og hindrar þátttöku kvenna á jafnréttisgrundvelli í stjórnmála-, efnahags-, félags- og menningarlífi.

Er ekki þörf á virku eftirliti sem beinist gegn stjórnarskrárbrotum? Átti ekki að huga að því þegar Samkeppniseftirlitið var sett á stofn og Neytendastofa að hugsa nú pínulítið um þann þátt og samþætta?

Hæstv. viðskiptaráðherra veit einnig að heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði 60% af atvinnutekjum karla — það er að vísu minni munur hjá opinberum starfsmönnum — og 20% af forstöðumönnum ráðuneyta eru konur. Þetta er allt undanskilið. Allir þessir mikilvægu grunnþættir í samfélaginu eru undanskildir í þessu samkeppnisfrumvarpi. Það er hugsað þröngt og hugsað um viðskiptalífið og að koma til móts við kröfur Samtaka atvinnulífsins og annarra í þessum efnum. Það er engin þörf á lagabreytingum og sá sem hér stendur vill fremur sjá lög þróast áfram fyrir atbeina dómstóla eða með öðrum hætti en sífellt að vera að krukka í löggjöf. Það gerir framkvæmd löggjafar ómarkvissa.

Það hefur ekkert eða lítið sem ekkert þokast í þjóðfélaginu til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna á valdatíma ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Í stað þess að huga að þessum brýnu úrlausnarefnum, að bæta samkeppnisstöðu kynjanna, leggst hæstv. viðskiptaráðherra í víking til að gera Samkeppnisstofnun pólitískt háðari ríkisstjórnum á hverjum tíma.

Misjafnt hafast karlar og konur að á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna 8. mars. Ég vil vekja athygli á yfirlýsingu sem Noeleen Heyzer, framkvæmdastjóri UNIFEM, þróunarsjóðs kvenna hjá Sameinuðu þjóðunum, sendi frá sér í dag. Þar segir hún m.a. að víða sé unnið að lögfestingu réttinda kvenna til efnahagslegs öryggis hvað varðar mikilvæga málaflokka eins og eignar- og erfðarétt, mannsæmandi atvinnu og aðgang að lánum og mörkuðum. Hví er ekki hugað að þessu? Ég beini því til hæstv. viðskiptaráðherra að sýna pólitískan vilja og styrk og leggjast fremur í víking við að semja lög og beita sér fyrir virkum stjórnvaldsúrræðum til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna. Jafnframt beini ég því til hæstv. ráðherra að draga þetta frumvarp til samkeppnislaga til baka eða fara sér afar hægt í þeim efnum og veita í stað þess verulega aukið fé til Samkeppnisstofnunar og byggja á núverandi grunni.

Það var á það bent hér fyrr í umræðunni að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði dregið að ræða þetta eða haft þetta frumvarp hjá sér til meðhöndlunar í nokkra mánuði, frá desember til dagsins í dag. Ég skil mætavel að menn vilji gaumgæfa þetta líka mjög vel. En ég vil benda á í því sambandi líka að það er mitt áhyggjuefni að starfsmenn Samkeppnisstofnunar eru í gíslingu. Þeir vita ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það er ekki góð framkoma. Þeir hefðu þurft að fá að vita nákvæmlega um hvað þetta snerist, hvaða starfsmenn fengju störf áfram, hverjum ætti að segja upp og hverjum ekki, hvar þeim yrði skipað til húsa o.s.frv. Það er eðlileg framkoma við starfsmenn sem hafa unnið af kappi í þessum samkeppnisverkefnum sem eru afar erfið en jafnframt brýn.

Enn og aftur þetta: Það er brýnasta verkefni samtímans að leggjast á eitt til að jafna samkeppnisstöðu kynjanna og ég get fullkomlega séð fyrir mér stofnun, þess vegna innan Samkeppniseftirlits, eins og Neytendastofu, sem sinnir því hlutverki. Hér hefur verið útbýtt í dag frumvarpi sem gæti verið hæstv. ráðherra til leiðbeiningar um að setja á stofn jafnréttisstofu til hliðar við Neytendastofu.

Gerum eitthvað raunhæft. Leggjum fé til Samkeppnisstofnunar í dag og byggjum á þeim grunni sem þar er og hefur reynst nokkuð haldbær. Ég held að helstu agnúar hafi slípast af því starfi.



[17:40]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú mjög sérstakt sem hér kom fram. Hv. þingmaður var farinn að tala um jafnréttisstofu undir lokin eins og hann viti það ekki að starfandi er Jafnréttisstofa í landinu. Hún heyrir reyndar undir annan ráðherra þar sem sú sem stendur hér fer ekki með jafnréttismál. Honum tókst að sjá í þessu frumvarpi eitthvað kvenfjandsamlegt, heyrðist mér, sem ég átta mig bara ekki á enda snýst þetta mál ekki um jafnrétti kynjanna. Þetta er frumvarp til samkeppnislaga.

En ég get sagt hv. þingmanni að ég er nýkomin úr Norræna húsinu þar sem ég flutti einmitt ræðu í tilefni 8. mars sem fjallaði um jafnrétti. En það er annar handleggur.

Hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því þegar hann talar um fjársvelti að með þessu frumvarpi eða í tengslum við það er tekin ákvörðun um að hækka framlög til Samkeppniseftirlits um 60 millj. kr. á tveimur árum. Það er hægt að fjölga um sjö sérfræðinga. Það skiptir ekki litlu máli.

Þegar hann talar um pólitískt háða ríkisstofnun þá — ég er nú búin að fara svo oft yfir þetta í umræðunni að ég veit ekki hvort ég á að fara að endurtaka það einu sinni enn — þá er þetta bara klisja sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa fundið út að væri hugsanlega hægt að nota í þessari umræðu. Hugmyndaauðgin var nú ekki meiri en svo að þeir eru allir að klifa á þessu sama, að verið sé að búa til pólitíska stofnun, þegar sannleikurinn er sá að það er akkúrat farið í hina áttina (Gripið fram í: Kannski er eitthvað ...) með því að forstjórinn heyri ekki undir ráðherra (Gripið fram í.) heldur undir stjórn. Að sjálfsögðu eru settar kröfur um hæfi stjórnarmanna sem er reyndar ekki í sambandi við samkeppnisráð í dag nema hvað varðar formann og varaformann.

Hvað fær hv. þingmenn til þess að halda því fram að þarna eigi að setja í stjórn einhverja sérstaka forkólfa stjórnarflokkanna? Það er bara út í hött.



[17:42]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit fullvel að Jafnréttisstofa er starfandi í landinu. Ég veit það manna best. Ég er að tala um að gefa henni virkari heimildir og ég var að tala um að það væri hugsanlegt að færa hana undir Samkeppniseftirlitið.

Ég orðaði aldrei nokkuð í þá veru að hæstv. ráðherra væri kvenfjandsamlegur. En e.t.v. hef ég hitt á veikan streng. (Gripið fram í.) Ég orðaði það aldrei. Kjarni jafnréttismála, hæstv. ráðherra, er samþætting á öllum sviðum. Það hefði hæstv. ráðherra átt að hafa í huga þegar hún lagðist í þennan víking, þ.e. að samþætta þessa löggjöf jafnréttissjónarmiðum.

Ef það er klisja að segja að stofnunin sé pólitískt háð þá verður svo bara að vera. En lýðræðishugsun mín byggir á mörgum fleiri þáttum. Einn þeirra þátta er að ríkisvaldið sé ekki með puttana í öllum sköpuðum hlutum. Ég vil sjá þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég vil sjá veg Alþingis og dómstóla jafnmikinn og framkvæmdarvaldsins. Ég er satt best að segja orðinn hundleiður á yfirgangi ráðherra og framkvæmdarvaldsins gegn Alþingi og dómstólum.



[17:43]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við tvö atriði í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Í fyrsta lagi var það sá samjöfnuður sem hann taldi vera milli Samkeppniseftirlitsins annars vegar og hins vegar umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Það eru afskaplega gildar ástæður fyrir því að umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun heyra undir Alþingi en ekki undir framkvæmdarvaldið. Hlutverk þessara stofnana, umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar er einfaldlega að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í því eðli liggur ástæðan fyrir því fyrirkomulagi.

Sömu rök gilda ekki um aðrar eftirlitsstofnanir í þjóðfélaginu sem eðli máls samkvæmt heyra undir framkvæmdarvaldið. Það á við um Samkeppniseftirlit alveg eins og fjölmargar aðrar stofnanir sem hafa mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna, hvort sem um er að ræða eftirlitsstofnanir á sviði umhverfismála, vinnuverndarmála eða annarra slíkra þátta. Þar á er grundvallarmunur og er engin ástæða til að tengja störf þeirra við þær eftirlitsstofnanir sem sérstaklega eiga að fylgjast með framkvæmdarvaldinu sem geta því ekki með nokkrum rökrænum hætti heyrt undir þetta sama framkvæmdarvald.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna tengist því sem áður hefur verið fjallað um í dag, að það sé verið að svipta Samkeppniseftirlitið sjálfstæði og færa undir hið pólitíska vald. Ég verð að segja að mér finnst sá málflutningur ekki halda vatni miðað við að fyrirkomulagið hefur fram að þessu verið þannig að ráðherraskipað samkeppnisráð tekur ákvarðanir um efnisatriði hvers einasta máls sem fer fyrir samkeppnisyfirvöld, a.m.k. um stærri málin. En hér gera menn forstjóra stofnunarinnar ábyrgan og búa til kæruleið til áfrýjunarnefndar en það er ekki verið að auka pólitísk afskipti.



[17:46]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta innlegg í málið og þessi andsvör. Ég geri mér grein fyrir því að það eru mismunandi rök á bak við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. En við erum samt að tala um hliðstæður. Þetta eru ekki sambærilegar stofnanir en við þurfum virkt eftirlit með einkarekstri og opinberum rekstri.

Ég les ekki málið út frá núverandi ríkisstjórn, núverandi hæstv. viðskiptaráðherra eða persónum og leikendum í þessu dæmi. Ég horfi á þetta heildstætt fram í tímann því að við erum að setja lög sem eiga að gilda til frambúðar. Ég óttast að með þessu sjáum við hugsanlegt pólitískt inngrip, pólitíska hönd eða pólitísk augu sem horfa yfir öxlina á Samkeppniseftirlitinu. Þá getum við lent á villigötum seinna. Ég veit fullkomlega hvernig Samkeppnisstofnun starfar í dag. Það eina sem ég segi í því sambandi er að ég vil rjúfa þessi tengsl. Ég veit að þau eru til staðar í dag og ég tel það neikvætt. Ég vil rjúfa þau og vísa til þeirra röksemda sem ég færði fram fyrr í máli mínu.



[17:47]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að það komi skýrt fram að með frumvarpinu er ákvörðunarvald í einstökum málum fært til forstjóra stofnunarinnar, Samkeppniseftirlitsins. Í dag liggur ákvörðunarvaldið hjá samkeppnisráði, sem er eins og ég gat um áður ráðherraskipað. Ef menn hafa áhyggjur af því að ráðherrar í landinu séu með puttana í því sem væntanleg stjórn Samkeppniseftirlitsins kemur til með að hafa með höndum þá ættu áhyggjur manna af pólitískum áhrifum á núverandi samkeppnisráð að vera jafnvel enn meiri. Samkeppnisráð er ákvörðunaraðili í gildandi lögum en samkvæmt frumvarpinu verður forstjórinn ákvörðunaraðili þannig að ákvörðunarvaldið fjarlægist hið pólitíska vald fremur en hitt.



[17:48]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér takast auðvitað á athyglisverð sjónarmið og ég þykist vita að við hv. þm. Birgir Ármannsson þyrftum lengri tíma til að ræða þetta og undir öðrum kringumstæðum. En aðalatriðið er að ég vil rjúfa þessi tengsl. Ég vil efla lýðræðið og það tel ég best gert með því að styrkja löggjafarvaldið og dómsvaldið og veikja framkvæmdarvaldið.



[17:49]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom með þá athyglisverðu hugmynd að láta Samkeppniseftirlitið heyra undir Alþingi, sem og aðrar eftirlitsstofnanir, Fjármálaeftirlitið, Vinnueftirlitið o.s.frv. Þær stofnanir tékka ekki af framkvæmdarvaldið, þær eru að tékka atvinnulífið. Ef þær heyrðu beint undir Alþingi, hver ætti þá að hafa eftirlit með þeim, ef þær brygðust?

Fyrir utan löggjafarvald og fjárveitingavald hefur Alþingi jafnframt eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við þingmenn getum gert athugasemdir og spurst fyrir um þessar eftirlitsstofnanir, hvort þær standi sig í stykkinu og séu vel reknar eða ekki. Það mundi hverfa ef þær heyrðu beint undir Alþingi. Ekki getur Alþingi farið að gagnrýna og hafa eftirlit með eigin gerðum.

Hv. þingmaður lagði auk þess til að ekki yrði miklu breytt eða hratt. Síðan lagði hann til slíka gjörbreytingu að allt yrði sett undir Alþingi. Það er því ekki alveg samræmi í þessu.

Hann talaði síðan mikið um samkeppnisstöðu kynjanna. Ég veit ekki almennilega hvað það er. Einu sinni var talað mikið um stéttabaráttu en minn flokkur talaði alltaf um að það væri stétt með stétt. Ég mundi vilja hafa það bara kyn með kyni en ekki einhverja baráttu á milli kynjanna. Ég sé ekki að það sé neinum til framdráttar. Ég held reyndar, og hef margoft sagt það, að inn í jafnréttið vanti meiri kröfu um arðsemi. Af hverju skyldi fyrirtæki eða stofnun ráða karlmann og borga honum hærri laun? Af hverju skyldi það gera það? Viðkomandi forstjóra hlýtur að vera alveg sama hvort hann græðir eða ekki.

Hv. þingmaður talaði um að starfsmenn Samkeppnisstofnunar væru í óvissu. Það er ljóst að eftir því sem við drögum málið lengur og vöndum okkur meira við lagasetninguna þeim mun lengur verða þeir í þeirri óvissu. Þetta stangast því allt dálítið á en ég held að þeir verði að bíða í óvissu meðan við vinnum faglega að þessu máli og gefum okkur tíma til að ígrunda öll þau atriði sem nefnd hafa verið í dag.



[17:51]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að tékka af atvinnulífið en ekki ríkið og ekki opinberar stofnanir, sagði hv. þingmaður. Málið snýst um að hagsmunir almennings séu ekki fyrir borð bornir hvort sem ríkið á í hlut eða einkafyrirtæki. Við sjáum í dag einkafyrirtæki sem eru orðin svo ógnvænlega stór að veruleg þörf er á því að almenningur, einstaklingarnir í þjóðfélaginu njóti ýtrustu verndar. Þess vegna hef ég sagt og það er svar mitt til hv. þingmanns: Ég vil einkavæða stjórnsýslulögin og ég vil einkavæða upplýsingalögin.



[17:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Sjaldan hefur mér brugðið eins og nú. Ef það ætti að fara að einkavæða framkvæmdarvaldið þá hygg ég að mörgum mundi bregða við.

Hv. þingmaður svaraði ekki því hver ætti að tékka af þessar eftirlitsstofnanir, sjá til þess að þær færu að lögum, hver ætti að sjá til þess að þær sinntu sínu hlutverki ef þær heyrðu beint undir Alþingi, sem er með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ekki getur Alþingi haft eftirlit með sjálfu sér.



[17:53]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við komnir að grundvallarvandamáli sem hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Ég veit ekki hvort það var Cicero eða hver minntist á það, þ.e. spurninguna: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Ég hef ekki svar við því að öðru leyti en að ég treysti Alþingi til að haga löggjöf þannig að það verði í lagi.



[17:53]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Síðustu orð hv. þm. Atla Gíslasonar í ræðustól voru kannski eins konar lokaorð fyrir þessa umræðu og segja kannski allt sem þarf að segja.

Ég vil í umfjöllun minni um nýtt frumvarp til samkeppnislaga fá að vísa til ágætrar umfjöllunar hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu, hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Atla Gíslasonar. Ég tek undir það sem þeir lögðu áherslu á, að farið verði hægt í að setja lög af því tagi sem hér eru til umræðu. Ég tek reyndar undir sjónarmið hv. þm. Atla Gíslasonar um að réttast væri að draga frumvarpið til baka. Það hefur komið hingað til kynningar og er ágætt að dreifa því sem kynningarplaggi en það fái síðan miklu ítarlegri umræðu án þrýstings á að það verði keyrt í gegn sem lög. Hv. þingmaður færði rök fyrir því. (PHB: Hvað með starfsmennina?) Já, já. Starfsmennirnir vinna gott verk og ef þeim væri sagt að þetta væri ekki að skella á hvað úr hverju mundi óvissunni létta. En ég kem aðeins að starfsmannamálunum seinna, herra forseti, vegna spurningar hv. þingmanns.

Þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni varða stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar sem ætlunin er að breyta. Ég vil vekja athygli á því að lagt er til að stofnunin verði áfram A-hluta stofnun. Ég vona að hæstv. ráðherra leiðrétti mig ef það er rangt. Hún á að vera A-hluta stofnun sem fær fjármuni sína beint af fjárlögum ríkisins. Þar um gilda ákveðin lög og siðvenjur um fjárhagslega ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra og Alþingi. Forstöðumenn A-hluta stofnana eru m.a. embættismenn og almennt hafa kjör þeirra verið ákveðin af kjaranefnd eða Kjaradómi, eftir því hvernig verkast vill. Þeir hafa því lotið hinum almennu lögum og reglum um forstöðumenn. Hér er gerð breyting á því þannig að stjórn sem ráðherra skipar fái það hlutverk að ráða og bera ráðningarlega ábyrgð á forstjóra. Ég leyfi mér að spyrja: Er þetta stjórnsýslulega rétt fyrir A-hluta stofnun? Þar hefur verið lögð áhersla á að ábyrgðin gagnvart framkvæmdarvaldinu sé einföld og skýr, með stuttum boðleiðum þannig að Alþingi geti líka sótt upplýsingar gegnum ráðherrann um viðkomandi A-hluta stofnun. Þannig hefur þetta verið og mikilvægt að svo verði áfram til að tryggja gagnsæja stjórnsýslu. En nú er gerð tillaga um að forstöðumaðurinn verði ráðinn af stjórn og beri ábyrgð gagnvart stjórninni, ekki gagnvart ráðherranum. Stjórnin ber ábyrgðina gagnvart ráðherranum.

Vegalengdin frá Alþingi til framkvæmdastjóra viðkomandi A-hluta stofnunar lengist og auk þess kemur upp stjórnsýslulegur vafi á því hver beri ábyrgðina ef eitthvað kemur til. Tökum til dæmis fjármálalega ábyrgð. Stjórnin ber ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherranum þar sem hún ber ráðningarlega ábyrgð á forstjóranum. Fjármálaleg ábyrgð. Ja, við skulum segja að forstöðumaðurinn færi fram úr fjárlögum og þyrfti að veita honum áminningu eða spyrja um hvers vegna það hafi gerst. Þá er ekki við forstöðumanninn að eiga heldur stjórnina. (Gripið fram í.) Stjórnin, í hvaða röð á að reka stjórnina? Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ráðherranum og ráðherrann getur ekki kallað forstöðumanninn til sín. Hann getur kallað stjórnina til sín og stjórnin ber lagalega ábyrgð á gerðum forstöðumanna gagnvart ráðherra, að mínu mati. Ég mundi vilja fá þetta nákvæmlega útlistað, stjórnsýslulega ábyrgð hvers og eins. Yrði ekki að raða stjórnarmönnum í röð, að þessi væri númer eitt og yrði fyrst rekinn fyrir glappaskot eða fengi fyrst áminningu, þessi væri númer tvö og fengi næstu áminningu o.s.frv.?

Það er mjög erfitt að deila stjórnunarlegri ábyrgð með þeim hætti sem þarna er gert. Ég vil þess vegna spyrja ráðherrann: Hvernig er þessari stjórnsýslulegu ábyrgð hagað? Ég legg áherslu á það líka að þegar málið fer í nefnd verði kannað nákvæmlega hver stjórnsýsluleg staða forstöðumanns og stjórnar sé gagnvart starfsmannalögum, gagnvart lögum um fjárreiður ríkisins og öðrum þeim lögum sem snerta einmitt umgjörð A-hluta stofnunar. Það er allt annað ef stofnunin fær fjármagn í gegnum eigin rekstur og ber ábyrgð á sér þannig en hér er um A-hluta stofnun að ræða og ég tel mjög mikilvægt að bæði ríkislögmaður og þeir sem hafa með höndum að fylgjast með því hvort farið sé að lögum um starfsmenn ríkisins kanni þessa réttarstöðu.

Hvers vegna getur þessi forstjóri ekki tekið laun samkvæmt Kjaradómi eða kjaranefnd? Hvers vegna þarf að semja sérstaklega um ráðningarkjör hans? Hvers vegna? Þetta er nánast einsdæmi í A-hluta stofnun sem hér er verið að leggja til og ég velti fyrir mér: Hver er staða þessa forstjóra? Er hann embættismaður? Er hann embættismaður ríkisins og gilda um hann lög og reglur um embættisgengi ríkisstarfsmanna? Það er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt og þá ábyrgð hvers og eins í þessu tilviki. Er tilgangurinn með þessari ráðningu sá að geta greitt hærri laun? Það geta svo sem verið rök að þessi forstjóri þurfi að fá að vera á öðrum ráðningarkjörum til að hægt sé að greiða honum önnur laun og aðrar sporslur en viðgengst innan embættismannakerfisins á grundvelli Kjaradóms og kjaranefndar. Er þessi ráðning óháð úrskurði Kjaradóms og kjaranefndar? Er það svo, og hvers vegna er þá verið að ráða forstjóra fyrir A-hluta stofnun með þeim hætti? Ég held að það sé nauðsynlegt að svar komi við því og þá einnig gagnvart öðrum forstöðumönnum A-hluta stofnana. Hvers eiga þeir að gjalda ef ætlunin er að greiða þarna hærri laun eða vera með önnur ráðningarkjör fyrir þessa aðila og ekki einhverja aðra? Er þetta þá í samræmi við meðalhófsreglur og að það sé jafnrétti á milli A-hluta stofnana í stjórnsýslulegri umgjörð? Kröfurnar eiga a.m.k. að vera mjög líkar.

Hér hefur verið rætt um þessa stjórnsýslulega stöðu og eins og nú er heyrir hún beint undir ráðherrann. Forstöðumaðurinn heyrir beint undir ráðherra og þannig kemst Alþingi beint að vinnu stofnunarinnar og ákvörðunum hennar, í gegnum ráðherrann vegna þess að hann ber ráðherralega ábyrgð á starfi hans þó að hann hafi ekki afskipti af daglegum störfum hans. Forstöðumaðurinn ber sjálfur ábyrgð á þeim á grundvelli ráðningarsamnings síns en Alþingi getur með beinum hætti átt aðgang að upplýsingum og öðru því um líku sem það vill fá að vita um þessa A-hluta stofnun í gegnum ráðherrann. Með breytingunum verður það miklu torveldara þannig að það er verið að fjarlægja stofnunina frá Alþingi. Alþingi á erfiðara með að sækja upplýsingar sem verða fyrst að fara í gegnum ráðherrann og síðan gegnum stjórn stofnunarinnar og svo til forstöðumanns. Bara þessi þáttur einn styður það sem hér hefur verið haldið fram um að þessi lög miði að því að veikja Samkeppnisstofnun og stöðu hennar gagnvart almenningi, færa hana frá almenningi, frá Alþingi. Að breyta aftur undirstrikar það.

Við höfum að vísu nokkuð tilsvarandi um Fjármálaeftirlitið þó að það hafi samt í raun markaðan tekjustofn frá fjármálalífinu. Engu að síður er það með nokkuð líkum hætti. Hefur það gefist vel? Nei, það hefur nefnilega ekki gefist vel.

Tökum umsögn Bjarna Ármannssonar á fundi sem haldinn var um gegnsæi Fjármálaeftirlitsins. Útdráttur úr því og umfjöllun birtist í Morgunblaðinu 11. janúar sl. Þar eru raktar ýmsar ástæður fyrir því að Fjármálaeftirlitið sé mjög veikt enda er það altalað. Morgunblaðið hefur eftir Bjarna Ármannssyni, með leyfi forseta:

„Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, minnti áheyrendur á að fjármálamarkaður á Íslandi ætti sér mun styttri sögu en sams konar markaðir erlendis. Þar af leiðandi væru ekki margar hefðir ekki fullmótaðar.“

Hann leggur áherslu á að það verði að koma hefðir, það verði að koma viðskiptasiðferði svo að ég noti mitt orð. Síðan segir í viðtalinu við Bjarna:

„Nokkuð sem að hans mati ylli því að Fjármálaeftirlitið væri undir stöðugu álagi að halda í við hinn ört vaxandi fjármálamarkað. Í máli Bjarna kom fram að þetta gæti verið ástæða þess að Fjármálaeftirlitið nýtur ekki þeirrar virðingar sem því ber og að sumir markaðsaðilar færu oft inn á grá svæði, og það jafnvel viljandi.“

Í orðum Bjarna Ármannssonar og reyndar fleiri í þessari umfjöllun var lögð áhersla á að hefðir þyrftu að skapast og að engin lög gætu komið í stað góðra viðskiptahefða. Staða Fjármálaeftirlitsins væri allt of veik. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum einmitt flutt þingsályktunartillögu um að sérstaklega verði skoðuð stjórnsýsluleg staða Fjármálaeftirlitsins með það að markmiði að efla sjálfstæði þess og stöðu og að skipuð verði sérstök nefnd til að fara yfir það. Þar ætti að skoða m.a. hvort ekki væri vert að flytja Fjármálaeftirlitið frá framkvæmdarvaldinu og undir Alþingi.

Hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um að þetta gæti orkað tvímælis. Auðvitað getur það gert það. Þessi leið var þó valin með Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun heyrði undir fjármálaráðherra, undir framkvæmdarvaldið alveg fram undir 1990 en þá var ákveðið að setja hana undir Alþingi. Ég held að allir þingmenn séu sammála um að það hafi verið heillaspor. Ég held að enginn þingmanna hér mundi leggja til að Ríkisendurskoðun yrði færð til baka undir einhvern ráðherrann, ekki einu sinni hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég hef ekki trú á að hann mundi gera það. En hann hefði kannski með sömu rökum lagst hér gegn því að það ætti að skoða að Samkeppnisstofnun eða Fjármálaeftirlitið færi undir Alþingi. Það er ekkert ótrúlegt að sömu rökum hefði verið beitt á sínum tíma ef við stæðum nú frammi fyrir því að taka ákvörðun um það hvort Ríkisendurskoðun ætti að fara undir Alþingi.

Ég tel alveg fyllilega brýnt og réttmætt að nú verði farið ofan í stöðu þessara eftirlitsstofnana, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar, Vinnueftirlitsins líka þó að það sé allt annað. Það lýtur að þessum mikla innflutningi á fólki, þó sérstaklega að því sem snýr að fjármála- og viðskiptalífinu. Það á að skoða þetta heildstætt, ekki stökkva á eitt og eitt út af því að stofnunin hafi gengið eitthvað langt í að grafa upp samráð meðal olíufélaganna og það þurfi að refsa henni svipað og gert var með Þjóðhagsstofnun sem gaf út stöðu efnahagsmála. Þess vegna var hún lögð niður. Eru þetta vinnubrögð sem við eigum að búa við? Mér finnst það miður. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna að þetta séu einu hugsanlegu rökin, enda hefur hæstv. ráðherra ekki borið á móti því, hún hefur ekki lagt fram þarfagreiningu fyrir því hvers vegna verið sé að ráðast í þessar breytingar. Hefur hún lagt hana fram? Hefur hún gert grein fyrir henni? Hefur hún gert grein fyrir því hvers vegna þarf að ráða þennan forstjóra allt öðruvísi en alla aðra forstöðumenn ríkisstofnana? Nei. Enga grein gert fyrir því. Einu rökin eru: Af því bara. (LB: Það er meðalhófið.) Já, meðalhófið já. (LB: Það er eitthvert óhóf sem hann hefur ...) Já. (LB: Hvort óhófið var innrás til olíufélaganna eða ekki, það er ekki gott að segja.) Nei. Þetta er alveg hárrétt, frú forseti, og án þess að maður megi fara að vitna í einhverjar vísur sem snúa að allt öðru málefni getur þetta samt verið alvarlegt. Einhvern tíma lærði ég vísu sem lýtur að meðalhófsreglunni. Hún getur verið hættuleg og vandmeðfarin eftir því hvernig hver skilur hana. Hún var svona, með leyfi forseta:

Hófdrykkjan er heldur flá,

henni er valt að þjóna.

Hún er bara byrjun á

að breyta manni í róna.

Þannig eru meðalhófsreglur í höndum ýmissa, það er ekki alveg ljóst hvar þær enda.

Frú forseti. Ég kom hér fyrst og fremst til að draga athyglina að hinni stjórnsýslulegu stöðu þessara stofnana sem hér er verið að ræða um, þetta er A-hluta stofnun sem hingað til hefur verið reynt að gæta að sé mjög sterkur og ákveðinn stjórnsýslulegur rammi utan um. Hún fer beinar boðleiðir milli Alþingis, ráðherra og stofnunar án þess að verið sé að gera því skóna að það sé einhver meiri hætta á að hafa áhrif á störf stofnunarinnar. Þetta snýr alls ekki að því enda er viðkomandi forstöðumaður ráðinn samkvæmt ráðningarsamningi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Mér finnst að þetta ætti að skoða heildstætt, þessar stóru eftirlitsstofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki en við þurfum líka að gefa hefðum rúm, viðskiptasiðferðinu. Við höfum enn fremur lagt fram frumvarp um það að starfsleyfi banka, fjármálastofnana, fjármálafyrirtækja eigi að einskorðast við afmarkaða starfsemi en að eitt og sama fjármálafyrirtækið geti ekki með beinum eignatengslum og beinum ráðstöfunum rekið margháttaðan atvinnurekstur.

Kannski ætti að huga að svona lagasetningu til að styrkja viðskiptasiðferðið í landinu. Var ekki í fréttum um helgina að Landsbankinn væri kominn með eignarhald í KB-banka, KB-banki í Íslandsbanka, og hvernig var þetta, Einbjörn í Tvíbjörn, Tvíbjörn í Þríbjörn og Þríbjörn í Fjórbjörn? Hver átti svo hvað? Svo þóttust þessar stofnanir vera í samkeppni. Væri ekki nær að skoða þessi atriði og þessa lagaumgjörð heildstætt? Það eru hagsmunir almennings. Alþingi er vörsluaðili hagsmuna almennings og þessi lög eru á ábyrgð Alþingis sem og starfsemi þessara stofnana.



[18:14]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður lét að því liggja að Samkeppnisstofnun hefði gengið of langt í sambandi við olíufélögin og þess vegna væri verið, eftir því sem mér skildist, að ná sér niðri á stofnuninni. Málið átti að heita að snúast um það. Það er alveg fáránlegt að halda þessu fram og ég veit að hv. þingmaður trúir því ekki sjálfur þótt hann segi það hérna.

Síðan vildi ég aðeins koma inn á þessa meðalhófsreglu sem hefur verið til umfjöllunar. Hún er mikilvægt og lögbundið ákvæði í stjórnsýslulögum. Það er ekki bara að það sé góð stjórnsýsla, heldur ber stjórnsýslunni að beita meðalhófsreglu. Það er ekki rétt að gera lítið úr því.

Hvað varðar væntanlegan forstjóra Samkeppniseftirlitsins er hann ekki embættismaður eins og kemur fram í frumvarpinu og ekki meira um það að segja. Hann er þá óháður Kjaradómi.

Fleira var það sem hv. þingmaður nefndi. Um stofnunina sem slíka er sama skipulag viðhaft og hvað varðar Fjármálaeftirlitið. Ég hef ekki heyrt betur í þessum sal en að þingmenn séu mjög jákvæðir gagnvart Fjármálaeftirlitinu og telji það skipulag sem þar er viðhaft vera til fyrirmyndar. Síðan þegar gerð er tillaga um að fara sömu leið hvað varðar Samkeppniseftirlitið er eitthvað allt annað upp á teningnum og menn reyna að finna því allt til foráttu. Ég átta mig ekki alveg á þessu, mér finnst ekki vera samræmi í málflutningnum.



[18:16]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þarna liggi einmitt hundurinn grafinn, að hæstv. ráðherra áttar sig ekki á þessu. Ég held að vandinn sé að hæstv. ráðherra átti sig ekki á þessu.

Í fyrsta lagi legg ég til að hæstv. ráðherra athugi stjórnsýslulega stöðu forstöðumannsins betur og stöðu hans sem vörsluaðila ríkishagsmuna. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra átti sig á því að um A-hluta stofnun er að ræða, það er engin breyting á því, sem hefur allt sitt fjármagn frá ríkisvaldinu og fjárlögum og lögð er þung áhersla á hina beinu línu frá Alþingi, í gegnum ráðherrann og til A-hluta stofnunar. Við þekkjum það sem vinnum að fjárlagagerð að við fáum og getum kallað til okkar forstöðumenn A-hluta stofnana til að fara yfir með þeim ýmislegt sem lýtur t.d. að rekstri. Vegurinn nú verður miklu flóknari og ekki alveg séð hvernig hann getur gengið fyrir sig og ég bið hæstv. ráðherra að skýra út hvernig tengslin verða á milli Alþingis, ráðherrans og stofnunarinnar við einstök atriði.

Varðandi Fjármálaeftirlitið sem hæstv. ráðherra kom inn á höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt til að staða Fjármálaeftirlitsins verði endurskoðuð með það í huga að styrkja það og efla og ég vitnaði áðan til ummæla þekkts bankastjóra þar sem lögð er áhersla á sama atriði.



[18:18]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Eftir umræður dagsins stendur þrennt eftir: Í fyrsta lagi er verið að skerða heimildir til að taka á samkeppnismálum. Í öðru lagi er verið að setja yfirfrakka á forstjóra stofnunarinnar og í þriðja lagi er verið að auka fjármuni til málaflokksins og tími til kominn að það sé gert.

Í allri umræðunni í dag hefur hæstv. ráðherra ekki tekist að útskýra hvers vegna er verið að þessu. Að vísu er skiljanlegt að auka þurfi fé í málaflokkinn. Það sjá allir. Það er með ólíkindum að stofnunin sé rekin þannig að það taki 16 mánuði að meðaltali að fá úrskurðinn. Það er ekki hægt að una við það og heldur ekki að það taki á annað ár að mál séu tekin til meðferðar. Þess vegna er nauðsynlegt að taka málaflokkinn í gegn og skoða hann en ég er alls ekki viss um að lausnin sé að skerða heimildir og setja einhvern yfirfrakka á forstjóra stofnunarinnar. En það er gert með þeim orðum að verið sé að einfalda stjórnsýsluna. Þetta eru alger öfugmæli og ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra er með öfugmæli. Skemmst er að minnast þess þegar raforkulögin voru kynnt. Það átti að vera mikið hagræði að því en það virðast allir tapa og síðan voru það ekki hundrað krónu hækkanir eins og verið var að boða heldur tugþúsunda hækkanir sem raforkunotendur sem hita hús sín með raforku þurfa að greiða aukalega.

Fleiri mál má nefna eins og þegar hætt var að jafna sement. Þá var sagt að það yrði óveruleg hækkun en reyndist 70% hækkun sem ég hefði talið að væri veruleg hækkun. Það er mjög erfitt að ræða þessa hluti málefnalega við hæstv. ráðherra því þegar maður er í ræðustól og kemur með rök máli sínu til stuðnings er maður jafnvel sakaður um rangfærslur, rétt eins og í umræðunni um daginn um lýðræðið. Þá sakaði hæstv. ráðherra mig um að vera með rangfærslur. Ég óskaði ítrekað eftir því að hæstv. ráðherra skýrði út hvað ég hefði farið rangt með vegna þess að ég vil síst af öllu vera að endurtaka einhverjar rangfærslur og mér finnst það vera skylda hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir hv. þingmönnum þegar hún telur að þeir fari með rangt mál.

Annað sem stendur uppi úr í umræðunni og er að mörgu leyti átakanlegt er afstaða Sjálfstæðisflokksins. Svo virðist sem margir sjálfstæðismenn telji að samkeppnislög séu einhver óþurftarlög, en ég tel að til að tryggja heilbrigt atvinnulíf og vöxt þess og að það verði einhver endurnýjun sé rétt að setja leikreglur og vanda sig við það. Sérstaklega ætti það að vera ungum sjálfstæðismönnum umhugað því ef þeir meina eitthvað með því sem þeir segja um að koma á auknum einkarekstri og eitt og annað þarf að hafa einhverjar reglur þannig að ungir menn geti jafnvel smeygt sér inn í atvinnurekstur. Það er einmitt það sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt mikla áherslu á og þess vegna teljum við málaflokkinn mjög mikilvægan. Þess vegna leggjum við einnig áherslu á ýmis önnur mál, eins og vera ekki að selja grunnnetið með Símanum því þá er verið að selja einokunaraðstöðu. Þetta tengist málinu vegna þess að þegar ákveðið var að selja Símann var einmitt talað um það í nefndaráliti meiri hlutans að nauðsynlegt væri að efla samkeppnisstofnanir sem hefðu eftirlit með því og fyrirtækin sem eiga í samkeppni við Símann, sem er ríkisrekinn, vilja einmitt að grunnnetið sé aðskilið. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki farinn að átta sig á þessu og oft á tíðum er jafnvel ómerkilegur málflutningur þar sem gefið er í skyn að Samkeppnisstofnun hafi fengið fúlgu fjár þegar staðreyndin er allt önnur. Það eru svipuð stöðugildi og voru fyrir áratug og allir sjá að málaflokknum hefur ekki verið sinnt í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Það er ákveðin afstaða sjálfstæðismanna til málaflokksins sem maður áttar sig ekki heldur á. Þegar sjálfstæðismenn eru spurðir á þingi hvort fyrirtæki í eigu almennings fari að samkeppnislögum er bara snúið út úr og engu svarað. Ég er með svar frá hæstv. fjármálaráðherra og er með ólíkindum að hann hafi ekki meiri metnað fyrir því að koma á samkeppni og svo er í hinu orðinu verið að tala um að flokkurinn sé flokkur frjálsrar samkeppni. Það eru alger öfugmæli. Ef flokkurinn meinti eitthvað með því mundi hann auðvitað beita áhrifum sínum til að koma á virkri samkeppni á fjarskiptamarkaði, mundi hann aðskilja grunnnetið frá samkeppnisrekstri og hefði metnað fyrir því að ríkisfyrirtækið Síminn færi að samkeppnislögum.

Fleiri mál má nefna. Það er mjög sérstakt að verða ítrekað vitni að því að hv. þingmenn Vinstri grænna virðast vera miklu meira fylgjandi því að heilbrigð samkeppni sé í atvinnulífinu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn virðist bara vera að slá skjaldborg utan um ráðandi fyrirtæki og stærri fyrirtæki. Við horfum ítrekað á þetta. Við höfum rætt um aðskilnað veiða og vinnslu. Sjálfstæðismenn sáu því allt til foráttu að menn stæðu jafnir í samkeppni um hráefni og þá var það ekki hægt. Síðan er varla hægt að setja samkeppnislög með svipaðar heimildir og erlendis fyrir Sjálfstæðisflokknum vegna þess að menn þykjast svo heilagir hér að það megi ekki brjóta niður fyrirtæki, eins og þeir orða það, brjótast inn í hús þar sem eru konur og börn, eins og það er orðað. En fyrir nokkrum mánuðum fór flokkurinn hamförum við að brjóta niður eitt ákveðið fyrirtæki. Ég tel að skoða þurfi afstöðu flokkanna í heild, bæði það að Framsóknarflokkurinn hafi haldið Samkeppnisstofnun í fjársvelti og látið hana drabbast niður.

Ég er á því að endurskoða þurfi ýmislegt í skipulagi stofnunarinnar og rétt sé að skoða það. En að segja að verið sé að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar og auka það með því að setja þrjá menn yfir forstjórann skipaða af ráðherranum er bara vitleysa. Nær væri að forstjórinn byði sig fram og væri kosinn, rétt eins og í Ameríku. Þá hefði hann vald frá almenningi eða að hann heyrði undir Alþingi. Og það er alls ekki eitthvert fyrirmyndarfyrirkomulag hjá Fjármálaeftirlitinu, eins og fram hefur komið í umræðunni. Bent hefur verið á það, m.a. af erlendum fyrirlesara á góðri ráðstefnu, að það sé ekki hentugt að hún sé of tengd pólitískum öflum.

Ég tel umræðuna að mörgu leyti ágæta því hún afhjúpar stjórnarflokkana algerlega. Verið er að koma með einhver samkeppnislög sem eru varla fugl né fiskur og þegar frekar þyrfti að herða róðurinn í að ná utan um þessi mál koma einhver þokukennd frumvörp um að setja yfirfrakka á mann sem virðist þó hafa tekið til hendinni í olíumálinu og fleira. Það sem stendur upp úr í umræðunni er að allar útskýringar hæstv. ráðherra eru mjög ótrúverðugar. Það verður að segjast eins og er.



[18:29]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í lok umræðunnar að hlaupa á því sem fram hefur komið í dag, en byrja á því að taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni þegar hann sagði að umræðan í dag hefði að mörgu leyti afhjúpað stjórnarflokkana. Það er kjarni málsins vegna þess að í umræðunni í dag hefur verið dregið fram að frumvarpið er hvorki fugl né fiskur og hæstv. viðskiptaráðherra skuldar þinginu skýringar á því af hverju verið er að hleypa upp þessari óvissu fyrir ekki nokkurn skapaðan hlut. Af hverju er verið að setja lagaframkvæmd í óvissu? Af hverju er verið að setja heila stofnun í óvissu? Af hverju er verið að setja starfsmenn í óvissu fyrir ekki neitt? Það eina sem verið er að gera er að veikja samkeppnislögin og að öllum líkindum veikja stofnunina vegna þess að uppskiptin á stofnuninni gera það að verkum að samlegðaráhrif, sem menn ella hafa með því að vera með fleiri starfsmenn, nýtast ekki. Það er því nánast sama hvar borið er niður, verið er að veikja samkeppniseftirlit í landinu og samkeppnislög sem tæki til að veita þetta aðhald.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þetta sé niðurstaðan eftir umræðu dagsins því að ég held að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem talaði hér fyrr í dag, hafi lýst því yfir að hann sé andvígur því að í gildi séu samkeppnislög og vill ekki slík lög. Hann hefur lýst því yfir að hann sé fylgjandi þeim breytingum sem nú er verið að gera því að það sé til bóta á kerfinu.

Hvernig túlka menn orð hv. þingmanns sem fyrir fram er andvígur samkeppnislögum, telur ekki ástæðu til að beita refsingum, að hv. þingmaður er fylgjandi þessum breytingum? Þetta undirstrikar það enn og aftur að þeir sem fagna núna eru þeir sem vilja lögmál frumskógarins, þeir sem ekki vilja aðhald og almennar leikreglur á þessum markaði. Það eru frjálshyggjumenn, últra hægri menn, eins og hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson, þó að hann hafi hér sagst ætla að styðja þetta mál þótt hann sé á móti samkeppnislögum. En það þarf svo sem ekki að koma á óvart að menn falli í þá gryfju að vera svona með og á móti sjálfum sér eftir því hvernig vindar blása. En þetta er bara veruleiki lífsins.

Þegar við horfum á þá þróun sem hefur átt sér stað á þessu frumvarpi fór það af stað með a.m.k. þremur atriðum sem hér má telja upp, sem eru hæfisskilyrði, húsleitarheimild og áfrýjunarheimild fyrir samkeppnisyfirvöld að fara með, þ.e. að fara með mál til dómstóla ef þau telja að hagsmunum almennings sé ekki nægilega borgið eftir niðurstöðu áfrýjunarnefndar, þannig að bæði sá sem er sakhæfur og samkeppnisyfirvöld hafi þessa heimild.

Eftir að olíumálið kom upp hafa öll þessi atriði horfið. Það eru svona atriði eins og ég nefndi áðan, þ.e. tilgangsleysið með frumvarpinu sem er algert, sem kallar fram tortryggni, það gerir það. Þetta kallar fram tortryggni gagnvart því hvað menn eru hér raunverulega að fara.

Ég held að ástæða sé til á þessum tímapunkti að rifja aðeins upp ummæli fyrrverandi borgarstjóra, Þórólfs Árnasonar, þegar hann var spurður í viðtali hvers vegna hann hefði ekki sagt af sér fyrr en hann gerði og ætla ég að vitna í ummælin en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Sú spurning horfir öðruvísi við þegar horft er til baka heldur en þegar maður er á bólakafi í vinnunni sjálfur. Að hluta verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“

„Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur“ — sagði fyrrverandi borgarstjóri — „ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“ (Gripið fram í: Þetta er bara rétt.) Þetta eru stór orð. Þar er hann að rifja upp hvers vegna hann hafi tekið þátt í þessu. Þetta er heiðarlega mælt. Kannski er þetta sá veruleiki sem við horfum framan í eftir umræðu dagsins að það er engin skýring á því af hverju er farið af stað með þessar breytingar sem gera ekkert gagn fyrir samkeppniseftirlitið, gera ekkert gagn fyrir samkeppnislögin nema veikja þau. Þau skapa mikla óvissu hjá starfsmönnum. Og til hvers er þá hlaupið? Því að þeir einustu sem fagna eru þeir sem engar reglur vilja hafa og trúa því að markaðurinn leiðrétti sig sjálfur.

Ég ætla að leyfa mér að virða þau sjónarmið og trúi því að þau séu sett fram í góðri meiningu, en það kemur náttúrlega mjög á óvart að t.d. Framsóknarflokkurinn sem hefur nú aldrei gefið sig út fyrir að lögmál frumskógarins eigi að gilda skuli ganga að þessu. Þess vegna vantar allar skýringar á þessu. Af hverju er verið að hleypa málum upp í loft fyrir ekki neitt?

Ég ætla að gera það að tillögu minni, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra dragi frumvarpið til baka, leggi þessar 60 milljónir í Samkeppnisstofnun og við förum betur yfir það á hvern hátt megi tryggja eftirlit, hvernig megi treysta og bæta samkeppniseftirlit og samkeppnisreglur í landinu. Ég held að það sé miklu skynsamlegra en að fara af stað á þennan hátt sem hér er gert, að hleypa öllu í uppnám án þess að nokkur skýring hafi komið fram á því hvernig á þessu stendur.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur umræðan í dag fyrst og síðast afhjúpað stjórnarflokkana og kannski afhjúpað þá stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í stjórnarsamstarfinu, því að auðvitað eru þeir glaðir. Þeir telja sig hafa náð því fram sem þeir vildu ná fram. En Framsóknarflokkurinn á hinn bóginn kyngir því einu sem að honum er rétt. Ég sé að hæstv. viðskiptaráðherra kinkar kolli og væntanlega samþykkir þá þessi orð.

Menn hafa í umræðunni ítrekað spurt hæstv. ráðherra: Hvað gerir það að verkum að sett er pólitískt herráð fyrir forstjóra Samkeppniseftirlitsins? Hvernig gerir það þetta minna pólitískt en áður? Menn hafa spurt: Hefur hæstv. viðskiptaráðherra verið að skipta sér þannig af Samkeppnisstofnun að nauðsyn sé á að setja einhvern varnarmúr fyrir ráðherrann? Eða er það kannski það sem hæstv. ráðherra hefur gjammað hér fram í í vandræðum sínum þar sem hæstv. ráðherra hefur sagt: Það kemur kannski annar ráðherra á eftir mér sem hugsanlega kann að fara að skipta sér af þessu? Það hafa verið rökin fyrir þessu.

Nei, virðulegi forseti, það stendur ekki steinn yfir steini í því sem lagt var upp með, þ.e. að veitast að hringamyndun og misnotkun á markaðsráðandi stöðu í íslensku viðskiptalífi. Það var uppleggið. Þegar maður skoðar líka tillögurnar sem komu úr nefndinni þá er einungis ein tillaga sem farið er eftir, þ.e. að skipta Samkeppniseftirlitinu upp, af þeim tillögum sem dregnar eru saman.

Virðulegi forseti. Hér er um grundvallarlöggjöf að ræða og það er ekki við hæfi að um hana sé gengið eins og hér hefur verið gert af hálfu hæstv. ráðherra í dag og sú framsaga sem hæstv. ráðherra flutti er þess eðlis að hún mun ekki nýtast nokkrum einasta manni í því að reyna að skýra hvert hæstv. ráðherra er að fara. Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki skýrt það: Hvað er það sem kallar á meðalhóf í aðgerðum Samkeppnisstofnunar? Virðulegur forseti, hvar liggur óhófið?



[18:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar var allsérstæð, eins og reyndar sumar aðrar ræður sem hafa verið fluttar við umræðuna í dag. Mér fannst þegar ég hlustaði að verið væri að tala um eitthvert annað frumvarp en það sem hér liggur frammi vegna þess að það er einkennandi að verið er að snúa út úr og teygja og toga málin án þess að fyrir því séu færð skynsamleg rök. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna í því sambandi.

Í fyrsta lagi er eins og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi sammælst um að reyna að gera þær breytingar sem eru fyrirhugaðar samkvæmt frumvarpinu á skipulagi samkeppnismála tortryggilegar á þeirri forsendu að verið sé að búa til einhverja pólitíska tengingu, að verið sé að færa Samkeppniseftirlitið undir pólitíska stjórn en ekkert í frumvarpinu gefur tilefni til þess. Það sem um er að ræða er að verið er að auka sjálfstæði stofnunarinnar, taka út samkeppnisráð sem ráðherra hefur skipað fram að þessu, setja í stað þess stjórn sem á að ráða forstjóra og hafa umsjón með meginstefnumörkun stofnunarinnar. Hins vegar er ábyrgð á málsmeðferð og ákvarðanatöku í þeim málum sem tekin eru til rannsóknar sett á ábyrgð þessa forstjóra sem á að sjálfsögðu að starfa sjálfstætt í staðinn fyrir að sú nefnd eða það ráð sem ráðherra skipar fari efnislega yfir mál og taki efnislega afstöðu eins og er í dag.

Ég fæ ekki séð með hvaða rökum hægt er að halda því fram að með þessu sé verið að auka á einhvern hátt pólitísk inngrip í starf stofnunarinnar. Ég átta mig engan veginn á því hvernig hv. þingmenn, þar á meðal hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, fær það út.



[18:41]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú einhver alskrýtnasta ræða sem hefur verið flutt í dag og hafa þær margar verið sérstakar.

Hv. þingmaður byrjaði á að tala um að menn væru að snúa út úr, teygja og toga, færði svo ekki ein einustu rök fyrir máli sínu. Hv. þingmaður gerði athugasemdir við það að við höfum verið að tala um það í dag að með því að koma upp pólitísku herráði væri verið að setja pólitík inn í Samkeppnisstofnun. Hv. þingmaður segir að svo sé ekki.

Þá spyr maður: Af hverju er verið að breyta, hver er nauðsyn á breytingunni? Eru í dag hin pólitísku afskipti, er það það sem hv. þingmaður er að segja? Hvað er hv. þingmaður að reyna að segja með þessu? Hann þarf nú að gera betur grein fyrir máli sínu.

Hv. þingmaður talaði um samkeppnisráð og stjórn. Hver er munurinn á þessu? Hver er einföldunin að undanskildu því að sú stjórn sem nú á að fara að skipa á að hafa dagleg afskipti af störfum stofnunarinnar? Hún á að samþykkja aðgerðir. Hefði slík stjórn sem á að tryggja meðalhófið samþykkt það að fara inn í olíufélögin? Það er spurning sem er mjög vert að hugleiða.

Síðan talaði hv. þingmaður um ábyrgð forstjóra í dag, ef ég skildi hv. þingmann rétt og hann verður þá að leiðrétta mig, ég vil meina að þetta sé einhver alskrýtnasta ræða sem flutt hefur verið í dag og endurspeglar kannski áhuga- og þekkingarleysi sem er greinilega grasserandi í stjórnarliðinu á þessum málaflokki, en hann sagði að samkeppnisráð bæri í dag sérstaka ábyrgð á forstjóranum og þeim ákvörðunum sem hann tæki. Mér heyrðist hv. þingmaður segja þetta og skildi hann þannig, hv. þingmaður leiðréttir mig þá hafi ég misskilið hann á einhvern hátt.

En ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér vandlega þennan málaflokk.



[18:43]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Lúðvík Bergvinsson hefur greinilega skilið ræðu mína jafnilla og hann skilur frumvarpið. En það sem ég benti á var að ákvörðun í samkeppnismálum er í dag í höndum samkeppnisráðs, sem er ráðherraskipað.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ég held að ráðherra hafi ekki verið með nein pólitísk afskipti af störfum þess ráðs. Ég hef ekki áhyggjur af því að (Gripið fram í.) það verði í framtíðinni og ég hef ekki heldur áhyggjur af því að ráðherra verði með pólitísk áhrif á störf stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi, sem hefur farið dálítið forgörðum í þessari umræðu, er tilgangurinn með þessari breytingu, sem er m.a. að einfalda skipulagið. Í dag ber samkeppnisráð ábyrgð á ákvörðunum í samkeppnismálum. Samkeppnisstofnun vinnur málin, leggur þau upp í hendur á samkeppnisráði og tekur síðan ákvörðun. Síðan er áfrýjunarleið eins og menn þekkja.

Það sem breytist núna, ef frumvarpið nær fram að ganga, er að stofnunin sem slík eða forstjóri hennar tekur ákvarðanir sem síðan er hægt að áfrýja eða kæra. Með því er í raun tekinn út einn liður í málsmeðferðarkeðjunni, vonandi með það að markmiði, að því er stefnt með frumvarpinu, að stytta þann tíma sem það tekur málið að fara í gegnum kerfið, vonandi til að gera kerfið skilvirkara. Það er kannski kjarni málsins, sem hefur allt of lítið verið til umræðu í dag, að auðvitað er markmiðið með frumvarpinu — þvert ofan í það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson heldur fram — að gera stjórnsýsluna og eftirlitið á þessu sviði markvissara og skilvirkara en verið hefur.



[18:46]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þjónar kannski ekki miklum tilgangi að skattyrðast við hv. þingmann. Ég verð þó að játa að með því að vilja slíta hin pólitísku tengsl, með því að setja upp þessa stjórn, hlýtur hv. þingmaður að meina að í dag séu pólitísk tengsl, annars þyrfti ekki að höggva á þau. Það verður ekki skilið öðruvísi. Það að stjórn komi í staðinn fyrir samkeppnisráð, hvaða einföldun er það?

Virðulegi forseti. Það er afar erfitt og hefur reyndar verið í allan dag, erfitt að reyna að draga fram kjarna málsins og tilganginn með því. Umræðan í dag hefur kannski bara afhjúpað að þetta eru einhvers konar viðbrögð við niðurstöðu nefndar sem skipuð var til að fara yfir íslenskt viðskiptalíf. Flokkarnir náðu ekki saman. Niðurstaðan varð sú að frjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokknum urðu ofan á, að líklega væru lögmál frumskógarins besta leiðin sem hægt væri að fara, a.m.k. eru þeir einir um að fagna.

Því stendur eftir, sem hæstv. viðskiptaráðherra á eftir að svara: Á hvaða ferðalagi er hæstv. ráðherra? Hver er tilgangurinn með þessu? Hæstv. ráðherra svaraði því hvorki í framsöguræðu né í andsvörum. Hæstv. ráðherra skuldar þinginu upplýsingar um á hvaða ferðalagi hæstv. ráðherra er. Það verður að segjast eins og er að þingheimur bíður spenntur eftir skýringum.



[18:48]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja átt von á að í lok þessarar umræðu mundi ráðherra sýna þinginu og þeim þingmönnum sem hér eru þann sóma að svara þeim spurningum sem út af standa og fram hafa verið bornar til hæstv. ráðherra á þessum degi. En þar sem hæstv. ráðherra situr sem fastast er ég knúin aftur til umræðu um þetta mál. Ég ítreka þær fyrirspurnir sem ég hafði lagt fyrir hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi hefur ráðherrann ekki svarað því er ég kallaði eftir þeim forsendum sem lægju að baki skipulagsbreytingunum og þeim breytingum sem er hér verið að gera á samkeppnislögum. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort fyrir lægi rannsókn eða stjórnsýsluúttekt byggð á faglegu mati, að nauðsynlegt væri að grípa til þeirrar skipulagsbreytingar sem hér er verið að gera. Ég kallaði eftir því við hæstv. ráðherra hvort leitað hefði verið samráðs við samkeppnisráð eða forstöðumenn og forstjóra stofnunarinnar um þessar breytingar og heyra álit þeirra á því hvort þeir teldu að með þessari breytingu yrði allt samkeppniseftirlit skilvirkara og betra en það hefði verið hingað til. Ég spyr ráðherrann um það aftur, var leitað til þessara aðila um umsögn þeirra um þetta frumvarp? Lá fyrir einhvers konar úttekt á því, byggð á faglegu mati að það væri nauðsynlegt að fara í þessar breytingar? Þetta er nauðsynlegt að fá fram í þessari umræðu og mundi auðvelda okkur starfið í efnahags- og viðskiptanefnd ef við fengjum svör hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil líka segja að það er ákaflega skynsamleg tillaga sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, þ.e. að leggja þetta frumvarp til hliðar, vísa því frá og setja þá nauðsynlegu peninga sem þarf inn í Samkeppnisstofnun til að hún geti sinnt eftirliti sínu. Það er raunverulega hið eina sem þarf, aukinn mannskap, aukna peninga. Skipulagsbreytingum þurfum við ekki á að halda og við höfum margsýnt fram á að þær skipulagsbreytingar sem verið er að fara í munu einungis veikja stofnunina og draga úr sjálfstæði hennar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi spurningar sem ég spurði hana í dag út af þeim fjármunum og fjárvöntun sem er hjá Samkeppnisstofnun: Hvers vegna er sú þarfagreining sem ráðherrann hefur þó upplýst þingið um ekki lögð fram sem fylgiskjal með þessu frumvarpi? Er hún leyndarmál? Mun efnahags- og viðskiptanefnd fá fram þá þarfagreiningu sem unnin var í samráði við Samkeppnisstofnun? Ég held að í þeirri þarfagreiningu komi fram að nauðsynlegt sé að fá fleiri sérhæfða aðila á samkeppnissviði inn í stofnunina en hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir í tillögum sínum. 40 millj. kr. ber á milli þess sem forstjórinn telur að þurfi inn í stofnunina til að þeir geti sinnt sínum verkefnum, þ.e. 100 milljónir, en ráðherrann er hér að tala um 60 milljónir. Við þurfum að glöggva okkur á þessu í efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Ég bæti því við að ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér það að í nýjustu ársskýrslu Samkeppnisstofnunar færir forstjóri stofnunarinnar glögg rök fyrir því að auka þurfi fjármuni inn í stofnunina.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvaða rök búi að baki því að álitið er nauðsynlegt að forstöðumenn eða forstjóri Samkeppnisstofnunar beri allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina áður en þeim er hrundið í framkvæmd til samþykktar eða synjunar. Hver eru rökin á bak við að talið er nauðsynlegt að hafa þennan hátt á? Þetta er eitt af stærstu atriðunum í þessu frumvarpi. Við þurfum að átta okkur á því hvaða rök liggja að baki og það hlýtur að vera krafa okkar, virðulegi forseti, að ráðherrann geti upplýst þingið um af hverju hún telur nauðsynlegt að forstöðumenn Samkeppnisstofnunar beri allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina.

Er ástæðan eitthvað í fortíðinni? Hefur stofnunin að mati ráðherra farið offari í ákvörðunum sínum og aðgerðum í samkeppnismálum? Eða hver eru rökin fyrir því? Ég get ekki fundið nein skynsamleg svör við því í þessu frumvarpi eða greinargerð, en ráðherrann hlýtur að hafa velt þessu fyrir sér. Ég óska eftir svari við því sem mundi greiða fyrir þessari umræðu, sem lýkur sennilega fljótlega, þannig að hægt sé að taka til við að ræða neytendaþáttinn í þessu máli.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Vakir það fyrir ráðherranum, við þær breytingar sem hér er verið að gera, að búa í haginn til að hægt sé að skipta um forstjóra hjá þessari stofnun? Það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst hvort það vaki fyrir henni að skipta um forstjóra og það sé verið að búa í haginn fyrir það með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Hér segir um 44. gr. þessa frumvarps:

„Því er lagt til að lögin öðlist gildi á þeim degi“ — þ.e. 1. júlí 2005 — „og jafnframt að starfsemi Samkeppnisstofnunar verði lögð niður.“

Þá spyr ég: Getum við átt von á að það ákvæði sé til að búa í haginn fyrir að skipta um forstjóra? Það væri mjög gott ef ég fengi skýr svör við því.

Hér segir í ákvæði til bráðabirgða:

„Öllum starfsmönnum Samkeppnisstofnunar verða boðin störf hjá þeim stofnunum sem verkefni stofnunarinnar færast til, þ.e. annaðhvort hjá Samkeppniseftirlitinu eða Neytendastofu.“

Þarna stendur „boðin störf“, þarna stendur ekki „boðin sambærileg störf“. Það stendur „boðin störf“ og þess vegna svarar ákvæðið ekki spurningunni um hvort í myndinni sé að skipta um forstjóra eða ekki. Það er verið að tala um að öllum starfsmönnum verði boðin störf en ekki sambærileg störf. Þess vegna kallar þetta fram þessa spurningu.

Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við þessum spurningum, virðulegi forseti, og læt máli mínu lokið í von um að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hana.



[18:56]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er verið að einfalda stjórnsýsluna á sviði samkeppnismála. Það er tilgangur frumvarpsins og við höfum átt fundi með forsvarsmönnum stofnunarinnar um þau mál.

Meðalhóf í stjórnsýslunni, það er lögbundið. Eins og fram kemur í textanum eru meiri háttar mál borin undir stjórn. Það er óskilgreint í frumvarpinu hvað eru meiri háttar mál. Það eru hlutir sem stjórnin mun koma sér saman um þegar hún hefur verið skipuð. Þetta er með svipuðu sniði og hjá Fjármálaeftirlitinu sem hv. þingmaður hefur oft hælt í þessum þingsal og talið hina bestu stofnun.

Hvað varðar það að stjórnarmenn uppfylli hæfisskilyrði þá er það í frumvarpinu en hins vegar er tekið út ákvæði sem varðar það að þeir eigi ekki beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi til að geta setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins. Það kemur til af því að það er þrengjandi, mjög hamlandi, að hafa þetta ákvæði inni þar sem það þýðir í raun að þar gætu ekki aðrir setið í stjórn en embættismenn og fræðimenn.

Í sambandi við hringamyndun, sem hv. þingmaður eða aðrir nefndu fyrr, eru samkeppnislögin að hluta til lög gegn hringamyndun. Þarfagreiningin kemur í raun fram í umsögn fjármálaráðuneytisins þar sem fram kemur hversu mikið fjármagn þurfi. Unnið var með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar að þeirri þarfagreiningu.

Þegar hv. þingmaður spyr um framtíð þess forstjóra sem nú situr þá get ég að sjálfsögðu ekki svarað til um það vegna þess að eins og augljóst er þá er það stjórn verðandi eftirlits sem ræður forstjóra.



[18:58]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær eftir svör hæstv. ráðherra. Hér liggur ekkert fyrir um hvort verið er að búa í haginn til að skipta um forstjóra. Það er bara vísað á þessa nýju stjórn sem væntanlega verður pólitískt skipuð. Það liggur ekkert fyrir um ástæðurnar fyrir því að nauðsynlegt sé að bera meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina. Síðan er það upplýst að stjórnin sjálf á að skilgreina hvað eru meiri háttar ákvarðanir.

Ég spyr líka um kostnaðargreininguna. Ég óska eftir að fá þetta plagg. Er hæstv. ráðherra að segja að þessar 60 millj. kr. séu það sem Samkeppnisstofnun taldi nauðsynlegt? Var það í samræmi við álit hennar að 60 millj. kr. og sjö stöðugildi væru það sem þyrfti? Ég vil fá þessa úttekt inn í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég spyr hvort hægt sé að fá hana inn í efnahags- og viðskiptanefnd og hvort hæstv. ráðherra haldi því fram að þetta sé sú niðurstaða sem forstöðumenn stofnunarinnar komust að, að nægjanlegt væri að setja í hana 60 millj. kr. (Gripið fram í.) þegar forstjórinn hefur upplýst nefnd þingsins um að 100 millj. kr. þurfi til að hún geti sinnt hlutverki sínu.

Hæstv. ráðherra segir að hún hafi átt fund með forráðamönnum stofnunarinnar. Ég spurði hvort haft hafi verið samráð við þá um þessar breytingar. Ég geri ráð fyrir að ráðherrann hafi átt fund með forráðamönnunum og sýnt þeim þessar niðurstöður, en var haft samráð við þá um þessar breytingar?

Síðan svaraði ráðherrann ekki því sem ég spurði um fyrr í dag, hvort hún teldi að setja ætti þak á þann tíma sem fjármálafyrirtæki geta verið virk í rekstri fyrirtækja. Það skiptir máli þegar rætt er um hringamyndanir og fleira sem tengist þessum lögum. Ég óska eftir svörum hæstv. ráðherra við því.



[19:00]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður veit ákaflega vel hvernig aðdragandi þessa máls er. Það var skipuð nefnd og hún skilaði niðurstöðum og í framhaldi af því eru unnin frumvörp. Það sem ég sagði áðan var að haft var samráð við og fundað með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar (JóhS: Og eru þeir ...?) um þessi mál. Það þarf ekkert að greina nákvæmlega frá því hvað fer fram á lokuðum fundum. Við áttum að sjálfsögðu fundi með starfsmönnum Samkeppnisstofnunar. En hugmyndirnar koma úr nefndinni. Þar sat ekki Samkeppnisstofnun. Þetta veit hv. þingmaður allt saman eftir þessa umræðu. Það hefur í rauninni því miður ekkert svo margt nýtt komið fram í þessari umræðu. Það hefur nú dálítið verið staglast á því sama.

Hvað varðar nefndarstarfið þá munu starfsmenn viðskiptaráðuneytisins að sjálfsögðu koma á fundi efnahags- og viðskiptanefndar og ég veit ekki betur en að þeir hafi fram til þessa og munu líka hér eftir svara þeim spurningum sem þar eru bornar upp af samviskusemi. Það eina sem ég get sagt hér er að þeir munu leggja sig fram um að svara af samviskusemi þeim spurningum sem bornar eru upp og ég vona að það verði til þess að aðstoða efnahags- og viðskiptanefnd við að leysa úr málum og skila þessu máli (JóhS: Fáum við álitið um þarfagreininguna?) inn í þingið.



[19:02]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á svörum hæstv. ráðherra. Það er raunverulega óþolandi fyrir okkur þingmenn sem reynum nú við 1. umr. málsins að fá upplýst svör frá ráðherranum til þess að greiða fyrir starfi nefndarinnar að fá nánast engin svör. Þetta eru engin svör sem við fáum hér. Þetta eru meira og minna útúrsnúningar og tal út í loftið og maður er engu nær hversu oft (Gripið fram í.) sem maður kemur í pontu til þess að fá svör frá hæstv. ráðherra.

Af hverju getur hæstv. ráðherrann t.d. ekki svarað því hvort við fáum þá þarfagreiningu sem var gerð í samráði við stofnunina? Er þar eitthvað að fela? Ég mun ganga mjög hart eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd að fá þessa þarfagreiningu vegna þess að ég held að hún sýni allt annað en þær 60 milljónir sem ráðherrann er hér að tala um.

Ráðherrann veit hreinlega ekki af hverju nauðsynlegt er að setja það inn að bera eigi allar meiri háttar aðgerðir og ákvarðanir undir stjórnina. Það eru engin rök, ekki nokkur einustu rök.

Það sem situr raunverulega eftir, virðulegi forseti, er að Framsóknarflokkurinn hefur verið beygður í þessu máli af Sjálfstæðisflokknum sem í þrem veigamiklum atriðum knúði ráðherrann og Framsóknarflokkinn til breytinga á þessu frumvarpi sem munu veikja verulega Samkeppnisstofnun og sjálfstæði hennar. Þar á ég ekki síst við húsleitarákvæðið. Ég á líka við hæfisskilyrðin sem eru náttúrlega alveg furðuleg og ef vísað er í Fjármálaeftirlitið þá eru allt önnur hæfisskilyrði þar varðandi stjórnina. Og síðan er tekið út eina ákvæðið sem getur hjálpað Samkeppnisstofnun við að taka á hringamyndun.

Þetta er nú uppskeran eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið tvo, (Forseti hringir.) þrjá mánuði með málið í nefnd, þ.e. að Framsóknarflokkurinn hefur eina ferðina enn verið beygður.